Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Aðventustjakinn er kominn á sinn stað með nýjum kertum og kveikt verður á kertinu með ákveðinni viðhöfn á eftir.  Það er svo sannarlega jólalegt á Héraðinu núna. Það voru mikil viðbrigði að koma út úr flugvélinni í gær, marautt í Reykjavík en talverður snjór hér.  Færðin hér er hálfleiðinleg, laus snjór ofan á talsverðri hálku, svo maður lendir auðveldlega í vandræðum ef farið er út af aðalleiðunum. Ég er hrædd um að snjómoksturinn hér hafi lent í einhverju uppnámi við fráfall Malarvinnslunnar, þarf að kynna mér það mál á mánudaginn.

Er búin að vera í borginni í rúma viku, í skólanum og aðeins í pólitíkinni. Það var mikið að gera í skólanum, enda síðustu staðlotur á önninni og verið að ljúka verkefnum í öðrum kúrsinum og undirbúa lokaverkefni í hinum.  Það er frábært að fá tækifæri til að kynnast nýju fólki og nýjum hugmyndum í gegnum þetta nám, maður er ríkari eftir en áður.  Nú þarf bara að bretta upp ermar og vinna ákveðið að því að ljúka því sem eftir er fyrir 15. desember. Reykjavík er frábær með öllu því yndislega fólki sem maður á þar og Héraðið er yndislegt því þar eru yngri börnin mín, heimilið mitt, vinir og kunningjar og mikið af spennandi viðfangsefnum.

Í dag stendur til að halda áfram að koma heimilinu á réttan kjöl eftir langa fjarveru mömmunnar, setja upp jólagardínur í eldhúsinu, baka tvær sortir af smákökum og elda svo kjötsúpu í kvöld. Berglind Rós stjórnar aðgerðum, hún er komin í mikið jólaskap, er búin að pakka inn einhverju af jólagjöfum, spilar og syngur jólalögin og þráir að farið verði að baka eitthvað...

Á morgun tekur svo pólitíkin við af fullum þunga - þar þarf ég að setja mig inn í ýmislegt aftur eftir vikufjarveru, ljúka þarf fjárhagsáætlanagerð og ýmsu öðru fyrir jól...

 


Orðræðugreining og fleira spennandi

Að vera spurður að því klukkan 17, eftir talsvert krefjandi dag, hvernig orðræðugreining geti nýst í rannsóknarvinnu og vettvangsvinnu er svo ögrandi að það er ekki hægt annað en að vera með.... Í starfi með fólk og í rannsóknum í þágu fólks þarf að vera stöðugt á tánum til að gæta hagsmuna allra og meðvitund um orð og orðnotkun skiptir miklu máli.  Skilja þarf samhengi og afleiðingar orðræðunnar til að bregðast rétt við og skilja "rétt"...

Mér líkar orðræða Guðrúnar Helgadóttur alltaf jafnvel.  Hakkaði í mig nýju bókina hennar "Bara gaman" í nótt.  Lýsingar hennar á krökkum og samskiptum þeirra eru alltaf jafn hlýjar en jafnframt drepfyndnar. Tumi stóribróðir (9ára) skríður reglulega uppí til Vildísar (8 ára) til að fá "skrifta" og fá "syndaaflausn" til að geta sofið vært. Tumi reynir að finna nýjan mann handa mömmu en Vildís hefur meiri áhyggjur af því hvað vinir Tuma borða mikið, svo hún felur ostinn sem er svo dýr og lætur þá borða sultu ofan á brauðið - með svolítið samvískubit yfir afleiðingum á tannheilbrigði þeirra....

Ástandið - 17% verðbólga með tilheyrandi óafturkræfri hækkunr íbúðalánahöfuðstóla sem því nemur.  Afar alvarlegt mál fyrir nánast allar fjölskyldur landsins.  Ég skil ekki alveg af hverju ekki er lögð ofuráhersla á að finna leið út úr þessum vítahring - slíkt myndi sýna svo ekki verður um villst að verið er að vinna að lausnum.


Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs

Á sjö tíma bæjarstjórnarfundi í gær var fyrsta Aðalskipulag sameinaðs Fljótsdalshéraðs afgreitt til Skipulagsstofnunar.  Hefði aldrei trúað því að óreyndu hversu pólitísk og skemmtileg skipulagsmál eru.  Þokkaleg eining er í bæjarstjórninni um skipulagið, en Þéttbýlið við Fljótið og skipulag þess er þó umdeilt, sumir vilja halda áfram að byggja Egilsstaði til suðurs og í Fellum til norðurs en meirihlutinn hefur frá upphafi viljað sameina byggðakjarnana við Fljótið eins og hægt er miðað við að á milli þeirra er Egilsstaðabýlið, flugvöllurinn og Fljótið! Meirihlutinn vill því skipuleggja byggð í framtíðinni í landi Eyvindarár með tilheyrandi nýrri og spennandi leið um Melshorn og nýrri brú á Eyvindará sem sameinar hverfi beggja megin árinnar.

Get ekki neitað að á síðustu metrum fundarins var ég farin að fylgjast með því á vefmiðlum hvernig gengi með afgreiðslu IMF á lánsumsókn okkar, og mikill léttir fylgdi því að sjá að hún fékk jákvæða afgreiðslu og að í kjölfarið er ljóst að nágrannar okkar munu lána okkur það sem upp á vantar til að fylla upp í gatið stóra. Vonandi þýðir þetta það að hægt er að fara að taka einhverjar ákvarðanir um fjárlög ríkisins og hvað ríkið er að fara að gera á næstunni.

Það var gott að koma heim um ellefuleytið og hitta englabossann og gelgjuna. Englabossinn er búinn að vera lasinn og því meira heima en oft annars og litlu systur hans finnst greinilega fínt að hafa hann nálægt.  Það vill reyndar svo heppilega til að við mægður erum samstíga í því að eiga langa miðvikudaga, ég á fundum og hún í söngtíma, á körfuboltaæfingu og í æskulýðsfélagi kirkjunnar. Sófinn er því gjarnan bældur á miðvikudagskvöldum þegar allir eru komnir heim.

Jólin nálgast - það eru komin aðeins jólaljós í gluggana hjá okkur og í gærkvöldi voru valdar myndir af englabossanum með hvíta kollinn í jólakortið og til stækkunar í einhverja jólapakka. Það er kominn jólahugur í okkur mæðgur - karlmanninum á heimilinu finnst við nú svolítið snemma í því..., Það verður yndislegt að fá þær mæðgur, Guðbjörgu Önnu og Karen Rós, og Torfa til okkar um jólin. Jólin eru tími sem mann langar til að hafa þá hjá sér sem standa hjarta manns næst.

Í dag gefst vonandi tóm til að stunda námið af kappi - bara tveir fundir skráðir í dagbókina í dag og öðrum má sleppa ef vill...


Egilsstaðir - Reykjavík - Egilsstaðir - Reykjavík - Egilsstaðir

Ritstífla hefur verið að hrjá mig undanfarið - svo nú verður skrifað í yfirlitsstíl til að rekja það helsta sem á daga mína hefur drifið og hvað er framundan.

Yfirlit síðustu viku:

  • Konukvöldið var fínt - var samt ekki til enda, kannski aðeins að eldast...
  • Fjárhagsáætlanagerðin gengur sinn vanagang - það er gott að finna að allir eru tilbúnir til að vinna saman að sparnaði og hagræðingu.
  • Fjármálaráðstefnan var ágæt - sambandið var með ágætar upplýsingar, fjármálaráðherra talaði töluvert en sagði lítið, ráðherra sveitarstjórnarmála sagði mun meira - en auðvitað hefðum við viljað fá enn skýrari skilaboð. Dr Gylfi Zöega hagfræðingur og prófessor var frábær, hann sagði mikið, var útskýrandi, mannlegur og skemmtilegur - hér eftir mun ég alltaf sperra eyrun þegar hans er getið í fjölmiðlum.  Það er auðvitað gott að hitta aðra sveitarstjórnarmenn sem eru í svipuðum sporum og maður sjálfur og bera bækur sínar saman við þeirra bækur.
  • Námið gengur bara ágætlega - ég notaði tækifærið þegar ég var í bænum í vikunni og hitti hópinn minn í kenningakúrsinum, við hittum leiðsagnarkennarann okkar og komumst að því að við værum langt komnar með lokaverkefnið okkar - við unnum vel í tvo tíma og nú vantar bara rétt herslumuninn sem verður gerður þegar við hittumst næst 24. og 25. nóv. Ég hitti líka Dóru Bjarnason og námsráðgjafa til að skipuleggja framhald námsins míns.
  • Svo var haldið upp á fimmtugsafmælið hennar Rannveigar á laugardagskvöldið, glæsileg veisla og skemmtileg. 100 fermetra íbúðin hennar Rannveigar var gerð að veislusal fyrir 70 manns með því að umbreyta bílskúrnum og tjalda yfir hluta af pallinum hennar. Fín veisla með skemmtilegu fólki og frábærum veitingum. Við Gleðikonur tróðum aðeins upp að vanda - fín æfing fyrir 20 ára afmælið 1. mars. Rannveig á afmæli í dag - til hamingju með það vinkona.

Verkefni næstu daga

  • Fundur með þingmönnum kjördæmisins eftir hádegi í dag.
  • Bæjarstjórnarfundur á miðvikudaginn þar sem nýtt aðalskipulag verður vonandi afgreitt.
  • Áframhaldandi vinna að fjárhagsáætlun, 1. umræða í bæjarráði í næstu viku.
  • Lærdómur m.a. undirbúningur að útvarpsþætti um skóla án aðgreiningar
  • Heimilisstörf og fjölskylduspjall
  • Flokksstjórnarfundur á laugardag og námslota í næstu viku

Skemmtileg fjölbreytni í verkefnum og nóg að gera, fer enn í hlutverk Pollýönnu og þakka fyrir að vera hraust og virk og geta sinnt mörgum spennandi verkefnum á ýmsum sviðum lífsins.Smile


Konur á Héraði skemmta sér í kvöld

Prúðbúnar konur á öllum aldri munu streyma í Valaskjálf í kvöld um áttaleytið til að skemmta sér saman - Helga Braga ætlar að skemmta okkur - verslanir bæjarins sýna okkur tískuvarning - fyrst og fremst ætlum við að skemmta okkur sjálfar, efast ekki um að hlátrasköll munu fara langt með að lyfta þakinu af húsinu...

Eydis vinkona mína ætlar að koma hingað um sjöleytið svo við getum aðeins samhæft okkur áður en við skellum okkur í slaginn...

Gelgjan mín er búin að samþykkja dressið - fínt að draga fram gamla þorrablótskjóla þegar mikið liggur við..., neglurnar orðnar rauðar og bara eftir að skella smá lit í andlitið og klæðast skrúðanum.

Hlakka til að skemmta mér í kvennafans - það er frábært að skemmta sér með konum -  yndislegt að eiga góðar stundir með elskunni sinni - og gaman að blanda ýmsum hópum saman...

Áhyggjulaus kvöldstund framundan, megið þið eiga gott laugardagskvöld.

 

 


Enn einni vikunni að ljúka

Tíminn líður hratt, mér finnst vikurnar þjóta hjá, hraðar og hraðar eftir því sem aldurinn færist yfir - hef heyrt að eitthvað hægi á aftur, síðar...

Vann þann sigur þessa vikuna að fara og hreyfa mig alla morgna, notaði tæknina - taktu bara einn dag í einu og hún virkaði greinilega...Smile Það gefur mér orku og kraft í dagana að hreyfa mig og mér finnst ég þurfa sérstaklega mikla orku núna. 

Október og nóvember eru annasamir mánuðir í sveitastjórnarmálum, verið er að ganga frá áætlunum fyrir næsta ár og yfirleitt er það verk sem krefst yfirlegu og vinnu, verkefni sem tekur tíma en langt frá því að vera óyfirstíganlegt... Árið 2008 er öðruvísi - óvissan er lýjandi og orkufrek - verkefnið sem áður krafðist bara vinnu - er eiginlega óvinnandi... en við reynum eftir bestu getu.

Bæjarráðið er þessa dagana að heimsækja stofnanir sveitarfélagsins, við heimsóttum stórar og smáar stofnanir í gær og ég sá enn einu sinni að það er gott starf unnið alls staðar - og starfsfólkið okkar á hrós skilið fyrir að gera það besta úr aðstöðunni sem það hefur til umráða, starfið er ekki háð byggingunni sem það fer fram í - en sumsstaðar er aðstaðan þannig að það verður að bæta í - því gerði ég mér enn betur grein fyrir í gær.  Það verður unnið mjög markvisst að því að stöðva ekki þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru - ef nokkur kostur er að afla lánsfjár, verður krepputal ekki látið stöðva okkur í áframhaldandi uppbyggingu blómlegs samfélags á Fljótsdalshéraði.

Í dag höldum við áfram í stofnanaheimsóknum - byrjað verður á Hallormsstað, í mínum gamla skóla, hlakka til að heimsækja skóginn í fallega haustveðrinu sem er hér í dag....

Þegar ég kem heim síðdegis verð ég að fara að hugsa um lýðræðislega skóla og hvernig þeir vinna að því að taka við hinni margbreytilegu nemendaflóru, það eru verkefnaskil um þetta efni á sunnudaginn í öðrum kúrsinum mínum. Í hinum höldum við áfram að spá í hegðunarfrávik út frá sjónarhóli nemandans. Spennandi og nátengt...


Nýir straumar í Bandaríkjunum - hvenær berast þeir hingað?

Nýr forseti í Bandaríkjunum virðist hafa alla burði til að vera maður fólksins og fulltrúi minnihlutahópa.  Hann virðist hlýr og mannlegur, skynsamur og skiljanlegur, vonandi reynist hann þannig í raun...

Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að traust og trúnaður er ekki það sem manni dettur fyrst í hug - nýjustu fréttir um uppgjöf skulda vegna hlutabréfakaupa rúðu yfirmenn bankanna endanlega öllu trausti í mínum huga.  Hversu lengi ætlar þessi vitleysa að halda áfram?

Þegar skapstilltasta fólk er farið að úttala sig um þörf sína fyrir að kasta tómötum og fúleggjum er langt gengið, en ég skil þá þörf ágætlega, spillingin virðist vera útbreiddari en nokkurn óraði fyrir.

Bogi Nilsson var maður að meiru að segja sig frá vekefni sem krafðist hlutleysis þegar fjölskyldutengsl gátu gefið tilefni til tortryggni... sennilega er best að fá útlenda aðila til að greina stöðu og orsakir ástandsins. Á litla Íslandi eru tengsl allsstaðar...

En nú sem aldrei fyrr - ræktum okkur og fólkið í kringum okkur...


Hvað er best?

Á hverjum degi stendur maður frammi fyrir því að velja - oftast er valið ekki erfitt enda um smáatriði að ræða eins og hverju skuli klæðast, hvað borðað o.s.frv....

Nú finnst mér að erfið ákvörðun hljóti að bíða stjórnvalda þessa lands.  Á að slíta stjórnarsamstarfi eða reyna að halda áfram að vinna saman?  Ljóst er að stór ágreiningsefni eru að valda ríkisstjórninni vandræðum svo að við venjulegar aðstæður væri eðlilegt að hvetja til slita  - en er hægt að bjóða þjóðinni upp á þann glundroða sem manni finnst felast í því að fara í kosningabaráttu þar sem fagurgalinn tekur völdin og allir lofa upp í ermina á sér, í ástandi þar sem erfitt er að sjá næsta dag fyrir...

En það er algerlega óþolandi að ekki sé skipt um húsbændur í Seðlabankanum - manni finnst það svo augljóst og óumdeilanlegt að þar eiga að taka við stjórninni hæfustu fagmenn á sviði fjármála og hagstjórnar sem við eigum, til að vinna faglega, hlutlægt og hratt að því að ávinna Íslandi traust og trúverðugleika aftur - afdankaðir pólitíkusar með bundið fyrir bæði augu eiga bara að vera heima hjá sér núna....

Og svo verður að fara að upplýsa okkur betur um næstu skref, hvað felst í samningnum við IMF?? Hvar stendur fjárlagagerðin? Hvar verður skorið niður? Allar stofnanir og öll sveitarfélög eru í áætlanagerð einmitt núna - hvernig á slíkt að fara fram þegar ríkið þegir þunnu hljóði???

Mér finnst erfiðast af öllu í þessu ástandi dagsins að horfa upp á fólk missa vinnuna, það að hafa atvinnu er stór hluti af sjálfsmynd manns fyrir utan það að sjá fjölskyldunni fyrir lífsviðurværi, maður hlýtur því að missa fótanna við að missa vinnuna....

En í öllum þessum glundroða er mikilvægt að halda fast í góðu gildin - að hlúa vel að sjálfum sér svo maður sé fær um að hlúa að öðrum, andleg og líkamleg næring og þjálfun þurfa að vera í hámarki og gæðin í efstu mörkum...

Í dag ætla ég út að ganga, vera við opnun á nýrri og glæsilegri félagsaðstöðu eldri borgara við Miðvang, læra svolítið og gera svo tilraun til að elda gæsasúpu í kvöld. 

Gelgjan mín fór með pabba sínum á rjúpnaveiðar í gær og kom þreytt en alsæl heim eftir svolitlar svaðilfarir í austfirska fjalllendinu, það er körfuboltaæfing hjá henni í hádeginu en svo ætla ég að reyna að ná henni með mér á opnunina og svo kúrum við saman og lærum seinni partinn og ef ég þekki hana rétt þarf hún nú aðeins að skipta sér af eldamennskunni.

Englabossinn er svo með pabbanum á rjúpnaveiðum í dag - ég þarf sennilega ekkert að kvíða því að ég fái ekki í jólamatinn...

Megið þið eiga góðan sunnudag með þeim sem ykkur þykir vænt um...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband