Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Haust í gær og vetur í dag

Trúði vart eigin svefndrukknum augum klukkan sex í morgun - alhvít jörð á Héraði.  Fallegt en vart tímabært, haustið má gjarnan vara lengur mín vegna.  Það var því lúsast í ræktina með hugann fullan af því hvort tímabært væri að skipta yfir á naglana, held ég þrjóskist um á sumartúttunum eitthvað áfram...

Meðan ég puðaði á brettinu hlustaði ég á fréttir og vangaveltur um ástandið í efnahagsmálunum og þar með þjóðmálunum almennt - hugmynd Davíðs um þjóðstjórn er kannski ekki vitlaus - en eru afskipti hans af málum ekki að verða ágæt... eru ekki fleiri bankastjórar í Seðlabankanum sem örugglega hafa fullt eins mikið vit á málum og eru kannski hlutlausari og þar með faglegri í umfjöllun og verkum??? Davíð getur svo bara rætt pólitík við sitt fólk í Valhöll, hann er ekki lengur forstætisráðherra...

Skilaði stóru verkefni í gær - ætla því bara að dunda mér í dag við að lesa um hvernig menn hafa útfært hugmyndir um skóla án aðgreiningar út um heim svo ég geti verið þokkalega viskuleg í líflegum umræðum á netinu. 

Þar eru allir sammála um það að skóli án aðgreiningar eða skóli fjölbreytileikans sé það sem eigi að vera en það er samt ekki veruleikinn.  Breytingar í skólastarfi virðast gerast afar hægt - a.m.k. ef þær eru róttækar. Af hverju eru kennarar svona hræddir við að sleppa svolítið takinu og breyta til, leggja áherslu á að breyta skipulaginu svo meiri áhersla verði á nám en kennslu og að gleði og ánægja fái að ríkja í skólastofunum. Auðvitað verðum við að stjórna og hafa ákveðna þræði í hendi en við verðum líka að treysta því að krakkarnir læri án þess að við séum á herðunum á þeim stöðugt...

Sólin skín inn um gluggana hér í Vísindagörðunum á Egilsstöðum - snjórinn er á undanhaldi - bjartur dagur framundan.


Haust

Nú er haustlegt á Héraði, rafmagnslaust í nótt og vaðandi vatnsveður - í gær gránaði aðeins.  Egilsstaðabændur eru að losa mykjukjallara sína, sá gjörningur breytir ilmflórunni á Egilsstöðum um stund.

Það er haustlegt í efnahagslífinu líka - þetta Glitinismál hefur örugglega fleiri en eina hlið og það að Davíð situr frammí með Geir afturí fær mann til að láta sér detta í hug að Davíð finnist að minnsta kosti ekki leiðinlegt að ná sér niður á "vini" sínum Jóni Ásgeiri.  Er Davíð ekki að spila of stórt hlutverk í þessu máli? Hef lítið vit á málinu en hef einhverja tilfinningu fyrir því að það sé að koma fram að það er ekki gæfulegt þegar menn ælta að græða of mikið á of stuttum tíma.... eða eignast of mikið á of stuttum tíma...

Spinningtíminn í morgun var alvöru - Dandý ætlar greinilega að koma okkur í kjólinn fyrir jólin.

Í dag þarf ég að vinna markvisst að því að ljúka verkefni sem ég þarf að skila í kvöld.  Búin að skrifa um menningarsálfræði og einstaklingsvæðingu - í dag eru það hugmyndir Bernstein um táknkerfi skólans og hversu misvel það hentar hinum mismunandi þjóðfélagshópum.

Síðdegis er svo bæjarstjórnarfundur þar sem hin ýmsu mál eru til umræðu - þið getið fylgst með honum í beinni kl. 17, aðgangur í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins.

Megið þið eiga góðan dag.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband