Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Útskrift og veðurblíða

Menntaskólanum á Egilsstöðum var slitið í gær, í einstakri veðurblíðu, 42 stúdentar voru útskrifaðir og 1 af starfsbraut sem er námsbraut fyrir nemendur með þroskahömlun.  Í fyrsta sinn útskrifaðist nemandi af hraðbraut skólans, ung dama gerði sér lítið fyrir og lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut, á þremur árum, með 9,20 í meðaleinkunn. Hún er alltaf hálftregafull þessi kveðjustund - þó gleðin sé við völd yfir loknum áfanga, er horft á eftir föngulegum hópi sem hefur verið hluti af skólasamfélaginu og sett á það sitt mót í þrjú til fjögur ár... Það verður til dæmis verulegur sjónarsviptir af honum Kristbirni, starfsbrautarnemandanum sem var að útskrifast, hann er engum líkur í háttum og tilsvörum, hans verður saknað af kennarastofunni svo oft var hann búinn að skemmta okkur ...

Ég var reyndar fyrst og fremst í mömmuhlutverkinu í gær - því eins og ég er nú búin að minnast á í einhver skipti var englabossinn minn hann Guðmundur Þorsteinn að útskrifast í gær.  Það voru auðvitað mikil hátíðahöld í rúman hálfan sólarhring - það dugar ekkert minna fyrir svona englabossa.  Það var byrjað með útskriftinni kl 14, kaffi í Menntaskólanum eftir hana - myndataka þar á eftir og svo veisla heima eftir það og svo þegar fjölskyldan fór að fara heim, fylltist íbúðin af þessum flottu krökkum, sem þurftu aðeins að stilla saman strengi fyrir ball - ótrúlega flottir krakkar vinir og vinkonur hans Guðmundar - ég fyllist stolti yfir æsku Íslands þegar ég horfi yfir þennan hóp, þau eru, eins og reyndar flest ungmenni - mannvænleg og fínir krakkar - kurteis og skemmtileg -  kát og hress - klár og skapandi - já og svo má bæta við einhverjum fleiri jákvæðum lýsingarorðum....

Svo var auðvitað komið í snarl eftir ball - gleðskapnum lauk endanlega um 8 leytið í morgun..., allir glaðir og ánægðir - en kannski örlítið þreyttir...

Ég er þakklát fyrir að eiga þessa flottu krakka - þau eru heilbrigð og vel af Guði gerð - fyrir slíkt þarf maður að muna að þakka mörgum sinnum á dag...

utskri


Íbúalýðræði

Var að koma af fundi um fyrirhugaða reiðhallarbyggingu á Stekkhólmasvæðinu.  Vallamenn fengu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri, flestir þeirra sem tjáðu sig voru á þeirri skoðun að það væri farsælt að byggja reiðhöllina við félagsheimilið Iðavelli.  Rekstur beggja húsanna ætti að verða betri með þeirri samnýtingu sem næst með nábýlinu.

Ég held að þegar íbúar fái tækifæri til að tjá sig um mál sem á þeim brenna og tengjast þeim verði ákvarðanir mun farsælli og almennt náist um þær samstaða og ánægja...

Var því ánægð með kvöldið - það er líka alltaf svo frábært að vera á Iðavöllum.

Langt síðan ég hef bloggað - var í Reykjavík að fara yfir samræmt próf í stærðfræði - fróðlegt og lærdómsríkt.  Samræmd próf - gagnleg - vonlaus - illa nýtt upplýsingaveita??? Hvert er samræmið milli samræmdra prófa og einstaklingsmiðað náms??? Gæti skrifað langt mál - læt spurningar nægja í bili...

Átti góða daga í Reykjavík - maí í Reykjavík er frábær - þó veðrið hafi ekki verið upp á það allra besta þessa 10 daga sem ég dvaldi í höfuðborginni, var yndislegt að vera í borginni þessa daga...

Næstu daga snýst lífið um útskrift englabossans - frumburðurinn og barnabarnið komnar austur, á morgun á að baka og þrífa auk þess að kíkja á ársfund Byggðastofnunar.  Gelgjan mín er á Mývatni og kemur á morgun - skrýtið að hafa hana ekki heima....

 

 


Að taka lífinu hæfilega alvarlega...

Á síðustu dögum hef ég rekist á viðtöl við skemmtilegar og klárar konur.  Eftir lesturinn situr eftir í mínum kolli áherslan á það að þora að njóta augnabliksins og taka lífið ekki allt of hátíðlega. Kannski hef ég lesið þessar áherslur út úr orðum þeirra því þær henta mér.

Eftir því sem ég eldist og læri meira af lífinu, um lífið, verð ég sannfærðari og sannfærðari um að mikil lífsgæði eru fólgin í því að þora að njóta þess sem lífið býður upp á, þora að taka áhættu og þora að hlæja - ekki síst af mistökunum sem maður óhjákvæmilega gerir.

Sem kennari nýt ég þess að fíflast dálítið í nemendum mínum og með þeim, vona að það geri sumum þeirra stærðfræðina bærilegri og auðveldari, það gerir kennsluna allavega að spennandi starfi...

Sem pólitíkus er ég alltaf að læra eitthvað nýtt,  stöðugt einu skrefi á undan sjálfri mér, þar þarf ég að taka ákveðna áhættu því ég þekki ekki öll mál, en með því að kynna mér þau og ræða þau og nýta þá framtíðarsýn sem ég hef fyrir sveitarfélagið mitt með tilfinningar hugsjónarinnar að vopni, nýt ég þess að vinna í pólitík.

Í gær naut ég þess að vera með krökkunum mínum - við erum öll í borginni - náðum Jóni Matthíasi með í hádeginu í gær - rosalega langt síðan ég hef verið með þeim öllum - horfði stolt yfir hópinn minn, hugsaði um þær stundir sem áhyggjurnar yfir þeim stóru voru mann lifandi að drepa, vona að það viðmót sem þau mættu þegar þau lentu í erfiðleikum hafi átt sinn þátt í að  gera þau að frábærum einstaklingum og áhugasömum eldhugum í því námi sem þau hafa valið sér.

Guðmundur var dressaður upp frá toppi til táar - stúdentsprófið í höfn, útskrift með tilheyrandi hátíðahöldum 24. maí. Englabossinn minn fer að fljúga úr hreiðrinu líka...

Gelgjan mín verður bráðum ein eftir - við náðum frábæru spjalli í bílnum á leiðinni suður - hún er líka að verða fullorðin - hugsunin er þroskuð þó orðfarið geti stundum farið með mann.... en við hlógum mikið og hún komst að þeirri niðurstöðu að mamma hennar væri auðvitað hundgömul en nothæf eigi að síður...

En nú bíða samræmdu stærfræðiprófin eftir mér í þúsundatali..., megið þið eiga góða hvítasunnuhelgi með tilheyrandi hlátrasköllum og skemmtilegheitum...


Vorkvöld í Reykjavík

Náði að upplifa tvö yndisleg vorkvöld á Höfuðborgarsvæðinu í fyrstu maíferðinni.  Það fyrra við fjörðinn fallega, drakk kvöldkaffi úti með mömmu og horfði til Snæfellsness, ekkert sérstaklega ljótt né leiðinlegt.

Seinna kvöldið var við sundin blá, í félagsskap skemmtilegra skólasystra úr sérkennslunáminu fyrir norðan, við verðum allar fallegri, skemmtilegri og vitrari með aldrinum og reynslan og þekkingin sem þessi hópur býr yfir eru einstakar - mér fannst mjög gaman að heyra hversu margar okkar taka sig ekkert sérstaklega hátíðlega og eiga auðvelt með að sjá spaugilegar hliðar lífsins og starfsins.

Ég gat líka séð rómantíkina í því að vera úti í Reykjavíkurnóttinni að reyna að finna leigubíl ... og ekki síður að finna skógarilminn í Öskjuhliðinni á laugardaginn, sjá birkið vera að springa út og mannlífið blómstra í vorblíðunni.

Vorið er yndislegur tími - en óneitanlega er skemmtilegra að veðrið sé vorlegt...

Sumarið á Fljótsdalshéraði er annar yndislegur tími sem fær sína verðskulduðu umfjöllun síðar.


Hátíðisdagur

Þegar ég var krakki man ég eftir að hafa spurt af hverju búðin okkar væri alltaf lokuð á afmælinu hennar ömmu, 1. maí, lengi var mér nú sagt að það eitt og sér væri nú fullgild ástæða þess að loka öllu og flagga - enda amma afar merkileg kona.

En þegar árum mínum fjölgaði var útskýrt fyrir mér að þessi dagur væri baráttudagur verkalýðsins, ekki okkar dagur því við værum sjálfstæðir atvinnurekendur. En þegar ég fór að spjalla við ömmu um málið, kom annað sjónarmið í ljós, hún sagðist vera afar stolt af því að vera fædd þennan dag og  þó hún væri ekki dugleg að sækja fundi eða ganga göngur fyrir bættum kjörum bæri hún mikla virðingu fyrir þeim sem það gerðu og ég skildi gera það líka og jafnvel verða virk í þessari baráttu þegar aldurinn færðist yfir mig.  Ég hef nú ekki verið neitt sérstakleg virk á þessu sviði - en dugleg að sækja fundi...

Það er nauðsynlegt að minna sig á það reglulega að barátta fyrir réttlætismálum á að vera manni blóð borin og hluti af sjálfsmynd manns.

 Verð alltaf jafnglöð þegar börnin mín fá þau ummæli að þau séu stjórnsöm og með sterka réttlætiskennd.  Guðbjörg Anna var í foreldraviðtali í vikunni þar sem Karen Rós fékk nákvæmlega sömu umsögn og mamma hennar fékk frá 1. -  10. bekk - stjórnsöm en með sterka réttlætiskennd, tilbúin til að verja vini sína með kjafti og klóm... sterk gen sem greinilega eru ekki að þynnast út...

Vona að sanngjörn barátta launafólks fyrir bættum kjörum beri árangur - hún á fyllilega rétt á sér á tímum þar sem launabilið eykst stöðugt og umönun peninga og peningatengdra verkefna kallar á mánaðarlaun sem eru fáheyrð og myndu duga venjulegri fjölskyldu til ársframfærslu.  Umönun fólks aftur á móti kallar á laun sem eru fáheyrð fyrir lága krónutölu...

Til hamingju með daginn, launafólk

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband