Leita í fréttum mbl.is

Jólastúss

Aðventan er eiginlega eini tími ársins sem ég fæ almennilega húsmóðurtilfinningu.  Frystirinn er að fyllast af gerbakstri, ís, hangikjöti, rjúpum, sörum..., ísskápurinn og bakaraofninn glansandi hreinir, börnin mikið heima því mamman á bænum er heima að stússa...

Nú situr hún Berglind Rós, litla barnið mitt, til að mynda við eldhúsborðið og skrifar á jólakort og pakkar inn jólagjöfum.... hún á að vera að reikna en jólastússið er að hennar mati mun meira aðkallandi, hún sendir 40 jólakort innan skólans og þeim á að skila á morgun svo ekki er seinna vænna að ljúka kortaskrifum...

Ég finn ekki alveg taktinn í jólakortaskrifum ennþá, það er best að reyna sherryaðferðina annað kvöld og athuga hvort andinn hrinur ekki yfir mig....

Við Berglind Rós fórum og keyptum okkur blágreni úr Hallormsstaðaskógi í Barra áðan, það er JÓLATRÉÐ segja börnin mín, furan sem ég keypti í fyrra hlaut ekki náð fyir augum þeirra svo nú mun ekki farið í neina tilraunastarfsemi á þessum vettvangi alveg á næstunni.  Síðan fórum við öll í Ketilsstaði og bökuðum laufabrauð með ömmunni, það er nú alltaf ákveðin jólastemning við laufabrauðsbaksturinn...

Þessi vika verður svolítið pólitísk, þó jólin séu að koma..., Fjáraflsfundur á morgun, bæjarráð á þriðjudag og ýmis mál þarf að afgreiða fyrir jól svo einhver fundahöld verða áfram.

Það er merkilegt hversu flókið getur verið að taka pólitískar ákvarðanir, það eru margir aðilar sem þurfa að koma að málum, hagsmunaaðilar, embættismenn og pólitíkusar og oft þarf að fara nokkrar umferðir í þessu hringsóli..., stundum velti ég fyrir mér hvort við pólitíkusarnir þurfum að vera ákveðnari í skoðunum okkar og stefnu og reka mál hraðar áfram. Að sjálfsögðu á að bera mál undir þá aðila sem málið varðar en það getur komið fram ákveðinn vandræðagangur í ákvarðanatökunni ef hringsólað er of lengi, mér leiðist þetta hringsól og vil að teknar séu vitrænar ákvarðanir eins snemma og hægt er.

Jæja nú er best að fara að sofa svo ég vakni nú í spinningið í fyrramálið 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Þurfa ekki svona orkuboltar eins þú fleiri tíma í sólarhringinn?

En í alvöru. Ég hef upplifað það hvað krakkarnir elska þetta bökunarstúss og þetta allt. Það er ómissandi hluti af jólastemmingunni að hjálpa mömmunni að baka. 

Jón Halldór Guðmundsson, 18.12.2007 kl. 23:20

2 identicon

Já það er svo sannarlega hluti af jólastússi að baka o.þ.h. Ég er óvenju sein þetta árið ekki byrjuð að baka neitt nema laufabrauðið var bakað á þriðjudaginn heima hjá mér ásamt stórfjölsk. ( systrum, systarbörnum og mömmu). Ég er loksins búin með diplómuverkefnið mitt en það tók sko sinn toll af lífsorkunni. Við erum bara ruglaðar þessar konur sem stöndum í því að vera í pólitík, hugsa um heimili, 100% vinnu, skóla auk annarra félagsstarfa. Ef ég held áfram í námi þá hef ég heitið sjálfri mér því að það verður ekki gert með 100%. Það er gaman að standa í pólitík þegar maður hefur tíma fyrir hana eins og allt annað. Já ég er sammála þér sundum finnst manni að verið sé að teygja lopann þegar verið er að taka ýmsar ákvarðanir. Stundum getur svo sem berið gott að bíða með að taka ákvarðannir og skoða hlutini, en aðrar ákvarðanir þarf ekki að velta sér svona mikið upp úr eins og oft er gert.

Guðrún Katrín (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband