Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Spennandi dagur

Enn einn dagurinn sem maður getur vart slitið sig frá fréttaveitunum runninn upp.  Vonandi fáum við góðar fréttir af starfhæfri ríkisstjórn sem ætlar að einhenda sér í krefjandi verkefni í þágu íslensku þjóðarinnar.

Ég veit að forstætisráðherraefnið okkar er afar vinnusöm og dugleg og ég treysti því að hún muni stýra sínu fólki til mikilla og góðra verka.

Hóf daginn á fínum spinningtíma með flottum konum og frábærum kennara - þó maður sé nær dauða en lífi eftir svona tíma, finnur maður orkuna streyma um sál og líkama þegar andanum er náð eftir lætin.

Er búin með einn fund og svo er bæjarráðsfundur hjá mér í dag svo ég geri ráð fyrir að verja tímanum fram til fjögur í undirbúning hans. 

Náði aðeins að spjalla á netinu um skóla án aðgreiningar (inclusion) sem er skólapólitísk nálgun sem heillar mig verulega.

Góður dagur hingað til - vona að hann verði okkur öllum farsæll og góður. Smile


Hver bugaðist?

Er ekki styrkurinn oft fólginn í því að horfast í augu við staðreyndir?  Það gerðist ekki nógu mikið í því stjórnarsamstarfi sem var í gangi og þá varð að breyta áherslum til að bjarga fyrirtækjum og heimilum landsins.

Eins og fram hefur komið hef ég viljað gefa samstarfi Samfylkingar við Sjálfstæðismenn tækifæri - en þolinmæði mín var á þrotum í síðustu viku svo ég tek fréttum dagsins fagnandi.

Vonandi verður ný stjórn fljót að stilla saman strengi svo hægt sé að ganga í hin aðkallandi verkefni af einurð og dugnaði - efast ekki um að Jóhanna mun stýra þeim í þann farveg, hún er nú engin meðalkona!!!

Það verður spennandi að fylgjast með fréttum í dag - það er verst að það er varla vinnufriður fyrir fréttaþörf Wink


mbl.is „Samfylkingin bugaðist"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsögn - gott eða slæmt?

Björgvin Sigurðsson hefur sagt af sér sem viðskiptaráðherra, segist þannig axla sína ábyrgð.  Ég virði ákvörðun hans - í hans sporum hefði ég gert slíkt hið sama - en talsvert fyrr. 

Björgvin er drengur góður, duglegur og skynsamur og hann hefur örugglega fram að þessu axlað ábyrgðina með því að leggja alla sína starfsorku í það að vinna heilshugar að orsakaleit og uppbyggingu. Það er meira en að segja það að lenda í svona hamförum á fyrstu árum í ráðherrastóli, fáir ráða 100 % við slíkt, þó reynsluboltar séu.

Vonandi fær Björgvin annað tækifæri til að setjast í ríkisstjórn og vinna þjóðinni það gagn sem ég er sannfærð um að hann vill og getur.


Eitt af þessum flóknu verkefnum...

Dagurinn í gær var ótrúlegur - formenn stjórnarflokkanna misveikir - en bæði þurfa þau að fá næði til að jafna sig.  Þau hafa fórnað heilsunni fyrir þau verkefni sem hafa kaffært þau að undanförnu - mér finnst þau þurfa að taka sér það frí sem þarf til að ná heilsu. Þau þurfa bara að gera öllum það ljóst hverjir það eru sem eru að leysa þau af, það getur verið lýðræðislegt að hafa það fleiri en einn eftir því um hvað verið er að tala.  Ég óska þeim báðum góðs bata og alls hins besta.

Hörður Torfason fór langt yfir mín mörk með ummælum um einkalíf og stjórnmálalíf í sama orðinu og talað var um lífshættuleg veikindi forsætisráðherra, mér finnst orð hans óafsakanleg. Þau komu sérstaklega illa við mig - kannski vegna þess að faðir minn lést úr krabbameini í vélinda 53 ára gamall, fyrir 25 árum.

Ég veit ekki hvað er best að gera fram að kosningum í vor, en einhvern veginn finnst mér að kostur númer eitt sé að láta þessa ríkisstjórn starfa fram að kosningum, kannski má fækka í henni og kalla til fagaðila til aðstoðar í þeim málum sem við verðum að vinna að án æsings og óðagots. Þetta fólk er inni í málum og tíminn er dýrmætur - er honum best varið með því að setja nýtt fólk inn í málin?

Og - kannski mikilvægast af öllu - látum stjórnendur eftirlitsstofnana fara strax og ráðum þangað nýtt fagfólk, algerlega óháð flokkspólitík - þangað þurfum við að fá þau allra bestu sem við eigum. 

Það þarf að vinna á þremur sviðum - því opinbera sem stýrir stefnumótun, úthlutun fjármagns og eftirliti, því stofnanalega / fyrirtækjalega sem heldur atvinnu - og þjónustustigi uppi og síðan á einstaklings eða fjölskyldugrunni.  Þetta þarf allt að hanga saman, er háð hvað öðru en afar nauðsynlegt er að vinna jöfnum höndum á öllum sviðum til að endurbæturnar virki í samfélaginu.

En - daglegt líf heldur áfram - í dag er laugardagur, hann verður nýttur til þess að taka til hér í Kelduskógunum og ganga frá síðustu jólaljósunum.  Svo langar mig út að ganga - ef mannskæð hálkan hefur gefið aðeins eftir. Ég fór ekki á þorrablótið á Egilsstöðum - en er ákveðin í því að fara á þorrablótið á Völlunum þann 7. febrúar og borða mikið, hlæja meira, drekka svolítið og dansa fram á rauða nótt.


Nóg komið

Fram að þessu hef ég verið á þeirri skoðun að gefa eigi ríkisstjórninni tóm til að vinna að endurreisn efnahagslífs þjóðarinnar og að ekki sé ábyrgt að stökkva af sökkvandi þjóðarskútunni því í endurreisninni þurfi hugsjónir jafnaðarmennskunnar að vera áberandi og raunar leiðarljós.

En jafn sannfærð hef ég verið um að ekki megi leppa frjálshyggjuhugsun samstarfsflokksins og sú sannfæring færist í aukanna.  Nú er svo komið að þolinmæðin er nánast þrotin, ekkert bendir til þess að samstarfsflokkurinn sé tilbúinn til að ráðast á vandann af fullri einurð, taka á ónýtum eftirlitsstofnunum, vinna gegn spillingu og taka hagsmuni þjóðarinnar fram yfir hagsmuni örfárra auðmanna. 

Auðvitað á Samfylkingin sinn þátt í ósköpunum, við erum í ríkisstjórn.  Við brugðumst í eftirlitshlutverkinu, ekki spurning, en við eigum ekki rótgróna hlutdeild í málinu eins og samstarfsflokkur okkar.

Samfylkingin hafa sýnt þolinmæði, barist áfram  og reynt að beita áhrifum sínum án teljandi árangurs og því ekki annað í boði en að leita annarra leiða til að framfylgja stefnu jafnaðarmanna um óspillt, réttlátt samfélag. 

Hættum samstarfinu áður en meiri skaði verður, vinnum þá breytingu á réttan hátt, gefum henni ákveðinn tíma  - en samt ekki of langan og stefnum að kosningum sem allra fyrst.


Vinnubrögð fjölmiðla

Verð að viðurkenna að ég ergi mig stundum yfir vinnubrögðum fjölmiðlafólks.  Mér finnst að fjölmiðlamenn eigi að vera gagnrýnir og hinum ýmsu hópum samfélagsins til aðhalds.  Mér leiðist bara svo hroðalega þegar orð eru tekin úr einu samhengi og sett í annað eins og gerðist með orð mín í viðtali við fréttamann svæðisútvarpsins í dag.  Ég nefndi skuldastöðu sveitarfélagsins 2008 og 2009 en notuð er skuldastaðan 2007 og 2008 og hvergi minnst á óhóflegan fjármagnskostnað í árferði ársins 2008, ef ég hefði verið spurð um þessi tvö ár hefði ég geta skýrt það.

Ég er sannfærð um að það er rétt ákvörðun hjá bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs að leita að hagstæðu lánsfjármagni til að halda framkvæmdum hér áfram a.m.k. að ljúka byggingu Egilsstaðaskóla og vonandi getum við farið í viðbyggingu Hádegishöfða líka svo og einhverjar gatnaframkvæmdir. 

Í samfélagi okkar er verktaka - og byggingaiðnaður stór þáttur og þessir aðilar treysta á verkefni frá opinvberum aðilum núna á samdráttartímum - við getum ekki bara sest niður og beðið eftir að kreppan líði hjá með því atvinnuleysi sem því myndi fylgja.

Hæfileg bjartsýni verður að vera með skynseminni við völd á svona tímum.


Mótmæli

Það er afar eðlilegt að mótmæla því sem manni finnst óréttlátt og heimskulegt, mér finnst eðlilegt að reitt og kvíðið fólk mótmæli ástandinu í þjóðfélaginu, á sama hátt og mér finnst skrílslæti og eyðileggingastarfsemi skemma fyrir góðum málstað.  Vel ígrunduð mótmæli þar sem vitað er hverju er mótmælt og bent er á lausnir er uppbygglileg og til þess líkleg að skila bættu ástandi.  Mér hefur aðeins fundist vanta að bent sé á lausnir sem ganga upp í mótmælum síðustu vikna.  Mér finnst ég upplifa verulega múgsefjun þar sem kallað er á eittvað nýtt án hugsunar um hvað það þýðir og kostar. 

Sterkt ákall á inngöngu í Evrópusambandið eins og það sé það sem bjargar okkur út úr ástandinu er að mínu mati stundum notað til að leiða athyglina frá hinu eiginlega vandamáli sem er rýning á kerfinu sem brast og eftirlitsskyldu ríkisins í því sambandi.  Auðvitað eigum við að skoða umsókn í Evrópusambandið - en hvar eru samningsviðmiðin okkar - hverju ætlum við að ná fram í þessum viðræðum - það er ekki nóg að tala bara um sjávarútveginn og landbúnaðinn og að þar ætlum við hvergi að hvika í verndun okkar auðlinda, við þurfum að hugsa um hvað við fáum og hvað við látum af hendi á fordómalausan og faglegan hátt.  Núna er þjóðin í heild sinni á valdi sterkra tilfinninga, reiði og dómharka svífa yfir íslenskri lögsögu eins og hún leggur sig -  og við lítum kannski á ESB sem töfralausn á ýmsum vanda en óvin okkar númer eitt um leið.  Förum að móta okkur skynsamlega stefnu, rólega og yfirvegað en þó ákveðið.

Er búin að liggja í flensu síðan á miðvikudagskvöldið - en er öll að koma til - og kann að meta það.  Það er þakkarvert að eiga orku í verkefni daganna. Megið þið eiga góða helgi


Lífsmark á nýju ári

Gleðilegt ár kæru vinir - ætla bara að gefa frá mér örlítið lífsmark í dag.  Er búin að eiga góða daga það sem af er þessu ári - mjög upptekin af náminu mínu og þá sérstaklega undirbúningi fyrir meistaraverkfnið mitt.  Þar ætla ég að spjalla við krakka um stærðfærðinámið þeirra og skoða hvaða áhrif það hefur á sjálfsmynd þeirra og hvort það hefur öðruvísi áhrif en nám í öðrum greinum - mjög spennandi, það er búið að skrifa eitthvað um þetta mál sem ég get svo skoðað hvort mínar niðurstöður passa við.

En í dag er það svo pólitíkin að nýju á fullu gasi - bæjarráðsfundur í dag þar sem seinni umræða um fjárhagsáætlun fer fram og hún vonandi afgreidd til bæjarstjórnar til afgreiðslu þar næsta miðvikudag.

En nú kalla verkefni dagsins - megið þið eiga góðan dag.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband