Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Meirihluti - minnihluti

Verð að viðurkenna að mér finnst tilvonandi borgarstjóri ekki nándar nærri eins geðþekkur og sá sem enn situr, bæði litað af pólitískri sýn og kvenlegu innsæi.... Hvernig ætli sé að að verða borgarstjóri með tæplega 7000 atkvæði á bak við sig???? Einhver óöryggistilfinning hlýtur að blunda hið innra.  Veit ekki hvernig Spaugstofumenn taka þetta mál - hvernig gerir maður grín af svona farsa - kannski verður hann sýndur hægt.... Óttast það að sviptingar eins og þessar auki ekki á traust almennings á stjórnmálamönnum, gott að vera kennari með....

En sviptingarnar í leiknum milli Íslands og Þýskalands eru rosalegar líka  -  ætlaði að blogga í rólegheitum með leiknum og vona bara að tölvan verði í heilu lagi eftir.

Þorrablót framundan - frábær hefð og einstakt að við getum hér í þetta stóru þéttbýli haldið henni við, búið að selja um 500 miða, íbúar á fullu við að undirbúa heimatilbúin skemmtiatriði þar sem gert er góðlátlegt grín af fólkinu í samfélaginu, íþróttahúsið er klætt í sparifötin til að taka á móti sparibúnu fólki sem kemur til að skemmta sér með nágrönnum sínum. Ég hlakka til....


Stefnuhelgi

Nú erum við komin vel af stað í menntastefnuvinnunni okkar hér á Fljótsdalshéraði, 25 manns hefur setið við alla helgina til að móta stóru línurnar. Frábærlega virkur, frjór og skemmtilegur hópur - en hann hefur þurft styrka stjórn - við höfum öll ótrúlega margt til málanna að leggja, flestum í þessum hópi er örugglegra eiginlegra að tala en hlusta...., en það var þess virði að hlusta, í gær og í dag því það var margt gáfulegt sagt.

Það verður spennandi að setja síðan kjöt á beinin, ég er komin með langan lista sem mig langar til að koma að - svona eins og hversu mikilvægt er að það sé gaman í skólanum, kennarinn taki sig ekki mjög hátíðlega og beiti hlýju, húmor og smáfíflagangi til að létta andrúmsloft og skapa þannig betri námsaðstæður.  Þegar ég var að kenna á Hallormsstað fífluðumst við mikið og hlógum mikið - það átti stóran þátt í að búa til frábæran skóla.

Fór í gærkvöldi og keypti mér miða á þorrablót með Eydísi vinkonu minni, hún fær sinn karl sem borðherra en við Edda Egilsd ætlum að vera borðdömur - það verður örugglega hlegið og fíflast við Hófbita en það er nafnið á borðinu okkar.

Mér sýnist Íslendingar vera að klúðra leiknum við Frakka - þeir eru ekki í stuði...


Lagfæringar

Bara jafneinfaldur hlutur og að búa í einfaldri íbúð krefst þess að alltaf þarf að vera að lagfæra eitthvað.

Núna fyrir jólin náði litla fjölskyldan á Kelduskógunum því takmarki að koma sér endanlega fyrir í íbúðinni sem við keyptum fyrir tveimur og hálfu ári síðan - en við erum svo óheppin að það hafa komið fram gallar á íbúðinni okkar, vatn lekur vítt og breytt - og nú er svo komið að þegar ákveðið stórfyrirtæki á Egilsstöðum er nefnt dettur mér bara í hug leki og leiðindi..., þegar ég sé svo bréf þar sem þetta sama fyrirtæki slær sér á brjóst fyrir vönduð og fagleg vinnubrögð þá leka úr hausi mínum og hjarta neikvæðir straumar.

Það er hroðalega leiðnlegt að þurfa að ganga á eftir endurbótum sem viðurkennt er að þarf að fara í - ætli það nái ekki að vera liðið ár frá því að gallarnir komu fram þar til þeir verða lagfærðir.... og þá er ekki verið að tala um stóra galla á húsinu utan við mína íbúð...

En af því að mér finnst Pollýönnuleikurinn alltaf besti leikurinn þá er íbúðin fín - svona ef við þyrftum ekki að nota vatn....

En svo held ég áfram lagfæringum á sjálfri mér - fór í þennan fína body-pump tíma hjá Auði Völu í morgun, við kerlurnar tókum heldur betur á því....


Það styttist í vorið...

Mér finnst ég finna fyrir því að daginn er farið að lengja aftur - það var alveg þokkalega bjart enn um fjögurleytið í gær... , mér finnst það afar notaleg tilfinning.

Núna sit ég og fylgist með nemendum mínum vinna með tölfræði - skemmtilegt að sjá hvað svona myndræn stærðfræði hentar sumum nemendum vel - það leikur bros um varir sem sveigðust niður í algebruvertíðinni fyrir jól...

Það var langur bæjarráðsfundur í gær - en ég var ánægð með niðurstöður fundarins - stærsta málið sem við fjölluðum um var nýbygging og endurbætur á Egilsstaðaskóla.  Nú liggur ákvörðun fyrir - það verður farið í að byggja glæsilegan skóla - nýtt byggt og gamalt aðlagað að heildarmyndinni.  Á næstunni verður gengið til samninga við Eignahaldsfélagið Fasteign hf um bygginguna og við leigjum síðan skólann af þeim. Ný aðferðafræði - það hefur tekið okkur tíma að reikna okkur inn á þessa leið - en ákvörðun er tekin, allir meðlimir bæjarráðs tóku meðvitaða, ábyrga ákvörðun - því miður náðum við ekki að vera alveg samhljóma en 80% meirihluti var fyrir ákvörðuninni - ákvörðun liggur fyrir og verkin koma til með að tala næstu mánuði.

Kannski finnst mér bjartara úti því þessi ákvörðun er í höfn....


Afslappandi og góð helgi

Mér finnst þessi helgi búin að vera yndislega löng..., ekki af því að mér hafi leiðst heldur af því að ég er búin að gera svo margt.

Á föstudaginn fór ég á vígslu gervigrasvallarins í Fellum, frábært að þessi gamli draumur sé orðinn að veruleika - svona líka flottum veruleika..., um kvöldið var mér boðið í mat og dreif mig svo með húsráðanda út á lífið - kíktum á Pepes, það var fínt - hitti tvo unga menn sem skemmtu mér ágætlega hvor upp á sinn máta...

Á laugardaginn var síðan málþing um skipulagsmál í dreifbýli á Hallormsstað - mjög fróðlegt og skemmtilegt málþing, sem vakti mann enn frekar til umhugsunar og vonar um bjarta framtíð dreifbýlisins - matvælaframleiðsla, akuryrkja, skógrækt, frístundabyggð, ferðamennska - allt á þetta að geta þrifist hlið við hlið og stutt hvað við annað ef aðilar vinna markvisst saman.   Þegar ég kom heim fórum við Berglind Rós í búð, elduðum og spjölluðum, þá fór ég og náði í Rannveigu vinkonu mína og við fórum á frábæra leiksýningu í Sláturhúsinu.  Hafnarfjarðarleikhúsið kom með sýninguna Svartur fugl - tvíleikur Pálma Gestssonar og Sólveigar Guðmundsdóttar var frábær, efni verksins var erfitt, kynferðisleg misnotkun, höfnun, ást og söknuður - afar tilkomumikið, við Rannveig sátum á fremsta bekk og leið eins og verið væri að leika fyrir okkur einar..., var komin heim um tíuleytið og þá fengu náttbuxurnar og sófinn sinn tíma.

Svaf svo lengi í morgun, naut sunnudagsmoggans og nýju kaffikönnunnar, vakti síðan litlu skvísuna mína sem átti að mæta á tvöfalda körfuboltaæfingu kl 13. Notaði tímann meðan hún var á æfingu og gekk hring í skóginum - yndisleg orkuhleðsla - góð hreyfing, hreint loft og fallegt umhverfi.  Lauk svo við að taka niður jólin og ganga frá þeim milli þess sem ég hjálpaði til við heimanám og reyndi að hvetja til dáða á þeim vettvangi.  Englabossinn minn, hann Guðmundur Þorsteinn, var svo sóttur á flugvöllinn um fimmleytið - hann er búinn að vera í burtu í 10 daga - notalegt að fá hann heim, hann hefur svo notalega nærveru að það er afar gott að hafa hann heima.  Svo var farið í matarstúss og kvöldið verður nýtt til að skoða dagskrárliði bæjarráðsfundsins á miðvikudagskvöldið og horfa á sjónvarpið. 

Ný vinnuvika er svo framundan - frábært að vera í svo skemmtilegri vinnu að maður hlakkar til að takast á við verkefni nýrrar viku....


Laun kvenna

Heyrði með örlitlu broti af öðru eyranu að það var verið að tala um hvað væri hægt að gera til að minnka launamun kynjanna í útvarpinu í dag.  Ekki í fyrsta skipti sem þessi umræða fer fram og örugglega ekki það síðasta, því miður.

Kjarasamningar mismuna ekki fólki vegna kynferðis - þeir sem búa við þau kjör að fá greitt samkvæmt kjarasamningi eingngu fyrir tiltekið starf - fá sömu laun miðað við sömu forsendur...

Það er þegar kemur að yfirborgunum, bitlingum, yfirvinnu, stöðuhækkunum og fleiru í þessum dúr sem kyn fer að skipta máli í launagreiðslum..., sumt er kannski konum að kenna - eða aðstæðum - en annað er fyrst og fremst vegna eðlismunar á því hvernig störf eru metin - það að hugsa um fólk og mýkri mál virðist ekki vera eins dýrmætt og það að hugsa um harðari mál - tæki og tól, peninga, hlutabréf og fleira í þeim dúr.  Fleiri konur hafa áhuga á mýkri málunum en þeim harðari og það bitnar á launareikningnum þeirra, samt eru menntun og vinnutími sambærilegar breytur...

Svo verðum við stelpurnar að vera harðari í að setja feita verðmiða á vinnuna okkar, vera duglegar að segja já þegar við erum beðnar um að taka sæti í nefnd, stjórn eða boðin stöðuhækkun og ekki síst sækjast eftir ábyrgðarstörfum og krefjast sanngjarnar greiðslu fyrir vinnuframlag okkar.

Já áfram stelpur - við getum allt sem við ætlum okkur

 


Ein í kotinu

Börnin mín eru öll hjá pabba sínum núna og ég er ein í kotinu - það er ótrúlega skrýtið, en - það er ágætt... mér finnst ég greinilega ekkert mjög leiðinleg, mér leiðist ekkert í eigin félagsskap...

Ég er samt ekki viss um að ég kærði mig um að búa alltaf ein - litla skvísan mín er sem betur fer bara tólf svo ég hef enn nokkur ár til að finna mér nýjan sambýling....

Við erum komin á fullt í að móta menntastefnu fyrir Fljótsdalshérað - ég er nánast leiðinleg mér finnst þetta svo spennandi verkefni - það er svo margt sniðugt hægt að gera til að örva nám krakka eftir nýjum leiðum....

En nú ætla ég að halda áfram að vera með sjálfri mér..., sjónvarpinu, blöðunum og tölvunni....


Gleðilegt ár

Gleðilegt ár kæru vinir og bestu þakkir fyrir samskiptin á liðnum árum.  Áramót eru nýtt upphaf, ný tækifæri, ný verkefni og spennandi óvissa...

Ungfullorðnu börnin mín segja að nýársdagur sé leiðinlegasti dagur ársins, allt sé lokað og ekkert hægt að gera..., mér finnst nýársdagur skemmtilegur dagur, Joe Boxer er nýttur til hins ýtrasta og það er eðlilegt að vera löt og gera fátt og lítið...

Við áttum góð fjölskylduáramót, fjórir ættliðir gættu sér á austfirsku góðgæti, hreindýri,lambi og lerkisveppum með hvers kyns nýstárlegu góðgæti ættuðu af fjarlægum slóðum...

Um leið og ég aðstoðaði tendamömmu mína fyrrverandi við að koma tengdapabba í rúmið á sjúkrahúsinu um eittleytið í nótt, dáðist ég að yndislegum ungum stúlkum sem hugsa um aldraða af einskærri alúð í bland við húmor og hvatningu, ef einhverjir eiga skilið að vera á góðum launum þá er það fólk sem vinnur umönunarstörf af alúð og trúmennsku...

Ég kíkti svo aðeins á Rannveigu vinkonu mína og við gerðum enn eina atlöguna við lífsgátuna um leið og við veltum fyrir okkur þeim veruleika að á þessu ári verða þau merku tímamót í lífi okkar beggja að við höfum lifað í hálfa öld..., merkilegt en ekki næstum eins erfitt eins og að horfast í augu við þá staðreynd að verða þrítug - þá fannst mér ég vera orðin kerling...

Ég hlustaði á forsetann okkar áðan, mér fannst ræðan mjög góð, umræðan um það að við þurfum að vinna að því hörðum höndum að halda unga fólkinu okkar hjá okkur er afar þörf - í því sambandi er ekkert gefið...., þá fannst mér honum takast vel upp með umræðuna um forvarnir þar sem hann vitnaði fyrst og fremst í börn og unglinga sem vilja fyrst og fremst meiri tíma með foreldrum sínum...og svo gaf hann það út að hann mun gefa kost á sér til áframhaldandi setu á forsetastóli.  Ég studdi Ólaf ekki þegar hann gaf kost á sér á sínum tíma, Guðrún Agnarsdóttir fékk mitt atkvæði þá, en ég er ánægð með Ólaf sem forseta, hann hefur vaxið og er verðugur fulltrúi okkar hvar sem er.


Væri kannski hægt að fresta áramótunum...

Datt í hug í morgun að það væri nú gott að vera ekki með allar þessar hátíðir á sama tíma... nú dreif ég mig í ræktina í morgun og ætla aftur á morgun og hinn og hinn... en þá er kominn gamlársdagur og sukkið hefst að nýju... já já ég veit alveg að ég get hamið mig en...., það er bara svo leiðinlegt að vera haminn og taminn.... ég var einmitt að ákveða áðan hvernig ég ætla að matreiða hreindýrið og lambið, og datt í hug að hafa frekar forrétt en eftirrétt, því ég veit að mitt matfólk þolir ekki hvoru tveggja, og forréttirnir eru nú allavega sykursnauðari en eftirréttirnir Smile

Við erum búin að hafa það frábært um jólin, fjölskyldubönd hafa verið bundin þéttar með heimsóknum, símtölum og öðrum samskiptaleiðum..., svo erum við kjarnafjölskyldan hér búin að spila svolítið - ég skemmti börnunum mínum ægilega þegar ég var að reyna að leika sögnina að næða..., mér fannst ég stórkostleg en þau héldu illa þvagi og örtröð myndaðist við þetta eina postulín sem er í fínu íbúðinni minni...

En á eftir ætla ég í heimsókn á vinnustaðina mína tvo og athuga málin - ekki að ég nenni að gera neitt af viti - sýni bara lit...

Síðdegis ætla ég svo með krílið á jólaball, mér finnst rosalega skemmtilegt að syngja jólalögin og dansa í kringum jólatré en hefur vantað fórnarlamb til að syngja og ganga með mér í nokkur ár - nú er ég vonandi búin að koma mér upp dansdömu til nokkurra ára....

En kæru vinir ég vona að þið hafið haft það gott um jólahátíðina ....


Jólin eru að koma....

Sit hér við eldhúsborðið mitt og blogga á tölvu lögfræðinemans, því mín er lokuð inni hjá henni og hennar fjölskyldu og maður dirfist nú ekki að vekja neinn á aðfangadagsmorgun...

Nú er aldursskiptingin þannig í minni fjölskyldu að enginn er yfirspenntur svo af verði svefntruflanir samt fá allir í skóinn sem hér sofa. stóra mamman fékk tónlist í sinn rauða lakkskó, flestir aðrir fá náttföt og/eða nærföt - Kertasníkir hefur valið þannig gjafir í skóinn handa þessu fólki í mörg ár.

Hér í eldhúsinu er yndælisilmur af rjúpum og hangikjöti, hvorutveggja var matreitt í nótt, það tilheyrir að vaka frameftir og brasa við jólamatinn á Þorláksmessunótt...

Það verða hvít jól hér á Fljótsdalshéraði, það er fagurt út að líta, jólasnjórinn fegrar trjágróðurinn óneitanlega þó mér hafi líkað vel að geta auðveldlega komist allra minna ferða án hættu á dettingum og næstum dettingum í öðru hverju skrefi.

Ég hugsa oft til þess á þessum morgni ársins hversu sorglegt er að hér í okkar ríka landi eru því miður fjölskyldur sem líða skort og líður illa á jólum.  Það geta auðvitað verið aðstæður sem valda sorg og vanlíðan á öllum heimilum svo sem ástvinamissir, skilnaðir og fleira en því miður eru manngerðar aðstæður líka til, það hlýtur að vera okkar mikilvægasta hlutverk að hlúa að börnum og fjölskyldum þeirra, þar þarf að vinna af alúð og með hverri fjölskyldu til að hún smám saman verði sjálfbjarga, stolt og glöð.

Framundan hjá mér í dag er hvers kyns sérviska eins og að heimsækja ákveðna gamla vini, skipta á rúmum, elda grjónagrautinn og stinga í hann möndlu og fleiri skemmtilegheit.

En kæru vinir ég óska ykkur og ykkar fólki gleðiríkrar jólahátíðar, megi þessi ljóssins hátíð færa ykkur frið og gleði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband