Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Umræður í sjónvarpssal

Horfði á kosningasjónvarpið frá Norðaustrinu áðan, var ánægð með minn mann, það eru afar fáir sterkari en hann í umræðu um samgöngumál og flutningsmál. Saknaði meiri umræðu um Austfjarðagöng og lét fara verulega í taugarnar á mér tafs stjórnarflokkanna um að bara sé hægt að byggja ein göng í einu..., af hverju er þá ekki bara smíðuð ein brú í einu???

Valgerður var pirruð, hún lét atlögur Kristjáns fara í taugarnar á sér, hún er kannski orðin leið og útbrunnin í starfi eftir 20 ár, mikið hefði verið snjallt hjá henni að hætta bara áður en pirringurinn náði sér á strik...

Steingrímur stóð sig vel en sagði fátt, "fæst orð hafa minnsta ábyrgð" er kannski stíllinn þegar flokkurinn manns er að verða stór...

Nú sit ég á kosningaskrifstofunni, aðeins búin að ræða málin við tvo unga menn og enn yngri menn leika sér með blöðrur hér frammi, kosningabaráttan setur skemmtilegan svip á bæinn..

Í kvöld ætla ég svo með Eydísi vinkonu minni á leikrit sem heitir "The power of love" sem hún Halldóra Malen Egilsstaðaleikmær er að sýna hérna í Sláturhúsinu, en fyrst þarf ég að fara á meirihutafund til að undirbúa bæjarstjórnarfund á miðvikudagskvöldið.


Undirritunaræði ráðherranna

Flottur samningur undirritaður í dag. Þekkingarnet Austurlands ehf. á Egilsstöðum er orðið að veruleika, loksins, loksins! Lappirnar hafa verið dregnar afar ákveðið í þessu máli sérstaklega í fjármálaráðuneytinu, en undirritunaræðið er hafið, svo við fengum Þekkingarsetrið okkar, en ég er svo örg yfir þessu siðleysi undirritunaæðisins að gleðin yfir framgangi þessa sameiginlega verkefnis okkar heimamanna hvar í flokki sem við stöndum er ekki fölskvalaus...

Það átti að milda mig með því að leyfa mér að ávarpa undirritunarliðið í dag, en veltan á Öxnadalsheiðinni seinkaði ferð minni úr Skagafirðinum svo ég náði ekki í tæka tíð. Breytir sennilega ekki miklu. Það var fjölskyldudagur hjá Samfylkingunni fyrir utan Níuna,á Egilsstöðum mikil stemning og mikið af fólki...

Var á ársþingi SFS (samtök fámennra skóla) í Skagafirði til að ræða um hvernig framhaldsskólar geta mótað sér stefnu og sérstöðu. Það er alltaf jafngaman að hitta félagana í SFS, sterkt og skemmtilegt fólk.

Jæja nú eru 13 dagar til kosninga, búið að skipuleggja allt mögulegt spennandi í kosningabaráttunni, m.a. á ég að heimsækja eldri borgara hér í bænum með bækling og rós, hlakka til.....

 

 

 


Neyslusamfélagið

Í morgun hef ég á nokkrum vígstöðvum rætt við fólk um bílaeign unga fólksins.Klukkan 9 var ég að kenna prósentu- og vaxtareikning þar sem við tókum dæmi um annars vegar rýrnun á bílverði á þremur árum og hins vegar vexti á yfirdráttarlánum sem ung fólk tekur gjarnan til að fjármagna bílakaup.  Nemendum mínum var aðeins brugðið við útreikningana en töldu bíl nauðsynlega eign sérhvers ungmennis í nútíma samfélagi, um það ræddum við fram og aftur og komumst auðvitað ekki að niðurstöðu.

Þegar ég kom í kaffi var svipuð umræða í gangi á kaffistofunni, við horfðum yfir yfirfull bílastæðin og veltum fyrir okkur þeim tíma sem nemendur þurfa að vinna til að fjármagna neysluna, sá tími er því miður oft á kostnað námsins.

Þegar maður spyr fólk að því hvers vegna fylgi Sjálfstæðisflokksins sé svona mikið finnst mér ég fá tvö svör: annað er að það sé svo gaman að vera í vinningsliðinu...., hitt tengist einmitt umræðunni hér að ofan: það hafa það allir svo gott núna að það er ekki skynsamlegt að skipta um stjórn....

Hvað er að hafa það gott??? Er það að vera skuldsettur upp fyrir haus strax 19 ára gamall, til að það líti út fyrir að maður hafi það svo gott og geti brosað með vinningsliðinu....

Hvað finnst ykkur - er ekki tímabært að stoppa aðeins við, hugsa málið betur og íhuga alvarlega að kjósa samkvæmt sannfæringu og skipta um vinningslið  - gerum okkar lið að vinningsliði með því að flykkja okkur um Samfylkinguna þann 12. maí.


Síðasta vikan í skólanum

Það eru miklir annadagar í framhaldsskólum landsins þessa síðustu kennsludaga annarinnar. Verið er að kreysta síðustu verkefnin út úr nemendunum og sumir nemendur eru að reyna að kreysta vísbendingar um prófspurningar út úr kennurum.... 

Þetta eru í raun skemmtilegir dagar en þeir eru það ekki fyrir alla nemendur, sumir hafa bara verið latir og ég vorkenni þeim ekkert... en ég vorkenni nemendunum sem eru búnir að leggja sig fram en vegna prófkvíða, lesvanda, einbeitingarvanda o.fl. verður uppskeran alltaf minni en sáningin hefði getað gefið..... Enn er framhaldsskólinn talsvert bundinn af því að allir fara svipaða leið og takmarkaður möguleiki á því að styðja við nemendur sem þurfa meiri hvatningu og stuðning en meðaljóninn..., enn eitt verkefni sem stjórnarflokkarnir hafa ekki staðið sig í og nýja strauma þarf í menntamálaráðuneytið til að breyta og bæta...

19 dagar til kosninga og enn getur allt gerst, svo enn og aftur - koma svo jafnaðarmenn, nú tökum við á því.


Fallegur dagur

Er búin að fara út að hjóla í morgun, gekk svo aðeins meðfram Fljótinu til að skoða óbyggt land sem stendur til að byggja á. Ósnert náttúra er kannski best en mér sýndist samt þarna komast tvö hús fyrir án þess að skaði verði.

Þegar ég kom heim, þreytt og endurnærð og opnaði vísi.is sá ég að enn ný skoðanakönnun var að birtast þar sem sjálstæðismenn mælast með fylgi sem skilar þeim 29 þingmönnum....

Ég velti fyrir mér hvernig íslenskt samfélag verði árið 2011 ef óbreyttar áherslur verða í stjórnarráðinu frá deginum í dag..., það getur varla verið að námsmenn sem þurfa að borga vexti af yfirdráttarlánum, fólk sem er að kaupa sér húsnæði með háu lánshlutfalli, fólk sem veit hvernig framhaldsskólarnir hafa verið fjársveltir... og svo mætti lengi telja, kjósi óbreytt ástand.

Það er lífsspursmál að fólk með áherslu á jöfnuð kynja, landshluta, aldurhópa og fólks almennt komist til valda..., m.a.s sjálfstæðismenn viðurkenna að þeir hefðu gott af því að vera í stjórnarandstöðu til að skerpa eigin línur, svo nú segi ég koma svo jafnaðarmenn um allt land hvar í flokki sem þið standið, kjósið þá sem þora að viðurkenna að þeir eru jafnaðrmenn...., ekkert karnival núna rétt fyrir kosningar....


Gleðilegt sumar

Frábær dagur í gær, opnuðum kosningaskrifstofur á Seyðisfirði og á Egilsstöðum, flottar og notalegar skrifstofur og það sem var best, þær voru stoppfullar af fólki.

Á Seyðisfirði borðuðum við heilsufæði í hádeginu og á Egilsstöðum fengum við okkur kökur og kaffi, Tónlistarskólinn á Seyðisfirði var með frábær tónlistaratriði á Héraðinu og svo var auðvitað rætt um pólitík og baráttuandinn barinn mönnum í brjóst.

Það var gott veganesti inn í daginn að vakna við fréttirnar um stóraukið fylgi. Sennilega er fólk að átta sig á því að það er best að kjósa ekta en ekki grímuklædda flokka sem klæða sig í bleikt 21 degi fyrir kosningar!!!

Jafnaðarmenn verða á vappi í bænum í dag, finn strax hvað andblærinn er notalegur....


Sumarið framundan

Það er að koma sumar..., þú hvít korn fjúki fyrir gluggann er það sjálfsagt bara fyrirboði indæls sumars. 

Var á fyrirlestri í gær hjá Freyju Haraldsdóttur, fatlaðri 21 árs gamalli stúlku. Hún var að tala við krakkana hér í ME og ég laumaði mér með. Maður fann að þessi fyrirlestur hafði áhrif á krakkana þau voru hugsi þegar þau komu út. Ég var líka hugsi yfir mikilli jákvæðni og æðruleysi Freyju og ekki síður hversu eðlilegu lífi hún lifir þrátt fyrir mikla fötlun, það er greinilega allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Hún ætlar að spjalla við okkur kennarana í dag og leiðbeina okkur í umgengni og kennslu fatlaðra framhaldsskólanemenda, hugsa að hún tali við okkur á tærri íslensku og skammi okkur aðeins....

Á morgun ætlum við svo að opna kosningaskrifstofur á Seyðisfirði kl 11 og á Egilsstöðum kl 15. Formaður, þingmenn og frambjóðendur mæta og vonandi fullt af jafnaðarmönnum og tilvonandi jafnaðarmönnum.


Jafnrétti

Varð miður mín þegar ég heyrði enn einu sinni talað um kynbundinn launamun í fjölmiðlum í dag. Tölurnar í hádegisútvarpinu voru sláandi, hvergi meiri munur í Evrópu og munurinn er 28%!!! Hvernig er þetta hægt? Erum við ekki upplýst, nútímasamfélag.... Hvað er eiginlega til ráða? Maður verður hálfvonlaus þegar munurinn er svona mikill og ekkert virðist vera að breytast...

En svo get ég ekki annað en verið glöð og ánægð með hlut jafnaðarkvenna á Norðurlöndunum eftir glæsilegan landsfund Samfylkingarinnar um helgina þar sem þrjár flottar og klárar konur sem eru formenn sinna flokka ávörpuðu okkur og sögðu frá sinni sýn á jöfnuð og jafnrétti. 

Ég get ekki varist þeirri hugsun að frjálshyggjan og einkahyggjan sem hefur stýrt þjóðfélagi okkar í áratugi eigi sinn þátt í slökum árangri í jafnréttismálum. Óbreytt ástand er þeirra styrkur.  En það er ljóst að við svo búið verður ekki unað svo áfram stelpur og strákar, kjósum jöfnuð í vor...


Vor í lofti

Það var beinlínis vorlykt þegar ég kom út í morgun rétt fyrir 8. Held að það sé að vora allsstaðar núna ekki síst í pólitíkinni. Hlakka svoooo til að fara á landsfundinn á eftir og finna vorilminn þar...

Fór á frábæran fund í gær þar sem verið var að kynna nýútkomna skýrslu sem sveitarfélög á Austurlandi hafa verið að vinna um innflytjendur og málefni þeirra. Þar var alltaf talað um verkefni en ekki vandamál, mannauðinn sem fólginn er í innflytjendunum fremur en neikvæð áhrif o.s.frv... er hreykin af því að sveitarfélagið mitt sé aðili að þessari skýrslu. Hana má nálgast á heimasíðu Fljótsdalshérðs, hún heitir "Svona gerum við".


Hagstjórn hægri manna

Hræðsluáróður hægri manna gagnvart hæfni vinstri manna til að stjórna hagkerfi og peningum er ótrúlegur en nær mörgum bláleitum eyrum. Hver hefur heyrt skynsamlegan rökstuðning með þessum áróðri?? Ja ekki hún ég....

Það að Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur sem berst fyrir velferð gerir hann ekki að eyðsluflokki. Það eru nægir peningar til til að halda uppi öflugu velferðarkerfi á Íslandi. Í ráðstöfun fjár gildir sama regla og víðast annars staðar um forgangsröðun verkefna.... jafnaðarmenn vilja jafna stöðu fólks þannig að þeir sem eru vel aflögufærir greiði meira í kassann en hinir minna sem ekki hafa eins mikið, einfalt og sanngjarnt... velmenntaðir jafnaðarmenn geta fullt eins vel passað upp á ríkiskassann og vel menntaðir frjálshyggjumenn. Innstreymis og útstreymisreglurnar myndu bara breytast talsvert til jöfnuðar í samfélaginu, er einhver sem vill það ekki????


mbl.is Gagnrýnir hringlanda og ósamstillta hagstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband