Leita í fréttum mbl.is

Að mörgu að hyggja

Það eru mörg stór úrlausnarefni í gangi í flóknu þjóðfélagi dagsins í dag.  Icesave, Evrópusambandið, Heildarsparnaðaraðgerðir ríkisins, Endurskipulagning bankakerfisins, Endurskipulagning fiskveiðistjórnunarkerfisins og svo má lengi telja.

Í raun erum við í því að byggja upp nýtt samfélag, borga skuldir þess gamla, finna okkur formlega samstarfsfélaga svo við eigum trygga bakhjarla í endurreisninni og byggja upp nýtt peningamálakerfi þar sem reynt er að koma í veg fyrir nýtt loftbóluskot, endurreisa atvinnulífið með nýjum leikreglum og finna allar leiðir til að spara og hagræða - helst án þess að fækka störfum og skerða þjónustu.

Verkefnið er risavaxið - og hægt að detta niður í dúndrandi svartnætti við tilhugsunina eina - en við skuldum þjóðinni að detta ekki í það far - við eigum að bretta upp ermar og vinna og vinna, við endurreisn - ekki við að stoppa í göt á ónýtu kerfi sem ekkert hald er í - best væri að hægt væri að allir flokkar ynnu saman að lausnum - en það virðist afar erfitt fyrir hin pólitísku öfl að láta af hinni hefðbundnu tvískiptingu í meiri- og minnhluta - ég vildi að við gætum látið af þrasinu og ynnum saman af því að reisa land og þjóð við.

Ég spurði menntamálaráðherra um framfærslugrunn námslána í dag - finnst óeðlilegt að sá grunnur sé lægri en lágmarksatvinnuleysisbætur - það hlýtur að vera hægt að flytja á milli kerfa og hvetja um leið fólk án atvinnu til að fara í nám.

En ég sit enn á skrifstofunni minni og hlusta á umræður um stjórn fiskveiða og veit ekki hvort ég þarf að mæta í þingsal á eftir til að greiða atkvæði um afgreiðslu frumvarpsins til þriðju umræðu.  Hið virðulega Alþingi Íslandinga er ekki skipulagðasti vinnustaður landsins.... dunda mér við að blogga og afla mér upplýsinga um sparisjóði og fleira á meðan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Katrín Árnadóttir

Mér líst vel á að ekki sé verið að reyna að stoppa í meingallað kerfi. Samt finnst manni stundum aðferðirnar svolítið gamaldags en það er sjálfsagt ekki auðvelt að vera í þeirri stöðu að hreinsa upp gubbið eftir svallveisluna, það leynast alls staða spýjur og þrifin virðast endalaus.

Getur þú ekki alveg eins fylgst með umræðunni heima hjá þér , þ.e. hér fyrir austan. Er þetta ekki bara tóm tjara að vera að flytja alla þingmenn búferlum þó menn komist á þing eftir kosningar. það hlýtur einnig að vera hægt að greiða atkvæði rafrænt frá sinni heimabyggð.

Guðrún Katrín Árnadóttir, 17.6.2009 kl. 22:59

2 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Held að við gætum allavega alveg verið heima lengur og nýtt fjarfundabúnað og aðra tækni til að vera með í umræðunni.

En nefndarstarfið sem sést ekkert tekur auðvitað líka sinn tíma

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 18.6.2009 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband