Leita í fréttum mbl.is

Eitt af þessum flóknu verkefnum...

Dagurinn í gær var ótrúlegur - formenn stjórnarflokkanna misveikir - en bæði þurfa þau að fá næði til að jafna sig.  Þau hafa fórnað heilsunni fyrir þau verkefni sem hafa kaffært þau að undanförnu - mér finnst þau þurfa að taka sér það frí sem þarf til að ná heilsu. Þau þurfa bara að gera öllum það ljóst hverjir það eru sem eru að leysa þau af, það getur verið lýðræðislegt að hafa það fleiri en einn eftir því um hvað verið er að tala.  Ég óska þeim báðum góðs bata og alls hins besta.

Hörður Torfason fór langt yfir mín mörk með ummælum um einkalíf og stjórnmálalíf í sama orðinu og talað var um lífshættuleg veikindi forsætisráðherra, mér finnst orð hans óafsakanleg. Þau komu sérstaklega illa við mig - kannski vegna þess að faðir minn lést úr krabbameini í vélinda 53 ára gamall, fyrir 25 árum.

Ég veit ekki hvað er best að gera fram að kosningum í vor, en einhvern veginn finnst mér að kostur númer eitt sé að láta þessa ríkisstjórn starfa fram að kosningum, kannski má fækka í henni og kalla til fagaðila til aðstoðar í þeim málum sem við verðum að vinna að án æsings og óðagots. Þetta fólk er inni í málum og tíminn er dýrmætur - er honum best varið með því að setja nýtt fólk inn í málin?

Og - kannski mikilvægast af öllu - látum stjórnendur eftirlitsstofnana fara strax og ráðum þangað nýtt fagfólk, algerlega óháð flokkspólitík - þangað þurfum við að fá þau allra bestu sem við eigum. 

Það þarf að vinna á þremur sviðum - því opinbera sem stýrir stefnumótun, úthlutun fjármagns og eftirliti, því stofnanalega / fyrirtækjalega sem heldur atvinnu - og þjónustustigi uppi og síðan á einstaklings eða fjölskyldugrunni.  Þetta þarf allt að hanga saman, er háð hvað öðru en afar nauðsynlegt er að vinna jöfnum höndum á öllum sviðum til að endurbæturnar virki í samfélaginu.

En - daglegt líf heldur áfram - í dag er laugardagur, hann verður nýttur til þess að taka til hér í Kelduskógunum og ganga frá síðustu jólaljósunum.  Svo langar mig út að ganga - ef mannskæð hálkan hefur gefið aðeins eftir. Ég fór ekki á þorrablótið á Egilsstöðum - en er ákveðin í því að fara á þorrablótið á Völlunum þann 7. febrúar og borða mikið, hlæja meira, drekka svolítið og dansa fram á rauða nótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband