Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Jón Bergsson látinn

Jón Bergsson, bóndi á Ketilsstöðum á Völlum, lést á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum aðfararnótt miðvikudagsins 23. júlí.

Börnin mín hafa því misst eina afann sem þau hafa þekkt.

Við vitum að það var gott fyrir hann að fá hvíld frá erfiðum veikindum en í eigingirni okkar söknum við hans.

Jón var litríkur persónuleiki sem lék eitt af aðalhlutverkunum í lífi barnanna minna, þau voru svo heppin að eiga afa og ömmu í sveitinni sem sinntu þeim mikið og gáfu þeim tíma sinn og athygli.  Til dæmis voru afasögur nauðsynlegar þegar þau lögðu sig með honum eftir matinn. Reiðtúrar með afa voru annar ríkur þáttur í lífi þeirra. Svo tók hann auðvitað þátt í að ala þau aðeins upp þegar hann taldi þörf á því...

Við erum þakklát fyrir ljúfar og hlýjar minningar og vitum að minning hans mun lifa.

Starfsfólkið á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum er búið að vera yndislegt allan þann tíma sem Jón hefur verið þar, en alveg sérstaklega þessar síðustu vikur, sem hann var veikastur - notalegheitin hafa verið einstök - þarna vinnur hver gullmolinn öðrum betri.... þau eiga óskerta virðingu mína og þakklæti fyrir óeigingjarnt starf og yndislegt viðmót.


Uppeldi

Lenti í því í gærkvöldi að vera alvarlega ósammála manni um uppeldisaðferðir.  Er hugsi eftir átökin.  Veit að ég hef ekki alveg alltaf rétt fyrir mér - en ég er nokkuð viss í þessu tilviki Wink

Mér finnst að maður eigi að ræða við barn um það sem manni finnst athugavert í hegðun þess en ekki um það yfir hausinn á því....

Svo er lykilatriði að skilja hegðun frá persónu - krakkar eru oft að gera vitleysur og þurfa leiðsögn og skammir til að vita hvar rammarnir liggja..., en það á að skamma þau fyrir það sem þau gerðu vitlaust án þess að ráðast á persónu þeirra og gera lítið úr henni...

Börn þurfa að hvíla í þeirri fullvissu að foreldrar þeirra elski þau skilyrðislaust hvað sem á gengur, það þýðir ekki að það megi ekki skamma þau..., það þýðir að foreldrar þurfa að vanda sig við aðferðafræðina.  Börn eiga ekki að þurfa að vera þakklát fyrir hvert viðvik sem foreldrarnir gera fyrir þau, en það er hlutverk foreldra að kenna börnum sínum að vera þakklát almennt fyrir lífið sjálft og allt sem það hefur upp á að bjóða.

Það er hlutverk okkar foreldra, að hjálpa börnunum okkar til að búa sér til sterka og jákvæða sjálfsmynd svo þau viti að þau geta það sem þau ætla sér og að það sé auðvelt að gera það án þess að valtra yfir aðra, því með því að meta sjálfan sig er svo miklu auðveldara að meta aðra að verðleikum líka. 

Sterk sjálfsmynd og sjálfsvitund er lykilatriði í lífi fólks - og ég held að það sé sérstaklega mikilvægt að unga fólkið okkar eigi þessa sterku mynd af sér, því líf þeirra er oft flókið og áreitin mörg, maður þarf að vera sterkur til að þora að segja nei við óæskilegum áhrifum og velja frekar þau jákvæðari.

Það er gott að vera í sumarfríi og hafa tíma fyrir börnin sín, mín þurfa allavega sitt þó þau sér 23, 20 og 13...

 


Júlí langt kominn, ég orðin fimmtug, en hátíðahöldum frestað...

Nú er langt síðan ég hef bloggað..., ég fór með börnunum mínum á landsmót hestamanna á Hellu sem stóð yfir 30. júní - 6. júlí.  Berglind Rós var að keppa í barnaflokki á henni Myrkvu og gekk svona ljómandi vel.  Fyrst komst hún í hóp 30 bestu á þriðjudegi, þá í hóp 15 bestu á fimmtudeginum og á laugardagsmorguninn var ljóst að hún endaði í 10. sæti af 96 keppendum.  Fjölskyldan er afar stolt af prinsessunni sem kom okkkur öllum, og ekki síst sér, þægilega á óvart með þessu góða gengi.  Það er alltaf rosalega gaman að fara á hestamannamót, maður hittir margt skemmtilegt fólk, sér frábæra hesta og fjölskyldan er saman frá morgni til kvölds.

Landsmótssunnudaginn varð svo Jónína fimmtug, um miðnætti var sungið hressilega fyrir mig og eitt augnablik þurfti ég aðeins að átta mig - ég var í alvöru orðin fimmtug - en það að ég dreif alla með mér á Hjálmaball í tjaldinu sannaði fyrir mér að andinn er enn hress þrátt fyrir háan aldur..., Steini Hjálmakarl gerði svo daginn enn hátíðlegri með fallegri afmæliskveðju af sviðinu. Steini er alinn upp á Hallormsstað var þar nemandi minn og nágranni.

En í lífinu skiptast á skin og skúrir, ljóst er að verulega er nú dregið af Jóni Bergssyni, afanum og tengdapabbanum, á þessum bæ svo við ákváðum að drífa okkur heim um miðjan dag á mánudegi til að geta átt tíma með honum og fjölskyldunni. Guðbjörg Anna kom svo með flugi á þriðjudaginn og á þriðjudagskvöld var ákveðið að fresta afmælisveislunni sem vera átti á föstudagskvöldið í tilefni af fimmtugsafmæli mömmunnar á heimilinu.  Það er verra að vera með hátíðahöld í skugga kveðjustundar, svo ákveðið var að njóta kveðjustunda þessa vikuna og halda afmælið í ágúst þegar betur stendur á.  Vona ég að þið sem þetta lesið látið fréttina um frestunina berast fyrir okkur... 

Og svo held ég að sumarið sé að koma á Héraðinu...

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband