Leita í fréttum mbl.is

Starfsaðstaða

Þá er búið að setja þingið við hátíðlega athöfn í kirkju og í þinghúsi.  Ég var auðmjúk og smá við þessa athöfn - fann að ég var búin að taka að mér virðulegt starf og mikla ábyrgð - við þær aðstæður hlýtur maður að vanda sig, trúr sannfæringu sinni og umboði kjósenda sinna.  Ég fæ að starfa í fjórum nefndum: menntamálanefnd, iðnaðarnefnd, viðskiptanefnd og Íslandsdeild Eftanefndarinnar - hlakka til að takast á við verkefnin sem þar bíða mín.

Fyrir hádegi í gær kíkti ég á vinnuaðstöðuna mína og leist vel á - fékk skrifstofu við Austurstræti með útsýni yfir Austurvöll.  Aðstaðan er öll hin besta og ég hlakka til að koma mér fyrir þarna - fer með fulla tösku af pappírum og dóti suður á mánudagsmorguninn og dunda mér við að raða inn og koma mér fyrir á morgun.

Ég ætla síðan að vera heima það sem eftir lifir vikunnar - það er ársfundur Þróunarfélagsins á Breiðdalsvík á þriðjudaginn og síðan stjórnarfundur í Vísindagarðinum og bæjarstjórnarfundur á miðvikudaginn, frídagur á fimmtudag og lítið um að vera í þingstörfum á föstudaginn svo ég get nýtt vikuna hér á heimaslóðum.

En í dag er yndislegur heimadagur með tilheyrandi tiltekt og barnastússi - örverpið mitt er að fara í próf svo það verður lærð enska í dag og stærðfræði á morgun. 

Svo vona ég að einhverjir komi og horfi á Eurovision með okkur í kvöld - það tilheyrir að spá svolítið í Eurovision, hef lítið fylgst með keppninni - en hef þá trú að okkur muni vegna vel í kvöld....

Svo finnur maður að dauðsfall ungs manns frá Fáskrúðsfirði setur mark sitt á allt Miðausturland - ég þekkti þennan unga mann ekki, en þegar maður á unglinga og umgengst þá mikið getur maður reynt að ímynda sér hvernig ættingjum og vinum líður - þau eiga samúð allra hér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að heyra frá þér, Jónína. Er Ólína á sömu hæð, að norðan verðu?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband