Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Verk að vinna

Fréttirnar af krónunni okkar elskulegu eru ekki spennandi - allt á niðurleið þrátt fyrir belti og axlabönd - stöðugleikinn, sem við þurfum svo á að halda, virðist ekki eiga samleið með henni frú krónu, til þess er hún of illa leikin.  Verðum við ekki að horfast í augu við löskunina og kanna í alvöru hvort við leyfum henni ekki að falla með einhverri sæmd og leitum nýrra leiða?

Mér finnst umræðan um vanda heimilanna skiljanleg, breytingin á högum fólks er ótrúlega mikil á stuttum tíma. Mér finnst samt merkilegt að heyra aftur og aftur að ekkert sé verið að gera fyrir fólkið í landinu, bara 25% hækkun á vaxtabótum hlýtur að segja sitt auk margs annars sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna að hörðum höndum.

Getur verið að við eigum svo erfitt með að sætta okkur við að geta ekki gert allt það sem við gátum - eða gerðum allavega í góðærinu - að þó við komumst ágætlega af viljum við láta rétta okkur aftur árið 2007???  Er óeðlilegt að það sé byrjað að hjálpa þeim sem minnsta möguleika eiga á að hjálpa sér sjálfir? Mér finnst það ekki - eins og mér finnst að það verði að endurskoða húsnæðislánakerfið alveg frá grunni þegar neyðarhjálpinni lýkur. Það hjálpar örlítið núna að það er verðhjöðnun svo lánin lækka talsvert í bili.

Velferðarbrúin er að verða fullbyggð - notum hana - en gerum hana smám saman tví - eða þríbreiða með vönduðum lausnum til framtíðar. 


Jafnrétti, frelsi og samábyrgð

Í þessum þremur hugtökum felst meginhugsun jafnaðarmennskunnar. 

Krafan um jafnan rétt hefur hljómað um aldir - en greinilega ekki nógu hátt og ekki alveg á réttum nótum því hún er enn nauðsynleg og þörf.  Það virðist vera afar erfitt að ná fram fullum réttindum til handa þeim hópum sem áður hafa verið réttarlitlir eða réttlausir, hefðin er sterk og erfið við að eiga - en aldrei skal gefist upp og nýrra leiða stöðugt leitað

Frelsi til hugsunar, sköpunar og athafna er nauðsynlegt til þess að endurnýjun eigi sér stað - en frelsið má ekki ganga yfir aðra sem eiga sama rétt til frelsis - öfgalaust frelsi með nauðsynlegu eftirliti er af hinu góða og skapar ný tækifæri...

Samábyrgð er lykilatriði í samfélagi nútímans þar sem hraði ræður ríkjum og þeir sem lítið láta í sér heyra gleymast gjarnan. Það er á ábyrgð samfélagsins, okkar allra, að allir einstaklingar búi við mannsæmandi aðstæður, fái að halda reisn sinni og virðingu og séu metnir eins og þeir eru. Það besta sem við getum gert er að hjálpa hverjum einstaklingi til að hjálpa sér sjálfum eins og kostur er en styðja dyggilega við hann þar til hann er tilbúinn til þess.

Í þessum lykilhugtökum felst það að vera samfélag með manngildi og skapandi kraft að leiðarljósi.  Samfélag þar sem fólk stendur með fæturna á jörðinni, nýtir hugsun sína og krafta í eigin þágu og annarra en gleymir aldrei að láta hjartað slá taktinn....

Þetta er að vera jafnaðarmanneskja - sósialdemókrati. Það er skemmtilegt, spennandi og skynsamlegt. Það eru alltaf fleiri og fleiri að uppgötva það, þess vegna er Samfylkingin orðin stærsti flokkur landsins - og þar er pláss fyrir enn fleiri - allir eru velkomnir.  Megið þið eiga góðan og jafnan dag, kæru vinir.


Páskar

Gleðilega páska kæru vinir.  Í dag hef ég það afar náðugt, ein í kotinu sem stendur - fermingarstúlkan á Suðurlandi hjá pabba sínum og fermingargjöfinni, hestinum Simba og englabossinn hjá kærustunni á Reyðarfirði.  Kyrrðin er góð eftir annasama daga og ég er ákveðin í að nýta þennan fallega páskadag sem hvíldardag.

Mér finnst páskadagur vera dagur nýrrar byrjunar - boðskapurinn um sigur hins góða á hinu illa hljómar og á betur við á þessu vori en nokkru sinni fyrr.  Ný forgangsröðun með meiri áherslu á fólk en fé, meiri áherslu á samveru með sínu fólki en kaup á hlutum, meiri áherslu á andlega líðan en fullkomið útlit og svo má lengi telja er tímabær núna og vonandi veljum við þessa forgangsröðun um leið og við stöndum föstum fótum í lappirnar og vinnum verkefnin sem vinna þarf.

Framundan er spennandi og skemmtilega kosningabarátta þar sem verið verður á faraldsfæti um kjördæmið, talað og hlustað, vonandi hlegið mikið og tekist á - og árangurinn kemur svo upp úr kjörkössunum þann 25. apríl - ég hlakka til...

 

 


Fermingardagur

Já nú er 9. apríl runninn upp bjartur og fagur - ég á 37 ára fermingarafmæli í dag og stóra stelpan mín 11 ára, stóra systir 42 og litla systir 31 - stórmerkilegur dagur í lífi kvenna í þessari litlu fjölskyldu. Yndislegt að hann lenti á skírdegi í ár svo litla stelpan mín gæti deilt honum með okkur, hún verður semsagt fermd í Vallaneskirkju kl. 16 í dag og svo ætlum við að borða með vinum og ættingjum í Menntaskólanum á Eglsstöðum í kvöld.

Allt er að verða tilbúið - kjötið kryddað og súpu- og sósugrunnur tilbúinn svo fátt er eftir annað en bláeldamennskan.

Það sannast á hverjum degi að margar hendur vinna létt verk!

Og það gerir daginn enn betri að lesa um það að þriðjungur þjóðarinnar ætlar að kjósa flokkinn minn miðað við niðurstöður síðustu skoðanakönnunar Smile.

En nú er best að fara að koma fólkinu sínu hægt og sígandi af stað - megið þið eiga góðan dag.


Fjölskyldudagur

Í dag verður allt á fullu hér í Kelduskógunum og í Menntaskólanum til að undirbúa stóra daginn hennar Berglindar Rósar.  Hún er kát og glöð og mjög dugleg við undirbúninginn, við bökuðum gerbrauð í gær og gerðum ýmislegt annað sem þarf að gera.

Það er gaman að því þegar krakkar hafa fastmótaðar hugmyndir sjálf um hvernig þeir vilja hafa hlutina. Það er langt síðan Berglind Rós ákvað að litirnir í þessari veislu yrðu svart og silfurlitað og við það stendur hún afar ákveðin.  Hún ætlar líka sjálf að búa til fiskisúpuna því hún á að vera með hennar bragði!!!

Við spjölluðum dálítið um pólitík á meðan við vorum að baka í gærkvöldi, eldhúsdagsumræðurnar voru á og á þær hlustað með öðru eyranu. Hún spurði um stefnu flokkanna og velti mikið fyrir sér af hverju menn segðu ekki bara hvað þeir vildu í stað þess að skammast út í hina flokkana, og svo velti hún því fyrir sér hvort pólitíkusar væru hræðilega montnir því þeir væru alltaf að hæla sjálfum sér og monta sig af því sem þeir hefðu gert...

Í dag er ýmislegt á dagskrá - núna klukkan átta ætla ég að undirbúa bæjarráðsfund með bæjarstjóranum og svo er það bara fermingarundirbúningur til klukkan 4 en þá skrepp ég á bæjarráðsfund og held svo áfram eins lengi og þurfa þykir í kvöld.

Mikið sem ég er glöð á svona dögum að við Bergur og Olil erum fínir vinir og getum unnið vel saman þegar þess þarf - þau eru matarfólk fram í fingurgóma svo engu þarf að kvíða í matseldinni..

En nú ætla ég að hendast á fund og tala svolítið um peninga - eða kannski fremur peningaskort og hvernig best verður farið með þá sem til eru...Smile


Stöðugleiki

Þegar maður fer að hugsa um hvernig er best að koma heimilum og fyrirtækjum landsins til aðstoðar kemur hugtakið stöðugleiki æ oftar upp í hugann.  Það að geta gert áætlanir um framtíðina með nokkru öryggi er okkur mjög mikilvægt - við reiknum oftast með stöðugleika þegar við tökum ákvörðun um að kaupa húsnæði, bíl eða annað.  Það eru sveiflurnar í vísitölu og gengi sem fyrst og fremst eru að fara illa með okkur fjárhagslega. 

Og ég verð að viðurkenna að ég sé ekki aðrar leiðir til að tryggja þennan stöðugleika en að taka upp samstarf við þær þjóðir sem líkastar okkur eru í Evrópu og geta tryggt okkur öruggan, stöðugan gjaldmiðil með tilheyrandi baktryggingum.

Ég er eins og aðrir Íslendingar ákveðinn þjóðernissinni í mér og sé kosti þess að við séum bara við með okkar krónu, engum háð, en ég vil frekar vera fullvalda í jafnræðisfélagi með öðrum af fúsum og frjálsum vilja en þræll bankans og ónýts hagkerfis sem er búið að binda mig átthagafjötrum og fjárhagslegum fjötrum næstu áratugina vegna eins skitins íbúðaláns.

Það er ljóst að við getum aldrei svarað áleitnum spurningum um Evrópusambandsaðild öðru vísi en að spyrja með formlegum hætti - hver eru rökin fyrir að spyrja ekki????

Þegar englabossinn minn var lítill var hann ekki sérstaklega hugrakkur og það versta sem hann vissi var að spyrja eftir vinum sínum - hann var hræddur við að vera hafnað eða að eitthvað óvænt kæmi upp á.  Við tókum marga leikþætti þar sem við lékum allar hugsanlegar útfærslur og hann fékk að vita að hann gæti aldrei vitað hvort strákarnir vildu leika nema að spyrja - oftast gekk vel og hann kom heim glaður og ánægður með þann samning sem hann hafði náð stundum var hann hnugginn því hann fékk ekki það svar sem hann vildi helst fá - en hann spurði og fékk svör - held að þjóðin þurfi að fá englabossahvatningu og þora að spyrja hvað sé í boði...

En nú þarf ég að vera óskaplega dugleg í dag - ætla að byrja á því að taka hreindýrakjötið úr frysti og þrífa bílinn.  Það er svo Fjáraflsfundur í hádeginu og fermingaræfing í Vallanesi þar á eftir og ýmislegt annað skemmtilegt liggur fyrir þennan daginn. Megið þið öll eiga góðan dag.


Fjölbreytt líf

Fór í stórskemmtilegt ferðalag á föstudaginn, ók norður á þessum fína Skoda því ég treysti ekki alveg honum gamla mínum, á einu drifi, í krapann sem ég vissi af á fjöllunum.  Við félagi Skodi áttum góða ferð norður og lentum á góðum tíma í höfuðstað Norðurlands. 

Kosningastjórinn ók okkur síðan út á Árskógsströnd en þaðan siglir ferjan út í Hrísey.  Siglingin var fín, tók rúmt kortér og um leið og ég steig í land á eyjunni fann ég að þarna er gott að vera og ákvað að strax í vor kæmi ég aftur með börnin mín með mér.  Gallerýið var opnað fyrir okkur, þar var mikið af frábæru handverki, við dömurnar í hópnum keyptum ýmislegt smálegt.

Það er ekki bílaumferð fyrir að fara í eyjunni, allavega ekki þetta kvöld, frábært að rölta um, kíkja aðeins í búðina og virða fyrir sér fallega uppgerð húsin í kringum sig. 

Við fengum okkur að borða á Brekkunni og pizzan var mjög fín.  Klukkan 8 mættu svo nokkrir eyjaskeggjar og spjölluðu við okkur um pólitík og lífið í eyjunni, eins og áður fórum við frambjóðendur ríkari heim en við komum. 

 Mannauðurinn í þessu víðfeðma kjördæmi er fjölbreyttur og frábær, það er lítið verið að vola, meira verið að benda á það sem betur má fara.

Siglingin heim var fín - við þurftum mikið að spjalla, siglingin og bílferðin liðu í örskoti við pólitískan debatt þar sem jafnaðarstefnan var mærð enn einu sinni.

Á laugardagsmorguninn var svo stórskemmtilegur fundur um Evrópumálin á Hótel Kea, þangað mættu um þrjátíu manns til að hlusta á þá Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ og Úlfar Hauksson sem einnig kennir stjórnmálfræði við HÍ fjalla um Evrópumálin á lifandi og skýran hátt. Við frambjóðendur fengum svo að spjalla við þá á eftir um ýmislegt sem okkur lá á hjarta um þetta mikilvæga mál.

Við Skodi renndum svo heim aftur um tvöleytið og vorum komin heim um fimm.  Það var nú lítill kraftur eftir í konunni þá.

En í dag er nýr dagur sem verður nýttur í að gera heimilið tilbúið til að taka við gestum sem koma við í tilefni fermingar heimasætunnar – en fyrst ætla ég að skreppa og gefa hestunum smátuggu...

 


Á brúninni

Í pólitískri umræðu í gærkvöld var mikið talað um hvað væri hægt að gera til að auðvelda heimilum að láta enda ná saman.  Við töldum að það væru ótrúlega margir sem væru hættir að sofa af áhyggjum af ástandinu og það væri að sjálfsögðu að fara mjög illa með margar fjölskyldur - stolt okkar gerir okkur það erfitt að biðja um hjálp - við erum svo vön að bjarga okkur sjálf, seyglast áfram og vinna bara meira - nú er sá möguleiki ekki inni í myndinni - sitjum við þá bara heima, kvíðin og svefnlaus - og hvernig fer það með börnin okkar??? Aðgerðir til hjálpar heimilum eiga ekki að vera neinar jólagjafalausnir með framsóknarbragði - en það má ekki verða svo flókið að leita sér hjálpar að það þurfi nánast háskólapróf til að sækja um.

Annað sem kom ákveðið til tals var afskriftir - er það eðlilegt að það sé hægt að afskrifa skuldir auðmanna og stórfyrirtækja en ekki skuldir heimila - það er engan veginn eðlilegt að við samning tveggja aðila eins og einstaklings og peningastofnunar sé það eina sem er alveg pottþétt að allur kostnaður lendir á einstaklingnum - peningastofnunin er þar alveg stikkfrí...  Mér finnst að það eigi að skoða alla möguleika á að við flutning lána milli peningastofnanna njóti allir þeirra afskrifta sem verða, líka einstaklingar sem skulda.

En nú er best að spjalla við unglinginn og fá sér hafragraut... 


Félagshyggjan nýtur trausts

Trúin á að einstaklingurinn eigi ávallt að njóta sín, hæfileika sinna og aðstæðna, nánast hvað sem það kostar, eins og frjálshyggjan boðar hefur dofnað hjá almenningi.

Fólk trúir því að það sé félagsauðurinn sem nú eigi að vera við völd með áherslu á jöfn tækifæri og stjórnsýslu sem vinnur að því að búa til samfélag þar sem hið opinbera grípur inn í þegar ójafnvægi og ójöfnuður myndast.  Félagshyggja, jafnaðarstefna og lýðræðisleg vinnubrögð er það sem fólk kallar eftir núna þegar - þar getur fólk auðveldlega samsamað sig stórri lýðræðislegri Samfylkingu.

Ég er alltaf að hitta fleiri og fleiri gamla íhaldsmenn sem hafa kastað trúnni og vilja nú lýðræðislegri og alþjóðlegri sjónarhorn en Sjálfstæðisflokkurinn gefur kost á.

Ég hlakka svooooo til þessarar kosningabaráttu því ég held að hún verði okkur afar hliðholl en um leið lærdómsrík...

En nú þarf ég að athuga hvernig framvindan er í prufugreiðslunni hjá örverpinu mínu og svo ætla ég að hitta austfirska frambjóðendur Samfylkingarinnar og fleiri lykilaðila á Reyðarfirði í kvöld.


mbl.is Samfylking áfram stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn um húsnæðismálin...

Ég er rosalega upptekin af því að finna leið sem gerir það að eignast húsnæði eða búseturétt að eðlilegu fjölskyldumáli, ekki að lúxus sem múlbindur fólk á skuldaklafa alla ævi.

Er það ekki eðlilegt að fólk geti fengið lánaðar 20 milljónir óverðtryggt með 2% vöxtum einu sinni á ævinni til að tryggja sér og sínum aðstæður til að skapa öruggt heimilislíf, ef fólk hefur síðan efni á og metnað til getur það síðan tekið óhagstæðari lán til að stækka við sig.

Ég er til í að berjast fyrir þessu máli næstu áratugina - mér finnst þetta slíkt réttlætismál.

Það má vera dýrt að eiga bíl, fara út að borða, fara til útlanda - en sjálfsögð mannréttindi eins og að eiga öruggt heimili eiga ekki að vera dýr...  gömul lán má endurfjármagna á þessari línu - notum afskriftirnar til þess - allir geta haldið virðingu sinni og borgað skuldir sínar uppréttir vitandi að þeir eru ekki bundnir á skuldaklafa það sem eftir er.

En nú ætla ég á kosningaskrifstofuna og spjalla við mitt fólk...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband