Leita í fréttum mbl.is

Fjölbreytt líf

Fór í stórskemmtilegt ferðalag á föstudaginn, ók norður á þessum fína Skoda því ég treysti ekki alveg honum gamla mínum, á einu drifi, í krapann sem ég vissi af á fjöllunum.  Við félagi Skodi áttum góða ferð norður og lentum á góðum tíma í höfuðstað Norðurlands. 

Kosningastjórinn ók okkur síðan út á Árskógsströnd en þaðan siglir ferjan út í Hrísey.  Siglingin var fín, tók rúmt kortér og um leið og ég steig í land á eyjunni fann ég að þarna er gott að vera og ákvað að strax í vor kæmi ég aftur með börnin mín með mér.  Gallerýið var opnað fyrir okkur, þar var mikið af frábæru handverki, við dömurnar í hópnum keyptum ýmislegt smálegt.

Það er ekki bílaumferð fyrir að fara í eyjunni, allavega ekki þetta kvöld, frábært að rölta um, kíkja aðeins í búðina og virða fyrir sér fallega uppgerð húsin í kringum sig. 

Við fengum okkur að borða á Brekkunni og pizzan var mjög fín.  Klukkan 8 mættu svo nokkrir eyjaskeggjar og spjölluðu við okkur um pólitík og lífið í eyjunni, eins og áður fórum við frambjóðendur ríkari heim en við komum. 

 Mannauðurinn í þessu víðfeðma kjördæmi er fjölbreyttur og frábær, það er lítið verið að vola, meira verið að benda á það sem betur má fara.

Siglingin heim var fín - við þurftum mikið að spjalla, siglingin og bílferðin liðu í örskoti við pólitískan debatt þar sem jafnaðarstefnan var mærð enn einu sinni.

Á laugardagsmorguninn var svo stórskemmtilegur fundur um Evrópumálin á Hótel Kea, þangað mættu um þrjátíu manns til að hlusta á þá Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ og Úlfar Hauksson sem einnig kennir stjórnmálfræði við HÍ fjalla um Evrópumálin á lifandi og skýran hátt. Við frambjóðendur fengum svo að spjalla við þá á eftir um ýmislegt sem okkur lá á hjarta um þetta mikilvæga mál.

Við Skodi renndum svo heim aftur um tvöleytið og vorum komin heim um fimm.  Það var nú lítill kraftur eftir í konunni þá.

En í dag er nýr dagur sem verður nýttur í að gera heimilið tilbúið til að taka við gestum sem koma við í tilefni fermingar heimasætunnar – en fyrst ætla ég að skreppa og gefa hestunum smátuggu...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörg Anna

Ég hlakka til að fá boð í Hrísey.. langar að koma þangað ;) hef lúmskan grun að þangað sé gaman að fara með myndavél ;) sérstaklega þegar maður er búinn að fara á ljósmyndanámskeið ;)

Guðbjörg Anna , 5.4.2009 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband