Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Þak yfir höfuðið

Flestar fjölskyldur á Íslandi búa við þokkalega öruggar húsnæðisaðstæður, eiga íbúð eða hús og geta þannig búið sér og sínum öruggt heimili.  Eða þannig var það a.m.k. áður en krónan missti verðgildi sitt og verðbólgan reis til hárra hæða.  Nú spyr maður sig hvort það sé lúxus að eiga íbúð?

Auðvitað þurfa bankar og sjóðir að fá leigu fyrir peninga sem þeir lána út - en hversu há þarf hún að vera?

Af 15 milljóna króna láni greiðir maður rúmar 600 þús krónur á ári í vexti ef maður er svo heppin að lánið er með 4,15 % vöxtum - verðbætur í 18 % verðbólgu eru á þriðju milljón á ársgrundvelli - þær jafnast að vísu út á lánstímann - en bætast ofan á höfuðstólinn svo vaxtagrunnurinn hækkar og verðbólgugrunnurinn hækkar... og þannig hækkar leigan á peningunum og heildarkostnaður greiðandans með veldisvexti - við borgum og borgum - en hversu lengi getum við borgað og hverjum er það til hagsbóta að einstaklingar fari á höfuðið í hópum með tiheyrandi lausung fyrir fjölskyldur þessa lands????

Það má ekki vera lúxus að búa börnum sínum öruggt heimili. Það verður að búa til kerfi sem gerir íbúðalán öðruvísi en neyslulán svo íbúar á Íslandi þurfi ekki að fara á hausinn, bara vegna þess að þeir eru að kaupa sér blokkaríbúð!!!

Ég treysti engum betur en Jóhönnu til að vinna í þessum málum - en ég þarf endilega að komast á þing til að hjálpa henni við verkið...

Dagurinn í dag eru helgaður hestamennsku - slepp víst við að vera þulur á Ístöltinu - en á að afhenda verðlaun - og svo verð ég í því skemmtilega hlutverki að vera hestasveinn fyrir börnin mín sem ætla að sýna gæðingana sína á ísnum.  Í kvöld er svo uppskeruhátíð hestamanna á svæðinu, þar sem ræktendur og knapar fá sínar viðurkenningar með tilheyrandi veisluhöldum. 

Mér sýnist veðrið vera fínt - góður útivistardagur framundan Smile


Háskólastúdent

Er stödd í okkar ágætu höfuðborg í námslotu eða innilotu í náminu mínu.  Alltaf jafn skemmtilegt að hitta stelpurnar og kennarana og spjalla um hjartans mál okkar allra - enn betri skóla fyrir alla nemendur hvort sem þeir eru með fötlun, afburðargreind, freknur eða leti...

Þarf að sendast fyrir gelgjun mína yndislega - skilst að síminn hennar sé algerlega ónýtur!!!  - áður en ég hendist í flug.

Blogga betur þegar ég kem heim í kvöld, ef ég þarf ekki að pússa hestana með börnunum mínum, sem bæði ætla að taka þátt í Ístölt Austurland 2009, á morgun.

Mér sýnist líf og fjör í pólitíkinni, margir að bjóða sig fram í öllum kjördæmum, sem er frábært miðað við þau erfiðu verkefni sem framundan eru.

Meira fljótlega Smile


Spennandi tímar

Búin að taka ákvörðun - hef boðið fram krafta mína til að vera í forystusveit Samfylkingarinnar í þessu kjördæmi. Ég þakka allar stuðningsyfirlýsingar og áskoranir og hlakka til að vinna með ykkur að framgangi jafnaðarstefnununnar.

Framundan eru erfiðir tímar, en í þeim felast tækifæri til nýrrar hugsunar og endurnýjaðra gilda sem ég held að muni hjálpa okkur mikið í uppbyggingarvinnunni.

Virk þátttaka allra og vinna að því að ryðja um hindrunum er hugsun sem mér finnst við þurfa að innleiða og leggja áherslu á.  Virðing fyrir fólki og skoðunum hvetur til þátttöku allra og við þurfum á öllum að halda til að leggja hönd á plóginn.  Hroki og hleypidómar eru "out" þegar allir þurfa að koma að því að byggja upp "Nýtt Ísland".

Auðvitað eru menntamálin mér afar hugleikin enda búin að vinna við þann málaflokk alla mína starfsævi - en ég tel líka að í fjölbreytilegu framboði á námi fyrir alla felist möguleikar til að jafna aðstöðumun og minnka stéttaskiptingu.  Menntun þarf ekki öll að vera á háskólastigi og ekki þurfa allir að verða stúdentar - hvers kyns starfsnám og atvinnutengt nám er metnaðarfullt og stórmerkilegt og til þess fallið að atvinnulíf og menntastofnanir kenni hvort öðru.

En nóg um pólitík í bili - nú þarf að undirbúa daginn og vekja gelgjuna sem er ekki sú morgunhressasta, þessi elska Wink

Megið þið eiga góðan dag.


Pólitík á mannamáli

Í náminu mínu er mikið fjallað um orðræðu. 

Annars vegar er þar verið að fjalla um hversu mikilvægt er að þeir sem eru á sama fræðasviði tali einu máli og séu með sameiginlegar skilgreiningar á hugtökum svo skilingurinn fari ekki á milli mála.

Hins vegar er er mikil áhersla lögð á það að orðræða/málnotkun í skólum sé í raun orðræða ákveðinna þjóðfélagshópa og að sum börn eigi einfaldara orðfari að venjast og því ekki jafn góð í því að skilja það sem fram fer í skólanum.  Þessi staðreynd skapar ójafnræði og því afar mikilvægt að skólafólk sé meðvitað um stöðuna og einfaldi mál sitt þegar það á við um leið og það vinnur að því að auðga orðaforða allra nemenda.

Stundum finnst mér þetta vera svona í pólitíkinni líka, orðræðan sem þar er notuð er oft afar flókin og erfitt fyrir almenning að setja sig inn í mál. Lærðar skýrslur eru ekki skrifaðar á máli sem almenningi er tamt, heldur á fagmáli ákveðinna fagstétta og pólitíkusa.

Getur verið að einhverjum finnist það gott að sem fæstir skilji svona skýrslur og pólitík almennt???

Mér finnst skipta miklu máli að pólitík sé töluð og skrifuð á mannamáli ekki síst til að gera sem flesta virka í umræðu og starfi. Þegar maður skilur sjálfur umræðuna getur maður oftast útskýrt hana á tiltölulega einfaldan hátt. 

Skiljum við pólitíkusar ekki nema hluta þess sem við erum að fjalla um og tölum þess vegna í frösum???

Kannski er það sérkennarinn í mér sem er stöðugt að vinna að því að matreiða orð þannig að sem flestir skilji og geti tileinkað sér. 

Þegar fagstétt er að vinna að sínum málum er eðlilegt að hún noti sína faglegu orðræðu - en þegar verið er að vinna að málum þjóðarinnar er eðlilegt að slíkt fari fram á mannamáli, þess vegna á pólitík að vera sett fram á vandaðan einfaldan hátt.


Að vinna að markmiði...

Leiðinlegt að Ragnar hafi dregið framboð sitt til baka, hefði örugglega verið gaman að kynnast honum. En mér finnst skorta á þolgæðið því framboðsfrestur rennur ekki út fyrr en á laugardag og ýmislegt getur gerst þangað til.

Það er skelfilegt að staðan í íslenskum stjórnmálum árið 2009 sé þannig að það þurfi að beita kynjakvóta - og enn verra að karlar skuli ekki skilja það, hvað þá heldur virða það. 

Ég hélt að það væri enginn sem neitaði því í dag að það er þörf á kröftum og aðferðum kvenna við stjórn landsins, þær eru bara ekki allar til í að gera það á karllægum forsendum og því hendast þær ekki í brjáluðum ákafa af stað í framboð.


mbl.is Dregur framboð sitt til baka vegna kynjakvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnulag

Mér verður það sífellt betur ljóst að það eru ennþá til karlmenn sem trúa því í alvörunni að konum sé ekki treystandi til að gegna ábyrgðarstöðum, en þær séu fínar til uppfyllingar og skrauts.  Þegar atburðir minna mig á þessa afstöðu karla hrekk ég alltaf í kút, klíp mig aðeins og hugsa - það er kannski bara árið 1909, en ekki 2009!

En það er árið 2009 - konur á landsbyggðinni eru með tæplega 17% lægri laun en karlar - og karlar passa upp á það að konur komist ekki á toppinn, nema þar sem þeim hentar og í umræðum á tillidögum!!!

Það er ljóst að það þarf að blása til alvörusóknar til að gera öllum þjóðfélagsþegnum það ljóst að best er að aðferðafræði beggja kynja sé viðhöfð allsstaðar og þegar aðferðafræði karla hefur klikkað illilega um árabil er snjallt að prófa hina í stað þess að spóla svo flag sé eftir...

Það er gott að eiga skýra lífssýn um jöfn tækifæri allra   - og ennþá betra að berjast fyrir henni - svo nú er um að gera að einhenda sér bara í það.  Megið þið eiga góðan baráttudag fyrir ykkar hjartans málum.

 


Útsvarið

Það var mikil spenna í sjónvarpssal í gærkvöldi þegar mitt fólk sigraði Akureyrarliðið naumlega í Útsvarinu.  En þau sigruðu og það var sætt...

Til hamingju Þorsteinn, Urður og Stefán Bogi og takk fyrir að vera glæsilegir fulltrúar Fljótsdalshéraðs.

Núna perlum við Karen Rós í Grafarholtinu meðan mamman er í ræktinni og við ætlum að dúlla okkur eitthvað þangað til ég fer heim í dag svo mamman geti lært svolítið.

Á morgun er svo kjördæmisþing Samfylkingarinnar í Norðaustrinu þar sem við ákveðum hvernig staðið verður að vali á lista, það voru afar snarpar umræður um það síðast - hlakka til þeirra umræðna aftur.

En nú verð ég að halda áfram að perla...Wink


Líf og fjör á Álftanesi

Við sátum nokkur við eldhúsborðið hjá mér í gærkvöldi og ræddum pólitík - forsetahjónin bárust í tal - og við konurnar viljum fá Dorrit með okkur í saumaklúbb. Ég hef ekki verið í saumaklúbb síðan ég var 12 - en ég held svei mér þá ég væri til í að vera með Dorrit í klúbbi, það yrði örugglega hlegið, sagðar sögur og sköpuð nýyrði.

Verð að viðurkenna að fyrirsögnin um skapofsa forsetans á netmiðlunum núna kveikir lítið bros - ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig hárgreiðslan verður í verstu köstunum LoL eða kannski sé ég það einmitt svo skemmtilega fyrir mér.

Auðvitað eru þessar umræður um forsetahjónin hálfleiðinlegar - en er ástæða til að taka þær mjög hátíðlega????

Sit núna og undirbý mig fyrir smáinnlegg sem ég á að vera með um skóla án aðgreiningar í borginni á morgun - verð alltaf ánægðari og ánægðari með þessa útfærslu á réttlátu skólakerfi.

Hér skín sólin svo stirnir á mjöllina - fagurt sem aldrei fyrr á Héraði.


Á meðan rífast menn á þingi um hagsmuni einstakra hálaunamanna

Kjör þeirra sem minnst hafa skerðast á meðan Geir er miður sín yfir að hans fólk missi bitlinga sína vegna setu í bankaráðum. Pétur Blöndal ver Davíð vin sinn og fólkið í landinu segir amen amen og fylgi Sjálfstæðisfólksins eykst .... jákvæðnin frá síðustu færslu á erfitt uppdráttar við þessar aðstæður...

Er ekki hægt að setja reglur um það að nú megi bara ræða um þau verkefni sem verður að vinna til að leiða þjóðina - fyrirtæki og einstaklinga - af stað út úr kreppunni??? Súrhey geymt þar til við höfum ekkert annað að gera en að karpa.

Það þarf að bretta upp ermar og vinna - það þarf að spara og skera niður útgjöld á eins sanngjarnan hátt og hægt er.  Það þarf að byrja á því að skera allt niður sem ekki er bráðnausynlegt og það er ekki eftir neinu að bíða - nema kannski vinnufriði????  Angry


mbl.is Skerða lífeyri um allt að 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæðni og lausnaleit

Það er suma daga erfitt að vera jákvæð og horfa björtum augum til framtíðar.  Það er sérstaklega erfitt núna í febrúar 2009 - og sumir segja að ástandið eigi eftir að versna mikið næstu vikur og mánuði.  Kannski er þægilegast að horfa bara á dökku hliðarnar, gera ekkert því allt er hvort sem er að fara norður og niður og finna svo sökudólga í hverju horni.

Mér finnst tvennt afar erfitt í þessu ástandi:

  • Að horfa upp á fólk missa atvinnuna
  • Að finna að fólk er að missa trú á fyrirtækjum og stofnunum og jafnvel á náunga sínum

Þetta með atvinnuleysið er eðlilega lamandi og skelfilegt og bara hægt að biðja og vona að atvinnuástandið batni sem fyrst.  En á þeim vettvangi skiptir viðhorfið afar miklu máli - það að halda í vonina, vera bjartsýnn og þegar best lætur - reyna að búa til atvinnutækifæri fyrir sig og jafnvel fleiri hjálpar fólki í gegnum erfiða tíma - þó maður borði auðvitað ekki jákvæð viðhorf.

Tortryggni er eðlileg í ástandi dagsins - það er eðlilegt að fólk treysti ekki valdhöfum og sé skíthrætt um peningana sína. En þarna skiptir viðhorfið líka máli - það er munur á varkárni og tortryggni - ég hef á tilfinningunni að tortryggni geti skemmt afar mikið fyrir því að frumkvæði og mannauður nýtist sem skyldi - það að vera almennt jákvæður gagnvart fólki, hugmyndum og fyrirtækjum getur verið ákveðið hreyfiafl til framfara - maður má því ekki festast algerlega í því að treysta engum...

Með jákvæðu viðhorfi og trú á kraft okkar og visku getum við drifið okkur upp úr vandanum og farið að hugsa í lausnum.  Ég hef mikla trú á mínu fólki og veit að það býr yfir miklum sköpunarkrafti og hugmyndaauðgi sem þarf að nýtast til að byggja upp nýtt samfélag - við það finnst mér að opinberir aðilar þurfi að styðja með ráðum og dáð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband