Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Jasshátíðin á Egilsstöðum

Verð að viðurkenna að ég er farin að hlakka verulega til tónleikanna í fjallinu á morgun og svo stóðst ég ekki þá freistingu að kaupa mér miða á Larry Carlton á fimmtudagskvöldið.  Jasshátíðirnar fram að þessu hafa verið glæsilegar en ætli þessi toppi ekki allt..., svoleiðis á það líka að vera - alltaf aðeins betra en síðast...

Fór í morgun og undirbjó bæjarráðsfund morgundagsins, gott að vera búin að því tímanlega ekki síst ef leita þarf frekari upplýsinga um einhver mál, líka gott að hafa góðan tíma til að melta og hugsa um dagskrárliðina.

Er bara heima að taka svolítið til hjá mér, það er ósköp notalegt að hafa tíma til þess sæmilega stresslaust, það er ágætt að hugsa um leið og maður skúrar og ryksugar...

Speki dagsins á dagatalinu hennar Rannveigar er:

Hvatningarorð hressir sálina eins og svaladrykkur í steikjandi sólarhita.

Það er svo auðvelt að hressa sálir með brosi og hvatningarorðum - eigum að vera duglegri við það en við erum.

Ég hitti ókunna konu við kassann í Kaupfélaginu um daginn, hún sendi mér geislandi bros og hrósaði kjólnum mínum, hún gaf mér jákvæða orku inn í daginn, vona að ég gefi stundum frá mér svona jákvæða strauma.

En nú ætla ég að halda áfram að þrífa...


Lífið er bara eins og það er

Sólin skín - þó hitinn sé ekki ógurlegur og ég ætla að drífa mig í sund áður en ég fer í vinnuna til að ganga frá örfáum málum áður en ég skelli endanlega í lás...

Var lítið upplögð í gær þó sólin léti sjá sig... en svona er lífið, dagarnir eru misjafnir... ætli maður verði ekki bara að viðurkenna það og vinna svo að því að sem flestir séu góðir...

Fékk í gær fréttir af ungum manni sem treysti sér ekki til að lifa lengur..., finnst ég alltaf bera ábyrgð þegar ég fæ þannig fréttir, hefði ég sem kennari, samfélagsþegn, pólitíkus... getað gert eitthvað meira... ég er búin að fylgja of mörgum ungum mönnum til grafar allt of snemma..., foreldrarnir eiga samúð mína alla...

En jörðin heldur áfram sinni hringrás og í dag þarf ég á tvo fundi auk vinnunnar og svo ætla ég að nota sólina eins og ég get til að hressa mig við... og hugsa svo vel um englabossann minn í kvöld.


Kvenréttindadagurinn 19. júní

Þegar maður veltir fyrir sér hver jafnréttisstaða kynjanna er í samfélaginu í dag, getur maður fyllst vonleysi... enn þarf að berjast fyrir jafn sjálfsögðum réttindum og sömu launum fyrir sömu vinnu, enn reynist konum erfitt að samræma metnað á vinnumarkaði og barnauppeldi og svo má halda áfram talsvert lengi...,

En til að sjá vonina finnst mér við konur þurfa að vera ákveðnar í því að vera alltaf til á okkar forsendum - við eigum ekki að fara í karlaleik og nota leikreglur sem eru okkur ekki tamar.  Við getum náð langt á þeim vettvangi sem okkur langar til að ná langt á með því að vera við sjálfar, nýta styrkleika okkar, viðurkenna veikleikana og vera óhræddar við að spyrja og leita svara.  Við þurfum ekki alltaf að vera með próf eða námskeið upp á vasann til að tjá okkur um málefni, við erum klárar og kunnum aðferðir til að kynna okkur hin ýmsu mál.

Við þurfum að vera duglegar að ögra okkur sjálfum og framkvæma helst eitthvað á hverjum degi sem við treystum okkur eiginlega ekki til, þannig vöxum við og döfnum og verðum tilbúnari í að breyta jafnréttisstöðunni.

Áfram stelpur við getum allt sem við ætlum okkur - verum góðar fyrirmyndir fyrir dætur okkar og þeirra dætur.

 

 


Komin heim til að halda upp á 17. júní

Merki um þjóðernishyggju að finnast maður eiga að vera heima hjá sér á þjóðhátíðardaginn?

Nei sennilega frekar fjölskylduhyggju,  þó börnin séu orðin stór finnst mér 17. júní dæmigerður fjölskyldudagur, þess vegna dreif ég mig alla leið heim frá Helsinki í gær og var komin heim í stofu um níuleytið, eftir að hafa kíkt á fyrrverandi tengdapabba minn á sjúkrahúsinu, en hann er búinn að vera mikið veikur undanfarna daga, var glöð að sjá að hann var orðinn nokuð hress aftur.

Heima hjá mér var ástandið gott - Berglind Rós heima með tvær vinkonur sínar, ég settist niður með þeim og spjallaði við þær um dýrtíð í Finnlandi, þjóðhátíð og fleira.  Fljótlega bættust tveir ungir menn í hópinn og þá var farið að tala um landsmót hestamanna og ýmislegt fleira - ég dró mig í hlé og fór að horfa á sjónvarpið - en heyrði í krökkunum í twister fram yfir miðnætti...

Finnlandsferðin var frábær - Helsinki yndisleg borg - Finnland fallegt og vinabæjarmótið gagnlegt og skemmtilegt - við á Fljótsdalshéraði buðum til vinabæjarmóts næsta sumar og erum farin að skipuleggja strax...

En nú þarf að fara að skrúfa fjölskylduna af stað - Berglind Rós er að fara í skrúðgöngu - á að ríða fyrir göngunni með fleiri Freyfaxafélögum á Myrkvu og það þarf að dubba þær stöllur báðar upp og svona hrossadubb tekur svolítinn tíma..., Guðmundur Þorsteinn er nauðsynlegur sem hestasveinn við svona aðstæður... Berglind Rós er búin að vinna sér inn þátttökurétt á Landsmótinu á Hellu í sumar - en ekki gekk eins vel hjá Guðmundi enda hann með lítið taminn, ungan hest... hann nýtur þess bara að horfa á í staðinn...

Var að ljúka við einstaka bók Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson, langt síðan ég hef lesið bók þar sem orðin eru eins dýr og hlaðin merkingu, er búin að lesa stóran hluta hennar oftar en einu sinni... mér finnst það til dæmis einstakt að líkja orðum sem segja frá liðnum atburðum við björgunarsveitir sem bjarga frá gleymsku, einfalt en áhrifaríkt... þarf að lesa meira eftir þennan ágæta höfund.  Vinur minn líkir honum við Ólaf Jóhann Sigurðsson - þarf að lesa Seið og hélog aftur til að athuga hvort hann hefur rétt fyrir sér...

En nú er það björt og köld norðanáttin sem bíður okkar til að sinna skyldum og skemmta okkur svo á metnaðarfullri þjóðhátíðardagskrá hér á Fljótsdalshéraði... megið þið eiga góðan þjóðhátíðardag með ykkar fólki.


Norrænt samstarf

Framundan er spennandi dagar í Finnlandi, við erum að fara þrjár dömur frá Fljótsdalshéraði á vinabæjarmót í Aanakoski. Með okkur í för verða líka tveir fulltrúar frá Norræna félaginu.  Ég hef aldrei farið á svona samkomu áður en hlakka mikið til, það norræna samstarf, sem við í Hallormsstaðskóla vorum í, var afar farsælt og ekki síst skemmtilegt. Óneitanlega erum við sérstaklega tengd þessum nágrönnum okkar, saga og menning samtengdar og sameiginlegar.

Við erum svo heppnar að hann Pelli er að fara með okkur, sem annar fulltrúi Norræna félagsins, hann er af finnskum ættum og því heimavanur í Finnlandi.  Hann á húsbíl í Finnlandi og er búinn að bjóða okkur með sér akandi fram og til baka frá Helsinki - hann gerir það fyrir okkur að taka tvær mismunandi leiðir svo við sjáum sem mest... Þetta verður til þess að við fáum lengri tíma í Helsinki, en áður var rágert, það er afar spennandi því ég hef aldrei komið þangað áður en heyrt að þar sé margt áhugavert að skoða og upplifa...Smile

En áður en lagt verður í hann til Helsinki ætlum við að funda um reiðvegi í tengslum við aðalskipulagsgerð, í kvöld, og síðan er bæjarráðsfundur hjá mér á morgun, gott að ljúka þeim verkefnum áður en farið er út...

Fór á opnunarhátíð, Á hreindýraslóð á Skjöldólfsstöðum í gærkvöldi, fín hátíð og margt fólk, þetta var hin besta skemmtun, Hákon Aðalsteinsson var veislustjóri og stóð sig frábærlega eins og reyndar allir sem þarna komu fram..., þessi staður er skemmtileg viðbót við ferðaþjónustu á svæðinu og verður gaman að fylgjast með þróun hans. Hreindýrin hafa fram að þessu kannski ekki verið notuð nógu mikið sem fjölbreyttur afþreyingarmöguleiki hér á heimaslóð þeirra, þarna er verið að vinna að þeirri hugmynd.

En nú bíða húsverkin og unglingarnir, lærið bíður í ísskápnum eftir að einhver grillmeistari hendi því á glóðirnar það þarf ekkert að vera á hefðbundnum matmálstíma....

.


Vatnajökulsþjóðgarður

Það hefur verið spennandi að fylgjast með undirbúningi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðsins.  Risavaxið verkefni sem felur í sér afar mörg tækifæri fyrir sveitafélög, ferðaþjónustuaðila, verslun og þjónustu og fleiri.  Þjóðlendumálin hafa þó truflað undirbúninginn töluvert - þeir sem standa í ströggli í því máli eru ekki tilbúnir að leggja lönd sín inn í þjóðgarðinn svo hann er svolítið götóttur enn, vonandi breytist það smám saman svo draumurinn um þjóðgarð þvert yfir landið frá ströndinni sunnan Vatnajökuls að Skjálfanda í norðri verði að veruleika. 

Verndunaáætlanir verða örugglega umdeildar en með góðu samráði við landeigendur næst vonandi farsæl lausn.

En nú bíður kvennahlaupið okkar Berglindar Rósar - komnar í fjólubláu bolina og í starholunum.

Og síðan klukkan 3 er formleg opnun þjóðgarðsins á Skriðuklaustri - það verður gaman að vera með þar.


Austurland tækifæranna...

Það er auðvelt að vera bitur og svartsýn Héraðskona í dag og syngja lok. lok og læs...

En ég ætla að velja aðra leið - Pollyönnuleikurinn er í miklu uppáhaldi hjá mér - ég ætla að leika hann enn einu sinni og horfa á tækifærin sem við eigum til uppbyggingar á Austurlandi.  Í dag var ég á ferð um þéttbýlið við Lagarfljótið með grænlenska þingmenn sem voru hér á ferð - þá gerði ég mér enn betur grein fyrir því enn áður að uppbyggingin hér hefur verið og mun verða stórkostleg.  Miðbærinn, grunnskólinn sem við tökum skóflustungu að á morgun, ný deild í leikskólanum Skógarlandi, tvær nýjar deildir í leikskólanum Hádegishöfða, menningar- og stjórnsýsluhúsið, Þekkingarsetrið, tónlistarskólinn, og allur mannauðurinn sem fylgir starfseminni í þessum húsum..., fráleitt að örvænta...

Mogginn og Icelandexpress hafa ekki hugsað málið til enda - tímabundin vandræði leggja þau á hliðina - við sveitavargurinn leggjum ekki upp laupana þó að mótvindar blási um stund .......... Áfram Austurland. Wink

 


Moggi sumra landsmanna...

Nýr ritstjóri Morgunblaðins ákvað það á fyrsta degi sínum í starfi að loka ritstjórnarskrifstofunni á Austurlandi.  Sú hefur verið starfrækt í 5 ár - með starfsmanni í fullu starfi.  Hann og ritstjórnin hafa sjálfsagt sínar ástæður og sín sjónarmið - en byggðapólitíkin er léleg...

Ég á afar erfitt með að sætta mig við að lok stórframkvæmda á tilteknu svæði séu túlkuð sem endalok vaxtarskeiðs svæðisins - ábyrg samfélög notfæra sér vaxtartímann til að byggja upp og horfa til framtíðar -  þjónusta og þekking eflist og dafnar, bjartsýnin er við völd og á henni er framtíðarsýnin byggð.  Fyrirtæki sem ekki deila þessari sýn heimamanna lesa kolvitlaust í samfélagið og í stað þess að taka þátt í framtíðaruppbyggingunni - missa þau skottið milli lappanna og læðast í burtu, nánast í skjóli nætur, óttinn við krónumissi gerir þessi fyrirtæki að leiðinda bitbeini landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis...

Okkur Austlendingum er misboðið með þessari lokun, við viljum að það sé trúað á okkur og okkar landshluta, það hefði verið stórmannlegra fyrir nýjan ritstjóra að leggja upp með sérstaka áherslu á landsbyggðina og hlut hennar í samfélagsþróun á Íslandi í heild, í því skyni að minna á að hér býr ein þjóð í stóru landi...


Áfangar

Við erum alltaf að minnast og halda uppá hvers kyns áfanga í lífinu.  Um þessa helgi er ég búin  að halda upp á tvo - annars vegar 100 ára afmæli heimabæjarins míns, Hafnarfjarðar, og hins vegar 30 ára stúdentsafmæli árgangsins míns úr Flensborg.  Gleðilegir áfangar -  Hafnarfjörður skartaði sínu fegursta, einstakt náttúrulegt umhverfi og smekkleg manngerð umgjörð í góðum kokteil gera bæinn flottan og áhugaverðan, ég er montinn af fæðingarbænum mínum. 

Hinir síungu stúdentar um fimmtugt voru sprækir og hressir, mér fannst við öll einstaklega klár, skemmtileg og falleg... og held að um það hafi verið alger samstaða í hópnum. Undirbúningshópurinn stóð sig frábærlega, bjó til fína blöndu af menningu og skemmtun.  Guðrún Ásmundsdóttir var frábær leiðsögumaður frá Hafnarfirði í Herdísarvík, fræddi okkur um margar hliðar Einars Benediktssonar og sagði okkur frá lífi hans og ekki síst frá konunum í lífi hans..., fróðlegt og skemmtilegt..., við borðuðum frábæra humarsúpu í Rauða húsinu á Eyrarbakka, skemmtum hvert öðru með gamni og alvöru og nutum samverunnar - þau hörðustu enduðu á Fjörukránni - þaðan gekk ég heim til mömmu um tvöleytið og leið eins og unglingi þegar ég læddist í bólið....

Skemmtilegt að eiga sterkan uppruna á einum stað, rækta hann og finnast mikið til um hann og eiga síðan heimili á öðrum stað og hafa átt það hálfa ævina og upplifa þann stað líka svo ákveðið sem sinn stað.  Héraðið á stóran sess í hjarta mínu eins og Hafnarfjörður, ég tel mig lánsama að þekkja bæði lífið á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, af eigin raun og vita því hversu nauðsynlegt er að þessi mismunandi búsetuskilyrði styði hvert við annað og sýni hverju öðru skilning og umburðarlyndi.  Sveitavargurinn og höfuðborgarrottan eiga að lifa saman í sátt og samlyndi....

Góð helgi að baki - nokkuð annasöm vika framundan þó ég sé að mestu leyti komin í frí í ME..., það er alltaf hægt að finna sér eitthvað spennandi að gera, grænlendingar í heimsókn, aðalfundur þekkingarnetsins, undirbúningur fyrir vinabæjarmót í Finnlandi, bæjarstjórnarfundur.... og svo þarf ég að rækta gelgjuna mína, sennilega mitt stærsta verkefni í næstu viku...

 Varð að setja inn þessa guðdómlegu mynd sem Gunni Ólafs gróf upp af okkur Flensborgarliðinu frá því í den...

 Man ekki hvaða ár þessi var tekin.


Útskrift og veðurblíða

Menntaskólanum á Egilsstöðum var slitið í gær, í einstakri veðurblíðu, 42 stúdentar voru útskrifaðir og 1 af starfsbraut sem er námsbraut fyrir nemendur með þroskahömlun.  Í fyrsta sinn útskrifaðist nemandi af hraðbraut skólans, ung dama gerði sér lítið fyrir og lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut, á þremur árum, með 9,20 í meðaleinkunn. Hún er alltaf hálftregafull þessi kveðjustund - þó gleðin sé við völd yfir loknum áfanga, er horft á eftir föngulegum hópi sem hefur verið hluti af skólasamfélaginu og sett á það sitt mót í þrjú til fjögur ár... Það verður til dæmis verulegur sjónarsviptir af honum Kristbirni, starfsbrautarnemandanum sem var að útskrifast, hann er engum líkur í háttum og tilsvörum, hans verður saknað af kennarastofunni svo oft var hann búinn að skemmta okkur ...

Ég var reyndar fyrst og fremst í mömmuhlutverkinu í gær - því eins og ég er nú búin að minnast á í einhver skipti var englabossinn minn hann Guðmundur Þorsteinn að útskrifast í gær.  Það voru auðvitað mikil hátíðahöld í rúman hálfan sólarhring - það dugar ekkert minna fyrir svona englabossa.  Það var byrjað með útskriftinni kl 14, kaffi í Menntaskólanum eftir hana - myndataka þar á eftir og svo veisla heima eftir það og svo þegar fjölskyldan fór að fara heim, fylltist íbúðin af þessum flottu krökkum, sem þurftu aðeins að stilla saman strengi fyrir ball - ótrúlega flottir krakkar vinir og vinkonur hans Guðmundar - ég fyllist stolti yfir æsku Íslands þegar ég horfi yfir þennan hóp, þau eru, eins og reyndar flest ungmenni - mannvænleg og fínir krakkar - kurteis og skemmtileg -  kát og hress - klár og skapandi - já og svo má bæta við einhverjum fleiri jákvæðum lýsingarorðum....

Svo var auðvitað komið í snarl eftir ball - gleðskapnum lauk endanlega um 8 leytið í morgun..., allir glaðir og ánægðir - en kannski örlítið þreyttir...

Ég er þakklát fyrir að eiga þessa flottu krakka - þau eru heilbrigð og vel af Guði gerð - fyrir slíkt þarf maður að muna að þakka mörgum sinnum á dag...

utskri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband