Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Væri kannski hægt að fresta áramótunum...

Datt í hug í morgun að það væri nú gott að vera ekki með allar þessar hátíðir á sama tíma... nú dreif ég mig í ræktina í morgun og ætla aftur á morgun og hinn og hinn... en þá er kominn gamlársdagur og sukkið hefst að nýju... já já ég veit alveg að ég get hamið mig en...., það er bara svo leiðinlegt að vera haminn og taminn.... ég var einmitt að ákveða áðan hvernig ég ætla að matreiða hreindýrið og lambið, og datt í hug að hafa frekar forrétt en eftirrétt, því ég veit að mitt matfólk þolir ekki hvoru tveggja, og forréttirnir eru nú allavega sykursnauðari en eftirréttirnir Smile

Við erum búin að hafa það frábært um jólin, fjölskyldubönd hafa verið bundin þéttar með heimsóknum, símtölum og öðrum samskiptaleiðum..., svo erum við kjarnafjölskyldan hér búin að spila svolítið - ég skemmti börnunum mínum ægilega þegar ég var að reyna að leika sögnina að næða..., mér fannst ég stórkostleg en þau héldu illa þvagi og örtröð myndaðist við þetta eina postulín sem er í fínu íbúðinni minni...

En á eftir ætla ég í heimsókn á vinnustaðina mína tvo og athuga málin - ekki að ég nenni að gera neitt af viti - sýni bara lit...

Síðdegis ætla ég svo með krílið á jólaball, mér finnst rosalega skemmtilegt að syngja jólalögin og dansa í kringum jólatré en hefur vantað fórnarlamb til að syngja og ganga með mér í nokkur ár - nú er ég vonandi búin að koma mér upp dansdömu til nokkurra ára....

En kæru vinir ég vona að þið hafið haft það gott um jólahátíðina ....


Jólin eru að koma....

Sit hér við eldhúsborðið mitt og blogga á tölvu lögfræðinemans, því mín er lokuð inni hjá henni og hennar fjölskyldu og maður dirfist nú ekki að vekja neinn á aðfangadagsmorgun...

Nú er aldursskiptingin þannig í minni fjölskyldu að enginn er yfirspenntur svo af verði svefntruflanir samt fá allir í skóinn sem hér sofa. stóra mamman fékk tónlist í sinn rauða lakkskó, flestir aðrir fá náttföt og/eða nærföt - Kertasníkir hefur valið þannig gjafir í skóinn handa þessu fólki í mörg ár.

Hér í eldhúsinu er yndælisilmur af rjúpum og hangikjöti, hvorutveggja var matreitt í nótt, það tilheyrir að vaka frameftir og brasa við jólamatinn á Þorláksmessunótt...

Það verða hvít jól hér á Fljótsdalshéraði, það er fagurt út að líta, jólasnjórinn fegrar trjágróðurinn óneitanlega þó mér hafi líkað vel að geta auðveldlega komist allra minna ferða án hættu á dettingum og næstum dettingum í öðru hverju skrefi.

Ég hugsa oft til þess á þessum morgni ársins hversu sorglegt er að hér í okkar ríka landi eru því miður fjölskyldur sem líða skort og líður illa á jólum.  Það geta auðvitað verið aðstæður sem valda sorg og vanlíðan á öllum heimilum svo sem ástvinamissir, skilnaðir og fleira en því miður eru manngerðar aðstæður líka til, það hlýtur að vera okkar mikilvægasta hlutverk að hlúa að börnum og fjölskyldum þeirra, þar þarf að vinna af alúð og með hverri fjölskyldu til að hún smám saman verði sjálfbjarga, stolt og glöð.

Framundan hjá mér í dag er hvers kyns sérviska eins og að heimsækja ákveðna gamla vini, skipta á rúmum, elda grjónagrautinn og stinga í hann möndlu og fleiri skemmtilegheit.

En kæru vinir ég óska ykkur og ykkar fólki gleðiríkrar jólahátíðar, megi þessi ljóssins hátíð færa ykkur frið og gleði.


Aldursskeið

Ýmislegt er í gangi á aðventunni í minni litlu fjölskyldu.  Við reynum að heimsækja lasinn afa á sjúkrahúsið af og til, afinn á þessum bæ er með heilastarfssemi og húmor í fínu lagi, en var snögglega kippt úr allri líkamlegri virkni fyrir tæpum tveimur árum þegar hann fékk heilablóðfall og síðan krabbamein í lunga með stuttu millibili. Hann er á sjúkrahúsinu hér á Egilsstöðum og það er afar vel um hann hugsað en það hlýtur að vera einkennilegt að vera bundinn við einn sjúkragang eftir áratuga frjálsræði gangandi, ríðandi og akandi, en hann tekur örlögum sínum af miklu æðruleysi.

Í kvöld er gelgjan mín 12 ára svo með partý, 10 krakkar fæddir 1995 eru inni í herbergi að horfa á mynd, borða snakk og drekka gos, verið er að undirbúa pakkaleik og gleðin er við völd - en undirbúningurinn er búinn að vera dramatískur, 12 ára stelpur eru kapítuli út af fyrir sig, dramadrottningar, gelgjur, hormónaboltar - öll þessi hugtök eiga vel við, þegar misskilningur og ofsögð orð valda dramaköstum og geðsveiflum ógurlegum...

Og svo er það dótturdóttirin sem elskar athyglina sem hún fær og hoppar á milli manna til að baða sig í sviðsljósinu sem allra mest og best, eina mínútuna á mamma að gera allt þá næstu amma...

Svona hefur hvert aldursskeið sinn sjarma og sína vankanta..., held samt að tæplega fimmtugar konur séu á góðu aldursskeiði...


Jólastúss

Aðventan er eiginlega eini tími ársins sem ég fæ almennilega húsmóðurtilfinningu.  Frystirinn er að fyllast af gerbakstri, ís, hangikjöti, rjúpum, sörum..., ísskápurinn og bakaraofninn glansandi hreinir, börnin mikið heima því mamman á bænum er heima að stússa...

Nú situr hún Berglind Rós, litla barnið mitt, til að mynda við eldhúsborðið og skrifar á jólakort og pakkar inn jólagjöfum.... hún á að vera að reikna en jólastússið er að hennar mati mun meira aðkallandi, hún sendir 40 jólakort innan skólans og þeim á að skila á morgun svo ekki er seinna vænna að ljúka kortaskrifum...

Ég finn ekki alveg taktinn í jólakortaskrifum ennþá, það er best að reyna sherryaðferðina annað kvöld og athuga hvort andinn hrinur ekki yfir mig....

Við Berglind Rós fórum og keyptum okkur blágreni úr Hallormsstaðaskógi í Barra áðan, það er JÓLATRÉÐ segja börnin mín, furan sem ég keypti í fyrra hlaut ekki náð fyir augum þeirra svo nú mun ekki farið í neina tilraunastarfsemi á þessum vettvangi alveg á næstunni.  Síðan fórum við öll í Ketilsstaði og bökuðum laufabrauð með ömmunni, það er nú alltaf ákveðin jólastemning við laufabrauðsbaksturinn...

Þessi vika verður svolítið pólitísk, þó jólin séu að koma..., Fjáraflsfundur á morgun, bæjarráð á þriðjudag og ýmis mál þarf að afgreiða fyrir jól svo einhver fundahöld verða áfram.

Það er merkilegt hversu flókið getur verið að taka pólitískar ákvarðanir, það eru margir aðilar sem þurfa að koma að málum, hagsmunaaðilar, embættismenn og pólitíkusar og oft þarf að fara nokkrar umferðir í þessu hringsóli..., stundum velti ég fyrir mér hvort við pólitíkusarnir þurfum að vera ákveðnari í skoðunum okkar og stefnu og reka mál hraðar áfram. Að sjálfsögðu á að bera mál undir þá aðila sem málið varðar en það getur komið fram ákveðinn vandræðagangur í ákvarðanatökunni ef hringsólað er of lengi, mér leiðist þetta hringsól og vil að teknar séu vitrænar ákvarðanir eins snemma og hægt er.

Jæja nú er best að fara að sofa svo ég vakni nú í spinningið í fyrramálið 


Feministi eða ekki???

Hef upp á siðkastið velt mikið fyrir mér hvað það sé í raun að vera feministi..., ég hef alltaf talið mig feminista, en sennilega er ég það ekki í raun. 

Umræður um titla eins og ráðherra og jólasveina, skemmtilegt að tala um þessa aðila í sömu setningunni..., hafa vakið furðu mína, ég skil alveg með hausnum um hvað málið snýst, en hjartað segir mér að þessi hugtakanotkun sé ekki það sem málið snýst um til að ná fram jafnrétti í raun.

Ég er mjög ánægð með að vera kona, mér finnst það hlutverk skemmtilegt, mér fannst frábært að fæða börn, vera með þau á brjósti, vera hluti af mæðgum og ömmumæðgum, vera vinkona og ástkona, ganga í kjól og rauðum lakkskóm, mála mig, vera á kafi í pólitík, finnast stærðfræði skemmtileg, vilja gjarnan ráða þar sem ég er og svo framvegis... ég vil fá að vera ég og vera ánægð með það...

Það er nefnilega þetta með sjálfstraustið sem er lykilatriði í jafnréttinu, það að trúa því að maður geti breytt heiminum með orðum sínum og gjörðum, algerleg burtséð frá kynferði og öðrum breytilegum stærðum. Gamlar hefðir sem tengjast annarri samfélagsgerð en þeirri sem við eigum að venjast hafa, að mínu mati, ekkert með jafnrétti að gera.  Það er allt annað mál hvað við gerum með hugtök sem tengjast samfélagsgerð dagsins í dag, þar er sjálfsagt að hafa stöðugt í huga að nú eru karlar og konur hlið við hlið í öllum störfum og þess á að gæta í hugtakanotkun...., en enn er ég hrædd um að það sé ekki það sem hefur úrslitaáhrif á jafnrétti kynjanna..., ég er aftur á móti sannfærð um að það að ala stelpur upp í þeirri trú  að þær geti allt sem þær ætli sér, styrkja þær og sjálfsmynd þeirra stöðugt, það skili sér í jafnréttisbaráttunni.

Ég er greinilega bullandi feministi, bara öðruvísi ... Wink


Aðventugleði

Ég var að koma af tónleikum með Frostrósunum þeim Gunnari Guðbjörnssyni, Heiðu, Heru, Regínu Ósk og Margréti Eir - tónleikarnir voru frábærir og hátíðaskapið svífur nú yfir Egilsstöðum sem aldrei fyrr.  Áhuginn á tónleikunum var þvílíkur að þau fylltu Egilsstaðakirkju þrisvar í dag..., vonandi er þetta forsmekkur af miklum áhuga á svona skemmtunum - því svona aðsókn gerir það mögulegt að fá hvers kyns listamenn hingað til okkar. Það er frábært að komast á svona tónleika í aðdraganda jólanna því tónlistin skapar  sérstakan hugblæ.

Hef annars verið að jólast í dag, keypti aðeins jólagjafir, málaði einn vegg í stofunni, tók vel til í stofunni og sneri öllu við þar - við litla fjölskyldan erum afar ánægð  með stofuna eins og hún er núna...., svo er Berglind Rós búin að gera rískökur og baka eggjahvítukökur svo við erum að komast í jólagírinn..., ég vona bara að allir njóti jólagleði, hvort sem þeir eru nú að stússa í tiltekt og bakstri eða ekki.

Á morgun ætla ég að jólast eitthvað áfram í rólegheitum, undirbúa svo próf á mánudagsmorgun og síðan ætla ég að undirbúa bæjarráðsfund sem verður á miðvikudaginn, þar er stórt og spennandi mál á dagskrá sem er bygging grunnskólans á Egilsstöðum...., það er búið að teikna glæsilegan nýjan skóla sem við erum mjög ánægð með - en eitthvað þarf að ræða málin á miðvikudaginn...

En nú hvíslar engillinn á hægri öxlinni - farðu að sofa - og ég ætla að hlýða honum í þetta skipti.


Prófatími er annatími...

Nú sit ég yfir í prófi - búin að fara yfir allt sem ég get farið yfir, búin að vafra dálítið um netheima, búin að fara fram og ræða við samstarfsfólk mitt um vinnutíma kennara...., svo nú skrifa ég stutta bloggfærslu...

Menntamálaráðherra er eðlilega ekki yfir sig ánægð með niðurstöður Pisa, okkur fer aftur frekar en hitt þó aldrei hafi meira fjármagni verið varið til menntamála bæði hjá ríki og sveitafélögum..., verðum við ekki aðeins að staldra við og taka kúrsinn...., það sem ég held að þurfi að gerast er að allir sem koma að skólabörnunum okkar taki sama kúrsinn, foreldrar, kennarar, ráðamenn, nemendur..., allir vilja gera sitt besta en við verðum að vinna saman og axla ábyrgðina saman, þannig náum við árangri...

Við erum að fara að vinna að skólastefnu hér í mínu heimasveitafélagi - ég hlakka mikið til - þetta er mikilvægasti og dýrasti málaflokkurinn okkar - við þurfum að ná okkur upp úr gömlum, djúpum hjólförum og fara nýjar slóðir þar sem þess þarf..., ekki síður við foreldrar en skólafólkið, það erum við sem eigum börnin og berum ábyrgðina á þeim...., þó við höfum mikið að gera...

En nú þarf ég að fara að hitta nemendur mína sem eru að fara í próf á morgun, ég býð alltaf upp á stærðfræðispjall daginn fyrir próf, svo nú er það algebran sem ræður ríkjum í mínu lífi næstu 3 tímana eða svo... Næ sem betur fer að fara með Berglindi Rós í jólaföndur kl 18, svo ég axli nú mína ábyrgð sem foreldri...Smile


Höfuðborg og jólahlaðborð

Hótel mamma og stóra systir á sama fundi og ég - ég varð bara aftur eins og lítil stelpa og lét ábyrgðina á akstri og fundartíma yfir á Helgu systir og mamma minnti mig á lyfin mín og sagði okkur að fara varlega í hvert skipti sem við fórum út úr dyrunum - ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta notalegt - gott að geta einstöku sinnum slakað á og látið aðra hugsa pínulítið um sig. 

En það er líka ótrúlega gott að vera sjálfstæð kona sem lifi lífinu bara á mínum forsendum og barnanna minna þó ég reyni nú að troða ekki öðrum illilega um tær nema þeir séu alvarlega í vegi fyrir mér...

Við systur vorum á skemmtilegu skólaþingi Sambands íslenskra sveitafélaga þar sem ný lagafrumvörp um skólastigin og kennaramenntun voru kynnt - langflest er þar til bóta en auðvitað er alltaf eitthvað sem maður hefur áhyggjur af þegar verið er að breyta kerfi.

Við skoðuðum auðvitað aðeins jólavarninginn í höfuðborginni og ég var dugleg að kaupa jólagjafir - er búin að kaupa langflestar og pakka mörgum inn, ég elska jólagjafir - ekki síður að velja þær og dunda við að pakka þeim inn en að fá þær...

Ég kom heim um sexleytið og dreif mig í sparifötin og niður á Hótel Hérað í jólahlaðborð með samstarfsfólki mínu í Menntaskólanum, maturinn var góður og félagsskapurinn frábær og ég var södd og sæl þegar ég fór að sofa um miðnættið.

Í dag er ég svo búin að jólast svolítið - hengja upp jólagardínurnar, kveikja á aðventukertinu og dagatalakertinu, taka til í einum skáp og dunda mér... það er óneitanlega notalegt að vita að þó næsta vika verði talsvert annasöm eru rólegheit framundan miðað við það sem verið hefur - sennilega næ ég að njóta þess að skrifa vinum og vandamönnum jólakort þetta árið....

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband