Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Veggöng til Seyðisfjarðar

Átti skemmtilegan dag á Seyðisfirði í gær.  Verið var að halda upp á 25 ára afmæli Þróunarfélags Austurlands - en það var stofnað á Seyðisfirði 20. maí 1983. 

Ég tók að mér að vera ráðherrabílstjóri, náði í Össur Skarphéðinsson og aðstoðarmann hans Einar Karl á flugvöllinn um tvöleytið og við "brunuðum" sem leið liggur á Seyðisfjörð - yfir Fjarðarheiði - og það er skemst frá því að segja að hún var í ham - ekki þeim versta sem maður hefur séð - en veðraham eigi að síður - ferð okkar gekk vel enda búið að leigja undir okkar jeppa.  Mikið verður nú frábært þegar búið verður að leggja veginn í göng - þá má segja að það verði búið að færa samgöngur til Seyðisfjarðar til eðlilegs nútímahorfs.

Á Seyðisfirði voru svo stöðug hátíðahöld - skemmtilegar ræður - fín tónlist - og frábær matur - allavega til hálfellefu þegar bílstjórinn ók með sína farþega aftur yfir heiði í ham og varð enn ákveðnari í hversu hart þarf að berjast fyrir göngunum....

Össur stóð sig frábærlega - var skemmtilegur og málefnalegur og tók erindum sem borin voru fyrir hann af skilningi og áhuga. 

Endaði svo daginn á því að kíkja aðeins við í kennarapartý - samkennarar mínir eru skemmtilegir og litríkir persónuleikar svo ég sofnaði um eittleytið með bros á vör eftir frábæran dag Grin

 


Tjá þú þig bara um uppeldi og mataruppskriftir, KONA!!!

Jahérna - á dauða mínum átti ég von - en ekki því að árið 2008 - væri mér sagt að tjá mig bara um þau málefni sem konur hefðu vit á - börn og mat.  Miðaldra karlmaður - vel menntaður - tjáði sig á þessum nótum á 50 manna fundi áðan. Ég var svo grandalaus að ég áttaði mig ekki strax - svo óvanar eru konur orðnar því að karlar leggi í að tjá sig svona upphátt - grunur um slíkar hugsanir þeirra kviknar oft - en þessi ágæti karl staðfesti gruninn í kvöld.  Tjáningarfrelsið er að hans mati bundið við að maður hafi faglega þekkingu á málum til að hafa leyfi til að tjá sig. Og hann benti mér á að mín faglega þekking næði ekki út fyrir heimilið, hugmyndin um eldavélatjóðrið býr enn í karlmannshugum ekki bara á Suðurlandi...

Litla dóttir mín sem er að lesa yfir öxlina á mér hlær - henni finnst ég betri í pólitíkinni en í eldamennskunni.  Ég er hreykin af því að vera henni fyrirmynd að því að konur hafa getu og þor til að tjá sig um fleira en mat og börn - líka það sem maður hefur ekki háskólagráðu í.... Gott að vita til þess að dætur karla, sem gera lítið úr konum, eiga líka slíkar fyrirmyndir.

 


Skilnaður við hvern???

Mikið hlakka ég til að lesa þessa skýrslu.  Sennilega er ekki margt sem kemur manni á óvart í henni - en staðfesting á grun er alltaf góð.

Mér finnst alveg með ólíkindum hversu lítið mál það er að skilja á Íslandi og hversu lítil umræða fer fram í skilnaðarferlinu um ábyrgðina gagnvart börnunum sem hafa verið hluti af fjölskyldu þeirra tveggja aðila sem hafa ákveðið að þeir treysti sér ekki til að búa saman lengur.  Það er mikill ábyrgðarhluti að brjóta upp fjölskyldu - það er mikið mál fyrir börnin að búa ekki lengur hjá báðum foreldrum sínum - og fullorðna fólkið í þessu ferli verður að vera fullorðið.... Í skilnaðarferli hittir maður prest og lögfræðing - ég man ekki eftir að börnin hafi verið nefnd nema  við vorum spurð hvort við hefðum komist að samkomulagi um hvernig þetta yrði með börnin - því var svarað játandi og þar með var þetta smámál - þrír krakkar - útrætt mál.

Þarf að fara að kenna - gæti skrifað um þetta mál til kvölds - kem að því aftur síðar...


mbl.is Skilja við ömmu og afa auk pabba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólítík snýst um að hafa áhrif...

Í kvöld er opinn fundur Samfylkingarinnar á Seyðisfirði - yfirskriftin er "Viltu hafa áhrif?"

Í morgun var ég í viðtali í útvarpinu - það verður sent í loftið í fyrramálið um níuleytið - í þættinum Brot úr degi.  Merkilegt að fara í svona viðtal - maður tekur skyndimynd af lífi sínu og reynir að lýsa henni fyrir fólki.  Myndbrotið af pólitíkinni snerist auðvitað um það að hana velur maður sem áhugamál ef maður vill hafa áhrif og láta gott af sér leiða -  en mér finnst mitt val á ævistarfi snúast um það sama að nokkru leyti - sennilega vil ég mjög ákveðið hafa áhrif á ýmsan hátt Smile

Hlakka til að heyra í þingmönnunum mínum í kvöld og þeirra lýsingar á því hvernig maður nær sínum málum fram og vinnur þeim brautargengi... ekki ólíklegt að þeir þurfi að svara einhverjum áleitnum spurningum um samgöngumál...Wink


Gleðilega páska

Fallegur páskadagur á Héraði - og allir á þessu heimili búnir að finna páskaeggin sín og búnir að bragða líka.  Merkilegt hvernig hefðir flytjast á milli kynslóða - á mínu æskuheimili var alltaf byrjað á því að ná í djupan disk og páskaeggið skorið snyrtilega í sundur og geymt í djúpdisknum inni í ísskáp þann mislanga tíma sem það tók að ljúka átinu. Auðvitað bar ég þennan sið áfram til barnanna minna og nú er djúpdiskurinn sjálfsagður - en karlmaðurinn á heimilinu er farinn að nota einhverja karlmennskustæla við að opna eggið - kannski til að samgleðjast æskuvininum Kristjáni Kröyer sem varð Íslandsmeistari í fitness í gær.

Í gær fór ég í sextugsafmæli til Elínar Kröyer - hún hélt upp á það í félagsheimili Vallamanna, Iðavöllum og þar var borðað, drukkið, sungið og dansað - ein danssyrpa við Skúla var nóg fyrir mig, flensuskrattinn er enn að gerjast í mér, svo ég var komin heim um hálfeitt leytið.  Þau Elín og Steini bera aldurinn afar vel - ekki er það því að þakka að þau hafi verið svo dugleg að hvíla sig - þau hafa alið af sér fimm afar mannvænleg börn og alltaf unnið mikið - en lífsgleði og dugnaður eru greinilega fín yngingarlyf.

Í dag ætla ég að taka því rólega - fara eitthvað út og svo koma þau að borða með okkur í kvöld, fyrrverandi tengdaforeldrar mínir og mágkona.  Við Guðmundur ætlum að gera tilraunir á þeim, ætlum að prófa að gera súpu af gæsalærunum sem hér eru til í bunkum og svo keyptum við skoskt krónhjartarkjöt - tilraunaeldhús verður semsagt sett á laggirnar hér í Kelduskógunum um kaffileytið. Góðar hugmyndir vel þegnar. 

 


21.mars

Dagur sorgar og gleði í minni fjölskyldu.  Þennan dag fyrir 45 árum lést móðurafi minn, Hans Peter Christensen, aðeins sextugur að aldri og þennan sama dag 21 ári síðar dó pabbi minn aðeins 53 ára gamall.  Og enn, þennan sama dag, fyrir 17 árum síðan fæddist frumburður yngstu systur minnar, hún Jóhanna Herdís Sverrisdóttir, merkileg tilviljun sem sýnir hringrás lífsins og endurnýjun.

Það hefur óneitanlega áhrif á mann að missa annað foreldri sitt í blóma lífsins - ég var langt frá því að vera tilbúin að lifa lífinu án frábærs pabba þó ég væri orðin 25 ára þegar hann dó - ég á enn erfitt með að sætta mig við að hann skildi ekki fá að verða afi - að börnin mín fengju ekki að hlæja og fíflast með honum eins og ég og trúa honum fyir sínum hjartans málum eins og var svo gott - en ég hef gert það sem ég hef getað til að halda minningu hans á lofti ekki síst með því að nota hann sem fyrirmynd í foreldrahlutverkinu.

Dagur góðra minninga - dagur söknuðar og dagur gleði yfir henni Jóhönnu Herdísi - til hamingju með daginn, elsku frænka.


Föstudagurinn - langi

Man eftir að þegar ég var krakki var föstudagurinn langi - hræðilega langur og hræðilega leiðinlegur.., það mátti ekkert gera, ekki einu sinni spila....

Velti því fyrir mér á krakkaárunum og enn frekar núna hvort slíkt sé guði velþóknanlegt - krossfesting Jesú var auðvitað sorgleg en samkvæmt friðþægingarboðskap lúthersku kirkjunnar undirstaða hins gleðilega páskaboðskapar - svo ég vil hafa föstudaginn langa góðan fjölskyldu og útivistardag.

Verð að viðurkenna að hann er mikill letidagur hjá minni fjölskyldu núna - enginn kominn á fætur - en það er nú bara partur af prógramminu...

Eydís vinkona mín hringdi í gær og bauð upp á útivist í dag og mat í kvöld - vinkonur eru nú alveg yndislegar og ómissandi, ég gæti allavega ekki verið án þeirra....


Þegar lítil börn verða allt í einu stór

Í dag er verið að ferma hann Gunnar Kristin Jónsson, hann er æskuvinur hennar Berglindar Rósar og sonur Jóns og Kristínar sem eru góðir vinir okkar og fyrrum samstarfsfólk á Hallormsstað.  Þessi staðreynd fær mig til að sakna mannlífsins á Hallormsstað - þegar gamli hópurinn var þar voru fermningarveislur sjálfsagt samstarfsverkefni - ég fékk hjálp við tvær og man ekki eftir að hafa beðið um hjálp - hún kom bara, ég hjálpaði til við einhverjar - það þurfti ekki að biðja um það... Frábær kostur við búsetu á litlum stað þar sem samvinna var almennt viðhöfð bæði í leik og starfi.  Til hamingju öll...., sakna þess að vera ekki með en það gekk ekki í þetta skipti. Guðbjörg Anna og Karen Rós verða fulltrúar fjölskyldunnar.

Vetrarfegurðin er stöðug hér á Héraðinu - ég fer og kaupi brauð á eftir til að lokka hana Oddrúnu til mín - hlakka til að leika mér aðeins við hrossastóðið....


Fyrri laugardagurinn í páskafríinu

Móðurhlutverkið hefur verið ræktað í dag - búin að vera í hrossastússi með börnunum mínum sem heima búa í allan dag.  Við Berglind Rós byrjuðum daginn á kembingum og mokstri og síðan lá leiðin í Stekkhólma þar sem fram fór töltkeppni í ýmsum flokkum, börnin mín gerðu sér lítið fyrir og sigruðu sína flokka og auðvitað er það alltaf voða skemmtilegt, aldrei þessu vant var ég bara mamma, tók myndir og klappaði og flautaði...

Héraðið skartar sínu fegursta í dag - bjart og fallegt vetrarveður - á svona dögum langar mig til að fara á hestbak - ætli ég fái ekki hann Guðmund minn til að ná í Oddrúnu gömlu niður á nes - þá er hægt að fara í fjölskyldutúra í páskafríinu...

Menn eru aðeins að óska mér til hamingju með Valaskjálf - ég er ánægð með að fólk lýsir yfir ánægju með það sem því líkar - ég hlusta meira á gagnrýni þess fólks en hinna sem bara lýsa yfir óánægju... Nú verðum við bara að vinna að því ákveðið og einarðlega að finna góðan rekstraraðila í Valaskjálf sem er tilbúinn til að leggja mikið á sig til að reka í húsinu fjölbreytta starfsemi fyrir hina ýmsu hópa samfélagsins svo afþreying og menning dafni í Valaskjálf sem aldrei fyrr.


Tíminn flýgur

Mér finnst ég svo dugleg að blogga - en svo er maður bara minntur á að geta þess að helgarferðinni sé lokið og ný helgi sé á brostin... um ferðasögu okkar vísa ég á síðuna hennar Rannveigar: www.latagreta.blogspot.com

En ég náði mér í flensu í margmenninu í borginni - ég sem var svo heilluð af því að geta sest innan um fjölda manns á mínu reki, í leikhúsi, á veitingahúsum, á bar - þoldi svo ekki svona stóran skammt af samskiptum - og er nánast búin að vera rúmliggjandi síðan ég kom heim..., en ég er öll að koma til og er þar með sennilega búin að koma mér upp ónæmi sem er gott því eftir páska taka við margar Reykjavíkurferðir og ég ætla mér að njóta margmennisins - til þess er borgin nefnilega svo góð.  Daglegt líf á Fljótsdalshéraði er frábært, engir umferðarhnútar, ferðatími nánast 0, börnin örugg, þjónusta persónuleg, náttúran við húsvegginn og svo mætti lengi telja - en stundum saknar maður þess að falla í fjöldann...

En framundan er páskafrí - afar vel þegið - móðurhlutverkið og húsmóðurstarfið hefur setið á hakanum nánast síðan í jólafríinu - svo nú verður tekin uppeldistörn og heimilinu bjargað frá lokun af heilbrigðisástæðum...

Svo þarf að lesa ýmislegt - greinargerð með nýju aðalskipulagi, skýrslu um flugvöllinn, nýja menntastefnu - og síðan ætla ég á bókasafnið og finna mér eitthvað krydd með - er nýbúin að lesa frábæra bók - Óreiða á striga - lifði að hluta í bókinni þá daga sem ég var að lesa hana...

Í dag ætla ég svo að sækja um í meistaranáminu í KHÍ - ætla að nota orlofið mitt næsta skólaár til að reyna að ljúka meistaranáminu í sérkennslufræðum - það er ómögulegt annað en að ljúka hálfunnu verki - mig langar til að skrifa um eilíf vandræði nemenda með stærðfræðina í framhaldsskólanum....

En nú er best að fara að undirbúa sig fyrir síðasta kennsludag fyrir páska.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband