Færsluflokkur: Bloggar
23.5.2008 | 00:18
Íbúalýðræði
Var að koma af fundi um fyrirhugaða reiðhallarbyggingu á Stekkhólmasvæðinu. Vallamenn fengu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri, flestir þeirra sem tjáðu sig voru á þeirri skoðun að það væri farsælt að byggja reiðhöllina við félagsheimilið Iðavelli. Rekstur beggja húsanna ætti að verða betri með þeirri samnýtingu sem næst með nábýlinu.
Ég held að þegar íbúar fái tækifæri til að tjá sig um mál sem á þeim brenna og tengjast þeim verði ákvarðanir mun farsælli og almennt náist um þær samstaða og ánægja...
Var því ánægð með kvöldið - það er líka alltaf svo frábært að vera á Iðavöllum.
Langt síðan ég hef bloggað - var í Reykjavík að fara yfir samræmt próf í stærðfræði - fróðlegt og lærdómsríkt. Samræmd próf - gagnleg - vonlaus - illa nýtt upplýsingaveita??? Hvert er samræmið milli samræmdra prófa og einstaklingsmiðað náms??? Gæti skrifað langt mál - læt spurningar nægja í bili...
Átti góða daga í Reykjavík - maí í Reykjavík er frábær - þó veðrið hafi ekki verið upp á það allra besta þessa 10 daga sem ég dvaldi í höfuðborginni, var yndislegt að vera í borginni þessa daga...
Næstu daga snýst lífið um útskrift englabossans - frumburðurinn og barnabarnið komnar austur, á morgun á að baka og þrífa auk þess að kíkja á ársfund Byggðastofnunar. Gelgjan mín er á Mývatni og kemur á morgun - skrýtið að hafa hana ekki heima....
Bloggar | Breytt 24.5.2008 kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2008 | 08:39
Að taka lífinu hæfilega alvarlega...
Á síðustu dögum hef ég rekist á viðtöl við skemmtilegar og klárar konur. Eftir lesturinn situr eftir í mínum kolli áherslan á það að þora að njóta augnabliksins og taka lífið ekki allt of hátíðlega. Kannski hef ég lesið þessar áherslur út úr orðum þeirra því þær henta mér.
Eftir því sem ég eldist og læri meira af lífinu, um lífið, verð ég sannfærðari og sannfærðari um að mikil lífsgæði eru fólgin í því að þora að njóta þess sem lífið býður upp á, þora að taka áhættu og þora að hlæja - ekki síst af mistökunum sem maður óhjákvæmilega gerir.
Sem kennari nýt ég þess að fíflast dálítið í nemendum mínum og með þeim, vona að það geri sumum þeirra stærðfræðina bærilegri og auðveldari, það gerir kennsluna allavega að spennandi starfi...
Sem pólitíkus er ég alltaf að læra eitthvað nýtt, stöðugt einu skrefi á undan sjálfri mér, þar þarf ég að taka ákveðna áhættu því ég þekki ekki öll mál, en með því að kynna mér þau og ræða þau og nýta þá framtíðarsýn sem ég hef fyrir sveitarfélagið mitt með tilfinningar hugsjónarinnar að vopni, nýt ég þess að vinna í pólitík.
Í gær naut ég þess að vera með krökkunum mínum - við erum öll í borginni - náðum Jóni Matthíasi með í hádeginu í gær - rosalega langt síðan ég hef verið með þeim öllum - horfði stolt yfir hópinn minn, hugsaði um þær stundir sem áhyggjurnar yfir þeim stóru voru mann lifandi að drepa, vona að það viðmót sem þau mættu þegar þau lentu í erfiðleikum hafi átt sinn þátt í að gera þau að frábærum einstaklingum og áhugasömum eldhugum í því námi sem þau hafa valið sér.
Guðmundur var dressaður upp frá toppi til táar - stúdentsprófið í höfn, útskrift með tilheyrandi hátíðahöldum 24. maí. Englabossinn minn fer að fljúga úr hreiðrinu líka...
Gelgjan mín verður bráðum ein eftir - við náðum frábæru spjalli í bílnum á leiðinni suður - hún er líka að verða fullorðin - hugsunin er þroskuð þó orðfarið geti stundum farið með mann.... en við hlógum mikið og hún komst að þeirri niðurstöðu að mamma hennar væri auðvitað hundgömul en nothæf eigi að síður...
En nú bíða samræmdu stærfræðiprófin eftir mér í þúsundatali..., megið þið eiga góða hvítasunnuhelgi með tilheyrandi hlátrasköllum og skemmtilegheitum...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.5.2008 | 18:56
Vorkvöld í Reykjavík
Náði að upplifa tvö yndisleg vorkvöld á Höfuðborgarsvæðinu í fyrstu maíferðinni. Það fyrra við fjörðinn fallega, drakk kvöldkaffi úti með mömmu og horfði til Snæfellsness, ekkert sérstaklega ljótt né leiðinlegt.
Seinna kvöldið var við sundin blá, í félagsskap skemmtilegra skólasystra úr sérkennslunáminu fyrir norðan, við verðum allar fallegri, skemmtilegri og vitrari með aldrinum og reynslan og þekkingin sem þessi hópur býr yfir eru einstakar - mér fannst mjög gaman að heyra hversu margar okkar taka sig ekkert sérstaklega hátíðlega og eiga auðvelt með að sjá spaugilegar hliðar lífsins og starfsins.
Ég gat líka séð rómantíkina í því að vera úti í Reykjavíkurnóttinni að reyna að finna leigubíl ... og ekki síður að finna skógarilminn í Öskjuhliðinni á laugardaginn, sjá birkið vera að springa út og mannlífið blómstra í vorblíðunni.
Vorið er yndislegur tími - en óneitanlega er skemmtilegra að veðrið sé vorlegt...
Sumarið á Fljótsdalshéraði er annar yndislegur tími sem fær sína verðskulduðu umfjöllun síðar.
Bloggar | Breytt 24.5.2008 kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.5.2008 | 10:58
Hátíðisdagur
Þegar ég var krakki man ég eftir að hafa spurt af hverju búðin okkar væri alltaf lokuð á afmælinu hennar ömmu, 1. maí, lengi var mér nú sagt að það eitt og sér væri nú fullgild ástæða þess að loka öllu og flagga - enda amma afar merkileg kona.
En þegar árum mínum fjölgaði var útskýrt fyrir mér að þessi dagur væri baráttudagur verkalýðsins, ekki okkar dagur því við værum sjálfstæðir atvinnurekendur. En þegar ég fór að spjalla við ömmu um málið, kom annað sjónarmið í ljós, hún sagðist vera afar stolt af því að vera fædd þennan dag og þó hún væri ekki dugleg að sækja fundi eða ganga göngur fyrir bættum kjörum bæri hún mikla virðingu fyrir þeim sem það gerðu og ég skildi gera það líka og jafnvel verða virk í þessari baráttu þegar aldurinn færðist yfir mig. Ég hef nú ekki verið neitt sérstakleg virk á þessu sviði - en dugleg að sækja fundi...
Það er nauðsynlegt að minna sig á það reglulega að barátta fyrir réttlætismálum á að vera manni blóð borin og hluti af sjálfsmynd manns.
Verð alltaf jafnglöð þegar börnin mín fá þau ummæli að þau séu stjórnsöm og með sterka réttlætiskennd. Guðbjörg Anna var í foreldraviðtali í vikunni þar sem Karen Rós fékk nákvæmlega sömu umsögn og mamma hennar fékk frá 1. - 10. bekk - stjórnsöm en með sterka réttlætiskennd, tilbúin til að verja vini sína með kjafti og klóm... sterk gen sem greinilega eru ekki að þynnast út...
Vona að sanngjörn barátta launafólks fyrir bættum kjörum beri árangur - hún á fyllilega rétt á sér á tímum þar sem launabilið eykst stöðugt og umönun peninga og peningatengdra verkefna kallar á mánaðarlaun sem eru fáheyrð og myndu duga venjulegri fjölskyldu til ársframfærslu. Umönun fólks aftur á móti kallar á laun sem eru fáheyrð fyrir lága krónutölu...
Til hamingju með daginn, launafólk
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2008 | 22:47
Síðasti dagurinn...
Á morgun er síðasti skóladagurinn í ME þetta skólaárið. Útskriftarnemarnir okkar dimmitera og við mömmurnar ætlum að gefa þessum elskum morgunverð í fyrramálið svo þau verði tilbúin í átök dagsins... Veðrið hér á Héraðinu er lítið spennandi - það er eiginlega bara vetur - já og það hávetur, í lok apríl..., en það þýðir ekkert að væla yfir því - hverju breytir vælið svo sem...
Ég lauk við að gefa allar annareinkunnir í dag - uppskeran er misgóð - en flestir uppskera eins og þeir sá - einn og einn fær heldur lægra en manni finnst sanngjarnt vegna þess að próf hefur farið illa - en það er hægt að leiðrétta að nokkru leyti með kennararaeinkunn sem endurspeglar vinnusemi nemandans.
Það er mikið um að vera á morgun - dimmisjónin - síðustu kennslustundir í öllum áföngum - og síðan íbúafundur um aðalskipulag, sérstaklega tengt þróun þéttbýlisins í Fellabæ, annað kvöld...
Yndislegt að eiga svo frídag 1.maí - börnin ætla að keppa á firmakeppni Freyfaxa - ég verð þulur þar og slæ tvær flugur í einu höggi, geri gagn og fylgist með krakkaögnunum. 1. maí var stórhátíðisdagur í minni fjölskyldu þegar ég var krakki - móðuramma mín hún Sesselja átti afmæli þann dag - og það var alltaf veisla og fullt af fólki í kringum okkur þann dag - alltaf gaman...
Að kvöldi 1. maí ætla ég svo að fljúga suður - hlakka ótrúlega mikið til - það verður yndislegt að hitta fólkið mitt þar - upplifa borgina og hitta sérkennaraskólsysturnar á föstudagskvöldið - finnst órtúlegt að það séu 15 ár síðan við lukum náminu okkar á Stóru-Tjörnum... en ætli manni finnist ekki gaman að vera til ef tíminn líður svona hratt...
En nú er best að hvíla sig svolítið til að vera tilbúin í skemmtilegan 30. apríl...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.4.2008 | 16:41
Löng helgi
Þetta er búin að vera fín fjölskylduhelgi - mér tókst að ná gelgjunni og englabossanum á hestbak á sumardaginn fyrsta - og svo var farið á stelpureiðtúr á föstudaginn líka. Mikið sem það er nú gaman að fara á hestbak - skil aldrei af hverju ég geri þetta ekki oftar þegar ég loksins dríf mig... það gefur frábært jarðsamband að moka skít, kemba og anda að sér ilmandi töðulyktinni, svo ekki sé nú talað um tilfinninguna að ná sambandi við hestinn..
Rannveig bauð okkur svo í þetta fína læri á föstudagskvöldið - krakkarnir komu bæði með, við horfðum á Útsvarið með henni. Rannveig Kópavogsbúi var ánægð með úrslitin - ég hefði nú viljað hafa Akureyringana með áfram til að halda uppi merki landsbyggðarinnar...
Sumargjöfin stendur glansandi á svölunum - grillaðar gæsabringur með öllu tilheyrandi í kvöldmatinn í gær, Guðmundur Þorsteinn sá alfarið um máltíðina... frábært að eiga börn með þessi fínu matreiðslugen og almennan mataráhuga úr föðurfjölskyldu sinni ágætri...
Skemmtilegur fundur hjá mér í gær - pólitísk umræða af bestu gerð ..., samherjar í pólitík geta haft aðeins mismunandi áherslur sem gefa skapandi umræðu...
Aðeins öðruvísi samkoma hjá mér í morgun - Rannveig og Dandý komu í morgunkaffi - það var slúðrað svolítið og hlegið meira - þrælskemmtilegir sagnaþulir þessar náttfatamorgunverðarvinkonur mínar...
Og nú eru það bara stærðfræðiverkefni í hundraðavís sem bíða rauða pennans - annars er ég svoooo montin með árangurinn í þessum stöflum sem ég er búin með - það þornar alveg í rauða pennanum á milli...hornaföll, fjarlægðaformúla og miðpunktsregla vefjast lítið fyrir þessum snillingum mínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.4.2008 | 08:59
Gleðilegt sumar elskurnar
Ég held að vetur og sumar hafi ekki frosið saman hér á Héraðinu, en ég er samt bjartsýn, held að við fáum gott sumar á Héraði - enda er það nú raunin flest sumur - svo hér er um staðreyndir að ræða en ekki spádóma...
Ég á margar skemmtilegar æskuminningar tengdar sumardeginum fyrsta - skrúðgöngur, fánar, skátamessur, nýjar flíkur, litlar sumargjafir og pabbi er afar áberandi í þessum minningum, hlýr og hlæjandi..., mikið er nú gott að geta yljað sér við góðar minningar.
Ein minningin er ljúfsár - nýir skór (flottar mokkasínur með pening í raufinni ofan á ristinni!!) og skrúðganga í Garðabæ, flott blanda en ekkert sérstaklega góð fyrir hælana - mokkasínurnar voru allavega ekki notaðar í einhverja daga eftir skrúðgönguna...
Ég hef reynt að halda í ákveðnar hefðir varðandi sumardaginn fyrsta - sumargjafir og fjölskyldusamveru. Það breytist samt ýmislegt þegar börnin vaxa úr grasi, unglingarnir vilja vera með vinum sínum - en mér finnst þau samt alltaf vilja vera með gamla dótinu ef maður stingur upp á því - svo nú vona ég að ég nái þessum börnum mínum sem hjá mér búa á reiðtúr í dag.
Á hádegisfundi hjá fjölskyldunni í íbúð 203 í Kelduskógablokkinni í gær var tekin ákvörðun um sameignilega fjölskyldusumargjöf - grill - það gamla er endanlega búið á því - allir glaðir og ánægðir með samþykkt fundarins - svo nú þarf bara að framkvæma - Guðmundur Þorsteinn var settur í verkið, mamma borgar...
En nú ætla ég að fara út að hjóla - leikfimihópurinn minn ætlar út að skokka - ég nenni ekki að skokka, ég verð svo gömul í hnjánum af því - svo ég hjóla bara með þeim - svo er það heiti potturinn, unglingarnir mínir sofa - og ég geri ráð fyrir að þau sofi vært þegar ég kem heim aftur.... En megið þið eiga góðan sumardag með ykkar fólki
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.4.2008 | 09:41
Skólastarf á 21.öld
Elskurnar mínar í stæ 292 eru að taka síðustu könnun vetrarins, þau eru búin að standa sig vel í vetur, sum eru að ná valdi á stærðfræðinni eftir áralanga baráttu - aðrir þurfa enn lengri tíma...
Mér finnst krakkarnir almennt rosalega þreytt og keyra á alsíðustu dropunum núna síðustu dagana. Ég er hugsi yfir því af hverju þau eru svona þreytt - ég gæti alveg farið í þann gír að segja bara að þau sofi ekki nóg, borði ekki nógu hollan mat, drekki of mikið og tiltekið marga fleiri neikvæða þætti - en ég held að þeir séu bara hluti af skýringunni, er hrædd um að það sé alltaf að verða stærra bil á milli skólans og þess sem fer fram þar og þess lífs sem krakkarnir lifa utan skólans - þessir krakkar lifa í tæknivæddum heimi með sitt msn, myspace og allt hitt - en koma svo í skólann og nánast rita með sauðablóði á skinn..., eru andstæðurnar of miklar fyrir þau....
Það þarf einhverja gagnkvæma aðlögun, hef ekki lausnina - en ætla ekki að gefast upp á að leita að henni...
Fór í spinning í morgun - Dandy var hress að vanda - en hún sveik okkur um dansinn - hann hlýtur að verða æfður á mánudaginn, held að það sé hollt að byrja daginn á léttri sveiflu...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.4.2008 | 17:58
Vor á Héraði
Þegar ég var unglingur, upp úr miðri síðustu öld - var alltaf gott veður þegar ég var að læra fyrir vorpróf, svalirnar á Móabarðinu voru gerðar að lessal og sólin sleikt í bak og fyrir um leið og stórmerkilegur fróðleikur var meltur.
Þegar ég flutti hingað austur á Hérað varð ég yfir mig hrifin af veðráttunni hér - nema í maí. Mér finnst oft koma vor hér í apríl og síðan aftur vetur í maí og svo kemur sumarið allt í einu, gjarnan á einni nóttu, upp úr 10. júní.
Maí er því eini árstíminn sem ég sakna Hafnarfjarðar og nágrennis og hef því oft fundið mér tilefni til að vera mikið á því landshorni þann mánuðinn. Hef sjaldan verið eins dugleg að snapa mér suðurtilefni eins og í maí 2008. 2. maí ætla ég að halda upp á það með félögum mínum að það eru 15 ár síðan ég útskrifaðist sem sérkennari, 9. maí ætla ég að byrja að fara yfir samræmda prófið í stærðfræði og taka í það svona 10 daga og 30. maí ætla ég svo að halda upp á 30 ára stúdentsafmæli með gömlum félögum úr Flensborg.
En veðrið á Héraðinu þessa helgina hefur verið dásamlegt ..., það er líka eins og það hafi lifnað yfir bænum og íbúunum - örtröð í bílaþvott er einn vorboðinn, það var meira að segja örtröð hér á bílaþvottaplaninu okkar í Kelduskógunum - en Steini skipulagði og aðstoðaði svo allt gekk eins og í bestu vinasögu. Í morgun fór ég svo í langan hjólatúr inn Velli og naut náttúrufegurðar og blíðviðris. Kannski næ ég að upplifa tvöfalt vor enn einu sinni - aprílvorið á Héraði og maívorið í borginni..., lífið hefur upp á svo margt að bjóða...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2008 | 09:45
Íbúalýðræði
Ég er mjög hlynnt íbúalýðræði og tel það undirstöðu þess að samfélag þróist á jákvæðan hátt að íbúar telji sig geta haft áhrif á umhverfi sitt bæði náttúrurlegt og félagslegt.
Þess vegna er ég ánægð með góða mætingu á íbúafundi hér á Fljótsdalshéraði þar sem við erum að kynna vinnuna við nýtt aðalskipulag. Það var fínn fundur í Brúarási í gærkvöldi - um 40 fundargestir sem flestir höfðu mikið til málanna að leggja komu til að spyrja, uppfræða og gera athugasemdir. Þema fundarins var ferðaþjónusta og þau áhersluatriði sem mér fannst koma fram voru: Vatnajökulsþjóðgarður og tækifæri honum tengd, hreindýrin og hestaferðir og reiðstígar.
Í öllum þessum málum er samstarf við landeigendur forsenda framþróunar - vona bara að það stoppi okkur ekki af, samsarf er jú gagnkvæmt ferli þar sem allir aðilar máls þurfa að leggja sitt af mörkum...
En - sólin skín enn á Héraðinu - það er notalegt að lifa í voninni um gott helgarveður..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggvinir
-
annapala
-
annaragna
-
annriki
-
agustolafur
-
arnith2
-
baldurkr
-
gattin
-
bryndisfridgeirs
-
brandarar
-
dofri
-
drifakristjans
-
gleraugun
-
saxi
-
huld
-
fjolan
-
logbjorg
-
gutti
-
gudnydrifa
-
gurrihar
-
gudrunjj
-
gudrunkatrin
-
gunnaraxel
-
hafsteinnkarlsson
-
hallibjarna
-
heidathord
-
hildajana
-
ingabaldurs
-
ingolfurasgeirjohannesson
-
jogamagg
-
jonaa
-
joningic
-
kallimatt
-
kolbrunb
-
kopasker
-
daudansalvara
-
lara
-
olinathorv
-
ragnhildur
-
rosa
-
amman
-
sisshildur
-
svalaj
-
svavaralfred
-
svenni
-
tjorvi
-
vefritid
-
thorhildurhelga
Tenglar
Vinir
- Rannveig vinkona
- Dandy orkubolti, spinningkennari og náttfatavinkona
- Tóta litla
- Konni kynlegi
- Þórveig hreyfisystir
Pólitík
Nota bene
Ritað og talað mál
Hér er ýmislegt sem ég hef sagt og ritað upp á síðkastið.
Myndaalbúm
Eldri færslur
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar