Leita í fréttum mbl.is

Stöndum í lappirnar

Það er kallað á bráðaaðgerðir í málefnum skuldsettra heimila.  Það er skiljanlegt og auðvitað slá hjörtu margra með fólki í neyð.  Fyrir það fólk sem er í virkilegum vandræðum og getur ekki greitt reikninga sína eru nú þegar ýmis úrræði í boði - engar töfralausnir sem láta skuldirnar hverfa - en lausnir sem gilda á meðan farið er yfir erfiðustu hjallana. Það sem hins vegar vantar er kynning á þessum lausnum og gott aðgengi að þeim.  Vonandi verður bætt úr því á allra næstu dögum.

Og vonandi virka þær aðgerðir sem framundan eru til að skapa fólki atvinnu svo það geti með fullri reisn haldið áfram að standa við skuldbindingar sínar og séð fjölskyldu sinni farborða.

Margir geta enn staðið í skilum en finna að lífsgæðin hafa skerst - já eða breyst - fjármagnið í neyslu er minna en það var í haust og auðvitað eru það vonbrigði og viðbrigði og hætta á að pirringur og reiði grípi um sig í kjölfarið.  Það þýðir samt ekki að neita því að þegar við tókum verðtryggðu lánin í þennslunni vissum við alveg að verðbólgan er óvissuþáttur sem getur breytt greiðslubyrðinni verulega og að húsnæðisverð var mjög hátt, gat tæplega hækkað og ákveðin hætta á lækkun var yfirvofandi. Það sama á við um gjaldeyrislánin - við vissum alveg að krónan okkar er lítil og óstöðug og allt gat gerst í verðgildi hennar.  Staðan er auðvitað skelfileg því allt hið versta gekk eftir og við liggjum í súpunni.  Stöðugleiki er það sem verður að koma á svo þessum sveiflum linni - það er verkefni númer eitt til að koma skuldurum til hjálpar. 

Ég held að þau úrræði sem nú þegar eru í boði nái langt - en er jafnviss um að við þurfum að búa til fleiri þegar hinir ýmsu óvissuþættir, eins og staða bankanna eru orðnir ljósari.

"Þetta reddast allt" þjóðin stendur frammi fyrir því núna að það þarf að hafa fyrir því að hlutirnir reddist  - erfitt er að fá bara meiri vinnu og þannig meiri peninga - við þurfum að spara og hugsanlega kyngja stoltinu og ræða við bankann og aðrar stofnanir um aðstoð.

Við verðum að standa saman á þessu vori með báða fætur fasta á jörðinni, hausinn kaldan og skapandi í leit að nýjum lausnum, hjartað heitt og auðmjúkt vegna þeirra sem eru í neyð og ekki síst vonarbjarma í augunum því við vitum að framundan er spennandi tímar með nýjum tækifærum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vil byrja á því að óska þér til hamingju með það að vera orðin þingmaður og ég hef miklar væntingar til þín með það að þú standir þig vel í því að hjálpa til að efla þitt byggðarlag.

En mig langar til að gera smá athugasemd við yfirskriftina á bloggfærslunni þinni. Ég stundaði nám á Alþýðuskólanum á Eiðum og er nú formaður samtaka Eiðavina. Þórarinn Þórarinsson skólastjóri lagði mikla áherslu á að við töluðum fallegt mál og mér er mjög minnisstætt hvað hann lagði mikla áherslu á að við töluðum um höfuð og fætur. Lappir og haus var einungis notað þegar við töluðum um dýr. Þetta situr í mér enn þann dag í dag og er mér tamt.

Finnst mér því að þú sem ert kominn í eina æðstu stöðu í Lýðveldinu Ísland ættir að nota þessa reglu Þórarins.

Gangi þér vel í þínu starfi sem þingmaður

Ólafía Herborg (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 11:39

2 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Takk fyrir góða ábendingu Ólafía - ber mikla virðingu fyrir Þórarni, sem kenndi mér náttúrufræði þegar ég var unglingur í Kvennaskólanum. Veit að margt má af hnum læra - gangi þér vel í því sem þú ert að gera.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 9.5.2009 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband