Leita í fréttum mbl.is

Komin heim til að halda upp á 17. júní

Merki um þjóðernishyggju að finnast maður eiga að vera heima hjá sér á þjóðhátíðardaginn?

Nei sennilega frekar fjölskylduhyggju,  þó börnin séu orðin stór finnst mér 17. júní dæmigerður fjölskyldudagur, þess vegna dreif ég mig alla leið heim frá Helsinki í gær og var komin heim í stofu um níuleytið, eftir að hafa kíkt á fyrrverandi tengdapabba minn á sjúkrahúsinu, en hann er búinn að vera mikið veikur undanfarna daga, var glöð að sjá að hann var orðinn nokuð hress aftur.

Heima hjá mér var ástandið gott - Berglind Rós heima með tvær vinkonur sínar, ég settist niður með þeim og spjallaði við þær um dýrtíð í Finnlandi, þjóðhátíð og fleira.  Fljótlega bættust tveir ungir menn í hópinn og þá var farið að tala um landsmót hestamanna og ýmislegt fleira - ég dró mig í hlé og fór að horfa á sjónvarpið - en heyrði í krökkunum í twister fram yfir miðnætti...

Finnlandsferðin var frábær - Helsinki yndisleg borg - Finnland fallegt og vinabæjarmótið gagnlegt og skemmtilegt - við á Fljótsdalshéraði buðum til vinabæjarmóts næsta sumar og erum farin að skipuleggja strax...

En nú þarf að fara að skrúfa fjölskylduna af stað - Berglind Rós er að fara í skrúðgöngu - á að ríða fyrir göngunni með fleiri Freyfaxafélögum á Myrkvu og það þarf að dubba þær stöllur báðar upp og svona hrossadubb tekur svolítinn tíma..., Guðmundur Þorsteinn er nauðsynlegur sem hestasveinn við svona aðstæður... Berglind Rós er búin að vinna sér inn þátttökurétt á Landsmótinu á Hellu í sumar - en ekki gekk eins vel hjá Guðmundi enda hann með lítið taminn, ungan hest... hann nýtur þess bara að horfa á í staðinn...

Var að ljúka við einstaka bók Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson, langt síðan ég hef lesið bók þar sem orðin eru eins dýr og hlaðin merkingu, er búin að lesa stóran hluta hennar oftar en einu sinni... mér finnst það til dæmis einstakt að líkja orðum sem segja frá liðnum atburðum við björgunarsveitir sem bjarga frá gleymsku, einfalt en áhrifaríkt... þarf að lesa meira eftir þennan ágæta höfund.  Vinur minn líkir honum við Ólaf Jóhann Sigurðsson - þarf að lesa Seið og hélog aftur til að athuga hvort hann hefur rétt fyrir sér...

En nú er það björt og köld norðanáttin sem bíður okkar til að sinna skyldum og skemmta okkur svo á metnaðarfullri þjóðhátíðardagskrá hér á Fljótsdalshéraði... megið þið eiga góðan þjóðhátíðardag með ykkar fólki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Velkomin heim!

Sammála þér með Jón Kalmann. Himnaríki og helvíti er frábær bók.

Sigþrúður Harðardóttir, 18.6.2008 kl. 09:41

2 identicon

Já Jón Kalman er frábær.

En framundan er Jónsmessutími og þá rifjast upp ljúfar sumarnætur í Hallormsstaðaskógi  Við ættum kannski að skella okkur í skóginn og velta okkur upp úr dögginni Nína?

Gott að þú ert komin heil heim frá frændum vorum Finnum.

Rannveig Árna (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 18:58

3 identicon

skrítið þetta með 17. júní.  Mér hefur aldrei líkað þessi dagur.   En gott að húka heima með púsl.

Dandý (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 09:00

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gleðilegan 19. júní bloggvinkona

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.6.2008 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband