Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Hlýt að vera orðin Héraðskona

Í dag eru 25 ár síðan ég flutti, ung kennslukona, hingað austur. Ég man ýmislegt frá þessum degi..., flugferðin var löng, það var svo mikill mótvindur að ferðin tók tæpa tvo tíma og mér fannst fokkerinn hávaðasamur..., svo man ég eftir hitanum þegar við Bogga vinkona mín komum út úr vélinni hér á Egilsstöðum, ég man eftir veginum inn í Hallormsstað...., ekki mikið um svona vegi á Suðurlandi..., gleðinni yfir hversu fallegt var á Hallormsstað og hvað skólinn minn var fallegur, stoltið svall í brjóstinu.... Þetta eru búin að vera 25 frábær ár, það hefur ekki allt gengið smurt en ég hefði ekki viljað missa af þessum fínu árum.  Ég er sérstaklega ánægð með að hafa tekið ákvörðun um að flytja út á land, held ég hefði verið miklu fátækari ef ég hefði bara búið á höfuðborgarsvæðinu alla mína hunds- og kattatíð.

Skipulag og skipulagning

Var að fá fundarboð á fund stýrihóps um nýtt aðalskipulag Fljótsdalshéraðs, við erum búin að funda nokkrum sinnum og munum funda áfram einu sinni í mánuði hið minnsta þar til nýtt skipulag lítur dagsins ljós á næsta ári.  Mér finnst þetta mjög spennandi vinna og ákveðin forrréttindi en um leið mikil ábyrgð fólgin í því að fá að vera með í því að móta samfélag sitt, með okkur vinna frábærir fagmenn frá Alta sem er skipulags- og ráðgjafafyrirtæki sem taka að sér ýmis verkefni fyrir sveitafélög.  Mér finnst það að sjálfsögðu ekki verra að það eru aðallega konur sem eru að vinna með okkur frá Alta, mér finnst einstaklega gaman að vinna með sterkum og klárum konum. Þær spyrja áleitinna spurninga svo ekkert verður lengur sjálfsagt, trjáplanta, sumarbústaður, íbúðahverfi, hótel...., allt þarf að hafa sinn stað og staðsetningin ígrunduð...

Hef líka verið að skipuleggja og taka til heima hjá mér sennilega er sú vinna meira á deiliskipulagsplani, en mér líður vel með tiltektina sem fylgir skipulagningu, í dag var mokað út úr mesta ruslahorni heimilisins og ruslaskápurinn var skrúbbaður með stálull..., það er líka að taka gildi nýtt skipulag innra með mér, því fylgir léttir og vellíðan....

Það er of votviðrasamt hérna hjá okkur þetta haust, það þornar ekki nóg til að tína sveppi og ber. Innst inni er ég kannski fegin, svona tínsla er ekki það skemmtilegasta sem ég geri en afurðirnar eru stór hluti af máltíðum vetrarins svo ég verð að reyna að druslast þegar styttir almennilega upp, það spáir víst blíðu hér næstu daga...


Fundavikan mikla

Allir virðast vera að rísa upp af sumardvala og vilja funda.  Mér finnst reyndar ágætt að vera á fundum ef þeir eru bara markvissir og skila einhverju, tveir tímar í kjaftæði er hræðileg tímasóun og leiðindi.  Áðan var ég á fundi sem tók bara rúman klukkutíma en skilaði árangri, þá kemur maður glaður heim..., það er einn fundur á morgun og annar á fimmtudaginn, vonandi verða þeir líka gleðilega markvissir og árangursríkir.

Ég er að verða eins og nemendur mínir sem þola alls ekki kjaftæði.  Það sem virkar best eru einföld fyrirmæli, stuttar útskýringar og tími til að vinna síðan sjálf.  Sennilega er ég í alvöru ung í anda og kannksi með snert af athyglisbresti...Wink

Nú þyrfti ég endilega að fara að drífa mig í hreyfingu á morgnana aftur, stilli klukkuna á 6 og tékka á stöðunni þá...


Tvítugsafmæli

Ég var í mjög skemmtilegri afmælisveislu í gær.  Leikskólinn Hádegishöfði í Fellabæ varð tvítugur á þessu ári og haldið var upp á áfangann í gær.  Dagskráin var vönduð og skemmtileg, gamlir og nýir nemendur sungu ýmist saman eða sitt í hvoru lagi, m.a. frumsamið lag og texta eftir innfæddan Fellamann, Arnar Sigurbjörnsson. Stutt ávörp voru flutt þar var þess m.a. getið að foreldrar byggðu sjálfir leikskólann.  Sveitarfélagið lagði til efni en foreldrar byggðu..., ætli slíkt gæti gerst í dag??? Held að við ættum að reyna að nýta foreldrakraftinn meira en við gerum slíkt eykur á ábyrgð allra aðila og foreldrum finnst þeir eiga í stofnununni sem skiptir miklu máli.  Ég vildi allavega ekki hafa misst af því að hafa komið verulega að rekstri leikskólans á Hallormsstað þar sem öll börnin mín slitu leikskólaskónum. 

WizardEn til hamingju Hádegishöfði, takk fyrir frábæra veislu og gangi ykkur vel með starfið áfram.


Gyðja í skóginum

Nú er hátíð á Héraði, hátíðin okkar kallast Ormsteiti. Það er ein af þessum frábæru konum sem skipuleggur og stjórnar hátíðinni, konan heitir Lára Vilbergsdóttir og á skilið að fá orðu fyrir verk sitt...

Í dag var Hallormsstaðadagur, ég fór á hluta skógardagskrárinnar, tónleika með Eyvöru, þeir voru magnaðir, Eyvör er mögnuð, eiginlega einstaklega mögnuð, skógurinn er magnaður svo úr varð blanda sem snerti mann djúpt. Ég heyri enn trumbusláttinn...

Á morgun er fyrsti kennarafundurinn í ME á þessu skólaári, skólinn hefst svo á miðvikudaginn, skólinn er að hefjast, spennandi en samt dálítið skrýtið að sumarið sé búið.  Kom það einhvern tíma??? En nú eru suðvestanáttir í kortunum svo haustið virðist ætla að verða okkur ljúft.

Ég kveikti á kertum í kvöld, það sýnir líka að haustið er að koma, dulúð haustsins er spennandi, hvað ætli þetta haust beri í skauti sínu???


Rútínan hefst aftur

Það er ótrúlegt hvernig mannskepnan er innréttuð.  Hún hlakkar til að fara í frí og breyta til en svo finnst henni fínt að fara bara aftur inn í rútínuna, vakna á morgnana og láta daglegan rytma taka við aftur. Eða þannig er ég allavega, mér finnst haustið fínn tími, það er spennandi að byrja aftur að kenna, hitta nýja krakka og fara að vinna með þeim.  Þetta hefur mér fundist í 25 haust, er að hefja mitt 26. kennsluár þann 23. ágúst og mér finnst þetta enn skemmtilegt, ætli ég sé nokkuð alveg eðlileg????

Það rignir á þessu landshorni, það hefur kosti en það er leiðinlegt, eðlislæg bjartsýni mín segir mér að haustið hljóti að verða dásamlegt, bjart og hlýtt. Það þarf eiginlega að stytta upp svo hægt sé að tína ber og sveppi. Ég er nú ekki stórtæk í haustverkunum en með jólarjúpunum verður að vera hrútaberjahlaup og með hreindýrinu og gæsinni verður að vera lerkisveppasósa svo það þarf að viðra til haustverka einn dag eða svo.

Nú er allt að fara á fullt skrið í bæjarpólitíkinni, fyrsti bæjarstjórnarfundurinn, eftir sumarleyfi, á morgun. Á morgun er líka sameiginlegur fundur bæjarráða Fljótsdalshéraðs, Fjarðarbyggðar og Seyðisfjarðar vegna jarðgangnamála, á þennan fund mætir samgönguráðherra með föruneyti til að ræða þennan spennandi málaflokk við okkur.  Ég vona að niðurstaða fundarins verði sú að stefnt verði að heildarútboði á heilborðuðm göngum um allt Miðausturland, ég verð sífellt sannfærðari um að það er skynsamlegt og hagkvæmt að nýta þá miklu tækniþekkingu sem orðið hefur til hér við Kárahnjúka og þora að nýta sér nýja tækni og verkkunnáttu til að  bora í gengum öll okkar fjöll..., Jarðgöng eru lausn á samgöngumálum dreifðra byggða, við verðum að þora að nýta tæknina til að koma jarðgöngum sem víðast.

 


Ungar listakonur af Héraði

Fór á fína tónleika í kirkjunni hér á Egilsstöðum í dag. Tvær ungar konur sem búið hafa á Héraði um árabil spiluðu á píanó og þverflautu og frumfluttu verk eftir þá þriðju.  Allar eru þessar konur að læra tónlist og frábært að fá þær heim til að leyfa okkur að fylgjast með þeim.  Takk Þórunn Gréta, Sóley og Bára.  Eftir tónleikana fóru síðan flestir tónleikagestir á Café Nielsen og fengu sér kaffi og köku á pallinum og nutu veðurblíðunnar.

Í morgun fór ég út að hjóla eins og svo oft á sunnudagsmorgnum, sé alltaf eitthvað nýtt og hugsa eitthvað nýtt.  Í morgun velti ég tvennu mest fyrir mér: hversu nauðsynlegt það er að gera Lagarbrautina í Fellabæ að íbúabyggð og síðan ástandinu á opnu svæðunum meðfram göngu- og hjólastígunum og víðar í bænum.  Það er afar góð leið til að skoða bæinn að hjóla um hann.

Þegar ég kom heim síðdegis heyrði ég hversu mikið hefði gengið á í Reykjavík og síðan Þingvöllum, tveir menn fallnir í valinn, vegna persónulegra deilna.  Harmleikur - ég get ekki annað en hugsað til konunnar sem tengdist þessum mönnum, hún á samúð mína alla.  Mikið vildi ég að fólk fengi meiri aðstoð og ráðgjöf þegar það slítur erfiðum samvistum, það er afar flókið ferli og þarfnast mikils sveigjanleika og tíma þar sem miklar tilfinningar eru oftast í spilinu.  Ég held að með aðstoð mætti koma í veg fyrir harmleiki sem oft leika börn og unglinga sérstaklega illa.

 


Lestur og meiri lestur

Ég hef greinilega ekki haft tíma til að lesa of lengi..., nú ligg ég bara í bókum og nenni ekkert annað að gera.  Er búin með tvær talsvert viðamiklar á stuttum tíma. Þegar ég komst inn í þráðinn hennar Fríðu í Húsi Júlíu varð ég alveg heltekin, mér finnst þessi bók frábær og virkilega umhugsunarverð.  Nú gæti ég skrifað mikið og lengi um stöðu konunnar í ljósi þeirra hughrifa sem þessi bók vakti hjá mér.  Konur sem þóknast og þjóna eru mér ofarlega í huga, Júlía var þannig og gekk afar langt í þjónustunni. Það er flestu fólki óháð kyni eðlilegt að þjóna og þóknast þeim sem þykir vænt um, en það er bilið milli þjónustu og sjálfstæðis sem getur verið erfitt fyrir suma að brúa, sennilega erfiðara fyrir konur en karla. Gamla bókin um Öskubuskuáráttuna minnir mann líka á mikilvægi þess að halda ávallt sjálfstæði sínu þó manni sé ljúft að sinna og hlúa að öðrum.... skrifa meira um konur vs karla síðar

Hin bókin var eftir Yrsu Sigurðar "Sér grefur gröf" afar spennandi og heldur manni föngnum allt til loka, ætla á bókasafnið á eftir og finna meira að lesa eftir Yrsu.  Veðrið er hálfleiðinlegt og ég var jú búin að lofa sjálfri mér að nota sumarfríið í að efla líkama og sál, skrepp svo út að hjóla þegar styttir upp eða í ræktina ef áfram rignir.

Í pólitíkinni er eiginlega sumarfrí, stjórnaði þó bæjarráðsfundi í gær. Stærsti hluti fundarins fór í spjall við sýslumann og yfirlögregluþjón, bæjarráð átti frumkvæði að því að fá þá til skrafs og ráðagerða, sérstaklega í ljósi þess að við vorum að leggja fram fé til kaupa á fíkniefnarleitarfundi og vildum gjarnan fá að vita svolítið hvernig hann yrði notaður.

Annað sem er mér umhugsunarefni eins og reyndar oft áður - rígurinn milli Héraðs og Fjarða,  ég leyfi mér að halda því fram að Fjarðamenn haldi þar fastar í ríginn en við Héraðsmenn. Mér finnst til dæmis sárgrætilegt hvað Fjarðarmenn láta nýjar áætlanir um endirbætur á Öxi fara í taugarnar á sér. Eru ekki allar vegbætur á Austurlandi okkur til hagsbóta? Mikið langar mig til að leiðin um firði verði bætt og stytt, allar jarðgangnahugmyndir á Austurlandi nái fram að ganga og ekki síst að jarðgöng verði gerð til Vopnafjarðar. Það myndi styrkja landshlutann allan verulega.  Öxi er nauðsynleg fyrir íbúa á Djúpavogi og nágrenni sem eiga í miklum vandræðum.  Verum glöð og samstíga..... 

Nú ætla ég að fara með 12 ára gamalli dóttur minni í BT, hún var að fá útborgað og ætlar að kaupa sér iPod, gígabætafjöldinn verðu skoðaður í búðinni, en fyrst þarf ég að skipta á barnabarninu og græja okkur til...


Og sólin skín...

Bloggskrif eru einhvern veginn ekki sumariðja.  Er þó í morgun búin að skoða margar frábærar bloggsíður. Það eru ótrúlega margar skemmtilegar konur með skemmtilegar bloggsíður, lestur þeirra léttir lundina, bætir sálina og sannfærir mann enn frekar um hvað hugmyndir kvenna eru frábærar...

Þetta sumarfrí er búið að vera yndislegt, ég hef gaman af því að vera mamma og húsmóðir, sem ég hef ekki mikinn tíma til aðrar árstíðir, nýt þess bara að geta dundað mér við húsverkin í rólegheitunum, þreif klósettið með bros á vör í gær...., sennilega er ég með einhvern snert af sólsting...

Nú þarf ég að fara að finna uppskriftir af silung, börnin mín eru með veiðidellu í augnablikinu, það voru 6 í netinu í fyrrakvöld og 14 í gærkvöldi.  Í gærkvöldi grilluðum við heilan silung með miklum hvítlauk og soya, hann var frábær.  Kannski ég geri aðra tilraun í flökuninni, síðast þegar ég reyndi flæktust beinin ótrúlega fyrir mér, flökun virkar svo einföld þegar maður horfir á aðra vinna verkið en einhvern veginn getur verkið flækst fyrir manni...

Er að lesa bók eftir einn af mínum uppáhaldshöfundum, Fríðu Sigurðar, Í húsi Júlíu, hún þvælist fyrir mér eins og silungabeinin, held ég verði að byrja aftur til að ná þræðinum, eða kannski er bara einginn þráður í húsi Júlíu..., hafið það gott um helgina kæru blogglesendur Whistling


Morgunstund gefur ....

Það er nú alltaf best að drífa sig á fætur á morgnana og byrja daginn.  Það er yndislegt að vera í sumarfríi og því ekki rígbundin af mínútum og sekúndum en það er samt gott að byrja daginn.  Mér hentar greinilega best að drífa mig á fætur, hreyfa mig og takast svo á við verkefni dagsins.  Í morgun fór ég með Rannveigu vinkonu minni í ræktina og svo fór ég á skemmtilegan spjallfund upp á bæ þar sem við vorum að undirbúa einn þátt stefnumörkunar í sveitarfélaginu.

Í fyrradag fór ég í afar skemmtilega ferð um gamla Norður-Hérað, við erum að vinna að nýju Aðalskipulagi fyrir Fljótsdalshérað og þessi ferð var liður í þeirri vinnu.  Það var farið yfir mikið svæði allt frá Húsey við Héraðsflóann upp í Möðrudal á Efra-Fjalli, sveitarfélagið okkar er víðfeðmt en bæði frábærlega fallegt og ríkt af náttúruperlum og fólki sem er tilbúið að nýta þær á skynsamlegan og fjölbreytilegan hátt. Það eru þó mörg ónýtt tækifæri enn, við getum t.d. örugglega notfært okkur söguna mun betur í ferðaþjónustunni...

Fjórðungsmót 2007 gekk eins og í sögu, það hefði verið fínt að fá fleira fólk en góðmennt var á Stekkhólma þessa daga.  Börnunum mínum gekk vel, Berglind Rós lenti í 2. - 3. sæti í barnaflokki og Guðmundur Þorsteinn í 5. - 6. sæti í ungmennaflokki.  Torfi tengdasonur lenti í 3. sæti í ungmennaflokknum og Guðmundur Davíð bróðir hans sigraði í barnaflokknum.  Börnin mín voru líka með í því að sýna hross úr ræktun afa síns og pabba, en afi þeirra og amma Jón Bergsson og Elsa Þorsteinsdóttir á Ketilsstöðum voru heiðruð á mótinu fyrir framlag sitt til hrossaræktar á Austurlandi. Það hefir örugglega verið hátíðlegt að vera með í þeirri athöfn.

En nú liggur fyrir svona dæmigert sumarleyfisverkefni - tiltekt í geymslunni. Ætli ég standi við áform mín um að henda öllu því sem ég hef ekki hreyft frá því ég flutti hingað í Kelduskógana fyrir tveimur árum síðan?  Ég veit nú þegar að mér reynist erfitt að losa mig við bækurnar sem ég neyddist til að pakka niður.....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband