Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Framtíðarsýn

Ég er glöð í dag - glöð yfir því að áratuga umræða um hvort sækja eigi um aðild að ESB, er að baki því ákvörðunin er tekin og loksins fáum við tækifæri til að tala um það á vitrænan hátt hvort við eigum heima innan þessa bandalags Evrópuþjóða. 

Ég tel margt benda til þess ekki síst þá staðreynd að við lifum á hnattrænum tímum þar sem landamæri eru ekki múrar heldur línur - leyfum okkur fordómalaust að sjá hvað felst í þessu samstarfi.

Ég er sérstaklega hrifin af byggðastefnu ESB - og hlakka til að sjá hvaða tækifæri hún getur gefið okkur - bæði í tengslum við hefðbundinn landbúnað og aðra atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni svo og afar spennandi möguleika til menntunar og nýsköpunar.

Ég er búin að tala við marga andstæðinga ESB í dag og í gær sem ásaka okkur um sjálfstæðissölu og gleymsku hvað varðar mikilvægi matvælaframleiðslu og auðlinda lands og sjávar.  Ég tek þessarri gagnrýni með jafnaðargeði - skil hana um leið og ég minni á að um þetta er ekki hægt að ræða á upplýstan hátt fyrr en viðræður þar sem lögð er áhersla á sérstöðu okkar sem harðbýllar eyju í norðurhöfum hafa farið fram - þá skulum við tala saman aftur...

Áhyggjur dóttur minnar af slakri frammistöðu Evrópudómstólsins þarf ég að ræða betur við þá sem þar þekkja best til - þar þarf að sjálfsögðu að vera vakandi

En gleymum ekki að við erum bara að tala um að fara af stað í viðræður og það er þjóðin sem á síðasta orðið um þann samning sem út úr þeim viðræðum kemur.

En nú ætla ég að vera húsmóðir í þvottaham í kvöld og skella mér svo á Lunga á Seyðisfirði á morgun og helst aðeins á Stöðvarfjörð líka...     


Línur skýrast

Það er í raun ótrúlegt hversu mikið er búið að gera á þessu sumarþingi - þó stjórnarandstaðan reyni að þvælast fyrir - mér finnst við komast nokkuð vel frá þessum þvælingi með svipuðum aðferðum og notaðar eru þegar vinna þarf með börn í kringum sig, þá er best að vera bara nokkuð hlýr við þau og gefa þeim svo sem minnstan gaum...

Afstaða mín til þess að gengið verði til samningaviðræðna við ESB, svo við getum séð hvernig samning við getum fengið - hefur komið fram hér margoft, mér finnst tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla vera lýðskrum og alger óþarfi og bara til þess fallin að tefja málið frekar.

Ríkisábyrgðin á Ice save er vont mál, en því þarf líka að ganga frá - og ég óttast að það að fella þennan samning sem er auðvitað ekki gallalaus setji okkur á byrjunarreit aftur - notum árin sjö sem við fáum áður en þarf að byrja að borga til að láta reyna á endurskoðunraákvæðið ef þess þarf.

Sparisjóðamálið var erfitt og ömurlegt að hugmyndafræði sparisjóðanna hafi verið rýrð og afskræmd í græðgisvæðingunni miklu - en ég held að niðurstaðan sé viðunandi fyrir flesta, einhverjir sparisjóðir munu ef til vill ekki lifa af - en aðrir styrkjast - því miður hefði sennilega það sama gerst þó ríkið hefði ekki gripið inn...

Bankarnir færast nær því með degi hverjum að verða starfhæfir með uppgjöri á stöðu gömlu bankanna - gengur hægt - en þó bítandi...

Sérstakur saksóknari er á fullri ferð í að vinna að rannsókn hrunsins og tengdra mála - á grundvelli laga - gleymum því ekki að Ísland er réttarríki og vinnubrögð okkar miðast við það - hér verður enginn "tekinn af lífi" án dóms og laga...

Og svona mætti lengi telja - og ég er bjartsýn á það að þegar þing kemur saman að nýju í haust verði kominn traustur grundvöllur að endurreisn Íslands - verið er að vinna að því að búa til ramma að atvinnuuppbyggingu á mörgum sviðum t.d. hjá iðnaðarráðuneytinu og stofnunum þess... þá þarf að skoða stöðu heimilanna upp á nýtt og sjá hvar þarf að bæta við og einfalda úrræði til þess að fjölskyldur geti búið við þokkalegt öryggi á Íslandi...

Þannig ætla ég að vera bjartsýn og horfa til framtíðar og vanda mig við að láta stjórnarandstöðuna sem suðar og togar allt um kring ekki draga úr skörpum fókus... en um leið raunsæ og vakandi og hlustandi með athygli á allar góðar hugmyndir sem koma frá frábærum einstaklingum allt í kringum landið og mega verða til uppbyggingar - slíkar raddir vil ég líka hlusta á hjá mörgum frábærum þingmönnum í öðrum flokkum en mínum...

Átti frábæran dag í gær - fór í tvö afmæli hjá stórmerkilegum köppum - fylgdist stolt með dóttur minni sigra unglingaflokk á félagsmóti Freyfaxa og skellti mér svo á dansleik og dansaði frá mér hvers kyns ósóma í tvo tíma  - dans er nú alveg frábær hreyfing, slökun og afþreying....

En nú þarf að sinna unglingnum sem er að aðstoða bróður sinn við að setja folaldsmerar á kerru og er svo að fara að taka verklegt knapamerkjapróf klukkan 6, það er gaman að hafa tíma til að snúast í kringum fólkið sitt Smile - megið þið eiga góðar stundir með ykkar fólki.


Lífið í lit

Það eru forréttindi að fá að vinna hér við Austurvöll - hér er mannlífið fjölbreytt - stöku bumbusláttur í takti við hlátrasköll, barnsgrát og hljóm margra tungumála virðist vera eðlileg hljómkviða lífsins á Íslandi árið 2009.

Við stöndum frammi fyrir mörgum erfiðum ákvörðunum - en megum aldrei missa sjónar að því að við eigum mikil auðæfi í fólkinu okkar og gæðum lands og sjávar - það er nauðsynlegt að þjóðartónninn slái ekki bara erfiða tóna - heldur raunsæja og jákvæða tóna til að halda voninni í þjóðinni - og ákvarðanafælni má ekki verða viðlag í þessum þjóðartóni.  Mér finnst sjálfstæðismenn vera hræðilega illa haldnir af ákvarðanafælni og kvíðaröskun hverskonar og vilja helst slá öllu á frest - nota faglegheit og vönduð vinnubrögð sér til málsvarnar - en afar fátt verður um svör þegar þau eru spurð um þeirra leiðir og hugmyndir í hverju málinu á fætur öðru.  Margar fínar manneskjur í þessum gamla flokki - en hver er stefna þeirra í endurreisninni???? Þeir hafa talað um að það verði að koma bönkunum í starfhæft ástand en þegar ljóst er að það er alveg að fara að gerast er allt ómögulegt...

Ég er hreykin af því að hafa fengið að vera hluti af afar starfsömum ríkisstjórnarmeirihluta sem vílar ekki fyrir sér að taka erfiðar ákvarðanir á skömmum tíma svo hægt sé að fara af stað í hina mikilvægu vinnu við að hvetja fólkið í landinu til dáða...

Hér í borginni er ágætisveður - sólin reynir að glenna sig - en mér heyrist hún skína af fullum styrk heima hjá mér á Héraðinu - megi Héraðsfólk og gestir njóta vel.


Samgöngur

Mikið finnst mér hún erfið þessi umræða um samgöngubætur.  Skilningurinn og samúðin með öllum landssvæðum svellur. Óboðlegir vegir eru á suðurhluta Vestfjarða, þeir eiga ekkert sameiginlegt með 21. öldinni - þá þarf að laga - umferðaröryggi krefst tvöföldunar Suðurlands - og Vesturlandsvega, Vaðlaheiðagöng væru frábær og myndu gera Norðurland að einu atvinnusvæði og svo má lengi telja.

En ég get ekki annað en haldið á lofti hversu mikilvægt er að jarðgöng verði gerð til Norðfjarðar og undir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar, ég veit á eigin skinni hversu mikilvægar þessar samgöngubætur eru. Sjúkrahús allra Austfirðinga er á Neskaupstað við Norðfjörð og þar eru jarðgöng í ótrúlegri hæð, einbreið og í þeim er blindhæð, Héraðsmenn þurfa að fara um tvo fjallvegi til að komast á sjúkrahús, Seyðfirðingar og Vopnfirðingar þrjá - og þar erum við að tala um hæstu fjallvegi Íslands.

Seyðfirðingar búa við það að eina leið þeirra að heiman liggur um hæsta fjallveg á Íslandi, og einn þann snjóþyngsta. Seyðisfjörður er hinn íslenski viðkomustaður farþegaferjunnar Norrænu - þar hefur verið byggt upp fín ferjuhöfn - en fjallvegurinn erfiði takmarkar möguleikana sem hægt væri að nýta á Austurlandi öllu í tengslum við þessa ferju - sem siglir allt árið með öllum þeim möguleikum sem því fylgir. 

Heilsársvegur um Öxi styttir vegalengdir milli Austurlands og Suðurlands um tæpa sjötíu kílómetra og þannig gæti ég haldið lengi áfram um samgöngubætur á því svæði sem ég þekki best.

Það er lítið um peninga í buddu samgönguráðherra núna og hann verður því að forgangsraða - í mér takast á  tvö sjónarmið - annars vegar að við pólitíkusarnir höldum áfram að togast á um peningana til okkar svæða eða hins vegar að við fáum ískalt faglegt mat á því hvernig á að forgangsraða í samgöngumannvirkjum þar sem  hagkvæmni, öryggismál, byggðamál, verðmætasköpun svæða, atvinnumál og mörg fleiri sjónarmið verði höfð í heiðri - ég er ekki viss um að slíkt væri óhagstæðara fyrir okkur dreifbýlingana en þéttbýlingana á Suðvesturhorninu.

Ég sit hér á skrifstofunni minni og horfi og hlusta á umræður um Icesave, stærsta mál sem  íslensk þjóð hefur tekist á við í lýðveldissögunni.  Eins og ég hef sagt hér áður held ég að ekki sé önnur leið en að semja um þessar skelfilega háu upphæðir sem við höfum ábyrgst - auðvitað hvarflar að manni sú hugsun hvort ekki væri hægt að reyna að semja betur, ná vöxtunum niður og ná einhverju þaki á greiðslur - en samninganefndin telur sig hafa náð því sem náð verður og bendir á að það er útgönguleið í samningnum ef breytingar verða á efnahag þjóðarinnar.  Ég treysti mér ekki til að setja þennan samning í uppnám - með honum er enn eitt málið í höfn og slíkt skapar sátt og ró.


Sparisjóðir

Það er tekist á um mörg mál á vettvangi Alþingis þessa dagana - og flest hafa þau að minnsta kosti tvær hliðar og enn fleiri fleti.

Eitt þeirra er málefni sparisjóða sem í upphafi voru fyrst og fremst sparisjóðir minni byggðalaga sem áttu ekki sama aðgang að fjármagni og hin stærri.  Fólkið í byggðalaginu lagði fé í sjóðinn - svokallað stofnfé og slóg tvær flugur í einu höggi - ávaxtaði fé sitt og studdi við fólk og fyrirtæki heima fyrir - þá var sparisjóðurinn gjarnan helsti styrktaraðlil æskulýðs - og menningarstarfsemi.  Enn á þetta við á nokkrum stöðum - en því miður eru aðrir sparisjóðir í vandræðum ekki síst vegna þess að þeir lögðu af stað í kapphlaupið mikla um skjótfengin gróða, stofnfjáreigindur juku stofnfé sitt, sumir fyrst og fremst til að fylgja straumnum og hvatningu misvísra ráðgjafa sinna - en aðrir í meðvitaðri gróðavon, aðrir seldu stofnfé sitt útrásarvíkingum sem riðu um héruð með gilda sjóði, þó það hafi í upphafi alls ekki verið ætlunin og beinlínis bannað á sumum stöðum. 

Í nýrri löggjöf sem lögð verður fyrir þingið á morgun um sparisjóðina er margt gott og óumdeilt eins og heimild til samstarfs sjóðanna um ýmis verkefni sem getur gefið mikla hagræðingu í rekstri - en  umdeilt atriði er leyfi til að niðurfæra stofnfé til að mæta tapi nú í endurskipulagningu og endurfjármögnun sjóðanna, en slíkt getur valdið gjaldfellingu á miklum skuldum einstaklinga, fyrirtækja og stofnanna sem alltaf er afar vont mál.

Slíkt verður þó að teljast eðlilegt þegar nýtt stofnfé ríkisins kemur inn í sjóðina til að mæta tapi og neikvæðu eigin fé - alls ekki er verið að tala um að niðurfæra stofnféð niður í núll -  vonandi verða þessar aðgerðir til að hægt verði að bjarga sjóðunum og þannig hægt að taka til við hið góða starf þeirra á ný - fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.

Sum samfélög fara ver út úr þessari niðurfærslu en önnur og verður þá að skoða þau mál sérstaklega.

Allar ákvarðanir sem maður tekur hafa bæði kosti og galla - slíkar ákvarðanatökur eru hlutskipti ábyrgra pólitíkusa sem leita sér leiðsagnar og taka síðan ákvörðun samkvæmt sinni bestu samvisku.


Ferðast innanlands

Það virðist strax vera að koma í ljós að landinn hefur ákveðið að ferðast um eigið land þetta sumarið - það er frábært til þess að hugsa að ferðaþjónustan vítt og breitt um landið mun vaxa og dafna við þá ákvörðun. 

Ég var uppi á Hallormsstað í gærkvöldi og þar var tjald við hjólhýsi í Atlavík og upplifunin var svipuð og þegar ég fór í Evrópuferð með vinum mínum sumrin 1980 og 1981 - þar sem gist var á hinum ýmsu tjaldstæðum í mörgum löndum - stuttbuxur og stuttermabolir um sjöleytið minntu óneitanlega á útlönd.

Ég var á ferð með norrænum vinum sem voru hér á vinabæjamóti og það var gaman að vera með þeim í að upplifa Ísland, náttúru, sérstöðu og íslenskt lambakjöt hjá Þráni á Hótel Hallormsstað.  Þessir norrænu vinir yfirgáfu síðan Fljótsdalshérað í dag og ætluðu aðeins að skoða höfuðborgina áður en þeir héldu heim á leið - maður finnur óneitanlega fyrir því hversu tengdur maður er hinum norrænu þjóðum - við eigum svo margt sameiginlegt og hugsum á margan hátt líkt - þessi tengsl má ekki vanrækja.

Ég er búin að sitja í kvöld og undirbúa mig fyrir þingið í næstu viku - það er margt að setja sig inní og lesa - auðvitað misspennandi en allt áhugavert og mikilvægt.

En til að ná mér niður ætla ég að lesa annað en frumvörp og nefndarálit - er að byrja að lesa Rán eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur og líst bara mjög vel á.

Veðrið í dag er búið að vera himneskt - hlýindi í allan dag - aðeins skýjafar og logn framan af degi - eins og það gerist best - enda hefur freknum fjölgað og aðeins hiti í húð.

Hlakka til að takast á við vinnuvikuna - en finnst aðeins vont að geta ekki tekið hið vinnandi örverpi með mér suður á mánudagsmorgnum - en hún tekur vinnuna sína í Hestaleigunni á Hallormsstað afar hátíðlega svo við björgum málum með stóra bróðir við stýrið og annað gott fólk til aðstoðar - það verður óneitanlega gott að komast í frí einhverntíma í júlí.


mbl.is Enn mikil umferð til borgarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlustað á kjósendur

Af fáu hafa þingmenn eins gott og því að fara til kjósenda sinna og eiga við þá samræður.  Nú stendur yfir fundaherferð Samfylkingarinnar um landið og ég var svo heppin að fá að fara til Grundarfjarðar í gær og til Dalvíkur í dag. 

Ég var heilluð af náttúrufegurð Snæfellsnessins sem skartaði svo sannarlega sparifötunum fyrir okkur Ólínu Þorvarðardóttur samflokksþingkonu minni úr Norðvestrinu og frænku barnanna minna - en hún var félagi minn í Grundarfjarðarferðinni  - við fórum yfir það helsta sem um er að vera í þinginu og síðan svöruðum við spurningum fundarmanna sem mest snerust um Icesave, skuldastöðu heimilanna, lýðræði og heiðarleika.  Frábær fundur á yndislegum stað. 

Við Ólína ókum síðan suður aftur í morgun og fórum á okkar fundi og síðan flaug ég til Akureyrar síðdegis og staldraði við hjá Sigrúnu vinkonu minni sem ætlar að hýsa mig í nótt.

Ég sótti varaformanninn á flugvöllinn og við brunuðum til Dalvíkur - alltaf jafn gott að koma til Dalvíkur - myndarlegur og skemmtilegur bær - Sigmundur Ernir var með framsögu á Dalvík og við Dagur sátum fyrir svörum - þar brunnu aðallega þrjú mál á mönnum - hrikaleg dýrtíð - skelfileg neikvæðni fjölmðla og sparisjóðafrumvarpið - við spjölluðum um þessi mál og fleiri og ég fór ríkari af fundinum en ég kom - langt síðan ég hef verið með svona jákvæðu fólki.

Ég ætla rétt að vona að við höldum áfram að vera dugleg að ferðast um og hitta fólk - það er það albesta við þingmannsstarfið Smile


Facebook

Upplifði það í gærkvöldi að varlega þarf að fara í skrif á facebookinni ef maður vill ekki láta fjölmiðlana elta sig...

Skrif mín um að ég hafi orðið skíthrædd í nokkrar mínútur í flugvél yfir Fljótsdalnum þóttu fréttnæm á netmiðli okkar hér á Austurlandi - ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta ekki fréttnæmt nema bara fyrir mig  Smile og ég er nú með svo mikla aðlögunarhæfni að ég var nú búin að jafna mig þegar ég var komin með töskuna út í bíl...

En ég var ánægð með að þurfa ekki að fara með vélinni suður aftur - hugsa að ég hefði beðið um að kíkt hefði verið á hreyfilinn sem ég sat næst til að vera alveg róleg.

Kannski er maður líka svo viss um að nokkuð bjart sumarsíðdegi sé ekki vettvangur svona óróleika í háloftunum og því ekki viðbúin látunum.

En ég mun skrifa varfærnislegar á facebook - og vona að Gunnar vinur minn sé bara til í að spjalla við mig um upplifun mína sem nýs þingmanns eða annað í þeim dúr þegar hann vantar efni á hina frábæru síðu Austurgluggans.

En nú ætla ég að skella mér í sundlaugina og svo er það hinn frábæri Skógardagur á Hallormsstað eftir hádegið - megið þið eiga góðan dag.


Eðlilegt samhengi

Mér finnst merkilegt að fylgjast með því hversu auðveldlega margir þingmenn stjórnarandstöðunnar taka hluta máls úr samhengi og nýta þennan hluta til að finna höggstað á málstað stjórnarinnar sem er þó fyrst og fremst í því að finna lausn á vanda sem  var skapaður  í stjórnartíð stjórnarandstöðuflokkanna í góðærinu.  Það að ala á ótta um að við séum að fórna fiskimiðum og orkuauðlindum með samningum um Icesave er beinlínis ljótt og ekki til þess fallið að telja kjark í þjóðina  - því ekkert slíkt er inni í myndinni, túlkunin er afbökun af verstu gerð...

Nú sit ég og hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar um frumvarp um kjararáð, innihald þess er það að engin laun hjá ríkinu verði hærri en laun forsætisráðherra.  Stjórnarandstaðan setur sig upp á móti þessu - talar um lýðskrum og hættu á landflótta - landflóttinn kann að vera hætta - en íslenska ríkið hefur bara ekki efni á því að greiða hærri laun núna og getur ekki verið þekkt fyrir það um leið og það vinnur að samningi um takmarkaðar launahækkanir á almennum vinnumarkaði og skerðir jafnvel kjör lífeyrisþega og öryrkja.

Eitt frammíkallið sem ég greindi áðan þegar fjármálaráðherra var að kalla eftir samstöðu um ábyrga afstöðu í ríkisfjármálum - en við erum nú í stjórnarandstöðu - segir mikla sögu - stjórnarandstaðan telur elilegt aðhald sitt við stjórnarliðana felast í því að vera nær sífellt fúll á móti...

En allt er þetta hið ágætasta fólk sem í raun er á þingi til að vinna þjóðinni sem mest gagn - hin sterka hefð fyrir því að stjórn og stjórnarandstaða séu nánast andstæðir pólar virðist bara vera afar föst í sessi - en ég vildi að við gætum oftar tekið höndum saman á þessum erfiðu tímum...

En núna ætla ég að gista á Hótel Mömmu í nótt og vera til í slaginn aftur í fyrramálið


Að mörgu að hyggja

Það eru mörg stór úrlausnarefni í gangi í flóknu þjóðfélagi dagsins í dag.  Icesave, Evrópusambandið, Heildarsparnaðaraðgerðir ríkisins, Endurskipulagning bankakerfisins, Endurskipulagning fiskveiðistjórnunarkerfisins og svo má lengi telja.

Í raun erum við í því að byggja upp nýtt samfélag, borga skuldir þess gamla, finna okkur formlega samstarfsfélaga svo við eigum trygga bakhjarla í endurreisninni og byggja upp nýtt peningamálakerfi þar sem reynt er að koma í veg fyrir nýtt loftbóluskot, endurreisa atvinnulífið með nýjum leikreglum og finna allar leiðir til að spara og hagræða - helst án þess að fækka störfum og skerða þjónustu.

Verkefnið er risavaxið - og hægt að detta niður í dúndrandi svartnætti við tilhugsunina eina - en við skuldum þjóðinni að detta ekki í það far - við eigum að bretta upp ermar og vinna og vinna, við endurreisn - ekki við að stoppa í göt á ónýtu kerfi sem ekkert hald er í - best væri að hægt væri að allir flokkar ynnu saman að lausnum - en það virðist afar erfitt fyrir hin pólitísku öfl að láta af hinni hefðbundnu tvískiptingu í meiri- og minnhluta - ég vildi að við gætum látið af þrasinu og ynnum saman af því að reisa land og þjóð við.

Ég spurði menntamálaráðherra um framfærslugrunn námslána í dag - finnst óeðlilegt að sá grunnur sé lægri en lágmarksatvinnuleysisbætur - það hlýtur að vera hægt að flytja á milli kerfa og hvetja um leið fólk án atvinnu til að fara í nám.

En ég sit enn á skrifstofunni minni og hlusta á umræður um stjórn fiskveiða og veit ekki hvort ég þarf að mæta í þingsal á eftir til að greiða atkvæði um afgreiðslu frumvarpsins til þriðju umræðu.  Hið virðulega Alþingi Íslandinga er ekki skipulagðasti vinnustaður landsins.... dunda mér við að blogga og afla mér upplýsinga um sparisjóði og fleira á meðan.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband