Færsluflokkur: Bloggar
15.4.2008 | 14:35
Vorönnin er að verða búin
Var að gera mér grein fyrir því að þegar kennslu lýkur í dag á ég eftir að kenna 9 daga þetta skólaárið. Fékk létt áfall - en gerði mér svo grein fyrir því að í öllum mínum áföngum er ég í nokkuð góðum málum - yfirferð námsefnis er langt komin og markmið þar með að nást. Þá þarf bara að fara að skipuleggja síðustu spor nemenda fyrir próf, til að þau spor verði farsæl og árangursrík veit ég af langri reynslu að nú þarf að hvetja og hrósa sem aldrei fyrr - flestir nemendur mínir eru þannig staddir að stærðfræði er ekki þeirra sterkasta hlið og þegar próf nálgast fer sjálfstraustið niður fyrir núll. Þetta birtist í ýmsum myndum - fíflagangur er sennilega algengasta myndin, mitt vopn er að fíflast aðeins á móti og halda svo áfram - virkar oftast .
En vorið er að koma - það er yndislegt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.4.2008 | 09:44
Fagmennska og pólitík
Ég á stundum svolítið erfitt þegar fólk tekur sig til og bolsótast útí pólitíkusa eins og það eigi lífið að leysa.
Það er eðlilegt að verk manna séu gagnrýnd og auðvitað hafa menn mismunandi skoðanir á forgangsröðun - en mér finnst gagnrýnin á samgönguráðherra afar ómakleg. Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um ný samgöngumannvirki upp á síðkastið eru ekki gripnar úr lausu lofti - þær eru allar byggðar á margra ára undirbúningsvinnu og samstöðu heimamanna.
Það er afar heppilegt að hafa landsbyggðamann sem samgönguráherra - mann sem þekkir af eigin raun hversu erfitt getur verið að komast á milli staða á landsbyggðinni og hversu takmarkandi það er fyrir dreifðar byggðir að vera einangraðar - stækkun atvinnusvæða er afar mikilvæg fyrir dreifðar byggðar og þar eru samgöngur alger forsenda.
Auðvitað þarf að stórbæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þar eru það umferðaröryggismál sem eiga að stjórna ferðinni.
Þetta tvennt á ekki að þurfa að vera mótsögn - við erum ein þjóð í einu afar víðfeðmu og strjálbýlu landi og landsbyggð og höfuðborg eiga að styðja hver aðra en ekki metast um hver fái meira eins og litlir krakkar...
Það er stórmerkileg lífsreynsla að prófa að vera pólitíkus - mér finnst hlutirnir stundum ganga afar hægt fyrir sig - kerfið þunglamalegt og á köflum vitlaust - en við verðum að halda ró okkar og vinna faglega - fyrirgreiðsla og viðbrögð við hvers kyns hamagangi og uppákomum verða að vera yfirveguð án þess að menn skýli sér á bak við kerfið og geri ekki neitt.
En nú ætla ég að kenna maurunum mínum í stæ 292 meira um hnit og föll...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.4.2008 | 08:07
Útsvarið gekk vel - en ekki alveg nógu vel
Þau stóðu sig með sóma okkar fólk í Útsvarinu í gærkvöldi - en herslumuninn vantaði - svona smáatriði eins og hvort björninn er stór eða lítill geta skipt máli... - en munurinn var lítill og við berum okkur vel. Takk fyrir ykkar framlag, Þorbjörn, Þorsteinn og Urður.
Stuðningsliðið fór svo á Hótel Hérað á eftir og drekkti sorgum sínum - sorgin var ekki langvinn, hlátrasköll, sögur og trúnó, í góðru blöndu - sannfærði mig enn frekar um að maður er manns gaman, fór glöð og ánægð heim til litlu dótlunnar um 12 leytið.
Í dag er svo margt á dagskránni: ræktin, hestamennska, fundur með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, sjúkrahúsheimsókn og svo árshátið Fljótsdalshéraðs í kvöld. Góður dagur framundan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.4.2008 | 09:42
Karlkennarar með hærri laun en kvenkennarar...
Ég verð að viðurkenna að á bjartsýnisskýinu sem ég sveima um á flesta daga - er kennarastéttin undanskilin kyndbundnum launamun, það er alltaf verið að tala um kvennastétt - hvað sem það nú þýðir... En samkvæmt nýjustu upplýsingum um þessa stétt eru karlarnir með 18% hærri heildarlaun en konurnar og 5% hærri laun ef allar breytur eru jafnaðar. Ég verð greinilega að koma niður á jörðina í einhvern tíma og endurskoða veru mína á bjartsýnisskýinu.
Ég get ekki skilið þennan mun - við erum að tala um nákvæmlega sama starfið - það krefst ekki líkamlegra burða, það krefst ekki utanáliggjandi kynfæra, það krefst ekki djúprar raddar - það krefst faglegrar færni til að skipuleggja nám og kennslu, það krefst áhuga á ungu fólki, það krefst umburðarlyndis og samskiptahæfni, það kefst húmors og jákvæðni..... - halló hvað er að????
Stelpur, það er starfsmannaviðtal í dag - þar sem krafan er 5% launahækkun að minnsta kosti...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2008 | 09:44
Það er sól á Héraði
Yndisleg þessi birta - og geislarnir hita allavega yfirborðið... Dreif mig í spinning í morgun eftir nokkuð langt hlé - það var æðislegt að hita stelpurnar aftur - sveittar og hressar, verst að það eru bara tveir morguntímar á viku.
Í dag eru 36 ár síðan ég var fermd í Garðakirkju, 41 ár síðan Helga systir var fermd, 30 ár síðan Hanna Petra, litla systir var fermd, 10 ár síðan hún Guðbjörg Anna mín var fermd og eftir nákvæmlega eitt ár verður hún Berglind Rós mín fermd, að óbreyttu..., stórmerkilegur dagur. Tilefni til að hafa samband við allar þessar systur og dætur - frumburðurinn minn er að fara í próf á eftir...., sendi henni hlýjar kveðjur.
Í dag er forvarnardagurinn, það verður dagskrá hér í skólanum og síðan er Ungmennaþing í Sláturhúsinu - ungmennin ætla að ræða saman um afþreyingarmöguleika og vonandi koma með góðar tillögur um það miklilvæga mál í skólasveitarfélaginu Fljótsdalshérði. Ungmenni þurfa að eiga möguleika á því að hittast og skemmta sér - og sveitarfélag á að koma að því máli - en bara þegar um vímulausa atburði er að ræða - við eigum frábært Ungmennahús - í Sláturhúsinu - sem er dæmigerður vettvangur sveitarfélags til að skapa ungmennum aðstöðu til afþreyingar. Hlakka mikið til að heyra niðurstöður umræðnanna og hvernig Ungmennaráðið leggur til að þessum málum verði háttað hjá okkur...
Svo er 100. fundur bæjarráðs Fljótsdalshéraðs í dag - við gerum okkur aðeins dagamun að því tilefni. Þessi dagur lítur út fyrir að verða viðburðarríkur hjá mér - vona að þið eigið góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2008 | 16:40
Vor í borginni
Átti frábæra langa helgi í borginni - það var sól og enginn snjór - mér fannst það æði, snjóþröskuldur minn er að verða afar lágur - þoli ekki meir...
Fínir fundir á fimmtudag og föstudag - svo fékk ég gleðikonurnar Sif og Kristínu með mér í bæinn á föstudagskvöldið og við sýndum og sönnuðum og við erum enn sannar glys - og gleðikonur og kunnum að mála bæinn rauðan, húrrrrrrraaaa
Og aðalverkefni helgarinnar var ekki af verri endanum - ég var amma, klukkan 7 á laugardagsmorguninn hófst dagskráin - sundferð, öndunum (eða meira svönum og gæsum) gefið brauð, keyptur ís, langamma heimsótt, barnaafmæli og matseld um kvöldið - við sofnuðum báðar um níuleytið - gleðiamman var enn þreyttari en hið súperaktíva barn. Og síðan tók við fagur sunnudagur með heldur einfaldari dagskrá - afasysturnar á Selfossi og afi í mýflugumynd fengu að njóta okkar þann dag...
Mikið er nú gaman að eiga bæði borgarlíf og sveitalíf - hvoru tveggja nauðsynlegt og skemmtilegt og byggðaáherslan að viðhalda þeirri tvíhyggju....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.4.2008 | 06:41
1. apríl
Mig minnir að þegar ég var lítil upp úr miðri síðustu öld hafi verið frí í skólanum 1. apríl. Það þótti ekki við hæfi að hafa platandi krakka á skólabekk og við völsuðum um bæinn og plötuðum í staðinn... eða er þetta kannski bara minning eins og að það hafi alltaf verið gott veður í skrúðgöngunni á sumardaginn fyrsta . Eins gott að vera á varðbergi í dag - ætli það renni ekki í gegn hjá mér í dag 80 stykki unglingar - mikið væri ég til í að þau kæmu með eins og eitt flott aprílgabb.... Ég ætti að reyna að vera skapandi í hugsun og vekja krakkagrislingana mína með einhverju sniðugu
Dagurinn í dag er þéttsetinn hvers kyns skemmtilegheitum..., kennsla til 15 í dag, þá tekur við undirbúningur fyrir ársfund Fjárafls sem er kl. 17. Á milli er stýrihópsfundur um menntastefnu sem sennilega er að skila af sér til fræðslunefndar. Í kvöld ætla ég svo með Rannveigu og Berglindi Rós á leiksýningu LME Lísu í Undralandi - sem er víst frábær sýning, öllum sem ég hef heyrt í ber saman um það...
Svo er það náttúrufræðipróf hjá Berglindi Rós, þarf aðeins að útskýra fyrir henni muninn á frumeind, sameind, efnasambandi og efnablöndu - finnst þetta aðeins flókið fyrir 13 ára..... og skattaskýrslan, fresturinn rennur víst út á morgun. Mér leiðist örugglega ekki í dag - nú ætla ég aðeins að skjótast í ræktina... og úthugsa aprílgabb
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.3.2008 | 10:15
Veggöng til Seyðisfjarðar
Átti skemmtilegan dag á Seyðisfirði í gær. Verið var að halda upp á 25 ára afmæli Þróunarfélags Austurlands - en það var stofnað á Seyðisfirði 20. maí 1983.
Ég tók að mér að vera ráðherrabílstjóri, náði í Össur Skarphéðinsson og aðstoðarmann hans Einar Karl á flugvöllinn um tvöleytið og við "brunuðum" sem leið liggur á Seyðisfjörð - yfir Fjarðarheiði - og það er skemst frá því að segja að hún var í ham - ekki þeim versta sem maður hefur séð - en veðraham eigi að síður - ferð okkar gekk vel enda búið að leigja undir okkar jeppa. Mikið verður nú frábært þegar búið verður að leggja veginn í göng - þá má segja að það verði búið að færa samgöngur til Seyðisfjarðar til eðlilegs nútímahorfs.
Á Seyðisfirði voru svo stöðug hátíðahöld - skemmtilegar ræður - fín tónlist - og frábær matur - allavega til hálfellefu þegar bílstjórinn ók með sína farþega aftur yfir heiði í ham og varð enn ákveðnari í hversu hart þarf að berjast fyrir göngunum....
Össur stóð sig frábærlega - var skemmtilegur og málefnalegur og tók erindum sem borin voru fyrir hann af skilningi og áhuga.
Endaði svo daginn á því að kíkja aðeins við í kennarapartý - samkennarar mínir eru skemmtilegir og litríkir persónuleikar svo ég sofnaði um eittleytið með bros á vör eftir frábæran dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.3.2008 | 00:31
Tjá þú þig bara um uppeldi og mataruppskriftir, KONA!!!
Jahérna - á dauða mínum átti ég von - en ekki því að árið 2008 - væri mér sagt að tjá mig bara um þau málefni sem konur hefðu vit á - börn og mat. Miðaldra karlmaður - vel menntaður - tjáði sig á þessum nótum á 50 manna fundi áðan. Ég var svo grandalaus að ég áttaði mig ekki strax - svo óvanar eru konur orðnar því að karlar leggi í að tjá sig svona upphátt - grunur um slíkar hugsanir þeirra kviknar oft - en þessi ágæti karl staðfesti gruninn í kvöld. Tjáningarfrelsið er að hans mati bundið við að maður hafi faglega þekkingu á málum til að hafa leyfi til að tjá sig. Og hann benti mér á að mín faglega þekking næði ekki út fyrir heimilið, hugmyndin um eldavélatjóðrið býr enn í karlmannshugum ekki bara á Suðurlandi...
Litla dóttir mín sem er að lesa yfir öxlina á mér hlær - henni finnst ég betri í pólitíkinni en í eldamennskunni. Ég er hreykin af því að vera henni fyrirmynd að því að konur hafa getu og þor til að tjá sig um fleira en mat og börn - líka það sem maður hefur ekki háskólagráðu í.... Gott að vita til þess að dætur karla, sem gera lítið úr konum, eiga líka slíkar fyrirmyndir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.3.2008 | 08:50
Skilnaður við hvern???
Mikið hlakka ég til að lesa þessa skýrslu. Sennilega er ekki margt sem kemur manni á óvart í henni - en staðfesting á grun er alltaf góð.
Mér finnst alveg með ólíkindum hversu lítið mál það er að skilja á Íslandi og hversu lítil umræða fer fram í skilnaðarferlinu um ábyrgðina gagnvart börnunum sem hafa verið hluti af fjölskyldu þeirra tveggja aðila sem hafa ákveðið að þeir treysti sér ekki til að búa saman lengur. Það er mikill ábyrgðarhluti að brjóta upp fjölskyldu - það er mikið mál fyrir börnin að búa ekki lengur hjá báðum foreldrum sínum - og fullorðna fólkið í þessu ferli verður að vera fullorðið.... Í skilnaðarferli hittir maður prest og lögfræðing - ég man ekki eftir að börnin hafi verið nefnd nema við vorum spurð hvort við hefðum komist að samkomulagi um hvernig þetta yrði með börnin - því var svarað játandi og þar með var þetta smámál - þrír krakkar - útrætt mál.
Þarf að fara að kenna - gæti skrifað um þetta mál til kvölds - kem að því aftur síðar...
![]() |
Skilja við ömmu og afa auk pabba |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggvinir
-
annapala
-
annaragna
-
annriki
-
agustolafur
-
arnith2
-
baldurkr
-
gattin
-
bryndisfridgeirs
-
brandarar
-
dofri
-
drifakristjans
-
gleraugun
-
saxi
-
huld
-
fjolan
-
logbjorg
-
gutti
-
gudnydrifa
-
gurrihar
-
gudrunjj
-
gudrunkatrin
-
gunnaraxel
-
hafsteinnkarlsson
-
hallibjarna
-
heidathord
-
hildajana
-
ingabaldurs
-
ingolfurasgeirjohannesson
-
jogamagg
-
jonaa
-
joningic
-
kallimatt
-
kolbrunb
-
kopasker
-
daudansalvara
-
lara
-
olinathorv
-
ragnhildur
-
rosa
-
amman
-
sisshildur
-
svalaj
-
svavaralfred
-
svenni
-
tjorvi
-
vefritid
-
thorhildurhelga
Tenglar
Vinir
- Rannveig vinkona
- Dandy orkubolti, spinningkennari og náttfatavinkona
- Tóta litla
- Konni kynlegi
- Þórveig hreyfisystir
Pólitík
Nota bene
Ritað og talað mál
Hér er ýmislegt sem ég hef sagt og ritað upp á síðkastið.
Myndaalbúm
Eldri færslur
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar