Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Sterk sjálfsmynd er nauðsyn hverri konu....

Stundum hugsa ég djúpt, spjalla við Rannveigu vinkonu og fleiri og kemst að niðurstöðu sem mér finnst afar skynsamleg...., fyrirsögnin að þessari færslu minni er ein svona niðurstaða...., sennilega er ég ekki ein um hana og ekki fyrst en samt....

Gæti skrifað um málið fram á kvöld en þar sem ég á að vera mætt á fund eftir hálftíma verður pælingin stutt að þessu sinni...

Ef maður er sáttur við sjálfan sig, líður manni vel og finnst sjálfsagt og eðlilegt að vera maður sjálfur án allrar tilgerðar og sýndarmennsku.  Við þannig aðstæður er hugsunin frjó, húmorinn lifandi og útgeislunin smitandi - árangurinn er því sjálfsagður og krefjandi verkefni verða skemmtileg glíma við sjálfan sig og aðra.  Held að þetta sé sérstaklega mikilvægt fyrir konur því þær vantreysta sér frekar en karlar og lifa lífinu frekar í gegnum aðra en karlar, ég held að engum sé greiði gerður með því... Hín ágæta gullna regla kristninnar sem segir mönnum að elska náungann eins og sjálfan sig brýnir mann á því að sjálfstraust er grundvöllur góðra verka....

Uppeldishlutverk manns sem foreldris og kennara þarf að mótast af þessari hugsun líka, það að kenna ungu fólki að meta sjálft sig og þora að vera það sjálft er mikilvægasta verkefni okkar fullorðna fólksins...

Meira um þetta síðar því nú er stefnumótun Fljótsdalshéraðs fyrsta spennandi glíma dagsins, megið þið eiga góðan dag.


Bæjarstjórnarfundur

Er rétt að ljúka bæjarstjórnarfundi. Aðalumræðan snerist um landspildu sem við þurfum að öllum líkindum að taka eignarnámi. Þetta eru 10 ha úr landi Egilsstaðabýlisins. Það er erfitt að þurfa að þrengja að starfseminni þar en við verðum líka að geta boðið upp á stórar þjónustulóðir.  Svona er þessi pólitík, alltaf verið að vinna með hagsmuni og reyna að fara bil beggja.

Þegar ég kem heim sæki ég dóttur mína á körfuboltaæfingu, hún er himinsæl í körfuboltanum og ekki síður ánægð með æfingar á leikriti sem á að sýna á 60 ára afmæli Grunnskólans á Egilsstöðum og Eiðum. Nóg að gera hjá okkur mæðgum sem betur fer.

"Litli" drengurinn minn hann Guðmundur Þorsteinn var að ljúka bóklega meiraprófinu á mánudagskvöldið, nú þarf hann að fara að æfa sig í trukkaakstri, hann er greinilega að verða fullorðinn, því ég er ekki einu sinni stressuð yfir þessum stórbílaakstri, enda er gullmolinn minn svo yndislega varkár.

Dótturdóttirin byrjaði á leikskóla á mánudaginn, auðvitað alsæl, skilur ekkert í því að hún megi bara vera smástund í einu þessa vikuna meðan aðlögunartíminn er.

Og svo er það hún Guðbjörg Anna mín, dugnaðarforkurinn, sem rúllar upp hverju prófinu og verkefninu á fætur öðru í lögfræðinni - mikið sem ég er montin af henni...

Já það er mikið lán og eitthvað sem maður ætti að þakka fyrir á hverjum degi að börnin manns eru í góðum málum... og um leið þarf maður að vera tilbúin til að leggja sitt af mörkum til að hjálpa þeim ungmennum sem ekki gengur allt í haginn.

 

 


Laugardagur heima

Mér finnst heil eilífð síðan ég hef ekki þurft að drífa mig á laugardagsmorgni, það er nú ljúft að sitja og dreypa á kaffi, kíkja á blogg og blogga í mestu rólegheitum...

Búin að lesa tvö blogg í morgun, Ólína Þorvarðardóttir talar um útlendinga í þjónustustörfum sem varla tala íslensku og vandræðin sem geta skapast þess vegna.  Mér finnst margir þessir nýju Íslendingar frábærir þjónustuaðilar og ég held að það séu margir þeirra mjög tilbúnir til að læra íslensku, en við bjóðum ekki upp á nógu massíva íslenskukennslu, þar getum við lært af nágrannaþjóðunum.... Við verðum að reyna að halda í við veruleikann, útlendingar eru og verða hluti af okkar flóru og við verðum að begðast við, svo þeir myndi ekki menningarkima innan samfélagsins, það getur orðið afar vont mál í litlum samfélögum. 

Svo var það bloggið hennar Kolbrúnar Björnsdóttur um ástarsorg, veruleiki sem allir hafa upplifað... Mér finnst svo mikilvægt að fólk gefi sér tíma til að jafna sig aðeins eftir sambandsslit, viðurkenni sársaukann sem ætlar að drepa mann, finni hann svo fjara út...Og standi svo uppi stolt og teinrétt því það gekk rétt frá málum, setji punktinn aftan við þennan kafla í lífinu eftir að hafa farið yfir hann aftur og aftur, hent því vonda og haldið því góða, og byrji svo smám saman að skrifa nýjan kafla án beiskju og píslarvættis, lífið er jú fyrst og fremst skemmtilegt, allavega ef manni leiðist ekki mjög í eigin félagsskap...

Í dag mun fjólubláa málningin vonandi komast á veggi heimasætunnar. Svo þegar kvölda tekurætla ég að þrífa af mér sletturnar, dressa mig upp og bruna í fimmtugsafmæli til hans Jóns Halldórs á Seyðisfirði. Jón er bráskemmtilegur Samfylkingarmaður og skólabróðir minn úr Kennó.


Kennarastarfið

Nú er ég búin að kenna í 25 ár og hlakka enn til að fara í vinnuna, sennilega er það vegna einhverrar tegundar af seinþroska...., mér líður sérstaklega vel með unglingum og best ef þau eru svolítið óþekk...

Í morgun var ég að kenna blaðurskjóðunum mínum í stæ 192 og með okkur í tíma var stórvinur minn hann Kristbjörn, sem er einhverfur 18 ára strákur, nemandi á starfsbraut skólans.  Hann er ótrúlega fyndinn og skemmtilegur og athugasemdir hans eru óborganlegar.  Hann skammaði stelpurnar fyrir forvitni þegar þær vildu vita hvað hann ætlaði að gera um helgina og þá fékk ég þetta fína tækifæri til að ræða við hann, og hina líka, um muninn á venjulegum samræðum og forvitni.  Í þessum tíma var gildi blöndunar ótvírætt.

Frábært, en krefjandi starf sem á að vera almennilega launað, en jafnframt venjulegt starf sem unnið er á grunni 40 stunda vinnuviku eins og önnur störf í þjóðfélaginu.

Svo mörg voru þau orð....


Pólitík er....

Held að Sjálfstæðisflokkurinn hljóti að hafa verið með stjórnmálaskóla um helgina og nú eigi nemendurnir að sýna skólastjóranum að þeir séu að vinna heimavinnuna sína og sá fái klapp á kollinn sem bóki mest og spyrji ákafast..., pólitísk samstaða virðist ekki hafa verið á stundaskránni þessa helgina, kannski er hún aldrei á dagskrá hjá þessum ágæta flokki....

Fékk ágætis lexíu áðan, nú þarf ég bara að gæta mín á því að detta ekki ofan í pyttinn líka...., langar svolítið að drullumalla með þeim en það skilar örugglega bestum árangri að horfa niður og ganga síðan framhjá...

Hef það frábært í náttbuxunum, búin að belgja mig út af kjötsúpu, horfi á dóttur mína bródera og ætla snemma í rúmið...

 


Stefnumörkun og framtíðarsýn

Í dag er bæjarráðsfundur hjá mér.  Þetta er fyrsta haustið mitt sem bæjarráðskona svo ég er að gera allt í fyrsta skipti.  Haustið er tími áætlana, fyrst þarf að marka stefnu, síðan að gera starfsáætlanir og að lokum að skipta peningunum sem eru til ráðstöfunar á milli verkefna.  Þess vegna eru stefnumörkun og framtíðarsýn svo mikilvægir þættir því þar leggjum við línurnar og forgangsröðum verkefnum.  Það er að vísu stór hluti fjármagnsins sem til ráðstöfunar er þegar sett í lögbundin verkefni en það þarf að vanda sig við hvernig restinni er varið. Ég vil helst setja sem mesta peninga í menntun og æskulýðsmál en mér er engan veginn sama hvernig þeim er varið. Ég held að það sé of miku fjármagni varið í þætti sem skila ekki árangri, þar langar mig til að breyta, mig langar upp úr gömlum hjólförum..., hlakka til að takast á við gerð nýrrar skólastefnu fyrir Fljótsdalshérað með það að leiðarljósi að við viljum eiga fyrimyndarskóla og þorum að breyta til...En það eru mörg fleiri mál afar mikilvæg og brýn, mér finnst ásýnd bæjarins skipta miklu máli og vil fara að sjá alvöru ummerki um nýja flotta miðbæinn okkar.

En ætli maður verði ekki að nota haustið til áætlanagerðar í eigin lífi líka..., ekki það að mig langi í stórkostlegar breytingar en það er alltaf gott að horfa fram á veginn...,  er t.d. ákveðin í því að fara á fætur fljótlega og hreyfa mig úti í dag fyrir bæjarráðsfund..., góð byrjun....


SSA fundur á Vopnafirði og Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar á Selfossi

Eftir klukkutíma leggja bæjarstjórnarmenn á Fljótsdalshérði af stað til Vopnafjarðar til að hitta aðra sveitarstjórnarmenn á Austurlandi, allt frá Hornafirði í suðri til Vopnafjarðar í norðri. Flestir ætla að eiga þar góða tvo daga og njóta náttúrufegurðar á Vopnafirði og góðs félagsskapar og vinna einarðlega að góðum málum sem varða okkur öll. Ég og eflaust einhverjir fleiri ætla að vinna á tvöföldum hraða í dag til að geta skroppið til Selfoss á morgun til að hitta félaga í Samfylkingunni og fara með þeim yfir stöðuna í ríkisstjórnarsamstarfinu og leggja línurnar áfram. Þetta verður örugglega hin skemmtilegasta helgi, skrifa meira um hana á sunnudaginn.

MS - fyrir fólkið í landinu?????

Í fréttum í gærkvöldi var sagt frá því að MS hygðist loka vinnslustöð sinni hér á Egilsstöðum. Ástæðan er hagræðing!!!! Það er sennilega hagræðingin sem felst í því að flytja mjólkina frá stórbúunum hér í nágrenni Egilsstaða til Akureyrar...., eða felst hagræðingin í því að safna 5000 köllunum í fá veski í nágrenni höfuðborgarinnar... Hvenær ætli fyrirtæki þessa lands og reyndar opinberar stofnanir líka skilji það í alvöru að Ísland er dreifbýlt land??? og það er ekki hagkvæmt í 5000 köllum, en það er hagkvæmt þegar litið er til nýtingar auðlinda lands og hafs. Græðgi og vankunnátta skemmir fyrir eðlilegri þróun í góðu samspili allra landsvæða og allra íbúa þessa lands. Það er ekkert skrýtið þó stundum sé talað um landsbyggðarvarginn, við þurfum stöðugt að verja okkur og hafa hátt til að hlustað sé á okkur.

Það var áhrifaríkt á bæjarstjórnarfundi áðan þegar starfsmenn MS á Egilsstöðum og mjólkurbændur gengu í salinn og hlustuðu á ályktun bæjarstjórnar um fyirhugaða lokun og umræðu um hana.

Á morgun mun bæjarstjórnin funda með stjórn MS, afhenda ályktunina og hvetja ákveðið til þess að starfsseminni verðið haldið áfram í Mjólkurstöðinni á Egilsstöðum.

 


Tveggja ára ömmubarn

í dag héldum við upp á tveggja ára afmælið hennar Karenar Rósar, afmælið er ekki fyrr en 23. september en lögfræðineminn, móðir hennar er stöðugt í prófum og að skila verkefnum en þessa helgi var stund á milli stríða svo ákveðið var að halda fjölskylduhátíð í dag. Við lifum hálfgerðu stúdentalífi við Berglind Rós, sofum í stofunni í fínu stúdentaíbúðinni hennar Guðbjargar Önnu í Grafarholtinu. Áður en Guðbjörg Anna flutti hingað uppeftir hélt ég að það væri alveg vonlaust að búa svona langt frá 101 en...., ég verð að viðurkenna að ég er bara svolítið hrifin af Grafarholtinu... Egilsstaðir eru þó ofar á topp 10 listanum...

Í gær var ég á ráðstefnu um námsmat í Framhaldsskólum, í gamla skólanum mínum, Flensborg í Hafnarfirði.  Ég var himinlifandi yfir þessri ráðstefnu, þarna komu reyndir kennarar úr framhaldsskólum og háskólum og sögðust hafa miklar efasemdir um hefðbundið námsmat s.s. lokapróf.  Ég hélt að afar fáir kennarar á þessum skólastigum hefðu þessa skoðun en þar skjátlaðist mér..., vonandi fá þessar hugmyndir byr undir báða vængi hjá kennururm almennt svo við förum að meta vinnu nemenda á fjölbreytilegri hátt.

Á eftir ætla ég að kíkja í bæinn með Jette vinkonu minni, við ætlum að fá okkur að borða og skoða lífið aðeins. Við vorum seigar í því að mála bæinn rauðan hérna í den, held að við verðum bara í bleikum tónum í kvöld...


Skin og skúrir

Bauð börnunum mínum tveimur sem enn búa í móðurhúsum út að borða í gærkvöldi í tilefni aldarfjórðungsins á Héraðinu. Við fórum á nýjan stað á Egilsstöðum "Pepes" og allt var vel heppnað, staðurinn er vel útlítandi, þjónustan var fín og maturinn góður. Það var bara einn galli - við vorum megnið af tímanum einu viðskiptavinirnir!  Allt í lagi okkar vegna við höfðum það fínt  - en svona staður þrífst varla þó ein og ein fjölskylda haldi upp á eitthvað einu sinni á ári eða svo..., það vantar "útaðborða" menninguna á Egilsstöðum svo svona staðir þrífast tæplega - koma svo Héraðsmenn allir út að borða svona einu sinni í mánuði....

Við mæðgur erum hálf - sorgmæddar í dag, fína trek hjólið hennar Berglindar Rósar er horfið..., ég trúi því varla að einhver leggist svona lágt að stela hjóli..., hún læsir því alltaf nema þegar það er í hjólageymslunni hér í blokkinni okkar...., höldum samt enn í vonina að hún hafi gleymt því einhvers staðar eða það komi bara aftur, einhver hafi þurft að fá það lánað.... Pabbi minn sagði alltaf þegar eitthvað hvarf eða týndist að búaálfarnir hefðu þurft á viðkomandi hlut að halda, hann kæmi aftur í leitirnar..., búálfarnir hafa sennilega bara stækkað og þurft að bregða sér bæjarleið - á hjóli...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband