Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Þakkarvert að hafa heilsu

Ég var lasin á sunnudag og mánudag, það er afar sjaldgæft að ég mæti ekki í vinnu vegna veikinda, en ég treysti mér ekki í vinnuna á mánudaginn, iður mín voru í uppreisnarhug og vældu ámátlega án þess að vilja endilega selja upp eða niður.... Mætti í vinnu í gær - en var hálfræfilsleg, dreif mig samt með félögum mínum í bæjarstjórninni í heimsókn til kollega okkar á Djúpavogi, sá ekki eftir því, það er gaman að koma á Djúpavog, þar eru menn bjartsýnir og stórhuga og sveitafélagið er í bullandi uppsveiflu.  Gerði mér grein fyrir því að heilsu var náð þegar ilmandi súpa var á borð borin í Hótel Framtíð, ég var svöng og borðaði með bestu lyst.  Í dag dreif ég mig svo í ræktina, vinnuna og á bæjarstjórnarfund þar sem fjárhagsáætlun var til fyrstu umræðu og er ég bara nýkomin heim af maraþonfundi.  Tveir ásteitingarsteinar urðu tilefni mikillar umræðu - boðað eignarnám á landi til tjaldstæðisnota og Sláturhúsið, menningarhús.  Menn skildu þó glaðir og ljóst er að mikil samstaða er um fjárhagsáætlunargerðina í heild sinni og gleður það mig mjög - þetta er jú frumraun mín sem forsvarsmaður í þessari deild.

Karen Rós litla ömmustelpan mín var hjá okkur um helgina, sannkallaður sólargeisli, á yndislegum aldri þar sem málið þroskast dag frá degi, söngtextar eru að lærast og svo fengum við að upplifa það með henni að bleyjan er að hverfa og klósettferðir voru tíðar - allir sem nýttu snyrtinguna þessa helgi voru "dulleg depa".

Mér líður eins og nýhreinsuðum hundi og man sennilega eftir því í nokkra daga að þakka fyrir að vera hraust og hafa fulla starfsorku. Takk, takk, takk....


Haustönn að ljúka

Nú sit ég í viðtalsherbergi Menntaskólans á Egilsstöðum og bíð eftir að umsjónarnemendur mínir mæti í viðtöl.  Þessar elskur eru ekki þau minnugustu..., mér sýnist eintak númer þrjú vera að gleyma sér... Ég er umsjónarkennari nemenda á Almennri braut, þar stunda nám krakkar sem hafa lent í einhverjum vandræðum með samræmdu prófin í fyrravor, eða ekki stundað námið sérstaklega vel síðasta vetur.  Þau eru öll afar skemmtilegar persónur, afar ólik, gefandi en um leið krefjandi og eiga það sammerkt að það verður að fara að þeim með góðu, skammir duga afar takmarkað, en það að tala við þau af virðingu og vinsemd virkar undantekningarlaust vel, stundum þarf að nota þessar aðferðir oftar en einu sinni til að ná árangri en þær virka...

Þessir krakkar eru margir afar hræddir við próf, því þau hafa slæma reynslu af prófum, svo næstu vikur munu fara í að undirbúa þau í rólegheitum fyrir próftöku svo þau sýni örugglega hvað í þeim býr á lokaprófinu í desember.

En nú er kominn tími til að fara að kenna stærðfræði - megið þið eiga góðan dag.


Lífið er hverfult

Þegar einstaklingur eins og Sigurður Grétarsson, bæjarfulltrúi og bæjarráðsmaður á Fljótsdalshéraði fellur skyndilega frá í blóma lífsins vakna óneitanlega margar hugsanir. Sigurður og fráfall hans hefur verið mér ofarlega í huga frá því að við fréttum lát hans á mánudaginn - sérstaklega í dag því það var fyrsti bæjarráðsfundurinn án hans í dag.  Sigurður var talnaglöggur og góður íslenskumaður sem gat oft yddað yrðinguna í bókunum, það er eftirsjá að Sigurði - ég votta fjölskyldu hans samúð mína, þeirra er missirinn mestur.

Við ótímabært fráfall samferðamanns fer hugurinn á fulla ferð - það er greinilega ekkert gefið í þessu lífi og því afar mikilvægt að nýta tímann og njóta lífsins og lystisemda þess á skynsamlegan hátt.  Verðmætamatið fær líka endurskoðun - fólk verður meira virði en áður og því mikilvægt að verja tímanum í samskipti við þá sem manni þykir vænt um frekar en að hlaupa á eftir hlutum sem eru lítils virði þegar upp er staðið. 

Lífið er of stutt til að vera með eitthvert kjaftæði, njótum og berjumst fyrir því sem við trúum á.  Þakklátur samborgari sem maður víkur góðu að er meira virði en flest annað. Samverustundir með börnunum skila sér margfalt, umönun aldraðra vina sömuleiðis - fólkið í kringum okkur er öflugasta auðlindin.


Réttur sérhvers barns

Tek ofan fyrir Dögg Pálsdóttur.  Þegar foreldrar barns treysta sér ekki lengur til að búa saman og ákveða að skilja ætlar örugglega hvorugt þeirra að skilja við barnið sitt en það verður samt raunin alltof oft.  Þyrfti "kerfið" ekki að tryggja örugga umgengni barns við foreldra? Tryggingin þarf að vera svo örugg að brot leiði til viðurlaga.

Ég beið alltaf eftir barnakaflanum þegar ég skildi. Presturinn minntist ekkert á börnin og sýslufulltrúinn ekki heldur - en það var svolítið talað um peninga..., kannski endurspeglun á samfélaginu Íslandi???


mbl.is Sameiginleg forsjá kostur fyrir dómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðiskostnaður

Ýmislegt hefur fengið mig til að velta vöngum yfir húsnæðiskerfinu á Íslandi.  Mér finnst það sjálfsögð mannréttindi að fólk hafi öruggt íbúðarhúsnæði til ráðstöfunar.  Að eiga, leigja, kaupleigja - formið er ekki aðalatriði - en öruggt húsnæði til íbúðar fyrir fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum er aðalatriði.  Á Íslandi vill fólk eiga sitt húsnæði. Nýjar upplýsingar sýna að það er þriðjungi dýrara fyrir fólk að eignast húsnæði nú en fyrir þremur árum síðan - vextir eru nú komnir yfir 6% - og verðbæturnar eru alla að drepa.  Mér finnst sjálfsagt að bankar og lánastofnanir fái eitthvað fyrir sinn snúð en eitthvað er farið úr böndunum í þessum málaflokki - hver skyldi þora að ráðast á meinið??? Er fegin að mitt fólk er í ríkisstjórn og treysti því til að greina vandann og vinna síðan markvisst að úrbótum.

Ég veit aðeins hvernig húsnæðiskerfið er í Noregi - þar þykir það sjálfsagt að lána fólki til íbúðarkaupa á afar sanngjörnum kjörum þar þykir öruggt íbúðarhúsnæði sjálfsögð mannréttindi.  Lærum af Norðmönnunum....

Nú er ég stödd í höfuðborginni - litla dótturdóttir mín situr með móðursystur sinni, litla barninu mínu og þær horfa á morgunsjónvarpið.  Mikið sem það er gaman að koma til Reykjavíkur - næstum eins gott og að fara þaðan aftur...., í dag ætlum við mæðgur að skoða hvaða varning má höndla svona þegar jólin nálgast óðfluga..., á morgun ætla ég svo að sitja flokkstjórnarfund Samfylkingarinnar og síðan aðalfund sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar.  Á mánudag og þriðjudag er svo Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna svo pólitíkin verður allsráðandi næstu daga.

En í dag ætla ég bara að vera mamma og amma, þetta ömmuhlutverk er nú alveg frábært - Karen Rós er á frábærum aldri, málið þróast dag frá degi, greinilega svolítið flókið að amma er allt í einu amma en ekki ömmu eftir að vera alltaf að tala við ömmu í símann.... flókin þessi fallbeyging..

En nú ætla ég að fara að knúsa þessar stelpur mínar og njóta þeirra og höfuðborgarinnar.  Megið þið eiga góða helgi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband