Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Sparisjóðir

Það er tekist á um mörg mál á vettvangi Alþingis þessa dagana - og flest hafa þau að minnsta kosti tvær hliðar og enn fleiri fleti.

Eitt þeirra er málefni sparisjóða sem í upphafi voru fyrst og fremst sparisjóðir minni byggðalaga sem áttu ekki sama aðgang að fjármagni og hin stærri.  Fólkið í byggðalaginu lagði fé í sjóðinn - svokallað stofnfé og slóg tvær flugur í einu höggi - ávaxtaði fé sitt og studdi við fólk og fyrirtæki heima fyrir - þá var sparisjóðurinn gjarnan helsti styrktaraðlil æskulýðs - og menningarstarfsemi.  Enn á þetta við á nokkrum stöðum - en því miður eru aðrir sparisjóðir í vandræðum ekki síst vegna þess að þeir lögðu af stað í kapphlaupið mikla um skjótfengin gróða, stofnfjáreigindur juku stofnfé sitt, sumir fyrst og fremst til að fylgja straumnum og hvatningu misvísra ráðgjafa sinna - en aðrir í meðvitaðri gróðavon, aðrir seldu stofnfé sitt útrásarvíkingum sem riðu um héruð með gilda sjóði, þó það hafi í upphafi alls ekki verið ætlunin og beinlínis bannað á sumum stöðum. 

Í nýrri löggjöf sem lögð verður fyrir þingið á morgun um sparisjóðina er margt gott og óumdeilt eins og heimild til samstarfs sjóðanna um ýmis verkefni sem getur gefið mikla hagræðingu í rekstri - en  umdeilt atriði er leyfi til að niðurfæra stofnfé til að mæta tapi nú í endurskipulagningu og endurfjármögnun sjóðanna, en slíkt getur valdið gjaldfellingu á miklum skuldum einstaklinga, fyrirtækja og stofnanna sem alltaf er afar vont mál.

Slíkt verður þó að teljast eðlilegt þegar nýtt stofnfé ríkisins kemur inn í sjóðina til að mæta tapi og neikvæðu eigin fé - alls ekki er verið að tala um að niðurfæra stofnféð niður í núll -  vonandi verða þessar aðgerðir til að hægt verði að bjarga sjóðunum og þannig hægt að taka til við hið góða starf þeirra á ný - fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.

Sum samfélög fara ver út úr þessari niðurfærslu en önnur og verður þá að skoða þau mál sérstaklega.

Allar ákvarðanir sem maður tekur hafa bæði kosti og galla - slíkar ákvarðanatökur eru hlutskipti ábyrgra pólitíkusa sem leita sér leiðsagnar og taka síðan ákvörðun samkvæmt sinni bestu samvisku.


Ferðast innanlands

Það virðist strax vera að koma í ljós að landinn hefur ákveðið að ferðast um eigið land þetta sumarið - það er frábært til þess að hugsa að ferðaþjónustan vítt og breitt um landið mun vaxa og dafna við þá ákvörðun. 

Ég var uppi á Hallormsstað í gærkvöldi og þar var tjald við hjólhýsi í Atlavík og upplifunin var svipuð og þegar ég fór í Evrópuferð með vinum mínum sumrin 1980 og 1981 - þar sem gist var á hinum ýmsu tjaldstæðum í mörgum löndum - stuttbuxur og stuttermabolir um sjöleytið minntu óneitanlega á útlönd.

Ég var á ferð með norrænum vinum sem voru hér á vinabæjamóti og það var gaman að vera með þeim í að upplifa Ísland, náttúru, sérstöðu og íslenskt lambakjöt hjá Þráni á Hótel Hallormsstað.  Þessir norrænu vinir yfirgáfu síðan Fljótsdalshérað í dag og ætluðu aðeins að skoða höfuðborgina áður en þeir héldu heim á leið - maður finnur óneitanlega fyrir því hversu tengdur maður er hinum norrænu þjóðum - við eigum svo margt sameiginlegt og hugsum á margan hátt líkt - þessi tengsl má ekki vanrækja.

Ég er búin að sitja í kvöld og undirbúa mig fyrir þingið í næstu viku - það er margt að setja sig inní og lesa - auðvitað misspennandi en allt áhugavert og mikilvægt.

En til að ná mér niður ætla ég að lesa annað en frumvörp og nefndarálit - er að byrja að lesa Rán eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur og líst bara mjög vel á.

Veðrið í dag er búið að vera himneskt - hlýindi í allan dag - aðeins skýjafar og logn framan af degi - eins og það gerist best - enda hefur freknum fjölgað og aðeins hiti í húð.

Hlakka til að takast á við vinnuvikuna - en finnst aðeins vont að geta ekki tekið hið vinnandi örverpi með mér suður á mánudagsmorgnum - en hún tekur vinnuna sína í Hestaleigunni á Hallormsstað afar hátíðlega svo við björgum málum með stóra bróðir við stýrið og annað gott fólk til aðstoðar - það verður óneitanlega gott að komast í frí einhverntíma í júlí.


mbl.is Enn mikil umferð til borgarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlustað á kjósendur

Af fáu hafa þingmenn eins gott og því að fara til kjósenda sinna og eiga við þá samræður.  Nú stendur yfir fundaherferð Samfylkingarinnar um landið og ég var svo heppin að fá að fara til Grundarfjarðar í gær og til Dalvíkur í dag. 

Ég var heilluð af náttúrufegurð Snæfellsnessins sem skartaði svo sannarlega sparifötunum fyrir okkur Ólínu Þorvarðardóttur samflokksþingkonu minni úr Norðvestrinu og frænku barnanna minna - en hún var félagi minn í Grundarfjarðarferðinni  - við fórum yfir það helsta sem um er að vera í þinginu og síðan svöruðum við spurningum fundarmanna sem mest snerust um Icesave, skuldastöðu heimilanna, lýðræði og heiðarleika.  Frábær fundur á yndislegum stað. 

Við Ólína ókum síðan suður aftur í morgun og fórum á okkar fundi og síðan flaug ég til Akureyrar síðdegis og staldraði við hjá Sigrúnu vinkonu minni sem ætlar að hýsa mig í nótt.

Ég sótti varaformanninn á flugvöllinn og við brunuðum til Dalvíkur - alltaf jafn gott að koma til Dalvíkur - myndarlegur og skemmtilegur bær - Sigmundur Ernir var með framsögu á Dalvík og við Dagur sátum fyrir svörum - þar brunnu aðallega þrjú mál á mönnum - hrikaleg dýrtíð - skelfileg neikvæðni fjölmðla og sparisjóðafrumvarpið - við spjölluðum um þessi mál og fleiri og ég fór ríkari af fundinum en ég kom - langt síðan ég hef verið með svona jákvæðu fólki.

Ég ætla rétt að vona að við höldum áfram að vera dugleg að ferðast um og hitta fólk - það er það albesta við þingmannsstarfið Smile


Facebook

Upplifði það í gærkvöldi að varlega þarf að fara í skrif á facebookinni ef maður vill ekki láta fjölmiðlana elta sig...

Skrif mín um að ég hafi orðið skíthrædd í nokkrar mínútur í flugvél yfir Fljótsdalnum þóttu fréttnæm á netmiðli okkar hér á Austurlandi - ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta ekki fréttnæmt nema bara fyrir mig  Smile og ég er nú með svo mikla aðlögunarhæfni að ég var nú búin að jafna mig þegar ég var komin með töskuna út í bíl...

En ég var ánægð með að þurfa ekki að fara með vélinni suður aftur - hugsa að ég hefði beðið um að kíkt hefði verið á hreyfilinn sem ég sat næst til að vera alveg róleg.

Kannski er maður líka svo viss um að nokkuð bjart sumarsíðdegi sé ekki vettvangur svona óróleika í háloftunum og því ekki viðbúin látunum.

En ég mun skrifa varfærnislegar á facebook - og vona að Gunnar vinur minn sé bara til í að spjalla við mig um upplifun mína sem nýs þingmanns eða annað í þeim dúr þegar hann vantar efni á hina frábæru síðu Austurgluggans.

En nú ætla ég að skella mér í sundlaugina og svo er það hinn frábæri Skógardagur á Hallormsstað eftir hádegið - megið þið eiga góðan dag.


Eðlilegt samhengi

Mér finnst merkilegt að fylgjast með því hversu auðveldlega margir þingmenn stjórnarandstöðunnar taka hluta máls úr samhengi og nýta þennan hluta til að finna höggstað á málstað stjórnarinnar sem er þó fyrst og fremst í því að finna lausn á vanda sem  var skapaður  í stjórnartíð stjórnarandstöðuflokkanna í góðærinu.  Það að ala á ótta um að við séum að fórna fiskimiðum og orkuauðlindum með samningum um Icesave er beinlínis ljótt og ekki til þess fallið að telja kjark í þjóðina  - því ekkert slíkt er inni í myndinni, túlkunin er afbökun af verstu gerð...

Nú sit ég og hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar um frumvarp um kjararáð, innihald þess er það að engin laun hjá ríkinu verði hærri en laun forsætisráðherra.  Stjórnarandstaðan setur sig upp á móti þessu - talar um lýðskrum og hættu á landflótta - landflóttinn kann að vera hætta - en íslenska ríkið hefur bara ekki efni á því að greiða hærri laun núna og getur ekki verið þekkt fyrir það um leið og það vinnur að samningi um takmarkaðar launahækkanir á almennum vinnumarkaði og skerðir jafnvel kjör lífeyrisþega og öryrkja.

Eitt frammíkallið sem ég greindi áðan þegar fjármálaráðherra var að kalla eftir samstöðu um ábyrga afstöðu í ríkisfjármálum - en við erum nú í stjórnarandstöðu - segir mikla sögu - stjórnarandstaðan telur elilegt aðhald sitt við stjórnarliðana felast í því að vera nær sífellt fúll á móti...

En allt er þetta hið ágætasta fólk sem í raun er á þingi til að vinna þjóðinni sem mest gagn - hin sterka hefð fyrir því að stjórn og stjórnarandstaða séu nánast andstæðir pólar virðist bara vera afar föst í sessi - en ég vildi að við gætum oftar tekið höndum saman á þessum erfiðu tímum...

En núna ætla ég að gista á Hótel Mömmu í nótt og vera til í slaginn aftur í fyrramálið


Að mörgu að hyggja

Það eru mörg stór úrlausnarefni í gangi í flóknu þjóðfélagi dagsins í dag.  Icesave, Evrópusambandið, Heildarsparnaðaraðgerðir ríkisins, Endurskipulagning bankakerfisins, Endurskipulagning fiskveiðistjórnunarkerfisins og svo má lengi telja.

Í raun erum við í því að byggja upp nýtt samfélag, borga skuldir þess gamla, finna okkur formlega samstarfsfélaga svo við eigum trygga bakhjarla í endurreisninni og byggja upp nýtt peningamálakerfi þar sem reynt er að koma í veg fyrir nýtt loftbóluskot, endurreisa atvinnulífið með nýjum leikreglum og finna allar leiðir til að spara og hagræða - helst án þess að fækka störfum og skerða þjónustu.

Verkefnið er risavaxið - og hægt að detta niður í dúndrandi svartnætti við tilhugsunina eina - en við skuldum þjóðinni að detta ekki í það far - við eigum að bretta upp ermar og vinna og vinna, við endurreisn - ekki við að stoppa í göt á ónýtu kerfi sem ekkert hald er í - best væri að hægt væri að allir flokkar ynnu saman að lausnum - en það virðist afar erfitt fyrir hin pólitísku öfl að láta af hinni hefðbundnu tvískiptingu í meiri- og minnhluta - ég vildi að við gætum látið af þrasinu og ynnum saman af því að reisa land og þjóð við.

Ég spurði menntamálaráðherra um framfærslugrunn námslána í dag - finnst óeðlilegt að sá grunnur sé lægri en lágmarksatvinnuleysisbætur - það hlýtur að vera hægt að flytja á milli kerfa og hvetja um leið fólk án atvinnu til að fara í nám.

En ég sit enn á skrifstofunni minni og hlusta á umræður um stjórn fiskveiða og veit ekki hvort ég þarf að mæta í þingsal á eftir til að greiða atkvæði um afgreiðslu frumvarpsins til þriðju umræðu.  Hið virðulega Alþingi Íslandinga er ekki skipulagðasti vinnustaður landsins.... dunda mér við að blogga og afla mér upplýsinga um sparisjóði og fleira á meðan.

 


Neikvæð umræða

Mér finnst vont þegar umræða á erfiðum tímum í lífi íslensku þjóðarinnar er notuð til að gera svartnættið enn svartara en það er og er notuð til að slökkva þá vonarneista sem lifa í þjóðinni um að við munum komast út úr erfiðleikatímabilinu sem við erum í.

Nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn duttu í þann forarpoll í umræðunni í þinginu í dag - málefnanleg umræða um innihald samnings, vaxtaprósentu og fleira er eðlileg og í henni felst hið eðlilega aðhald sem stjórnarandstaða á að veita stjórnvöldum.  En fullyrðingar um að heilbrigðisþjónusta og tryggingakerfi væru að komast á það stig að líf almennings sem veiktist væri í stórhættu stæðum við við skuldbindingar okkar til handa breskum og hollenskum innlánseigendum icesavereikninga.  Hvað ætli þetta sama fólk myndi segja ef Íslendingar hefðu átt slíkar innistæður í erlendum bönkum við svipaðar aðstæður???

Enginn vill í raun greiða þessa rúma 600 milljarða - en - sem þjóð sem vill láta taka mark á sér á alþjóðavettvangi verður að vera trúverðug - það að standa við skuldbindingar er hluti af því. 

Ég get því ekki séð annan möguleika en að borga - en vil um leið að allt sem mögulegt er verði gert til að hámarka eignir á móti, bæði bankans og eigenda hans og alls mögulegs réttlætis verði gætt.

Mér finnst að við sem sitjum á þingi og annars staðar við stjórnvöl eigum að gefa raunsanna mynd af ástandinu um leið og vinnum af því hörðum höndum að finna leiðir til að lágmarka skaðann og mér finnst hlutverk okkar líka vera að tala kjark í þjóðina okkar - óuppbyggilegt svartsýnisraus á ekki heima í okkar munnum.

Var að kaupa mér bókina Hrunið eftir Guðna Th Jóhannesson - kaflaheitin eru ekki mjög upplífgandi: óveðursský, brotsjór, rekald, skipbrot, tundurskeyti, neyðarkall, svikalogn, uppreisn og nýju landi náð?  Síðasta kaflaheitið gefur þó ákveðna vonarglætu. Smile Hlakka til að glugga í hana - held að hún sé á mannamáli.

 


Hver veit hvað er best???

Framkvæmdavaldið hefur tekið ákvörðun um að undirrita samning um uppgjör á illræmdum Icesave reikningum. Ákvörðunin um að gera það hefur ekki verið auðveld eða léttbær - en ábyrg...

Við vorum ábyrgðamenn og skuldin féll á okkur.

Til að byggja upp traust og trúverðugleika Íslands í alþjóðlegu samhengi verðum við að sýna að við ætlum að standa við skuldbindingar okkar, vonandi fyrst og fremst með því að nýta eignir sem til eru og virðast ágætlega seljanlegar.

Við erum öll sammála um að auðvitað ættu hönnuðir þessarra reikninga að bera ábyrgðina og það er hægt að hafa þá skoðun að sparifjáreigiendurnir ættu líka að vera ábyrgir - ávöxtunin sem boðið var upp á á Icesavereikningum var svo há að það hlýtur að hafa vakið grunsemdir um að ekki væri allt sem sýndist.  Ótrúlegt hversu margir létu blekkjast, einstaklingar, fyrirtæki, sveitafélög, breskir og íslenskir eftirlitsaðilar - loftbóluávöxtun með græðgismengaðri frjálshyggjuhugsun gekk vel í marga - með hörmulegum afleiðingum - en það þýðir ekkert annað en að vinna ötullega í tiltektinni eftir frjálshyggjustorminn sem skilur eftir skít í öllum hornum. Við verðum bara að læra af reynslunni....

Ég er búin að eiga góða daga fyrir austan - funda mikið, fara með dóttur minni á skólaslit, fara á minningardagskrá um Hákon Aðalsteinsson á Skjöldólfsstöðum og margt fleira.

Það eru ákveðin forréttindi að fá að lifa lífi sem er skipt á milli landsbyggðar og höfuðborgar og fá að njóta gæða beggja svæðanna.  Hlakka til að fara suður á morgun og takast á við viðfangsefnin þar af heilum hug því stöðugt fleiri lausir endar hér fyrir austan eru að verða hnýttir í ágætis hnúta.

En nú þarf að fleygja folaldakótilettunum á grillið...

 


Heildarmynd

Það er búið að vera yndislegt að vera heima í fríi um helgina, gott að vinna líkamlega vinnu, þrífa íbúð og bíl, þvo þvottinn og elda mat...

Það var ekki skemmtilegt að samþykkja hækkanir á vörugjöldum fyrir helgi sem hækka húsnæðislán landsmanna um 0,5% - en ljóst er að það eru fleiri erfiðar ákvarðanir framundan sem nauðsynlegar eru til að takast á við fjárlagahallann.  Mér finnst verðhækkanir þessarra vöruflokka sérstaklega áfengis og tóbaks í góðu lagi - en geri mér grein fyrir því að eldsneytishækkunin bitnar mest á mínum hópi - fólkinu á landsbyggðinni, það er hópur sem þarf svo sannarlega að eiga sterka málsvara allsstaðar.

Ég vona að heildarmynd sjáist sem fyrst svo almenningur geri sér grein fyrir því að það verða ekki bara álögur á hann sem fylla á í gatið með, heildaráætlun er í smíðum þar sem sparnaður á öllum hugsanlegum sviðum er vonandi meira áberandi en álögur á þegar skuldsetta íbúa landsins.  Þessi sparnaður má þó ekki skerða velferðarkerfið okkar þannig að því blæði á kostnað þeirra sem mest þurfa á velferðinni að halda.

Svo les maður blöðin og sér þar umfjöllun um krosstengsl, arðgreiðslur og loftbólufjárfestingar þar sem upphæðirnar eru vart skiljanlegar venjulegu launafólki og gerir sér grein fyrir því að margur hefur orðið api af aurum sínum og misst vit og siðferði og látið græðgina stjórna sér algerlega - og þjóðin borgar...

Ég er búin að eiga góða helgi með börnunum mínum, finn að þau þurfa mikið á mömmu sinni að halda þá loksins hún er heima..., við fórum og fengum okkur að borða á Gistihúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöldið - frábær matur í fallegu umhverfi hússins sem langafi þeirra er alinn upp í.

Bíll og íbúð þrifin, hjólað um bæinn og keyptur ís og svo grillað læri í gærkvöldi, amman á Ketilsstöðum kom og borðaði með okkur - hefði gjarnan viljað hafa hina ömmuna líka.

Svo er það borgin í kvöld eða fyrramálið og heim aftur á ýmsa fundi á miðvikudag og fimmtudag... lífið er flug....

Njótið þess sem eftir lifir þessarar hvítasunnuhlegar með fólkinu ykkar Smile


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband