Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Góð smurning á hjól atvinnulífsins

Rosalega verð ég glöð þegar ég heyri talað um þverpólitíska sátt um mál á Alþingi.  Morfísstemningin þar sem menn og konur reyna að tala hvert annað í kaf nánast bara til að vera ósammála á ekki við núna þegar við erum í tímaþröng - það verður að rétta  skútuna við og engan tíma má missa.

Þessi ráðstöfun kemur sér einstaklega vel fyrir fjárvana sveitarfélög og verkefnalítil fyrirtæki í mannvirkjagerð - atvinnuleysi gæti stórminnkað þegar frumvarpið verður að lögum og hægt verður að fara að vinna eftir því.  Mjög gott að hönnun og eftirlit eru með í pakkanum.

Nú er virkilega eitthvað að gerast....


mbl.is Sátt um víðtækari endurgreiðslu VSK
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldan er ein báran stök - en bjartsýnin verður að ráða för

Ekki góðar fréttir að loðnan sé að bregðast okkur, gott að við eigum frábæra fagaðila á sviði haf- og fiskrannsókna sem leita allra leiða til að auður hafsins nýtist okkur sem best.  Við megum ekki við hverju áfallinu á fætur öðru - efnahagsástandið er alveg nægilegt verkefni fyrir okkur.

Maður heyrir aðeins nýjan bjartsýnistón hjá ráðamönnum, þeir virðast trúa því að hægt verði að lækka vexti fljótlega og verðbólgan muni í kjölfarið hjaðna verulega - ég ætla að trúa því og brosa Smile - þó með báða fæturna á jörðinni.

Það skiptir miklu máli þegar vandamál koma upp að tala kjark í fólk ekki síst til að virkja þann skapandi kraft sem oft sprettur fram á erfiðum tímum.  Ef svartsýnin nær heljartökum á umræðu og mannauð er svo erfitt að rífa sig upp í að framkvæma góðar hugmyndir sem geta komið hjólum af stað aftur.

Þess vegna þarf maður að vera raunsær, með kaldan koll, hlýtt hjarta og bros á vör.

3. mars verður örugglega góður dagur - það er allavega yndislegt veður á Héraði.


mbl.is Vonin um loðnu að dvína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing fyrir öllum aldurshópum

Eitt af því sem er spennandi við að vera í kosningabaráttu er að maður hittir svo mikið af fólki, alls konar fólki með mismunandi sjónarmið og hugmyndir, en allt stórmerkilegt fólk sem maður getur lært helling af.

Mér heyrist þjónusta við eldri borgara hinna ýmsu samfélaga vera fólki ofarlega í huga.  Niðurskurður í heilbrigðismálum og flókin samskipti ríkis og sveitafélaga virðast flækja þennan málaflokk.

Allir virðast vera sammála um að vinna eigi að því að fólk geti verið heima hjá sér eins lengi og kostur er með viðeigandi heimahjúkrun - hana borgar ríkið....

Sumir eru nokkuð hressir en ekki alveg nógu hressir til að búa heima hjá sér svo gott er fyrir þá að fá inni á dvalarheimilum aldraðra - það borga sveitafélögin...

Enn aðrir eru orðnir það lasnir að þeir þurfa daglega hjúkrun á hjúkrunarheimilum - það borgar ríkið...

Mér finnst flækjustigið í þessum málaflokki vera skelfilegt og þegar niðurskurðarhnífar eru svo reknir hátt á loft líka - er verulega illt í efni fyrir þann hóp sem byggði landið og allt það besta skilið.

Mér finnst það hljóti að vera mikið kappsmál að færa þessi verkefni á eina hendi og það hlýtur að vera eðlilegt að málefni sem þetta teljist nærþjónusta og því á hendi sveitafélaga.  Þá kemur bara að því sem þetta virðist nú allt snúast um - peninga - það hefur alltaf verið erfitt að fá ríkið til að borga rétt með verkefnum sem þeir fela sveitafélögum, það er reynt að sleppa ódýrt - sem getur verið sveitafélögunum afar dýrt.

Það er ljóst að alls staðar þarf að spara, líka í málaflokki eldri borgara - en slíkt þarf að gera í samráði við þá og byrja verður að skera alla fitu af beinum áður en grunnþjónustu er fórnað á litlum stöðum úti á landi og fólk flutt nauðungarflutningum milli byggðalaga, ætli Reykvíkingar væru til í að vera á Ísafirði á hjúkrunarheimili????

Vöndum okkur - aðgát þarf að hafa í niðurskurði á nærþjónustu.


Bjartur Dagur

Mér líst vel á að fá Dag fyrir varaformann - hann hlustar og hann lærir - hann hlustar til dæmis mjög vel á sjónarmið landsbyggðafólks þó hann sé mikill Reykvíkingur - hann hefur hið jákvæða sjónarmið - ein þjóð í einu landi - áfram Dagur!
mbl.is Dagur í varaformanninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðmýkt

Þegar ég var að læra að verða sérkennari fyrir mörgum árum fengum við ýmis gullkorn til að moða úr, ákvað að deila einu með ykkur sem ég held að hafi haft afdrifarík áhrif á lífssýn mína: 

Til umhugsunar

"Vilji ég aðstoða einhvern við að ná settu marki, verð ég að nálgast hann  á því stigi sem hann er og hefjast þar handa.

Þeir sem ekki geta það blekkja sjálfan sig, haldi þeir að þeir geti hjálpað öðrum . Til þess að hjálpa verð ég tvímælalaust að vita meira en hvað viðkomandi getur, aðalatriðið er að ég skilji hvað hann skilur. Geti ég það ekki skiptir engu hve vitur ég er. Vilji ég samt sem áður sýna visku mína kem ég upp um hégómleik minn og hroka og læt dást að mér í stað þess að hjálpa.

Raunveruleg hjálpsemi byggist á auðmýkt gagnvart þeim sem ég vil leiðbeina, þess vegna verð ég að skilja að það að hjálpa er ekki að ráðskast með heldur gefa af sjálfum sér.

Geti ég það ekki get ég engum hjálpað."

Sören Kirkegaard, danskur heimspekingur. – (E.Þ. þýddi)

 

Held að þessi speki eigi afar vel við á vettvangi stjórnmálanna í dag.


Einstakar konur

Ég verð nú að viðurkenna að ég hlakka til að vita hver niðurstaða þessa fundar verður - ég get engan veginn spáð fyrir um hana - en ég er sallaróleg því sama er hvor er við stjórnvölinn - þar fer afburðarkona.  Og svo erum við svo heppin í þessum flokki að þar er valinn manneskja í hverju rúmi og við þurfum ekki endilega að einblína á einn sterkan leiðtoga.

En mér finnst að enginn þurfi að fórna lífi sínu og limum fyrir pólítíkina - því alltaf kemur kona í manns stað - eða þannig... og sjálft kærleiksboðorð kristinnar trúar bendir á að maður á að láta sér þykja vænt um sjálfan sig - til að geta átt kærleika til náungans og málefna - "elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig".

En nú anda ég að mér eyfirsku lofti, finn takmarkaðan mun á því og því austlenska enda sama kjördæmið og sömu hagsmunamálin.

Það er kynningarfundur frambjóðenda á Dalvík kl 10 og á Akureyri kl 14 - ætla að kíkja aðeins betur á það sem ég ætla að segja þar, megið þið eiga góðan dag - og kíkið þið endilega á okkur, þið sem eruð stödd í Eyjafirðinum.


mbl.is Jóhanna og Ingibjörg með fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýfrjálshyggjufrí

Frábært að sjá jafnan vöxt fylgis við jafnaðarstefnuna. Nú þurfum við að vanda okkur til að "toppa" á réttum tíma!

Ég held að það sé mjög gott að gefa Sjálfstæðismönnum og nýfrjálshyggjunni frí um nokkra hríð.  Sú lífssýn og aðferðarfræði virkaði ekki og virkar alls ekki til uppbyggingar samfélags sem þarf að afla sér trausts og virðingar bæði almennings á Íslandi og alþjóðasamfélagsins.

Við þurfum að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem byggir á alvörustoðum en ekki loftbólum, það þarf alvöru ráðgjöf og eftirlit - ekki bara ryk í augu... og það þarf að spara og þar treysti ég forgangsröðun vinstri manna betur en einstaklingshyggju hægri manna.

Því um leið og við spörum þarf að styrkja fyrirtæki og fjölskyldur, efla menntakerfið, bæta samgöngur og margt fleira.  Ég trúi því að það sé hægt - með réttri forgangsröðun - um það snýst pólitík fyrst og fremst.

Er búin að púla í spinning í morgun og ná mér þar í stóran orkuskammt - svo ætlum við austurlandssamfylkingarskvísurnar að skella okkur í höfuðstaðinn í okkar kjördæmi síðdegis. Það eru kynnningarfundir frambjóðenda á Dalvík og Akureyri á morgun og á Egilsstöðum á sunnudaginn.


mbl.is Ríkisstjórnin fengi meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farsæl lausn

Enginn efast um að launþegar í þessu landi þyrftu að fá leiðréttingu launa sinna, strax.  Það er eðlilegt að okkur gremjist að við þurfum að taka á okkur skerðingar vegna þess að nokkrir strákar fengu að leika sér, óátalið, í einkaþotuleik með fullar töskur af loftbólupeningum.

En - hættan á að launahækkanir fari beint út í verðlagið og valdi auknu atvinnuleysi er mikil og því er þetta farsæl lausn fyrir alla að mínu mati.

Staðan í samfélaginu er þannig að alla fitu þarf að skera af á öllum sviðum, velta þarf um steinum í leit að þúsundköllum sem spara má til að ná endum saman án þess að nauðsynleg þjónusta verði skert.

Í mínu sveitarfélagi þurfum við að spara milljónatugi - það er erfitt, en mér finnst gott að vinna með starfsmönnum okkar, þeir hafa fullan skilning á málavöxtum og koma með fínar tillögur um sparnaðarleiðir.  Það er afar gott að geta unnið með fólkinu sem á að vinna verkin við breyttar aðstæður og líklegra til að skila árangri en valdboð að ofan.

Daginn í dag ætla ég að hefja með því að fara út í snjóinn í smástund, síðan er samstarfsfundur með aðilum sem koma að Miðstöð fólks í atvinnuleit.  Grænlensk sendinefnd sem er að vinna að löggjöf um málefni erlendra launþega ætlar að hitta okkur Gulla fjármálastjóra milli 10 og 11 og klukkan 17 er aðalfundur Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf.  Í kvöld þarf ég svo að skipta mér á milli þess að vera pólitíkus sem á að borða með Hitaveitufólkinu og fermingarmamma sem á að vera úti á Eiðum með fermingarbörnum og foreldrum þeirra. 

Milli 11 og 17 ætla ég að undirbúa mig fyrir framboðsfundi helgarinnar og reyna að kíkja aðeins á námsefnið mitt.  Það er mikill kostur við námið mitt í hversu góðu samhengi "skóli án aðgreiningar" er við jafnaðarstefnuna svo ég fæ með hverju orði sem ég les pólitíska innspýtingu!

Megið þið eiga góðan dag Smile


mbl.is Samstaða um frestun samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör

Margar rannsóknir sýna að prófkjör eru ekki kvenvinsamleg leið til að velja fólk á lista, konur eru ekki sérlega góðar í að markaðssetja sig sem einstaklinga þó þær séu frábærar í að markaðssetja lífssýn, lið, fyrirtæki og stofnanir.  Þeim finnst líka flestum vont að dvelja langdvölum að heiman því heimilið og börnin eru þeim mikilvægara en flest annað. En þær vita að þeirra lífssýn og aðferðafræði verða að móta íslenskt samfélag, nú sem aldrei fyrr, og því láta þær sig hafa það að taka slaginn. 

Þá er um að gera að hafa gaman af slagnum og taka hann ekki of persónulega – í prófkjöri er verið að velja liðið sem á að selja hugmyndafræði flokks eða hóps, því miður virðast sumir gleyma því í hita leiksins og nota jafnvel aðferðir sem skemma fyrir því að liðsheildin verði sterk og samheldin.

Foringi verður sterkur þegar hann nær að fá fólk til að vinna með sér að sameiginlegum markmiðum og góðum starfsanda – ekki þegar hann spilar sóló í von um sem mest völd.

Subbuleg aðferðafræði er „out“ núna – ég held að aðferðafræði kvenna með áherslu á umræður, samantekt og ákvarðanatöku á grundvelli umræðna sé „in“ núna. 


Treystum á lífeyrissjóðina

Það er ljóst að atvinnulífið og opinberir aðilar í þessu landi treysta mjög á lífeyrissjóðina og þeirra möguleika til lánveitinga næstu mánuðina. 

Það er fólkið í landinu sem á eignir lífeyrissjóðina og það þarf á því að halda að atvinnulífið verði ekki sett á "hold" með tilheyrandi atvinnuleysi og leiðindafylgikvillum.

Auðvitað má ekki "gambla" með þessar eignir en aðilar eins og sveitafélög eru ekki "gamblarar" en þau þurfa á fjármagninu að halda til að geta haldið úti framkvæmdum við byggingar, gatnagerð og viðhaldsverkefni - og svo virðist sem þeir sem eiga peninga séu lífeyrissjóðirnir - svo þeir eru í lykilstöðu við að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi. Með eðlilegu atvinnustigi koma peningar í kassa opinbera aðila - sem geta þá greitt lán sín og haldið hringrásinni gangandi.


mbl.is Lífeyrisréttindi óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband