Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
26.5.2009 | 07:28
Kerfið er þungt í vöfum
Það er erfitt að vera þolinmóður og bíða eftir jafnmikilvægu máli og uppgjöri gömlu bankanna til að hin rauverulega endurreisn bankakerfisisns geti farið af stað. En um leið þýðir ekki annað en að vanda sig - maður sér að nú er verið að leiðrétta lagafrumvörp vegna þess að asinn hefur verið og mikill í lagasetningunni í verulega góðri trú, en ekki gafst tími á harðahlaupunum til að hugsa allar hliðar til loka.
Bankarnir eru algerlega nauðsynlegir til að halda atvinnulífinu gangandi og tryggja eðlilega veltu í samfélaginu. Nýju bankarnir virðast starfa þokkalega og vera að veita lán til eðlilegrar uppbyggingar en þetta uppgjör á gömlu bönkunum virðist hanga yfir okkur eins og svart ský og því þarf að blása burtu.
Ég las í gær mjög gott erindi Gunnars Þ. Andersen forstjóra Fjármálaeftirlitsins sem hann flutti á aðalfundi samtaka fjármálafyrirtækja. Þar er talað á mannamáli og ekkert verið að færa hlutina í sparifötin.
Hann segir íslenska viðskiptalíkanið sem átti að vera svo gott - um miðjan áratuginn - hafi verið eðlisgallað og stærsta gallann telur hann hafa verið hinn sterka útrásaranda sem ekki hafi verið í neinu samhengi við getu íslensks hagkerfis. Þegar gagnrýnisraddir heyrðust var talað um öfund vegna einstakrar velgengni útrásarvíkinganna okkar.
Gunnar vitnar í velviljaðan gagnrýnanda sem hafi sagt: " Þið verðið að fara varlega annars verður land gufuorku þekkt sem land gufutals". Gunnar ræðir líka um hlutverk fjölmiðla sem aðhaldsafls og telur þá algerlega hafa brugðist hlutverki sínu á þessum tímun. Lokaorð hans eru jákvæð þegar hann telur okkur að ef við lærum af mistökunum munum við fá tækifæri til að byggja upp betra fjármálakerfi, betra hagkerfi og ríkara samfélag.
Ég sit í viðskiptanefnd þingsins og fæ því tækifæri til að fylgjast vel með viðskiptaumhverfinu og nýsköpun þess á næstu mánuðum - spennandi, því þetta er geiri sem ég þekki ekki neitt en tel einmitt gott að einhverjir slíkir, sem spyrja spurninga og telja það gamla ekki sjálfgefið sitji í þessarri nefnd.
En nú skín sólin á mig hérna í Grafarholtinu og ég ætla aðeins að skoða hana betur í göngu um hverfið núna í morgunsárið og fara síðan í vinnuna og lesa mér enn betur til um hin ýmsu mál sem bíða afgreiðslu. Eins gott að ég gleymi ekki að hringja í unglinginn minn sem er að fara í próf í samfélagsfræði.
Og svo hugsa ég að gestur númer 100.000 kíki inn á þessa síðu í dag!
Tafir á uppskiptingu milli nýju og gömlu valda titringi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2009 | 08:29
Kynjahlutföll
Mikil umræða fer fram út í þjóðfélaginu um jöfn kynjahlutföll á sem flestum stöðum og aðferðir sem beita á til að ná jöfnuðinum sem mestum.
Á hinu háa Alþingi hefur umræðan snúist um jafnt kynjahlutfall í þingnefndum og síðan liggur stjórnarfrumvarp fyrir þinginu um hinar ýmsu tegundir hlutafélaga þar sem áhersla er lögð á að í stjórnum félaganna sé jafnt hlutfall kynjanna.
Umræðan á þinginu snerist aðeins um það hvort beita mæti refsiákvæðum ef ekki væri farið eftir þessum ákvæðum og voru um það afar skiptar skoðanir - fæstir vildu ganga svo langt, en ég velti mjög fyrir mér hvort nauðsynlegt sé að tryggja ákveðin viðurlög a.m.k á meðan jafnvægi er náð.
Hvað þingnefndirnar varðar er ljóst að þar er kynjaskiptingin afar mismunandi - í forsætisnefndinni sitja t.d. bara konur - og hef ég ekki heyrt rökstuðninginn fyrir þeirri skipan. Skipan í fjárlaganefnd var breytt til að jafna kynjamun, enn hefur það ekki verið gert í fleiri nefndum þó víða sé talsverður kynjahalli í báðar áttir.
Þó maður geti haft þá skoðun að hver og einn eigi að komast áfram á eigin verðleikum, eigi að starfa þar sem styrkleikar og áhugasvið hvers og eins liggur og því skipti kyn ekki máli, held ég að það sé algerlega nauðsynlegt að búa til þannig aðstæður að alltaf heyrist raddir beggja kynja. Sú nálgun eykur fjölbreytnina í umræðu og styrkir ákvarðanir sem teknar eru - en það verður stöðugt að gæta þess að reglan þarf að gilda í báðar áttir - við konur megum ekki falla í karlagryfjurnar um leið og við erum komnar upp úr þeim.
Því miður er langt í að jafnrétti kynjanna sé náð - en við erum á réttri leið - pössum okkur bara að halda kúrs - og vinna svo samhliða að öðru réttlætismáli sem er t.d. baráttan fyrir málum landsbyggðarinnar.
En nú þarf ég að koma unglingnum mínum á ról og reyna svo að koma því þannig fyrir að ég geti klárað kúrsinn sem ég er í....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2009 | 22:59
Hátíðarbragur
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana, svokallaðar eldhúsdagsumræður fóru fram í gærkvöldi í beinni útsendingu frá þingsal Alþingis. Það var hátíðarbragur yfir kvöldinu og afar spennandi að sitja sinn fyrsta þingfund.
Mörgum mæltist ágætlega - en ég finn að ég þarf að venjast ýmsu - málfundastíll Sigmundar Davíðs fór létt í mig svo og slagorðaháttur formanns Sjálfstæðisflokksins. Þeir kölluðu eftir lausnum en gleymdi alveg að nefna sínar hugmyndir að lausnum, nema þær gömlu sem dæmdar hafa verið ónýtar af fagmönnum.
Þingmenn Borgarahreyfingarinnar voru með ágætar ræður - en voru hrokkafullir þegar þeir töldu sig einu fulltrúa fólksins á þingi!
Vinstri grænir voru með ágætis ræður en aðrir en Steingrímur komu með athugasemdir sem mér fannst ekki hæfa formönnum stjórnarþingflokks og varaformönnum þingnefnda - þegar maður er í þannig stöðu finnst mér maður ekki geta sagt forsætisráðherranum að hún tali ekki fyrir munn hennar eða hans..., samstarf er samstarf og því fylgir ákveðin hollusta...
Mér líður vel á þessum nýja vinnustað mínum, en er ákveðin í því að hlusta svolítið áður en ég fer að tala - slík vinnubrögð henta mér.
Í dag var ég á málþingi Þróunarfélags Austurlands um byggðamál, það var haldið á Breiðdalsvík og var hið ágætasta. Ég ætla síðan að nota ferðina og halda stjórnarfund Vísindagarðsins og fara á bæjarstjórnarfund, sennilega þann síðasta eða næstsíðasta. Ég tilkynnti bara forföll í þinginu og engar athugasemdir voru gerðar við það.
Börnin mín ætla að vakna fyrir sex í fyrramálið og skella sér akandi suður með hana Ljónslöpp og folaldið hennar í kerru og vera með pabba sínum þegar vígð verður reiðhöll á Syðri - Gegnishólum og heimasíða þeirra opnuð. Þau koma svo heim aftur á fimmtudagskvöldið. Mamman verður því ein í kotinu og hlakkar til að vinna og slaka á í góðri blöndu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.5.2009 | 14:12
Starfsaðstaða
Þá er búið að setja þingið við hátíðlega athöfn í kirkju og í þinghúsi. Ég var auðmjúk og smá við þessa athöfn - fann að ég var búin að taka að mér virðulegt starf og mikla ábyrgð - við þær aðstæður hlýtur maður að vanda sig, trúr sannfæringu sinni og umboði kjósenda sinna. Ég fæ að starfa í fjórum nefndum: menntamálanefnd, iðnaðarnefnd, viðskiptanefnd og Íslandsdeild Eftanefndarinnar - hlakka til að takast á við verkefnin sem þar bíða mín.
Fyrir hádegi í gær kíkti ég á vinnuaðstöðuna mína og leist vel á - fékk skrifstofu við Austurstræti með útsýni yfir Austurvöll. Aðstaðan er öll hin besta og ég hlakka til að koma mér fyrir þarna - fer með fulla tösku af pappírum og dóti suður á mánudagsmorguninn og dunda mér við að raða inn og koma mér fyrir á morgun.
Ég ætla síðan að vera heima það sem eftir lifir vikunnar - það er ársfundur Þróunarfélagsins á Breiðdalsvík á þriðjudaginn og síðan stjórnarfundur í Vísindagarðinum og bæjarstjórnarfundur á miðvikudaginn, frídagur á fimmtudag og lítið um að vera í þingstörfum á föstudaginn svo ég get nýtt vikuna hér á heimaslóðum.
En í dag er yndislegur heimadagur með tilheyrandi tiltekt og barnastússi - örverpið mitt er að fara í próf svo það verður lærð enska í dag og stærðfræði á morgun.
Svo vona ég að einhverjir komi og horfi á Eurovision með okkur í kvöld - það tilheyrir að spá svolítið í Eurovision, hef lítið fylgst með keppninni - en hef þá trú að okkur muni vegna vel í kvöld....
Svo finnur maður að dauðsfall ungs manns frá Fáskrúðsfirði setur mark sitt á allt Miðausturland - ég þekkti þennan unga mann ekki, en þegar maður á unglinga og umgengst þá mikið getur maður reynt að ímynda sér hvernig ættingjum og vinum líður - þau eiga samúð allra hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2009 | 07:36
Auðmýkt og einlægni
Í kynningu á og umræðu um stjórnarsáttmálann í gær báru hugtökin einlægni og auðmýkt oft á góma. Var afar ánægð með það því ég held að þegar leysa þarf erfið mál sé aðferðafræðin fólgin í þessum hugtökum og beitingu þeirra.
Ég var svo ánægð með Jóhönnu í gær þegar hún lagði á það höfuðáherslu að þessi ríkisstjórn ætlaði að gera það sem hún segði og það strax og Jóhanna er svo trúverðug að allir trúa henni.
Stjórnarandstaðan spriklar eðlilega - en vonandi ná þingmenn að sitja á sér og hugsa um það fyrst og síðast að fyrir utan Alþingishúsið er samfélag í vanda. Við, sem þetta samfélag kaus til að vinna að endurreisninni, skuldum þessu samfélagi að vinna hratt og örugglega að því að leysa vanda og byggja upp - málþóf og orðaskak gera það ekki - en sköpun aðstæðna og markviss forgangsröðun gera það - það er okkar hlutverk.
Hlakka til að fara í vinnuna í dag
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2009 | 15:20
Mikið að gerast...
Nú er ljóst að ný ríkisstjórn er rétt að fæðast - sumum finnst meðgangan hafa verið löng - mér finnst eðlilegt að vanda sig þegar jafnmikilvægt mál og stjórnun Íslands á erfiðum tímum er verkefnið - og það tekur oft lengri tíma að vanda verkin en borgar sig yfirleitt alltaf...
Ráðherraskipan er enn á huldu svo og og skipan í önnur trúnaðarstörf - en það er trúverðugt að fá að segja formanninum sínum hvaða hugmyndir maður hefur um slíka skipan svo og ýmis önnur mál, ég er afar hrifin af þannig vinnubrögðum...
Núna ætla ég að njóta sólskinsins í borginni með dótturinni og dótturdótturinni, kíkja á mömmu og einhverjar gamlar vinkonur - á morgun eru svo fundarhöld, eftir það er dagskipanin eitthvað óljós...
Njótið nú helgarinnar með fólkinu ykkar - það ætla ég að gera...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2009 | 09:57
Stöndum í lappirnar
Það er kallað á bráðaaðgerðir í málefnum skuldsettra heimila. Það er skiljanlegt og auðvitað slá hjörtu margra með fólki í neyð. Fyrir það fólk sem er í virkilegum vandræðum og getur ekki greitt reikninga sína eru nú þegar ýmis úrræði í boði - engar töfralausnir sem láta skuldirnar hverfa - en lausnir sem gilda á meðan farið er yfir erfiðustu hjallana. Það sem hins vegar vantar er kynning á þessum lausnum og gott aðgengi að þeim. Vonandi verður bætt úr því á allra næstu dögum.
Og vonandi virka þær aðgerðir sem framundan eru til að skapa fólki atvinnu svo það geti með fullri reisn haldið áfram að standa við skuldbindingar sínar og séð fjölskyldu sinni farborða.
Margir geta enn staðið í skilum en finna að lífsgæðin hafa skerst - já eða breyst - fjármagnið í neyslu er minna en það var í haust og auðvitað eru það vonbrigði og viðbrigði og hætta á að pirringur og reiði grípi um sig í kjölfarið. Það þýðir samt ekki að neita því að þegar við tókum verðtryggðu lánin í þennslunni vissum við alveg að verðbólgan er óvissuþáttur sem getur breytt greiðslubyrðinni verulega og að húsnæðisverð var mjög hátt, gat tæplega hækkað og ákveðin hætta á lækkun var yfirvofandi. Það sama á við um gjaldeyrislánin - við vissum alveg að krónan okkar er lítil og óstöðug og allt gat gerst í verðgildi hennar. Staðan er auðvitað skelfileg því allt hið versta gekk eftir og við liggjum í súpunni. Stöðugleiki er það sem verður að koma á svo þessum sveiflum linni - það er verkefni númer eitt til að koma skuldurum til hjálpar.
Ég held að þau úrræði sem nú þegar eru í boði nái langt - en er jafnviss um að við þurfum að búa til fleiri þegar hinir ýmsu óvissuþættir, eins og staða bankanna eru orðnir ljósari.
"Þetta reddast allt" þjóðin stendur frammi fyrir því núna að það þarf að hafa fyrir því að hlutirnir reddist - erfitt er að fá bara meiri vinnu og þannig meiri peninga - við þurfum að spara og hugsanlega kyngja stoltinu og ræða við bankann og aðrar stofnanir um aðstoð.
Við verðum að standa saman á þessu vori með báða fætur fasta á jörðinni, hausinn kaldan og skapandi í leit að nýjum lausnum, hjartað heitt og auðmjúkt vegna þeirra sem eru í neyð og ekki síst vonarbjarma í augunum því við vitum að framundan er spennandi tímar með nýjum tækifærum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2009 | 19:52
Einfalt kerfi
Mér finnst ég aftur og aftur heyra fólk kvarta hástöfum undan því að þegar það þarf að sækja sér aðstoð hins opinbera vegna hinna ýmsu mála sé kerfið erfitt - aðilar vísi hver á annan og mikil hætta sé á uppgjöf umsækjenda áður er leyst hefur verið úr flækjustigi, pappírar útfylltir og búið að heimsækja bæði Pontíus og Pílatus.
Það er talsverður munur á töfralausnum sem koma inn um bréfalúguna og þess veruleika sem fólk lýsir.
Þess er krafist að nám skólabarna sé einstaklingsmiðað og sú krafa er að verða svo gömul að hún er að verða þreytt í skólakerfinu - ég held að það þurfi að fara að nota þessa ágætu hugmyndafræði í ýmsum félagslegum úrræðum fyrir þá sem eru í fjárhagsvanda, félagslegum vanda eða heilbrigðislegum vanda.
Einstaklingsmiðað, einfalt og aðgerðamiðað eru hugtök sem þurfa að vera ofarlega í kolli okkar sem erum að skipta okkur af hinum opinbera geira.
Er búin að vera að fylgjast með örverpinu keppa á fermingargjöfinni, á Selfossi, í dag, hún stóð sig eins og hetja, komst í úrslit bæði í fjórgangi og tölti. Simbi er gegnummjúkur og vel taminn, Berglind Rós á eftir að læra betur á hann - eða þau hvort á annað. Krakkarnir voru afar vel ríðandi en ég var hugsi yfir því að mér sýndist, sem ábyrgðarlausum leikmanni, knaparnir fá hærri einkunn fyrir það að hestarnir lyftu framlöppunum sem hæst með því að nýta einungis frampart hestsins en þegar allir vöðvar hestsins eru nýttir sem lýsir sér í mjúkum hreyfingum og fótum lyft áreynslulaust vegna heildarburðar hestsins - útkoman er mismunandi, fyrri aðferðin er í fljótu bragði meiri fyrir augað en sú síðari greinilega hestvænni og því finnst manni hún faglegri. En ég hef afar takmarkað vit á þessu, fannst þetta bara svo áberandi í dag. En fermingarstúlkan var sátt og sæl og það er fyrir mestu.
Á morgun er þingflokksfundur og aftur á miðvikudaginn svo ég ætla að njóta þess að vera í borginni og vera að setja mig inn í nýja og spennandi vinnu, næstu daga.
Bloggar | Breytt 4.5.2009 kl. 07:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2009 | 11:32
Til hamingju með daginn
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki oft farið í kröfugöngu þennan dag, enda fátt um slíkar göngur hérna heima hjá mér. Þegar ég var yngri og bjó í bænum var þessi dagur helgaður henni ömmu minni sem fædd var þennan dag og hélt alltaf upp á daginn með kaffi og tertum, það var flaggað fyrir ömmu um allan bæ - enda var hún ein af þessum hversdagshetjum sem kunni að velta krónunum og fara vel með þær.
Það er eðlilegt að það sé þungt í launþegasamtökum í dag - græðgi og misnotkun fárra hefur valdið miklum erfiðleikum margra - ekki síst þeirra sem minnst hafa handa á milli. Það er eðlileg krafa að launþegar vilji fylgjast með hvernig rannsókn á hruninu gengur og hver eiginleg staða okkar er. Með því að sýna fólki þá virðingu að halda því upplýstu er líklegra að semja megi um hófsamar launahækkanir á þessum flóknu tímum sem við lifum, að okkur flestum forspurðum.
Það er hálfgert gráviðri hér á Héraðinu í dag - en við mæðgur ætlum að kíkja á firmakeppni Freyfaxa, daman telur hryssu sína ekki í formi til að keppa svo hún ætlar bara að horfa á í fyrsta sinn. Ég ætla að kíkja á opnun sýningar um húsið á Skriðuklaustri þar uppfrá - og síðan þurfum við mæðgur að undirbúa suðurferð sem áætluð er í kvöld. Hún ætlar að keppa á hesti á Selfossi en ég ætla að skoða betur nýja vinnustaðinn og málin sem þar bíða.
Megið þið eiga góðan 1. maí og góða langa helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggvinir
- annapala
- annaragna
- annriki
- agustolafur
- arnith2
- baldurkr
- gattin
- bryndisfridgeirs
- brandarar
- dofri
- drifakristjans
- gleraugun
- saxi
- huld
- fjolan
- logbjorg
- gutti
- gudnydrifa
- gurrihar
- gudrunjj
- gudrunkatrin
- gunnaraxel
- hafsteinnkarlsson
- hallibjarna
- heidathord
- hildajana
- ingabaldurs
- ingolfurasgeirjohannesson
- jogamagg
- jonaa
- joningic
- kallimatt
- kolbrunb
- kopasker
- daudansalvara
- lara
- olinathorv
- ragnhildur
- rosa
- amman
- sisshildur
- svalaj
- svavaralfred
- svenni
- tjorvi
- vefritid
- thorhildurhelga
Tenglar
Vinir
- Rannveig vinkona
- Dandy orkubolti, spinningkennari og náttfatavinkona
- Tóta litla
- Konni kynlegi
- Þórveig hreyfisystir
Pólitík
Nota bene
Ritað og talað mál
Hér er ýmislegt sem ég hef sagt og ritað upp á síðkastið.
Myndaalbúm
Eldri færslur
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar