Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Góður ágústsunnudagur

Við Berglind Rós vöknuðum snemma í morgun, höfðum til nesti, sóttum Eydísi vinkonu mína og hittum hóp af góðu fólki sem ætlaði að ganga yfir Hallormsstaðaháls og njóta síðan tónleika með Sniglabandinu og Borgardætrum í stássstofu skógræktarinnar á Hallormsstað.  Lagt var upp frá Upplýsingamiðstöðinni, ekið að Geirólfsstöðum í Skriðdal og gengið þaðan stikaða gönguleið yfir hálsinn.  Gangan gekk vel - við fengum ágætis gönguveður alla leið - en alltaf jafn gaman að koma niður í skóginn og finna hversu skjólsæll og hlýr hann er - mér finnst alltaf vera mörgum gráðum hlýrra inni í skóginum en utan hans. Við vorum rétta þrjá tíma á göngu - vorum hæflega þreyttar og ánægðar með okkur þegar við settumst fast upp við sviðið í Neðstareit og nutum góðrar tónlistar og skemmtilegrar sviðsframkomu um leið og mesta þreytan leið úr skrokknum. Afar góð nýting á sunnudegi: fjölskyldusamvera, hreyfing og menning...

Þegar heim kom var Berglind Rós í matarstuði og ákvað að prófa að grilla pizzu - gekk ljómandi vel hjá henni og úr varð hinn fínasti matur...

En nú er víst kominn mánudagur - sjónvarpið gengur með leik Íslendinga og Egypta - finnst nú Íslendingarnir hálfslappir ennþá, staðan 10 - 8 fyrir Egyptana - held samt að við hljótum að vinna... það eru allavega 2 Egyptar utan vallar í bili, þeir gefa ekkert eftir þó þeir séu  að fara heim, neðstir í riðlinum... Best að einbeita sér að leiknum...


Karnevalstemning á Fljótsdalshéraði

Uppskeruhátíð okkar hér á Fljótsdalshéraði, Ormsteiti, hófst í gær með hverfahátíðum.  Grillað var í hverfum sveitarfélagsins og síðan gengið fylktu liði á Vilhjálmsvöll þar sem hátíðin var sett og hverfin kepptu sín á milli í nokkrum þrautum.  Við í Litluskógum og Kelduskógum grilluðum við leikvöllin okkar og skemmtum okkur konunglega, gaman að hitta nágranna sína við afslappaðar aðstæður og kíkja á krakkana og finna svolítið út hver er hvers... Við vorum sérstaklega stolt í ár því okkar hverfi vann grillmeistarann og varðveitir hann því til næsta ormsteitis.

Skrúðgangan í ár var sérstaklega glæsileg því vinir okkar og samstarfsfólk frá Írlandi og Noregi aðstoðuðu okkur við að búa til frábæra karnevalstemningu með glæsilegum búningum og flottri sýningu.  Gengið var fylktu liði niður í Egilsstaðavík eftir dagskrána á vellinum.  Glæsilegir búningar voru upplýstir í kvöldhúminu og niðri í víkinni var fleytt ljósakylfum á fljótinu, skuggasýning á Fljótshússveggnum, eldsýningar og margt fleira... ég gekk heim í skýjunum yfir því að vera íbúi í þessu sveitafélagi þar sem þvílíkur menningarviðburður væri veruleiki - ég get ekki annað en verið því fólki sem vann verkið óendanlega þakklát - þetta var upplifun... karlinn í tunglinu tók þátt í karnevalinu okkar - notaði bleiku peruna og glotti við tönn...

Í dag er ég svo búin að vera Soroptimistasystir við Minjasafnið - selja þar reyktan silung, rabarbarasultu og bækur og þiggja dýrindis kjötsúpu, kaffi og lummur.  Þá var það vígsluhátið á glæsilegu svæði Hesteigendafélagsins í Fossgerði og síðan opnun á sýningunni hennar Lóu í Sláturhúsinu, frábær sýning hjá Lóu og vídeóverkið með ljóðaupplestri Sigga gerir sýninguna enn hátíðlegri.  Er alltaf jafn ánægð með Menningarmiðstöðina okkar í Sláturhúsinu - frystiklefinn er ótrúlega fallega ljótur og passandi fyrir alla viðburði....

Í kvöld ætla ég svo að slaka á heima til að vera spræk í göngu yfir Hallormsstaðaháls í fyrramálið og tónleika með Sniglabandinu og Borgardætrum, á Hallormsstað að göngu lokinni...


Beðið frétta frá höfuðborginni

Verð að viðurkenna að ég er búin að kíkja oft á netið í dag til að athuga hvernig gengur með myndun nýs meirihluta þarna í borginni okkar allra fyrir sunnan.

Eitthvað er fæðingin að ganga seint fyrir sig - einhver vandamál... enda neitar Óskar Bergsson að hann sé viðriðinn málið - hann ætlar ekki að gangast við króganum... eða hvað????

Er þessi skrípaleikur við Tjörnina ekki að ná hámarki sínu??? - þvílík skrumskæling á lýðræðinu og valdi íbúa til að velja sína fulltrúa...

Meirihlutasamstarf er vandmeðfarið og viðkvæmt en það er skylda þeirra sem með slíkt vald fara að leggja sig fram við að láta samstarfið ganga enda verið að vinna í umboði fólksins á staðnum - verð þó að viðurkenna að ég er afar ánægð með að hafa ekki þurft að vinna með Ólafi F.....


Dagskipan

Merkilegt hversu árstíðabundin dagskipan manns er. Á veturna finnst mér fínt að vakna klukkan 6 og hreyfa mig áður en vinnudagurinn hefst en á sumrin finnst mér þetta óþarfi þar sem vinnudagurinn hefst ekki á ákveðnum tíma og ég hef allan heimsins tíma en það verður gjarnan til þess að ég hreyfi mig alls ekki...

Ég þarf að vanda mig í haust og vetur, þegar ég verð ekki að kenna heldur að læra, að setja dagana í fast skipulag því það er afar auðvelt að missa dagana framhjá ef ekkert er skipulagið...

Unglingurinn minn, 13 ára, elskar að snúa sólarhringnum við, alltaf þegar tækifæri gefst.  Hún er ekki í neinni vinnu í sumar og það verður til þess að hún sefur út og fer seint að sofa, en hún hafði orð á því í gærkvöld að nú væri víst best að reyna að fara að vakna á morgnana og gera eitthvað...

En nú styttist í skóla og önnur haustverkefni - fannst fínt að fara upp á bæjarskrifstofu í gær og setja mig aðeins inn í hvaða verkefni bíða núna eftir sumarleyfi, ætla að vinna þar eftir hádegi í dag, m.a. við að undirbúa bæjarráðsfund.  Rammi fjárhagsáætlunar liggur fyrir og þarf ég að fara betur yfir hann með fjármálastjóranum, það er ljóst að gæta þarf mikils aðhalds í rekstri og fjárfestingum svo við getum haldið því þjónustustigi sem við viljum hafa og haldið áfram að byggja hér upp það samfélag sem við viljum sjá á Fljótsdalshéraði. 

En núna ætla ég að drífa mig í ræktina - hef ekki litið þar við í margar vikur...


Komin heim úr borginni

Síðustu dagar júlímánaðar voru fullir af ljúfum fjölskyldustundum, þar sem hlýja og góðar endurminningar voru í aðalhlutverki. Guðbjörg Anna kom austur á miðvikudegi fyrir verslunarmannahelgi og Torfi á fimmtudeginum og Karen Rós var hér fyrir í heimsókn hjá ömmu. Jón Matthías var hér líka með sína fjölskyldu og þau litu hér oft við svo ég fékk að upplifa það að vera með allt mitt fólk hjá mér þessa daga. Jón Bergsson var síðan kistulagður föstudaginn 1. ágúst og útför hans var 2. ágúst.  Báðar þessar athafnir voru fallegar og virðulegar og það setti óneitanlega svip á útförina að sonardóttir og dótturdóttir sungu við útförina, þær kvöddu afa sinn eftirminnilega.

Á sunnudeginum fór síðan fólk að tínast heim og á miðvikudaginn ókum við Berglind Rós með Rannveigu vinkonu minni suður. Við vinkonurnar vorum löngu búnar að kaupa okkur miða á Clapton tónleika og ákváðum að nota ferðina vel. Við fórum norðurleiðina suður með kaffi á brúsa og brauð í boxi, stoppuðum í Víðidalnum og nutum náttúrufegurðar, góðviðris og samverunnar. Goðafoss fékk stutta heimsókn og á Akureyri voru búðirnar aðeins skoðaðar og síðan var brunað nokkuð sleitulaust í bæinn.  Mamma fékk að njóta þess að hafa okkur Berglindi Rós í eina nótt en Guðbjörg Anna og Karen Rós fengu rest.  Dagarnir í bænum voru nýttir til að kaupa skólaföt á unglinginn og svo voru kvikmyndahúsin heimsótt: Sex and the city og Mamma mia voru efstar á óskalistanum og ullu ekki vonbrigðum - mamma mia vakti enn meiri lukku enda hægt að veltast um af hlátri á milli þess sem augun vöknuðu af tilfinningasemi...

Og síðan var það auðvitað aðalatriði Eric Clapton - hann og hans fólk var stórkostlegt, tónleikarnir alger upplifun - en auðvitað var talsvert heitt í Egilshöllinni - þær konur sem ég hef talað við eftir tónleikana hafa allar líkt svitabaðinu og eymslunum í fótunum við fæðingu, vont á meðan á því stóð en allt gleymt strax vegna hinnar sterku upplifunar... Claptondiskarnir verða í tækinu næstu daga, með smá Abbahléum...

Og í gær ókum við síðan suðurleiðina heim. Með viðkomu í Laugarvatnshelli, Vatnsleysu í Biskupstungum hjá Ragnheiði dómara, en hún er ættuð þaðan, stórmyndarlegt bú og einstaklega snyrtilegt og sumarbústaðurinn hennar Ragnheiðar frábær, aðeins stoppað á Selfossi og við Skógarfoss þar sem kaffið og samlokurnar var dregið fram en síðan var bara ekið heim og lent í hlaðinu á Ketilsstöðum um níuleytið. Þar biðu þau Guðmundur og Elsa með mat handa okkur og eftir að hafa borðað, spjallað og kíkt á Myrkvu sem er illa bólgin á fæti, var brunað heim og kíkt svolítið á sjónvarpið og í tölvuna og síðan var það draumalandið...

Í morgun lauk ég svo við bókina "Áður en ég dey", holl lesning fyrir alla...


Jón Bergsson látinn

Jón Bergsson, bóndi á Ketilsstöðum á Völlum, lést á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum aðfararnótt miðvikudagsins 23. júlí.

Börnin mín hafa því misst eina afann sem þau hafa þekkt.

Við vitum að það var gott fyrir hann að fá hvíld frá erfiðum veikindum en í eigingirni okkar söknum við hans.

Jón var litríkur persónuleiki sem lék eitt af aðalhlutverkunum í lífi barnanna minna, þau voru svo heppin að eiga afa og ömmu í sveitinni sem sinntu þeim mikið og gáfu þeim tíma sinn og athygli.  Til dæmis voru afasögur nauðsynlegar þegar þau lögðu sig með honum eftir matinn. Reiðtúrar með afa voru annar ríkur þáttur í lífi þeirra. Svo tók hann auðvitað þátt í að ala þau aðeins upp þegar hann taldi þörf á því...

Við erum þakklát fyrir ljúfar og hlýjar minningar og vitum að minning hans mun lifa.

Starfsfólkið á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum er búið að vera yndislegt allan þann tíma sem Jón hefur verið þar, en alveg sérstaklega þessar síðustu vikur, sem hann var veikastur - notalegheitin hafa verið einstök - þarna vinnur hver gullmolinn öðrum betri.... þau eiga óskerta virðingu mína og þakklæti fyrir óeigingjarnt starf og yndislegt viðmót.


Uppeldi

Lenti í því í gærkvöldi að vera alvarlega ósammála manni um uppeldisaðferðir.  Er hugsi eftir átökin.  Veit að ég hef ekki alveg alltaf rétt fyrir mér - en ég er nokkuð viss í þessu tilviki Wink

Mér finnst að maður eigi að ræða við barn um það sem manni finnst athugavert í hegðun þess en ekki um það yfir hausinn á því....

Svo er lykilatriði að skilja hegðun frá persónu - krakkar eru oft að gera vitleysur og þurfa leiðsögn og skammir til að vita hvar rammarnir liggja..., en það á að skamma þau fyrir það sem þau gerðu vitlaust án þess að ráðast á persónu þeirra og gera lítið úr henni...

Börn þurfa að hvíla í þeirri fullvissu að foreldrar þeirra elski þau skilyrðislaust hvað sem á gengur, það þýðir ekki að það megi ekki skamma þau..., það þýðir að foreldrar þurfa að vanda sig við aðferðafræðina.  Börn eiga ekki að þurfa að vera þakklát fyrir hvert viðvik sem foreldrarnir gera fyrir þau, en það er hlutverk foreldra að kenna börnum sínum að vera þakklát almennt fyrir lífið sjálft og allt sem það hefur upp á að bjóða.

Það er hlutverk okkar foreldra, að hjálpa börnunum okkar til að búa sér til sterka og jákvæða sjálfsmynd svo þau viti að þau geta það sem þau ætla sér og að það sé auðvelt að gera það án þess að valtra yfir aðra, því með því að meta sjálfan sig er svo miklu auðveldara að meta aðra að verðleikum líka. 

Sterk sjálfsmynd og sjálfsvitund er lykilatriði í lífi fólks - og ég held að það sé sérstaklega mikilvægt að unga fólkið okkar eigi þessa sterku mynd af sér, því líf þeirra er oft flókið og áreitin mörg, maður þarf að vera sterkur til að þora að segja nei við óæskilegum áhrifum og velja frekar þau jákvæðari.

Það er gott að vera í sumarfríi og hafa tíma fyrir börnin sín, mín þurfa allavega sitt þó þau sér 23, 20 og 13...

 


Júlí langt kominn, ég orðin fimmtug, en hátíðahöldum frestað...

Nú er langt síðan ég hef bloggað..., ég fór með börnunum mínum á landsmót hestamanna á Hellu sem stóð yfir 30. júní - 6. júlí.  Berglind Rós var að keppa í barnaflokki á henni Myrkvu og gekk svona ljómandi vel.  Fyrst komst hún í hóp 30 bestu á þriðjudegi, þá í hóp 15 bestu á fimmtudeginum og á laugardagsmorguninn var ljóst að hún endaði í 10. sæti af 96 keppendum.  Fjölskyldan er afar stolt af prinsessunni sem kom okkkur öllum, og ekki síst sér, þægilega á óvart með þessu góða gengi.  Það er alltaf rosalega gaman að fara á hestamannamót, maður hittir margt skemmtilegt fólk, sér frábæra hesta og fjölskyldan er saman frá morgni til kvölds.

Landsmótssunnudaginn varð svo Jónína fimmtug, um miðnætti var sungið hressilega fyrir mig og eitt augnablik þurfti ég aðeins að átta mig - ég var í alvöru orðin fimmtug - en það að ég dreif alla með mér á Hjálmaball í tjaldinu sannaði fyrir mér að andinn er enn hress þrátt fyrir háan aldur..., Steini Hjálmakarl gerði svo daginn enn hátíðlegri með fallegri afmæliskveðju af sviðinu. Steini er alinn upp á Hallormsstað var þar nemandi minn og nágranni.

En í lífinu skiptast á skin og skúrir, ljóst er að verulega er nú dregið af Jóni Bergssyni, afanum og tengdapabbanum, á þessum bæ svo við ákváðum að drífa okkur heim um miðjan dag á mánudegi til að geta átt tíma með honum og fjölskyldunni. Guðbjörg Anna kom svo með flugi á þriðjudaginn og á þriðjudagskvöld var ákveðið að fresta afmælisveislunni sem vera átti á föstudagskvöldið í tilefni af fimmtugsafmæli mömmunnar á heimilinu.  Það er verra að vera með hátíðahöld í skugga kveðjustundar, svo ákveðið var að njóta kveðjustunda þessa vikuna og halda afmælið í ágúst þegar betur stendur á.  Vona ég að þið sem þetta lesið látið fréttina um frestunina berast fyrir okkur... 

Og svo held ég að sumarið sé að koma á Héraðinu...

 


Jasshátíð og blaðaskrif

Fór á tónleikana í iðrum jarðar í gærkvöldi, afar sterk upplifun, afar skemmtilegur hljómburður, afar skemmtilegt, afar fínn hljóðfærarleikur, afar frumlegur og flottur dans og .... margt fólk, margt skemmtilegt fólk, ógleymanlegt kvöld.

Í kvöld er það Larry Carlton í Valaskjálf, Rannveig er mætt til að passa fyrir mig sæti á meðan ég ergi mig yfir ófaglegum og óvönduðum skrifum, um grunnskólabyggingu á Egilsstöðum, í Austurglugganum.   Ferlið í þessum byggingamálum er búið að vera flókið og erfitt á erfiðum tímum í efnahagaslífi og á peningamörkuðum, en okkur tókst að lenda málinu á hagstæðan hátt, án þess að kostnaður við bygginguna hækkaði og án tafar á málinu.  Glæsilegur grunnskóli á Egilsstöðum mun verða tekinn í notkun haustið 2009 með öllum þeim möguleikum fyrir unga fólkið okkar sem því fylgir.  Það er það sem við eigum að sameinast um eftir að vera búin að takast á um leiðir í fjármögnun og byggingu, framkvæmdir eru farnar af stað, gleðjumst yfir því...


Jón Bergsson

Þessi mynd er tekin á Fjórðungsmótinu í fyrra þegar Jón og Elsa voru heiðruð fyrir hrossaræktina sína.

Í dag er Jón, tendapabbi minn, ((fyrrverandi), honum finnst þetta orð alveg óþarft, segist alveg geta átt tvær, þó sonurinn sé bara einn!), 75 ára, við ætlum að halda aðeins upp á það á sjúkrahúsinu. Hann er búinn að vera talsvert lasinn upp á síðkastið en húmorinn logar enn í augunum og enn hefur hann sterkar skoðanir á hlutunum.

Ég hef oft dáðst að því hversu vel, skapmaðurinn Jón Bergsson, tekur erfiðum veikindum sínum, kannski þarf maður skap til að ná að halda húmornum og vakandi vilja til að fylgjast með því sem er að gerast í kringum mann, liggjandi inni á sjúkrahúsi svo árum skiptir.  Honum var kippt úr fullri virkni á einni nóttu, þegar hann fékk blóðtappa fyrir þremur árum og nokkru seinni greindist hann svo með krabbamein í lunga og var annað lungað tekið.  Hann er mátttlítill í vinstri hliðinni og röddin er veik, en kollurinn er hvorki máttlítill né veikur og enn nýtur hann þess að spjalla um þjóðmál og hross að sjálfsögðu...

Ég hlakka til að eiga skemmtilega stund með þeim Jóni og Elsu á eftir, ég hef oft hlegið dátt í þeim félagsskap.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband