Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Góð staða við erfiðar aðstæður

Ég verð að viðurkenna að þetta er betri staða en ég hafði gert ráð fyrir - ríkisstjórn sem hefur staðið í stórhreingerningum svo vikum skiptir með tilheyrandi sársaukafullum niðurskurði og skattahækkunum - er fátt að gera til að afla sér vinsælda. 

En þjóðin er raunsæ og veit að verið er að vinna nauðsynleg verk miðað við aðstæður.

Það væri óneitanlega fróðlegt að sjá frestarana miklu stjórna landinu núna, með neikvæðar raddir framsóknar og borgara í bakraddakór - með frestunum á erfiðum ákvörðunum yrðum við örugglega vel sett - eða hvað????


mbl.is Ríkisstjórnin með 43% stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vikan framundan

Nú er fundahlé á þinginu til að skoða megi Icesave enn betur áður en málið verður afgreitt.  Vonandi tekst að afgreiða það  fyrir miðjan ágúst - ég held að þingið þurfi að fá sumarleyfi í nokkrar vikur, þar hefur verið mikið álag síðan í vor og því nauðsynlegt fyrir þingmenn og starfsmenn þingsins að hvíla líkama og starf fyrir næstu törn.

Icesavemálið er, eins og ég hef sagt hér áður, hið versta mál - samningurinn sem liggur fyrir er í raun nauðarsamningur - sem enginn vill í raun greiða - enda málið hið versta og óréttlátasta - en ég sé ekki aðra leið en að gangast við þessum samningi með ákveðnum fyrirvörum um gjaldþol okkar og eðlilegar samskiptareglur þjóða á meðal.  Við verðum að fara að ljúka þessu máli til að trúverðugleiki okkar verði marktækur meðal þjóða og hægt sé að fara að tryggja fjármagn erlendis frá svo eðlileg atvinnuuppbygging geti farið af stað af fullum krafti - þannig sköpum við verðmæti til að viðhalda uppbyggingunni, greiða lán og viðhalda velferðarkerfinu.

Mörg önnur mál eru í gangi í þinginu - eitt þeirra er frumvarp til laga um Bankasýslu ríkisins sem er enn eitt málið sem er ekki óskabarn - en í ljósi ástandsins þar sem stór hluti fjármálafyrirtækja landsins verða í eigu ríkisins er nauðsynlegt að vista þessa eignahluta og sýsla með þá á ákveðnum stað með ábyrgum hætti.  Frjálshyggjuöflin á Alþingi eru afar erfið í þessu máli eins og fleirum - tafir, frestun, þóf og seinkun einkennir um margt málflutning Íhaldsins sem notar fagmennsku sem yfirskin yfir ákvarðanafælnina og frestunaráráttuna.  Aftur og aftur leikur stjórnarandstaðan þann leik að þykjast vilja vera með í málum ef þessar upplýsinigar koma fram og ef málið verður skoðað betur - en þegar komið hefur verið til móts við óskir þeirra, springa þeir á limminu og vilja ekki vera með - í besta falli segjast þeir ekki þvælast fyrir... og svo kenna þeir stjórnarliðum um að ekki séu notuð gegnsæ og trúverðug vinnubrögð... mér leiðist þessi málflutningur skelfilega - við megum ekki vera að því að bíða og sjá til - við þurfum að ljúka grunnvinnunni til að geta farið að byggja upp...

Mér til skemmtunar fór ég á Bræðsluna á laugardaginn og skemmti mér konunglega - Borgarfjörður skartaði sínu fegursta - bæði náttúra og mannlíf - einstakt og eftirminnilegt

Ég hlakka til að heimsækja Dalvík vikuna eftir verslunarmannahelgi - þar á að vígja menningarhús 4. ágúst og svo er ég ákveðin í að prófa fiskidaginn mikla í ár, skilst ég geti náð handverkssýningu á Hrafnagili í sama slagnum.


Framtíðarsýn

Ég er glöð í dag - glöð yfir því að áratuga umræða um hvort sækja eigi um aðild að ESB, er að baki því ákvörðunin er tekin og loksins fáum við tækifæri til að tala um það á vitrænan hátt hvort við eigum heima innan þessa bandalags Evrópuþjóða. 

Ég tel margt benda til þess ekki síst þá staðreynd að við lifum á hnattrænum tímum þar sem landamæri eru ekki múrar heldur línur - leyfum okkur fordómalaust að sjá hvað felst í þessu samstarfi.

Ég er sérstaklega hrifin af byggðastefnu ESB - og hlakka til að sjá hvaða tækifæri hún getur gefið okkur - bæði í tengslum við hefðbundinn landbúnað og aðra atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni svo og afar spennandi möguleika til menntunar og nýsköpunar.

Ég er búin að tala við marga andstæðinga ESB í dag og í gær sem ásaka okkur um sjálfstæðissölu og gleymsku hvað varðar mikilvægi matvælaframleiðslu og auðlinda lands og sjávar.  Ég tek þessarri gagnrýni með jafnaðargeði - skil hana um leið og ég minni á að um þetta er ekki hægt að ræða á upplýstan hátt fyrr en viðræður þar sem lögð er áhersla á sérstöðu okkar sem harðbýllar eyju í norðurhöfum hafa farið fram - þá skulum við tala saman aftur...

Áhyggjur dóttur minnar af slakri frammistöðu Evrópudómstólsins þarf ég að ræða betur við þá sem þar þekkja best til - þar þarf að sjálfsögðu að vera vakandi

En gleymum ekki að við erum bara að tala um að fara af stað í viðræður og það er þjóðin sem á síðasta orðið um þann samning sem út úr þeim viðræðum kemur.

En nú ætla ég að vera húsmóðir í þvottaham í kvöld og skella mér svo á Lunga á Seyðisfirði á morgun og helst aðeins á Stöðvarfjörð líka...     


Línur skýrast

Það er í raun ótrúlegt hversu mikið er búið að gera á þessu sumarþingi - þó stjórnarandstaðan reyni að þvælast fyrir - mér finnst við komast nokkuð vel frá þessum þvælingi með svipuðum aðferðum og notaðar eru þegar vinna þarf með börn í kringum sig, þá er best að vera bara nokkuð hlýr við þau og gefa þeim svo sem minnstan gaum...

Afstaða mín til þess að gengið verði til samningaviðræðna við ESB, svo við getum séð hvernig samning við getum fengið - hefur komið fram hér margoft, mér finnst tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla vera lýðskrum og alger óþarfi og bara til þess fallin að tefja málið frekar.

Ríkisábyrgðin á Ice save er vont mál, en því þarf líka að ganga frá - og ég óttast að það að fella þennan samning sem er auðvitað ekki gallalaus setji okkur á byrjunarreit aftur - notum árin sjö sem við fáum áður en þarf að byrja að borga til að láta reyna á endurskoðunraákvæðið ef þess þarf.

Sparisjóðamálið var erfitt og ömurlegt að hugmyndafræði sparisjóðanna hafi verið rýrð og afskræmd í græðgisvæðingunni miklu - en ég held að niðurstaðan sé viðunandi fyrir flesta, einhverjir sparisjóðir munu ef til vill ekki lifa af - en aðrir styrkjast - því miður hefði sennilega það sama gerst þó ríkið hefði ekki gripið inn...

Bankarnir færast nær því með degi hverjum að verða starfhæfir með uppgjöri á stöðu gömlu bankanna - gengur hægt - en þó bítandi...

Sérstakur saksóknari er á fullri ferð í að vinna að rannsókn hrunsins og tengdra mála - á grundvelli laga - gleymum því ekki að Ísland er réttarríki og vinnubrögð okkar miðast við það - hér verður enginn "tekinn af lífi" án dóms og laga...

Og svona mætti lengi telja - og ég er bjartsýn á það að þegar þing kemur saman að nýju í haust verði kominn traustur grundvöllur að endurreisn Íslands - verið er að vinna að því að búa til ramma að atvinnuuppbyggingu á mörgum sviðum t.d. hjá iðnaðarráðuneytinu og stofnunum þess... þá þarf að skoða stöðu heimilanna upp á nýtt og sjá hvar þarf að bæta við og einfalda úrræði til þess að fjölskyldur geti búið við þokkalegt öryggi á Íslandi...

Þannig ætla ég að vera bjartsýn og horfa til framtíðar og vanda mig við að láta stjórnarandstöðuna sem suðar og togar allt um kring ekki draga úr skörpum fókus... en um leið raunsæ og vakandi og hlustandi með athygli á allar góðar hugmyndir sem koma frá frábærum einstaklingum allt í kringum landið og mega verða til uppbyggingar - slíkar raddir vil ég líka hlusta á hjá mörgum frábærum þingmönnum í öðrum flokkum en mínum...

Átti frábæran dag í gær - fór í tvö afmæli hjá stórmerkilegum köppum - fylgdist stolt með dóttur minni sigra unglingaflokk á félagsmóti Freyfaxa og skellti mér svo á dansleik og dansaði frá mér hvers kyns ósóma í tvo tíma  - dans er nú alveg frábær hreyfing, slökun og afþreying....

En nú þarf að sinna unglingnum sem er að aðstoða bróður sinn við að setja folaldsmerar á kerru og er svo að fara að taka verklegt knapamerkjapróf klukkan 6, það er gaman að hafa tíma til að snúast í kringum fólkið sitt Smile - megið þið eiga góðar stundir með ykkar fólki.


Lífið í lit

Það eru forréttindi að fá að vinna hér við Austurvöll - hér er mannlífið fjölbreytt - stöku bumbusláttur í takti við hlátrasköll, barnsgrát og hljóm margra tungumála virðist vera eðlileg hljómkviða lífsins á Íslandi árið 2009.

Við stöndum frammi fyrir mörgum erfiðum ákvörðunum - en megum aldrei missa sjónar að því að við eigum mikil auðæfi í fólkinu okkar og gæðum lands og sjávar - það er nauðsynlegt að þjóðartónninn slái ekki bara erfiða tóna - heldur raunsæja og jákvæða tóna til að halda voninni í þjóðinni - og ákvarðanafælni má ekki verða viðlag í þessum þjóðartóni.  Mér finnst sjálfstæðismenn vera hræðilega illa haldnir af ákvarðanafælni og kvíðaröskun hverskonar og vilja helst slá öllu á frest - nota faglegheit og vönduð vinnubrögð sér til málsvarnar - en afar fátt verður um svör þegar þau eru spurð um þeirra leiðir og hugmyndir í hverju málinu á fætur öðru.  Margar fínar manneskjur í þessum gamla flokki - en hver er stefna þeirra í endurreisninni???? Þeir hafa talað um að það verði að koma bönkunum í starfhæft ástand en þegar ljóst er að það er alveg að fara að gerast er allt ómögulegt...

Ég er hreykin af því að hafa fengið að vera hluti af afar starfsömum ríkisstjórnarmeirihluta sem vílar ekki fyrir sér að taka erfiðar ákvarðanir á skömmum tíma svo hægt sé að fara af stað í hina mikilvægu vinnu við að hvetja fólkið í landinu til dáða...

Hér í borginni er ágætisveður - sólin reynir að glenna sig - en mér heyrist hún skína af fullum styrk heima hjá mér á Héraðinu - megi Héraðsfólk og gestir njóta vel.


Samgöngur

Mikið finnst mér hún erfið þessi umræða um samgöngubætur.  Skilningurinn og samúðin með öllum landssvæðum svellur. Óboðlegir vegir eru á suðurhluta Vestfjarða, þeir eiga ekkert sameiginlegt með 21. öldinni - þá þarf að laga - umferðaröryggi krefst tvöföldunar Suðurlands - og Vesturlandsvega, Vaðlaheiðagöng væru frábær og myndu gera Norðurland að einu atvinnusvæði og svo má lengi telja.

En ég get ekki annað en haldið á lofti hversu mikilvægt er að jarðgöng verði gerð til Norðfjarðar og undir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar, ég veit á eigin skinni hversu mikilvægar þessar samgöngubætur eru. Sjúkrahús allra Austfirðinga er á Neskaupstað við Norðfjörð og þar eru jarðgöng í ótrúlegri hæð, einbreið og í þeim er blindhæð, Héraðsmenn þurfa að fara um tvo fjallvegi til að komast á sjúkrahús, Seyðfirðingar og Vopnfirðingar þrjá - og þar erum við að tala um hæstu fjallvegi Íslands.

Seyðfirðingar búa við það að eina leið þeirra að heiman liggur um hæsta fjallveg á Íslandi, og einn þann snjóþyngsta. Seyðisfjörður er hinn íslenski viðkomustaður farþegaferjunnar Norrænu - þar hefur verið byggt upp fín ferjuhöfn - en fjallvegurinn erfiði takmarkar möguleikana sem hægt væri að nýta á Austurlandi öllu í tengslum við þessa ferju - sem siglir allt árið með öllum þeim möguleikum sem því fylgir. 

Heilsársvegur um Öxi styttir vegalengdir milli Austurlands og Suðurlands um tæpa sjötíu kílómetra og þannig gæti ég haldið lengi áfram um samgöngubætur á því svæði sem ég þekki best.

Það er lítið um peninga í buddu samgönguráðherra núna og hann verður því að forgangsraða - í mér takast á  tvö sjónarmið - annars vegar að við pólitíkusarnir höldum áfram að togast á um peningana til okkar svæða eða hins vegar að við fáum ískalt faglegt mat á því hvernig á að forgangsraða í samgöngumannvirkjum þar sem  hagkvæmni, öryggismál, byggðamál, verðmætasköpun svæða, atvinnumál og mörg fleiri sjónarmið verði höfð í heiðri - ég er ekki viss um að slíkt væri óhagstæðara fyrir okkur dreifbýlingana en þéttbýlingana á Suðvesturhorninu.

Ég sit hér á skrifstofunni minni og horfi og hlusta á umræður um Icesave, stærsta mál sem  íslensk þjóð hefur tekist á við í lýðveldissögunni.  Eins og ég hef sagt hér áður held ég að ekki sé önnur leið en að semja um þessar skelfilega háu upphæðir sem við höfum ábyrgst - auðvitað hvarflar að manni sú hugsun hvort ekki væri hægt að reyna að semja betur, ná vöxtunum niður og ná einhverju þaki á greiðslur - en samninganefndin telur sig hafa náð því sem náð verður og bendir á að það er útgönguleið í samningnum ef breytingar verða á efnahag þjóðarinnar.  Ég treysti mér ekki til að setja þennan samning í uppnám - með honum er enn eitt málið í höfn og slíkt skapar sátt og ró.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband