Færsluflokkur: Bloggar
8.2.2009 | 18:14
Ekkert athugavert...
Davíð ætlar ekki að standa upp úr stól sínum án láta - enda hefur hann ekkert gert rangt!!!!! - í gær talaði ég um heimsku - í dag um siðleysi og fullkomna siðblindu - skyldi hann í alvöru halda að það sé best fyrir þjóðina að hann sitji þarns fastur á sínum f.... rassi - eða kannski verst.... og finnist það gott... Áfram Jóhanna - ekki láta hann buga þig - kallaðu færustu lögfræðinga og stjórnsýslufræðinga til þín til að losa megi karlinn úr stólnum sem allra fyrst.
Var á frábæru þorrablóti í gærkvöldi - Vallahreppur hinn forni hélt sitt blót á Iðavöllum - maturinn var frábær, súrmaturinn almennilega súr, hákarlinn vel kæstur og makkarónusalatið á sínum stað. Svo var dagskráin stórfín, mikið sungið, góður annáll og fín leikatriði - Gleðikvennafélag Vallahrepps, sem við Rannveig vinkona erum stofnfélagar í, fékk flott skot í tengslum við reiðhallarumræðuna og ég veltist um af hlátri þegar Jörundur Ragnarsson birtist með krullur og rósir og lék mig með tilþrifum.
Síðan var dansað til fjögur við fínan undirleik hljómsveitarinnar Nefndarinnar og það voru sárfættar, þreyttar en afar glaðar vinkonur sem yfirgáfu Iðavelli upp úr fjögur. Við Edda vorum fyrirfram ákveðnar í því að við færum síðastar úr húsi og stóðum galvaskar við það. Þessi þorrablót eru einstakar skemmtanir - ég slepp við að vera í nefnd næst - en veit þá að árið 2011 verður mitt ár og þá get ég tekið Berglindi Rós með mér í slaginn.
En englabossinn var að missa af flugvél - svo ég ætla að fara og spjalla við hrossin og gefa þeim tuggu - enda fékk ég óvænt frí frá morgungjöfinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.2.2009 | 15:54
Hver ræður í þessu landi????
Verð að viðurkenna að ég er hissa, bálreið og vonsvikin yfir því að bréf frá forstætisráðherra landsins með ósk um að Seðlabankastjórar sem eru starfsmenn ríkisins hætti störfum dugi ekki til. Ég veit að það er stórmál að segja þeim upp, það þarf tilheyrandi áminningar - munnlegar og skriflegar - og hvers kyns skrifræði til að fullnægja því réttlætismáli sem breytingar á stjórn Seðlabankans eru ef koma þarf til uppsagna. Það er löngu vitað að Davíð Oddsson er hrokafullur og þrjóskur - en að geta setið áfram vitandi að ríkisstjórnin og þjóðin vilja hann burt - hlýtur að teljast heimska - og fram að þessu hef ég ekki talið það orð lýsa honum - en kannski er skýringin á hegðun hans bara svo einföld... Veit lítið um hina tvo - tek ofan fyrir Ingimundi - og verð að viðurkenna að ég tel Eirík bara fylgja Davíð - án þess að vita neitt um það - stundum leyfir maður sér bara að álykta...
Um leið og ég ergi mig yfir þessu - velti ég aðeins fyrir mér framboðsmálum - atvinnuástandi á Héraði - en leyfi mér í dag fyrst og fremst að hugsa um hvað ég ætla að skemmta mér vel á þorrablóti Vallamanna á Iðavöllum í kvöld. Aldrei þessu vant er þetta blót það eina sem ég ætla á - svo ég hef lítið etið af súrmat og hákarl og takmarkað kneifað öl á þessum þorra - svo nú þarf að taka vel á því.
Er í þeirri merkilegu stöðu að vera ein heima um helgina, englabossinn er að keppa í handbolta í borginni og örverpið að keppa í körfubolta í Skagafirðinum. Ég þurfti því að gefa hrossum þeirra í gærkvöldi og síðan aftur í fyrramálið - finnst afar róandi að nusa af heyi, moka aðeins skít og spjalla við hrossin, það gefur manni jarðsamband. Mín hestamennska felst fyrst og fremst í því að vera hestasveinn fyrir börnin mín og ég kann því vel - fínt að komast á bak einstöku sinnum - svona þegar heldur fer að hlýna.
En nú þarf að fara að huga að fötum, skarti og snyrtingu...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2009 | 10:00
Góður dagur
6. febrúar er og verður einn stærsti hátíðisdagur ársins hjá mér og mínum. Þann dag árið 1988 fæddist englabossinn minn sem síðar fékk nöfn afa síns og langafa, Guðmundur Þorsteinn, á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum, að viðstöddu prúðbúnu fjölmenni, því þorrablótstíminn var í hámarki og ljósmóðir og læknar kallaðir af blótum til að taka á móti þessum yndislega dreng.
Pabbinn var ákveðinn í að í þetta sinn ætlaði hann að tilkynna mér hvort kynið við værum að eignast og kallaði um leið og stráksi slapp út - það er strákur - og þá stundi mamman sem þurfti heldur meira að hafa fyrir því að koma englabossanum í heiminn en pabbinn - hann heitir a.m.k. Guðmundur.
Nú eru 21 ár síðan þessi fæðing átti sér stað - en - 7 árum seinna, 1995 fékk Guðmundur Þorsteinn svo litla systur í afmælisgjöf - hún fæddist í Reykjavík - og það var bara sloppaklætt fólk viðstatt - en talsvert mikið af því - legvatnið var litað svo einhver viðbúnaður var - en hið kraftmikla örverpi okkar orgaði hressilega og losaði sig við allan óþverrann ein og sjálf - og þetta upphaf hefur mótað hana talsvert - hún getur og gerir ýmislegt ein og sjálf. Hugmyndaflug foreldranna var ekki meira en svo að þau nefndu dömuna bara eftir þeim sjálfum - enda Berglind Rós hið fallegasta nafn.
Það er mikið ríkidæmi að hafa fætt af sér þrjú heilbrigð börn sem öll eru vel af guði gerð og hefur vegnað vel í lífinu fram til þessa - það er ekki sjálfsagt og mér finnst ég þurfa að þakka fyrir það á hverjum degi.
Þess vegna finnst mér það líka skylda mín að viðhalda góðu sambandi við pabba þeirra þó að okkar hjónabandi sé lokið. Börnin okkar eiga það skilið að við séum áfram foreldrar þeirra, saman, þegar þess þarf og getum talað um allt sem þeim viðkemur í góðri sátt. Þess vegna gefum við þeim enn saman allar gjafir svo þau fái sem oftast að upplifa að þó mamma og pabbi búi ekki saman er það í raun okkar mikilvægasta hlutverk að vera foreldrar þeirra.
Ég veit að stundum er málum þannig háttað að erfiðleikarnir sem á undan eru gengnir eru svo miklir að góð samskipti eru nánast útilokuð. Þess vegna held ég að það sé stundum betra að skilja áður en allt er komið í fastan óleysanlegan hnút - þó ég mæli ekki með hjónaskilnuðum nema ekkert annað úrræði sé til staðar.
Jæja þetta var svona sálfræðileg færsla - engin pólitík í dag.... megið þið eiga góðan dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.2.2009 | 08:15
Einlægni Jóhönnu og fíflagangur sjallanna
Var auðvitað ánægð með Jóhönnnu í gær - hún klikkar aldrei - einlægni hennar og biðlan til þings og þjóðar um samstöðu á erfiðum tímum hittir vonandi í mark víðar en hjá mér.
Sjónleikurinn "Kosning þingforseta" var óneitanlega spaugilegur - en ekki alveg það sem háttvirt Alþingi ætti að eyða dýrmætum tíma sínum í - aldrei - og alls ekki þegar heimili og fyrirtæki í landinu berjast fyrir lífi sínu. Ekki leið til að auka trúverðugleika stjórnmálamanna!!!
Vonandi verður vinnufriður á þingi núna svo fara megi að vinna þau verkefni sem verður að vinna til að samfélagshjólið geti farið að snúast eðlilega - vonandi virka þau lagafrumvörp sem lofað er sem virk smurning á þau tannhjól sem verða að virka.
Ég dreif mig í ræktina í morgun - framundan er spennandi dagur sem er að miklu leyti helgaður vinnu við eflingu Vísindagarðsins ehf á Egilsstöðum og svo er foreldrafundur um Olweus í kvöld - orkan sem sótt er í hreyfinguna nýtist vel í verkefni daganna. En ekki má gleyma að efla andann - er að lesa ævisögu Lárusar Pálssonar - frábærlega vel skrifuð bók - vantar aðeins meiri tíma til að geta sökkt mér niður í hana - hlýt að finna hann einhvers staðar. Vona að við eigum öll góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2009 | 08:21
Og enn er frost á Austur - Fróni...
Hudruð milljóna evra tap eins fyrirtækis á Íslandi - glymur í útvarpinu - , hvernig er þetta hægt í okkar litla þjóðfélagi??? Það er auðvitað ekki hægt - loftbóluhagfræðin leit bara svo vel út - þangað til hún sprakk.... , verð að viðurkenna að ég skil tæplega svona háar tölur - þó ég hafi valið mér það að ævistarfi að reyna að leiða ungmenni í allan sannleikann um töfra talnakerfisins...
Er búin að fara í spinning í morgun - mikið púl - en innspýting á orku í daginn. Mættar voru 15 konur á ýmsum aldri sem eru orðnar vanar að erfiða og svitna saman - góður félagsskapur, þessar dömur .
Nú verð ég að fara að horfast í augu við að fermingarundirbúningur þarf að fara að hefjast - tveir mánuðir til stefnu og fermingarstúlkan tilvonandi er alveg að fara á límingunum yfir kæruleysi móðurinnar. Matseðillinn var ræddur í gær - daman er með svo ákveðnar skoðanir og þokkalega skynsamlegar að hún fær bara að ráða þessu - enda talar hún um að hún geti nú alveg eldað sjálf!!! Og það er sennilega alveg rétt hjá henni, hún hefur fengið hin frábæru matreiðslugen föðurfjölskyldu sinnar og eldar frábæran mat - en hana skortir aðeins snyrtimennsku ömmu sinnar í eldhúsinu - en ég er fín í að ganga frá svo verkaskiptingin er ágæt hjá okkur mæðgum. En sé fyrir mér að matur, föt, hárgreiðsla og skreytingar verða helsta umræðuefni við eldhúsborðið til 9. apríl, svona í bland við pólitíkina...
Get einbeitt mér að náminu mínu fram að hádegi - þá taka ýmis undirbúningsverkefni fyrir bæjarstjórnarfundinn við - en hann er kl. 17 - hann virðist þokkalega einfaldur svo ég geri ráð fyrir að vera komin heim á góðum tíma. Gott að geta aðeins slakað á áður en skriðið er í bólið. Við Edda erum búnar að lofa hvor annarri að mæta í ræktina í fyrramálið kl. 6:30 - eins gott að standa sig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.2.2009 | 11:45
Hressandi andblær
Þrettán stiga frost á Héraði - en ekki eins kalt og maður heldur því það er blankalogn. Vonandi náum við logni í stjórn landsins líka svo vandamál okkar verði ekki verri en raun ber vitni og snúa megi vörn í sókn.
Ég treysti engum betur en Jóhönnu Sigurðardóttur til að verkstýra fólki til markvissra og góðra verka, hugsjónir, dugnaður og einbeitni eru hennar leiðarljós og ég held þau lýsi okkur öllum í gegnum verkefnin sem framundan eru.
Mér finnst frábært að kona sé orðin forsætisráðherra - en mér finnst líka sorglegt að árið 2009 þyki það enn frásagnarvert, mikið eigum við enn langt í land í jafnréttismálunum.
Ég á spennandi dag framundan: fundur um væntanlegt vinabæjarmót á Egilsstöðum strax eftir hádegi, body pump tími um fimmleytið og fundur í Héraðslistanum í kvöld og svo reyni ég að hugsa um hvernig ég útfæri fyrsta verkefnið á þessarri önn á milli, það er allavega tryggt að heilastarfsemin lamast lítið...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2009 | 11:50
Spennandi dagur
Enn einn dagurinn sem maður getur vart slitið sig frá fréttaveitunum runninn upp. Vonandi fáum við góðar fréttir af starfhæfri ríkisstjórn sem ætlar að einhenda sér í krefjandi verkefni í þágu íslensku þjóðarinnar.
Ég veit að forstætisráðherraefnið okkar er afar vinnusöm og dugleg og ég treysti því að hún muni stýra sínu fólki til mikilla og góðra verka.
Hóf daginn á fínum spinningtíma með flottum konum og frábærum kennara - þó maður sé nær dauða en lífi eftir svona tíma, finnur maður orkuna streyma um sál og líkama þegar andanum er náð eftir lætin.
Er búin með einn fund og svo er bæjarráðsfundur hjá mér í dag svo ég geri ráð fyrir að verja tímanum fram til fjögur í undirbúning hans.
Náði aðeins að spjalla á netinu um skóla án aðgreiningar (inclusion) sem er skólapólitísk nálgun sem heillar mig verulega.
Góður dagur hingað til - vona að hann verði okkur öllum farsæll og góður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.1.2009 | 08:17
Hver bugaðist?
Er ekki styrkurinn oft fólginn í því að horfast í augu við staðreyndir? Það gerðist ekki nógu mikið í því stjórnarsamstarfi sem var í gangi og þá varð að breyta áherslum til að bjarga fyrirtækjum og heimilum landsins.
Eins og fram hefur komið hef ég viljað gefa samstarfi Samfylkingar við Sjálfstæðismenn tækifæri - en þolinmæði mín var á þrotum í síðustu viku svo ég tek fréttum dagsins fagnandi.
Vonandi verður ný stjórn fljót að stilla saman strengi svo hægt sé að ganga í hin aðkallandi verkefni af einurð og dugnaði - efast ekki um að Jóhanna mun stýra þeim í þann farveg, hún er nú engin meðalkona!!!
Það verður spennandi að fylgjast með fréttum í dag - það er verst að það er varla vinnufriður fyrir fréttaþörf
![]() |
Samfylkingin bugaðist" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2009 | 11:14
Afsögn - gott eða slæmt?
Björgvin Sigurðsson hefur sagt af sér sem viðskiptaráðherra, segist þannig axla sína ábyrgð. Ég virði ákvörðun hans - í hans sporum hefði ég gert slíkt hið sama - en talsvert fyrr.
Björgvin er drengur góður, duglegur og skynsamur og hann hefur örugglega fram að þessu axlað ábyrgðina með því að leggja alla sína starfsorku í það að vinna heilshugar að orsakaleit og uppbyggingu. Það er meira en að segja það að lenda í svona hamförum á fyrstu árum í ráðherrastóli, fáir ráða 100 % við slíkt, þó reynsluboltar séu.
Vonandi fær Björgvin annað tækifæri til að setjast í ríkisstjórn og vinna þjóðinni það gagn sem ég er sannfærð um að hann vill og getur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2009 | 11:06
Eitt af þessum flóknu verkefnum...
Dagurinn í gær var ótrúlegur - formenn stjórnarflokkanna misveikir - en bæði þurfa þau að fá næði til að jafna sig. Þau hafa fórnað heilsunni fyrir þau verkefni sem hafa kaffært þau að undanförnu - mér finnst þau þurfa að taka sér það frí sem þarf til að ná heilsu. Þau þurfa bara að gera öllum það ljóst hverjir það eru sem eru að leysa þau af, það getur verið lýðræðislegt að hafa það fleiri en einn eftir því um hvað verið er að tala. Ég óska þeim báðum góðs bata og alls hins besta.
Hörður Torfason fór langt yfir mín mörk með ummælum um einkalíf og stjórnmálalíf í sama orðinu og talað var um lífshættuleg veikindi forsætisráðherra, mér finnst orð hans óafsakanleg. Þau komu sérstaklega illa við mig - kannski vegna þess að faðir minn lést úr krabbameini í vélinda 53 ára gamall, fyrir 25 árum.
Ég veit ekki hvað er best að gera fram að kosningum í vor, en einhvern veginn finnst mér að kostur númer eitt sé að láta þessa ríkisstjórn starfa fram að kosningum, kannski má fækka í henni og kalla til fagaðila til aðstoðar í þeim málum sem við verðum að vinna að án æsings og óðagots. Þetta fólk er inni í málum og tíminn er dýrmætur - er honum best varið með því að setja nýtt fólk inn í málin?
Og - kannski mikilvægast af öllu - látum stjórnendur eftirlitsstofnana fara strax og ráðum þangað nýtt fagfólk, algerlega óháð flokkspólitík - þangað þurfum við að fá þau allra bestu sem við eigum.
Það þarf að vinna á þremur sviðum - því opinbera sem stýrir stefnumótun, úthlutun fjármagns og eftirliti, því stofnanalega / fyrirtækjalega sem heldur atvinnu - og þjónustustigi uppi og síðan á einstaklings eða fjölskyldugrunni. Þetta þarf allt að hanga saman, er háð hvað öðru en afar nauðsynlegt er að vinna jöfnum höndum á öllum sviðum til að endurbæturnar virki í samfélaginu.
En - daglegt líf heldur áfram - í dag er laugardagur, hann verður nýttur til þess að taka til hér í Kelduskógunum og ganga frá síðustu jólaljósunum. Svo langar mig út að ganga - ef mannskæð hálkan hefur gefið aðeins eftir. Ég fór ekki á þorrablótið á Egilsstöðum - en er ákveðin í því að fara á þorrablótið á Völlunum þann 7. febrúar og borða mikið, hlæja meira, drekka svolítið og dansa fram á rauða nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
-
annapala
-
annaragna
-
annriki
-
agustolafur
-
arnith2
-
baldurkr
-
gattin
-
bryndisfridgeirs
-
brandarar
-
dofri
-
drifakristjans
-
gleraugun
-
saxi
-
huld
-
fjolan
-
logbjorg
-
gutti
-
gudnydrifa
-
gurrihar
-
gudrunjj
-
gudrunkatrin
-
gunnaraxel
-
hafsteinnkarlsson
-
hallibjarna
-
heidathord
-
hildajana
-
ingabaldurs
-
ingolfurasgeirjohannesson
-
jogamagg
-
jonaa
-
joningic
-
kallimatt
-
kolbrunb
-
kopasker
-
daudansalvara
-
lara
-
olinathorv
-
ragnhildur
-
rosa
-
amman
-
sisshildur
-
svalaj
-
svavaralfred
-
svenni
-
tjorvi
-
vefritid
-
thorhildurhelga
Tenglar
Vinir
- Rannveig vinkona
- Dandy orkubolti, spinningkennari og náttfatavinkona
- Tóta litla
- Konni kynlegi
- Þórveig hreyfisystir
Pólitík
Nota bene
Ritað og talað mál
Hér er ýmislegt sem ég hef sagt og ritað upp á síðkastið.
Myndaalbúm
Eldri færslur
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar