Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Útsvarið

Rosalega er ég stolt af liði okkar Héraðsmanna í Útsvarinu - þau stóðu sig frábærlega í alla staði. Diskótaktar Stefáns Boga gleymast ekki alveg strax...

Ótrúlega notaleg fjölskylduskemmtun svona á föstudagskvöldi þessi spurningakeppni.  Það er gott að hringa sig í sófanum eftir vinnuvikuna og athuga aðeins hvort maður getur svarað einhverju.  Erfiðir tímar gleymast um sinn og áhyggjur eru lokaðar úti.

Enn og aftur til hamingju Steini, Urður og Stefán Bogi - þið voruð frábær og sveitarfélaginu ykkar til mikils sóma.

 


Reykjavík er nú ágæt

Kom heim úr höfuðborginni í gær.  Brá mér í allra kvikinda líki þessa daga eins og konur gera gjarnan. Á fimmtudag og föstudag var ég í skólanum frá morgni til kvölds, á laugardaginn var ég dóttir og síðan mamma og amma á laugardagskvöldið og á sunnudaginn.  Brá mér líka í vinkonu- og skólasysturhlutverkið á laugardagskvöldið, þegar ég fékk gamla vinkonu og skólasystur í heimsókn til dótturinnar sem brá sér út á lífið og amman passaði. Mér leið eins og unglingi sem fékk vinkonu með sér að passa og það var alveg jafn gaman og á unglingsárunum að hringa sig í sófanum og skrafa af hjartans list. Þessi ágæta vinkona er í svipaðri stöðu og ég, fyrrverandi grunnskólakennari og núverandi framhaldsskólakennari, þriggja barna móðir sem býr ein með krökkunum sínum svo við höfðum um margt að spjalla og eins og svo oft þegar konur sitja og spjalla var ég ríkari þegar spjallinu lauk en áður en það hófst.  Á sama hátt fór ég með góða orkuskammta af fundi dótturdóttur minnar sem skemmtir mér alltaf konunglega, oft finnst mér ég vera í einhverri endursýningu svo áþekk er sú stutta móður sinni bæði til orðs og æðis en - það er svo skemmtilega öðruvísi að vera amma en mamma að engin hætta er á neinum ruglingi þar...

Í undirmeðvitundinni á bak við allt þetta er svo hugsunin um ástandið í þjóðfélaginu, það gladdi mig mikið að heyra það að félagsmálaráðherrann okkar er búin að búa til sérfræðingahóp til að skoða hvernig lágmarka megi skaða íbúðalánagreiðenda í óðaverðbólgunni sem virðist ekki vera á neinu undanhaldi.  Vonandi komast þeir að árangursríkri niðurstöðu sem allra fyrst.  Annað innra gleðióp slapp út þegar niðurstöður skoðanakönnunar um fylgi stjórnmálaflokkanna voru birtar á dögunum, jafnaðarstefnan og afstaðan í ESB málunum, sem Samfylkingin stendur fyrir, eiga greinilega upp á pallborðið hjá almenningi núna.

En núna ætla ég að kveikja á kertum og taka svolítið til hjá mér, sýnist vera að bresta á skemmtilegur gestagangur hér næstu daga. Látið ykkur líða vel Heart.


Daglegt líf

Lífið gengur sinn vanagang þó ástandið í efnahagsmálunum sé eins og það er.  Gelgjan mín er til dæmis að fara á sitt fyrsta Fjarðaball um helgina, Fjarðaballið er ball ársins hjá grunnskólanemum á Austurlandi.  Ég er að upplifa það í þriðja sinn á ellefu árum að vera Fjarðaballsmamma með tilheyrandi heilabrotum um hvaða dress sé nú við hæfi og hvernig heildarmyndin með hári og förðun verði. (Englabossinn minn sleppti reyndar förðuninni alveg!) Sat og mat dress og fylgihluti í tvo tíma í gærkvöldi, nú hanga tvo á herðatrjám með fylgihlutum, hef á tilfinningunni að englabossinn hafi gert út um málið þegar hann loks fékkst til að tjá sig um málið.  Gelgjan mín metur álit tvítugs bróður að öllum líkindum meira en fimmtugrar móður sinnar - en við Guðmundur erum sammála svo þetta er allt í góðu..

Þessi skemmtilega samverustund okkar mæðgna fékk mig samt enn einu sinni til að ergja mig yfir klikkaðri útlitsdýrkun sem ríkir í kringum okkur.  Það er erfitt fyrir þá unglinga sem falla utan  staðalímyndarinnar að ganga um full sjálföryggis þó þau viti að þau séu flott, klár og skemmtileg, sentimetrar og kílógrömm skipta meira máli í sjálfsímyndinni en húmor og vitsmunir.  Mér finnst alveg sjálfsagt að allir leggi ákveðna rækt við líkama sinn og útlit, en það má ekki verða eina svið persónunnar sem ræktað er, en það er svolítið erfitt að afla því sjónarmiði fylgis meðal unglinga. 

 En þau þroskast....

Örstutt um efnahagsástandið - mér finnst óvissan erfiðust - hvers vegna tekur þetta samningaferli við IMF svona langan tíma??? Það virðist ekki vera hægt að gera þjóðhagsspá... 

Sveitafélögin í landinu eru að reyna að setja saman fjárhagsáætlanir þessa dagana í algerri óvissu um tekjur næstu ára: hver verður  íbúaþróunin?, hvernig verður atvinnuástandið?, hver verður staða jöfnunarsjóðs?, hvernig þróast fasteignaverð og þar með fasteignamat og fasteignagjöld? Óneitanlega afar ótraustur grunnur til að byggja áætlanir á - við á Fljótsdalshéraði höfum alltaf verið með þeim fyrstu til að skila inn fjárhagsáætlun - en nú er stór spurning hvort ekki verður að staðnæmast aðeins og sjá hvort línur skýrist eitthvað á næstu vikum.

En æðruleysi og gleði yfir því sem maður á og ekkert fær grandað hjálpar manni í gegnum óvissuna - og svo er nauðsynlegt að hlæja og fíflast mikið, það kostar ekkert en gefur mikið LoL

Megið þið eiga góðan dag.


Fín Akureyrarhelgi

Það var frábært að slaka á með vinkonunum um helgina - heiti potturinn var þjóðnýttur í þágu slökunar og stelpusnakks. Drykkirnir á pottbarminum spönnuðu allt sviðið frá blávatni til óblandaðs viskýs í takt við umræðurnar sem teygðu sig frá mataruppskriftum um skólaskipulag og karlamál til efnahagsmálanna og lausnar á þeim.

Við skoðuðum aðeins hvað verslanir á Akureyri hafa upp á að bjóða - við Þórveig vorum í leiðbeiningarhlutverkinu - en Eydís og Edda mátuðu, tóku sýningarstúlkutilþrif og keyptu auðvitað svolítið. Greifinn var heimsóttur , salötin og pastaréttirnir prófaðir og lítillega dreypt á hvítvíni með.  Punkturinn yfir i-ið var svo dansleikur með Geirmundi á Vélsmiðjunni - við dönsuðum mikið og skemmtum okkur konunglega en vorum líka skynsamar og drifum okkur heim á skikkanlegum tíma. Mikið sem var gott að eiga eina svona slökunarhelgi í amstri daganna.

Planið var að dagurinn í dag ætti að vera fundardagur með þingmönnum kjördæmisins - en það er svo mikið um að vera í þinginu og hjá ríkisstjórninni að þeim fundum verður frestað eitthvað.  Fundaði í morgun með forseta bæjarstjórnar, fjármálastjóra og þróunarstjóra um skipulag næstu vikna.  Þar bera auðvitað hæst fjárhagsáætlanagerð - sem reyndar er ágætlega á veg komin hjá okkur - en það eru margir óvissuþættir í slíkri áætlanagerð í dag - svo við gefum okkur jafnvel lengri tíma í hana en við erum vön - í þeirri von að einhverjir óvissuþættir skýrist á næstu vikum.

Fljótsdalshérað stendur vel -  við sjáum fram á að þurfa ekki að fara í mikinn niðurskurð á fyrirhuguðum framkvæmdum sem er afar gott því fyrirtæki teysta á að fá verkefni hjá okkur - það lítur út fyrir að atvinnulífið hér á Héraðinu sé í nokkuð góðum málum. 

Pollýönnuleikurinn verður því leikinn sem aldrei fyrr - bjartsýni og jákvæðni lengi lifi....

En nú verð ég að bregða mér mjög ákveðið í hlutverk skólastúlkunnar - verkefnin bíða í talsverðum stöflum á því sviði.  Í dag ætla ég að lesa um hugmyndir Bordieu um mennnigararfinn og hlutverk skólans í að viðhalda honum eða hreyfa við honum, mjög spennandi hugmyndafræði og hápólitísk sem gerir hana enn meira spennandi.


Nýr dagur

Mikið er talað er um aukningu verðmætasköpunar í þjóðfélaginu og mest er talað um byggingu nýrra álvera og stækkun annarra.  Umhverfismat er talið þvælast fyrir og því eigi helst að sleppa.  Ég er afar hugsi yfir þessum áherslum.  Ég styð Þingeyinga reyndar í baráttu þeirra fyrir álveri við Bakka - tel að það sé afmarkað byggðaverkefni og komið svo langt að það eigi að verða að veruleika - en eftir vandað umhverfismat sem flýta má eins og hægt er.  Þar með tel ég nóg komið af álverum á Íslandi og að við eigum að snúa okkur að fjölbreyttari verkefnum til atvinnuuppbyggingar.

Mér finnst umræðan um það hvernig Finnar tóku á sínum efnahagsvanda fyrir tveimur áratugum mjög spennandi.  Þeir lögðu höfuðáherslu á aukið menntunarstig þjóðarinnar með fjölbreytilegu námsframboði.  Auðvitað tekur það tíma að byggja upp menntakerfið en þar sem við höfum fínan grunn til að byggja á er um að gera að byrja strax að hyggja að leiðum til að bæta menntunarstigið og auka fjölbreytnina í námsframboðinu svo allir finni eitthvað við sitt hæfi og eftir nokkur ár eigum við enn fleiri vel menntaða einstaklinga sem eru skapandi í hugsun og taka virkan þátt í því að byggja hér áfram upp þróað, tæknivætt velferðarsamfélag.

Mér finnst það veruleg forréttindi að fá að vera í námi á launum og finn hversu endurnýjandi það er.  Ég held að það myndi efla skólakerfið okkar verulega ef kennarar og stjórnendur fengju af og til tækifæri til að taka sér nokkurra mánaða leyfi til að rannsaka tiltekna þætti, lesa kenningar annara um þá þætti og vinna síðan að því að koma umbótum fram í skólunum.

Er annars kát og hress eftir verulega hressilegan spinningtíma hjá Þórveigu í morgun, það er gott að byrja daginn á hlátrasköllum með góðri hreyfingu.

Eftir að Glitnisskvísurnar eru búnar að gera upp bankadaginn ætlum við Eydís, Edda og Þórveig svo að bruna norður til Akureyrar og vera þar um helgina. Þar  verður hristur saman góður kokteill af slökun, hreyfingu og skemmtun.

Megið þið eiga góðan dag og góða helgi.

 


Hljómfögur danskan

Mikið er gaman að hlusta á dönsku í sjónvarpinu af og til - hin engilsaxnesku yfirráð eru svo yfirgnæfandi í töluðu máli sjónvarpsstöðvanna að það fer sérstakur vellíðunarstraumur um mínar kvartdönsku hljóðhimnur við að heyra sérhljóð í endum orða gleypt og kokað svolítið á errunum.

Er dæmigerð kona í kvöld - vinn verkefni - hlusta á sjónvarpið með einu og einu augnatilliti á skjáinn þegar mér heyrist eitthvað spennandi að gerast.  Fór aðeins fram úr sjálfri mér í þessum margbrotna veruleika og týndi skjali sem ég var að fara að senda - fylltist engri panik því ég hélt að ég kynni algerlega að enduheimta slíkt tjón.   En viti menn þrátt fyrir leiðsögn og allar tiltækar leiðir sem ég þekki finnst skjalið ekki. Örvæntingin var alveg að ná tökum á mér þegar ég fylltist forlagatrú og ákvað að sennilega væri verkefnið bara ekki nógu gott hjá mér - ég þyrfti að skoða það aðeins betur í fyrramálið áður en ég sendi það - og við það róaðist ég og fór aftur að njóta hinnar hljómþýðu dönsku um leið og ég las um lýðræðislegt skólastarf.

Kíki svo af og til á moggavefinn til að fylgjast með því helsta sem er að gerast í efnahagslífinu.  Nú situr Árni Matt með alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þreifar á samningsstöðu okkar.  Ég er ekki yfir mig hrifin af því að við leitum aðstoðar þangað - er skíthrædd um velferðarkerfið okkar, menntakerfið  og auðlindirnar.   En það er auðvitað ekki margt til ráða - staðan er ekki björt eins og er... vont þegar maður er alveg búin að missa traustið á þessum körlum sem ýmist tala af sér - eða tala ekkert en fljóta sofandi að feigðarósi.... 

Gæti skrifað langt mál um ábryrgð ríkisins á peningaleik jakkafatastrákanna sem léku frítt spil í skjóli þess að íslenska ríkið skrifaði upp á svo þeir gætu komist enn lengra í leiknum. En það er að koma nótt og ekki rétt að ræna sig friðsælum nætursvefni, ég ætla að reyna að vakna um miðja nótt til að spinna með Dandy og hinum skvísunum.

 


Konur í tiltekt...

Ætli það sé tilviljun að þeir tveir bankastjórar sem ráðnir hafa verið síðustu daga eru konur?

Mér finnst það ekki skipta máli af hvoru kyninu góður starfsmaður er en ég verð að viðurkenna að mér finnst það góð tilfinning að vita af vel menntuðum og örugglega mjög hæfum konum við stjórnvölinn við þessar aðstæður.

Nú þarf yfirsýn og hugarró, skipulag og hlý orð með fagmennskunni og dugnaðinum.  Ég treysti konum afar vel til slíkra starfshátta.

Heima hjá mér er allavega oft leitað til mömmu þegar mikið liggur við ...

Gallsteinakonan er á heimleið - finnur mest til í öxlinni!!! Hún var víst fyllt af lofti og verkir í öxl algengur eftirkvilli eftir slíka loftfylli...

Og nú er ég búin að gera uppkastið að verkefninu sem ég á að skila á sunnudag - ætla heim að taka til áður en næsta atlaga verður gerð að verkinu.

 


mbl.is Birna verður væntanlega bankastjóri Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unglingaforeldrar

Var að koma af fundi með foreldrum í bekk örverpisins míns, fínn fundur með opinni og fínni umræðu.  Við ákváðum að hittast fljótlega aftur til að styðja vel við starfið í bekknum og bera saman bækur okkar.  Bekkurinn er líflegur og kjaftaglaður, en duglegur og  skemmtilegur.  Þau þurfa aðhald en um leið viðurkenningu, vandrataður þessi meðalvegur alltaf.

hópmynd brb

Englabossinn vinnur eins og vitleysingur 12 - 16 tíma á dag, sé hann rétt í mýflugumynd kvölds og morgna.

Frumburðurinn er að fara í aðgerð á morgun þar sem taka á gallblöðruna með hinum landsfræga gallsteini í... hringsóli læknaupplýsinga um landið er lokið í bili og læknarnir á Höfn, Egilsstöðum og í Reykjavík komið sér saman um að þetta sé lausnin.

Ég styð varaformanninn minn í hugmyndum hans um að eðlilegt sé að seðlabankastjórarnir segi af sér.  Mér finnst að pólitískir hagmunir verði nú að víkja fyrir fagmennsku og þekkingu í þessari mikilvægu stofnun.  Vandinn er ekkert hérumbil - hann er alvöru og á honum þarf að taka af fullum þunga, faglega, fumlaust og hlutlægt - án nokkurra hagsmunatengsla.

Ég er ánægð með viskiptaráðherrann okkar, mér finnst hann vita hvað hann er að segja, vera fumlaus, greina alvöru málsins og koma henni á framfæri en um leið líta björtum augum til framtíðar.

En nú er best að lesa grein um hvernig skóli án aðgreiningar getur unnið gegn félagslegri mismunun með öðru og reka á eftir gelgjunni elskulegri í náminu með hinni...


Ríkisvæðing

Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á því að aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálunum yrði eins afgerandi og raunin varð.  Nánast er hægt að tala um ríkisvæðingu bankakerfisins. Meira að segja kommúnistinn sem í mér blundar varð hissa.  En ekki er hægt að segja annað en að nú gengu allir takt - pólitíkusar allra flokka, aðilar vinnumarkaðarins og fagmenn. Er nokkuð hægt að gera annað en treysta þessu fólki (það fór nú lítið fyrir konum í þessari umræðu!) og halda ró sinni án þess að stinga hausnum í sandinn. 

Í skólanum í dag talaði Kristján Kristjánsson heimspekingur um það að Íslendingar segðu gjarnan "þetta reddast" á meðan Kínverjar segu "við verðum að halda andlitinu" - mér finnst fínt að blanda þessu saman - trúa því að þetta reddist allt með andlitið í réttum skorðum. Þannig held ég allavega að við verðum að kynna stöðuna fyrir börnunum okkar til að hindra óþarfa kvíðahnúta og óróleika. Börn eiga ekki að vera með peningaáhyggjur - það er allt í lagi að setja börn inn í aðstæður lífsins en ekki að leggja þeim óþarfa byrðar á herðar.

En við Guðbjörg Anna sitjum og drekkum gott kaffi og beilís með klaka, hlæjum svolítið og kryfjum lífsgátuna - gaman að eiga svona fullorðna dóttur sem hægt er að spjalla við um allt milli himins og jarðar og það sakar nú ekki að hún er hvorki illa gefin né leiðinleg...

 

 

 


Oft hefur samstarf verið nauðsynlegt en aldrei sem nú...

Gott að vita til þess að aðilar sem koma að efnahagslífinu séu að tala saman.  Ákvarðanir örfárra í reykmettuðum bakherbergjum eiga ekki við núna...

Vona að aðilar komist að niðurstöðu sem þeir eru sáttir við og þar finnst mér stjórnarandstöðuflokkarinir eiga að vera með í ráðum svo allir vinni og gangi í takt.

Samvinna og samræður eru að mínu mati bestu aðferðirnar til að leysa vandamál þannig að lausn sé raunhæf og nothæf.

 


mbl.is Mætt snemma til funda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband