3.5.2009 | 19:52
Einfalt kerfi
Mér finnst ég aftur og aftur heyra fólk kvarta hástöfum undan því að þegar það þarf að sækja sér aðstoð hins opinbera vegna hinna ýmsu mála sé kerfið erfitt - aðilar vísi hver á annan og mikil hætta sé á uppgjöf umsækjenda áður er leyst hefur verið úr flækjustigi, pappírar útfylltir og búið að heimsækja bæði Pontíus og Pílatus.
Það er talsverður munur á töfralausnum sem koma inn um bréfalúguna og þess veruleika sem fólk lýsir.
Þess er krafist að nám skólabarna sé einstaklingsmiðað og sú krafa er að verða svo gömul að hún er að verða þreytt í skólakerfinu - ég held að það þurfi að fara að nota þessa ágætu hugmyndafræði í ýmsum félagslegum úrræðum fyrir þá sem eru í fjárhagsvanda, félagslegum vanda eða heilbrigðislegum vanda.
Einstaklingsmiðað, einfalt og aðgerðamiðað eru hugtök sem þurfa að vera ofarlega í kolli okkar sem erum að skipta okkur af hinum opinbera geira.
Er búin að vera að fylgjast með örverpinu keppa á fermingargjöfinni, á Selfossi, í dag, hún stóð sig eins og hetja, komst í úrslit bæði í fjórgangi og tölti. Simbi er gegnummjúkur og vel taminn, Berglind Rós á eftir að læra betur á hann - eða þau hvort á annað. Krakkarnir voru afar vel ríðandi en ég var hugsi yfir því að mér sýndist, sem ábyrgðarlausum leikmanni, knaparnir fá hærri einkunn fyrir það að hestarnir lyftu framlöppunum sem hæst með því að nýta einungis frampart hestsins en þegar allir vöðvar hestsins eru nýttir sem lýsir sér í mjúkum hreyfingum og fótum lyft áreynslulaust vegna heildarburðar hestsins - útkoman er mismunandi, fyrri aðferðin er í fljótu bragði meiri fyrir augað en sú síðari greinilega hestvænni og því finnst manni hún faglegri. En ég hef afar takmarkað vit á þessu, fannst þetta bara svo áberandi í dag. En fermingarstúlkan var sátt og sæl og það er fyrir mestu.
Á morgun er þingflokksfundur og aftur á miðvikudaginn svo ég ætla að njóta þess að vera í borginni og vera að setja mig inn í nýja og spennandi vinnu, næstu daga.
Bloggar | Breytt 4.5.2009 kl. 07:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2009 | 11:32
Til hamingju með daginn
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki oft farið í kröfugöngu þennan dag, enda fátt um slíkar göngur hérna heima hjá mér. Þegar ég var yngri og bjó í bænum var þessi dagur helgaður henni ömmu minni sem fædd var þennan dag og hélt alltaf upp á daginn með kaffi og tertum, það var flaggað fyrir ömmu um allan bæ - enda var hún ein af þessum hversdagshetjum sem kunni að velta krónunum og fara vel með þær.
Það er eðlilegt að það sé þungt í launþegasamtökum í dag - græðgi og misnotkun fárra hefur valdið miklum erfiðleikum margra - ekki síst þeirra sem minnst hafa handa á milli. Það er eðlileg krafa að launþegar vilji fylgjast með hvernig rannsókn á hruninu gengur og hver eiginleg staða okkar er. Með því að sýna fólki þá virðingu að halda því upplýstu er líklegra að semja megi um hófsamar launahækkanir á þessum flóknu tímum sem við lifum, að okkur flestum forspurðum.
Það er hálfgert gráviðri hér á Héraðinu í dag - en við mæðgur ætlum að kíkja á firmakeppni Freyfaxa, daman telur hryssu sína ekki í formi til að keppa svo hún ætlar bara að horfa á í fyrsta sinn. Ég ætla að kíkja á opnun sýningar um húsið á Skriðuklaustri þar uppfrá - og síðan þurfum við mæðgur að undirbúa suðurferð sem áætluð er í kvöld. Hún ætlar að keppa á hesti á Selfossi en ég ætla að skoða betur nýja vinnustaðinn og málin sem þar bíða.
Megið þið eiga góðan 1. maí og góða langa helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.4.2009 | 14:06
Sumarvinna fyrir skólafólk
Ég verð að viðurkenna að ég er mjög hugsi yfir líklegu atvinnuleysi ungs fólks í sumar. Íslenskir unglingar hafa vanist því að vinna meiri hluta sumarsins, sumir fyrst og fremst til að ná sér í vasapening, aðrir til að fjármagna skólagöngu sína næsta vetur. Það eru ekki síst krakkar utan af landi sem eru mjög háðir sumartekjunum sínum til að geta stundað nám á vetrum, þessir krakkar munu berjast fyrir því að fá vinnu og mörg munu ná því markmiði sínu en einhver ekki og það mun gera þeim afar erfitt fyrir með áframhaldandi nám.
Í raun og veru væri allt í lagi að 16 - 20 ára gamlir námsmenn tækju sér bara frí í 4 - 6 vikur, en þeir eru óvanir þeirri tilhögun og því ákveðin hætta á að neikvæð áhrif atvinnuleysis slægu þá illa. Vonandi skella þessir krakkar sér í sumarskóla og flýta fyrir sér í náminu þannig og eru í uppbyggilegu ferli með sjálf sig um leið.
Stúdentar á námslánum sem ekki fá vinnu eru þannig settir að þeir eru háðir fjárhagsaðstoð sveitafélaga til að geta lifað af, ef þeir kúrsar sem boðið er uppá í sumar henta ekki þeirra námsferli. Vonandi verða mörg sveitafélög með átaksverkefni svo bjóða megi þessum krökkum vinnu frekar en einhliða styrkgreiðslu fyrir ekkert...
Unglingar sem hafa ekkert að gera annað en að mæla göturnar, horfa á allar Friendssyrpurnar eða hanga á facebook daginn langan eru í ákveðnum áhættuhópi varðandi alls kyns félagsleg vandamál því upp úr leiðindum getur manni dottið ýmislegt misviturlegt í hug til að "drepa" tímann með.
Sveitafélög eru á fullu að skoða þessi mál, skólarnir og fleiri - meðvitundin um verkefnið heldur okkur vonandi á tánum...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2009 | 13:49
Nýr starfsvettvangur
Ég hef ekki verið í því á hverju ári að skipta um starf - hef verið ánægð með þá vinnustaði sem ég hef valið mér og ekki séð ástæðu til þess að vera að skipta ótt og títt.
En nú er ég búin að ganga í gegnum afar sérstakt atvinnuumsóknarferli sem krafðist ýmislegs en gaf meira, það voru margir umsagnaraðilar og margir fengu að greiða atkvæði. Ég fékk starfið til ákveðins tíma og ljóst er að ef ég vil halda því þarf ég að vinna vel og vanda mig. Þessu gerði ég mér grein fyrir í gær þegar ég byrjaði í nýja starfinu - það var einstök tilfinning að ganga inn í Alþingishúsið, heilsa upp á tilvonandi samstarfsfólk og skoða aðstæður - ég var hrærð og auðmjúk og þakklát því fólki sem gaf mér umboð til starfsins.
Ég mun ekki tjá mig um stjórnarmyndunarviðræður, það gerir forystufólkið okkar þegar það er tímabært - ég vona bara að við náum samstarfsgrundvelli við núverandi samstarfsaðila með góðri og gildri aðferðafræði þar sem báðir aðilar fá að halda virðingu sinni.
Það eru að verða talsverðar breytingar á lífi litlu fjölskyldunnar í Kelduskógum, með Kelduskógana sem okkar aðalheimili en starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu, við munum þó verða eins mikið og nokkur kostur er hér fyrir austan í vor og sumar svo örverpið geti a.m.k. lokið skólaárinu og ég treyst böndin við kjósendur enn frekar.
Ég hlakka til breytinganna og nýja starfsins, það er engin lognmolla framundan sem betur fer því hún er hundleiðinleg og lítið krefjandi - það er nausynlegt að kljást við eitthvað spennandi til að halda heilabúinu við...
Megið þið eiga góða vordaga, kæru lesendur og takk fyrir allar góðu kveðjurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2009 | 10:40
Sérstök nótt
Hef aldrei lifað svona nótt, er ekkert óvön að vinna og sviptast svolítið - en þetta var öðruvísi sviptivindur en ég hef áður lent í - en allt er gott sem endar vel...
Nýtt krefjandi starf bíður mín - ég hlakka til að takast á við það af auðmýkt og vinnusemi, með það í huga að ég á að hlusta og horfa og vinna í samræmi við það sem ég sé og heyri - en af ákveðni og einurð.
Ég er óendanlega þakklát því fólki sem hefur lagt nótt við dag til að vinna jafnaðarstefnunni brautargengi hér í kjördæminu, hér hefur verið unnin frábær teymisvinna frambjóðenda, kjördæmisráðs, kosningastjórnar, almennra flokksmanna og kjósenda - þið eruð frábær - takk fyrir mig.
Fjölskylda og vinir eru líka búin að styðja við mig eins og klettar - takk elskurnar
En nú ætla ég að njóta dagsins með börnunum mínum og öðrum sem vilja njóta hans með mér...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
25.4.2009 | 08:58
Kosningadagurinn runnin upp
Ég á spennandi dag framundan á hinu víðfeðma Austurlandi - eftir að hafa kosið legg ég í hann. Neskaupsstaður og Vopnafjörður teljast afgreiddir staðir í bili - var í Neskaupsstað í gærkvöldi og á Vopnafirði í fyrradag. En ég byrja að borða súpu á Eskifirði kl. 11 og fikra mig svo suður eftir allt til Djúpavogs og enda á Egilsstöðum og kíki á Seyðisfjörð í kvöld. Hlakka til að hitta kjósendur á öllum þessum stöðum.
Við ætlum svo að skoða tölurnar á kosningaskrifstofunni á Hótel Héraði í kvöld - Seyðfirðingar og fleiri verða líka saman í kvöld að fylgjast með niðurstöðum.
Þessi kosningabarátta er búin að vera stutt og snörp en umfram allt lærdómsrík - ég er ánægð með að við Samfylkingarfólk höfum ekki dottið í þann fúla pytt að úthúða öðrum og eigna okkur annarra verk - það er léleg pólitík sem ber vott um örvæntingu og hroka. Virðing fyrir fólki skilar manni, til lengdar, lengst.
En nú er mér ekki til setunnar boðið - treysti ykkur ágætu lesendur til að fara á kjörstað og nýta atkvæðisréttinn - megið þið eiga góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.4.2009 | 20:21
Margir óákveðnir
Er búin að vera á ferðinni í dag á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð - fékk að afhenda fólki rósir - sem er alveg frábært. Mér finnst margir tala um að þeir séu óákveðnari núna en áður í hvað skuli kjósa - trúverðugleiki stjórnmálanna og stjórnmálamannanna er takmarkaður núna - nema menn treysta Jóhönnu Sigurðardóttur og hennar fólki - þess vegna er Samfylkingin ákjósanlegur valkostur fyrir þá sem eru óákveðnir og óánægðir.
Kjósum heiðarleika og hugrekki - kjósum Samfylkinguna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2009 | 22:24
Gleðilegt sumar
Gleðilegt sumar kæru vinir og takk fyrir veturinn. Ég var að koma úr góðri ferð á Vopnafjörð - þar hitti ég gamla nemendur, samstarfsfólk úr pólitíkinni, vopnfirska jafnaðarmenn og kannski einhverja sem ekki voru þeim megin í pólitíkinni...
Ég var mjög hrifin af því að koma á kaffisölu Slysavarnarfélagsins í Miklagarði og sjá hversu vel var mætt og hversu mikil samstaða virðist með fólkinu á staðnum. Við grilluðum pylsur fyrir utan kosningaskrifstofuna og 100 pylsur hurfu eins og dögg fyrir sólu. Vopnfirðingar eru duglegir og vinnusamir og berja ekki lóminn en ýmislegt brennur á þeim svo sem kostnaður við að eiga börn í framhaldsskóla, samgöngur og Evrópusambandið.
Það þarf að stórefla sjóðinn sem greiðir jöfnunarframlag vegna náms - það er engan veginn ásættanlegt að foreldrar þurfi að greiða milljónir fyrir það að börn þeirra geti sótt nám í framhaldsskóla. Misréttið er hróplegt eftir búsetu - það er himin og haf á milli þess að þurfa að senda barn sitt að heiman 16 ára á heimavist með tilheyrandi aðskilnaði og kostnaði eða að barn geti gengið í skólann og búið heima.
Vegurinn um Vopnafjarðarheiði er ekki í nokkrum takti við nútímann - eins gott að framkvæmdir við nýjan veg eru að hefjast - það er bara neyðarsímasamband mestan hluta leiðarinnar, auðvitað betra en ekkert en þó takmarkað.
Það er greinilegt að hræðsluáróður gagnvart stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum eru áberandi - mér finnst við stöðugt vera að minna á að við ætlum bara að sækja um aðild og bera samninginn undir þjóðina - ekki að þrýsta okkur inn hvað sem tautar og raular - upplýst umræða og kynning á meðan viðræður standa yfir og eftir að samningsdrög liggja fyrir eru nauðsynlegar til að þjóðin geti tekið afstöðu.
Mér líður vel í þessari kosningabaráttu - þess fullviss að málstaðurinn er frábær og lífsnauðsynlegur, tveir dagar eftir og þeir verða nýttir vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.4.2009 | 08:27
Samstarf þjóðanna
Við þurfum á unga fólkinu okkar að halda, fólkinu sem ætlar að búa á þessu landi og byggja það upp það ástand sem hér ríkir nú kallar ekki beinlínis þýðum rómi á ungu kynslóðina að vera hér, stofna heimili hér og starfa hér unga fólkið okkar á heimtingu á því að við gerum alvöru tilraun til að skapa hér stöðugleika og aðstæður svo það geti vaxið hér og dafnað í eðlilegu samneyti og viðskiptum við aðrar þjóðir. Förum því og tölum við Evrópusambandið í fullri alvöru og sjáum hvað það býður okkur.
Hræðsluáróður um afsal sjálfstæðis og auðlinda er ekki nútímalegur né trúverðugur - það er heimóttarlegt að þora ekki að banka á dyr og spyrja hvort viðkomandi sé til viðtals.
Framundan er skemmtilegur síðasti vetrardagur með vinnustaðaheimsóknum og hátíðum á Egilsstöðum og Eskifirði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.4.2009 | 22:23
Góðir dagar
Það er stórskemmtilegt að vera í kosningabaráttu vegna þess að maður hittir svo mikið af alls konar fólki sem á sín brennandi baráttumál, persónuleg, atvinnuleg og byggðaleg og fólkið vill gjarnan fá að koma þessum málum sínum á framfæri, ræða þau og meta. Við erum búin að vera á Djúpavogi, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Neskaupsstað og Eskifirði í dag og í gær - þar brenna sjávarútvegsmálin á mönnum. Sumir eru afar ánægðir með strandveiðarnar og fyrningaleiðina meðan aðrir mega á hvoruga leiðina heyra minnst. Eðlilegt þegar aðstæður byggðalaganna eru eins mismunandi og raun ber vitni...
Nú ætla ég að sofa svolítið, vakna svo snemma og undirbúa daginn - sofið vel kæru vinir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggvinir
- annapala
- annaragna
- annriki
- agustolafur
- arnith2
- baldurkr
- gattin
- bryndisfridgeirs
- brandarar
- dofri
- drifakristjans
- gleraugun
- saxi
- huld
- fjolan
- logbjorg
- gutti
- gudnydrifa
- gurrihar
- gudrunjj
- gudrunkatrin
- gunnaraxel
- hafsteinnkarlsson
- hallibjarna
- heidathord
- hildajana
- ingabaldurs
- ingolfurasgeirjohannesson
- jogamagg
- jonaa
- joningic
- kallimatt
- kolbrunb
- kopasker
- daudansalvara
- lara
- olinathorv
- ragnhildur
- rosa
- amman
- sisshildur
- svalaj
- svavaralfred
- svenni
- tjorvi
- vefritid
- thorhildurhelga
Tenglar
Vinir
- Rannveig vinkona
- Dandy orkubolti, spinningkennari og náttfatavinkona
- Tóta litla
- Konni kynlegi
- Þórveig hreyfisystir
Pólitík
Nota bene
Ritað og talað mál
Hér er ýmislegt sem ég hef sagt og ritað upp á síðkastið.
Myndaalbúm
Eldri færslur
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar