Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Fallegur dagur á Héraði

Fljótsdalshérað er sérstaklega fallegt í dag.  Það er heldur kaldara en verið hefur, litirnir eru skýrir og loftið tært svo manni líður eins og maður hreyfi sig í ljósmynd.  Ég er búin að hjóla allra minna ferða í dag og það er frábært á svona degi.  Núna sit ég með vinum mínum á starfsbrautinni, við spjöllum mikið um lífið og tilveruna og verkefni dagsins er að þeir eiga að teikna myndir hver af öðrum og svo eiga þeir að lýsa myndinni og hver öðrum.  Í þessum hópi þarf maður ekki að óttast illt umtal og leiðindi, það er ekki til í orðabók þeirra - vinna með fötluðum er gefandi og skemmtileg en getur auðvitað líka verið erfið eins og öll vinna. 

Helgin var skemmtileg blanda af skemmtun og öðru stússi.  Afmæli Egilsstaðaskóla var vel heppnað bæði var sýningin uppi í skóla skemmtilega upp sett og fróðleg og skemmtunin um kvöldið gekk líka vel. Berglind Rós mín stóð sig frábærlega sem sögumaður og hinir krakkarnir voru líka miklar hetjur.

Í bæjarpólitíkinni snýst nú lífið um fjárhagsáætlun og vinnu henni tengda - það er svo margt sem okkur langar til að gera, bæði nýjar framkvæmdir og lagfæringar - og óskalistinn verður á endanum að veruleika það er bara spurning um tímasetningu.


Skemmtilegir dagar

Átti afar skemmtilegan og viðburðarríkan dag í gær.  Byrjaði með frábærum spinningtíma hjá Þórveigu stórsnillingi og Rannveig vinkona mætti svo ég gat slúðrað aðeins við hana milli spretta. Síðan kenndi ég nokkra tíma og reyndi að leiða nemendur um skemmtilegar brautir algebrunnar, finnst alltaf jafn gaman að leysa flóknar jöfnur og fá út það skemmtilega svar x = 1, unaður Smile.

Þá var komið að undirbúningi bæjarráðsfundar og síðan var skemmtilegur bæjarráðsfundur kl 16, það voru mörg mál á dagskrá en vitandi af fundi um HSA kl 20 tókst mér með hjálp strákanna í ráðinu að slíta fundi kl 20:08, er ánægðust með að okkur tókst að ljúka við stefnu og framtíðarsýn sveitarfélagsins og afgreiða plaggið til bæjarstjórnar til staðfestingar. Óðinn Gunnar þróunarstjórinn okkar hefur leitt okkur í gegnum þessa vinnu og við vorum öll afar ánægð með niðurstöðuna. Metnaðarfullt og faglegt plagg liggur fyrir og mun vonandi vísa okkur leiðina til góðra verka.

Við mættum svo galvösk á borgarfund um málefni Heibrigðisstofnunar Austurlands rétt fyrir hálfníu og þar fóru fram fínar umræður, eftir fundinn finnst mér ég sitja eftir með það að við eigum að hugsa í víðara samhengi en bara Fljótsdalshérað til að auka á fjölbreytni og fagleika heibrigðisþjónustunnar en að við þurfum samhliða að berjast fyrir ákveðnum atriðum eins og bættri aðstöðu hér hjá okkur.

Í dag er svo vinna til hádegis og þar á meðal eitt miðannarpróf sem ég á eftir að semja, kl 11:30 er fundur með þingmönnum kjördæmisins og í kvöld er borgarafundur á Hallormsstað. Vonandi náum við að spjalla við samgönguráðherra einhvern tíma þarna á milli og svo er á dagskrá dagsins að spjalla svolítið við börnin mín yndisleg....

Megið þið eiga góðan dag.


Fyrsti sigurinn í höfn...

Þau stóðu sig frábærlega Útsvars - Héraðsmennirnir okkar í gær. Steini Bergs kom inn nýrri hugmynd: kannski maður selji bara sjónvarpið í stað þess að láta undan ungunum sem tala um flatskjái á hverjum degi..., og Þorbjörn sýndi frábæra leiktakta, logn og flóðhestur - tær snilld hjá honum, hann verður látinn sýna þessi tvö atriði hægt á kennarstofunni á mánudaginn!!! Og Urður reddaði 15 stigum með því að vita allt Peter Sellers...  Nú verður þessi ágæti spurningaþáttur enn meira spennandi en áður, fylgjast verður með öllum hugsanlegum mótherjum okkar liðs og helst taka glósur.... Takk fyrir þetta ágæta lið, allt sem eykur hróður Fljótsdalshéraðs telur LoL.

 


Vorhlýindi að hausti

Veðrið hér á Héraði er ótrúlegt, 17 stiga hiti og vindur að framan...., frábært en hálfruglingslegt, ætli það sé ekki hið pólitíska landslag sem hefur þessi áhrif.....

Föstudagar eru frábærir, hef kannski sagt það hér áður, það að eiga föstudagskvöldið og alla helgina framundan og engin sérstök plön er slakandi og það er svo gott að slaka á þegar annríkið er allmennt nokkurt..., Dreif mig í ræktina í morgun, spinning er afar hressandi start á deginum, svitalækir fljóta um bök og gólf og orkan hellist yfir mann og endist afar vel, jafnvel 15 tíma.

Berglind Rós er búin að vera í samræmdum prófum eins og aðrir 7. bekkingar á Íslandi, ég er ekkert ósátt við þessi próf í 7. bekk ef niðurstöðurnar eru bara notaðar á skynsamlegan hátt til hagsbóta fyrir hvert barn.  En nánast jafnlöng próf eru lögð fyrir 4. bekk líka og það finnst mér umhugsunarvert, 9 og 10 ára börn hafa tæplega úthald í svo löng verkefni.  En skruddan mín var bara sátt við sig eftir prófin og það skiptir mestu máli að vera sáttur...

Bíð spennt eftir að mínu fólki í Útsvarsþættinum á eftir en Fljótsdalshérað er þar að keppa við Álftanes, vona að sjálfsögðu að mitt lið sigri með glæsibrag...  vona að þið eigið góða helgi.


Og þá var kátt í ...

Það verður örugglega oft glatt á hjalla hjá þessum ágæta dúett og það skilar pottþétt betri árangri að hafa húmorinn með í öllum málum.  Og svo eru þessir ágætu strákar örugglega í góðu sambandi við stelpuna í sér...Wink
mbl.is Nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annir á Egilsstöðum

Nú sit ég yfir hópi ungmenna sem er að svara könnun vegna rannsóknar meðal framhaldsskólanemenda á Íslandi, þau eru búin að sitja í 50 mínútur og eitthvað er eftir enn..., er spennt að sjá hvert niðurstöðurnar leiða okkur og vona að ungmennin verði höfð með í ráðum þegar leiðir til úrbóta í þeirra málum verða valdar... hef svo takmarkaða trú á vinnubrögðum sem ekki gera ráð fyrir virkri þátttöku notendenda...

Svo er hér ráðstefna um netháskóla, rosalega spennandi, alls konar athyglisvert fólk var mætt hér í ME í morgun til að fjalla um málefni netháskóla sem er afar mikilvægt fyrir okkur landsbyggðarotturnar sem langar til að mennta okkur á ýmsum sviðum en eigum ekki heimangengt vegna fjölskylduaðstæðna... Ætla að reyna að fylgjast eitthvað með umræðunni í dag...

Á Hótel Héraði er síðan ráðstefna um norrænt samstarf og sem gamall dönskukennari hef ég auðvitað mikinn áhuga á því málefni....

Ætla að vera glöð og ánægð með að ég hafi enn lifandi áhuga á alls kyns málum í stað þess að pirra mig á að ég geti í raun á hvorugri ráðstefnunni verið....


Veikleikar og styrkleikar

Ágæt nafna mín og skólasystir dóttur minnar í HR klukkaði mig. Ég get auðvitað ekki verið sú kerling að ég hlaupist undan merkjum.  Það er verst að ég er svo fyrisjáanleg að það vita allir að ég er skíthædd við hrossaflugur, þykist ekki vera hrædd við mýs, á svolítið erfitt með löngun mína til að ganga á háum hælum sökum hæðar, finnst frábært að láta gefa mér góðan mat og svolítið rauðvín með, slappa best af með danskan róman og popp, á erfitt með að hemja mig á morgnana þegar börnin eru í afturábakgírnum, nenni ekkert að hugsa um bílinn minn - en kannski vita bara örfáir að kvenlegar hendur á karlmanni er það minnst sexí sem ég veit....

Svo mörg voru þau orð, ætla að vera sæt og góð og klukka enga áfram, á það inni þegar púkinn bak við vinstra eyrað verður stór og hávær og aumingja engillinn bak við það hægra er alveg sleginn út af laginu..., þetta var lífsspekin henna ömmu Sesselju, einföld og góð, og nýtist enn... Hefur verið borin áfram til næstu kynslóðar og geri ráð fyrir því að svo verði enn um mörg ókomin ár...

Held að ungir kauphéðnar þyrftu að koma sér upp svona litlum eyrnaverum, kannski yrði stundum hugsað á öðrum nótum þá...

Megið þið eiga góðan sunnudag.


Leiðtogi - stjórnandi

Var á fínu námskeiði hjá Jóhanni Inga Gunnarssyni, sálfræðingi í gær. Mér skilst að 90% Íslendinga hafi verið á námskeiði hjá honum - en ekki hún ég, fyrr en í gær. Námskeiðið var haldið fyrir stjórnendur á öllum stigum hjá Fljótsdalshéraði.

Það var margt mjög áhugavert sagt - ekki síst það sem þátttakendur sjálfir sögðu - allir komu með sínar hugmyndir um árangur - margt athyglisvert kom fram.

En eftir gærdaginn hef ég verið að spá í hver er munurinn á stjórnanda og leiðtoga.

  1. Eru stjórnmálamenn leiðtogar og launaðir "stjórar" stjórnendur?
  2. Er leiðtogi sá sem getur hrifið fólk með sér?
  3. Er stjórnandi sá sem stjórnar bara en er ekki leiðtogi (faglega/ félagslega/...)?
  4. Er leiðtogi sá sem getur hrifið fólk með sér en ekki endilega góður að stjórna?
  5. Er leiðtogi með annan stjórnunarstíl en stjórnandi?
  6. Er leiðtogi jákvæðara orð en stjórnandi, er flottara að vera leiðtogi en stjórnandi?

og svona gæti ég haldið lengi áfram, áður en ég les glósurnar frá Jóhanni Inga veit ég að ég vil vera faglegur og pólitískur leiðtogi sem stjórnar á jákvæðan hátt en getur tekið af skarið til að niðurstaða fáist í mál.  Sennilega les ég ekkert glósurnar!!!!

En í dag er yndislegt veður á Héraði - það verður nýtt til hins ýtrasta, Selskógurinn lokkar og laðar og svo er bílinn eitthvað hálsubbulegur hjá mér..., það breytist víst ekki af sjálfu sér.... Berglind Rós mín er að fara suður að keppa í körfubolta svo við Guðmundur Þorsteinn, englabsossi mömmu sinnar (19 ára og 193 cm..) verðum ein heima og matseðill kvöldsins er ákveðinn, gæsabringur með öllu tilheyrandi og gott rauðvín með, við bjóðum nú skemmtilegu fólki að borða með okkur líka...


Höfuðborgarferð

Ég ákveð að skreppa í pólitíska ferð til Reykjavíkur og allt fer á annan endann.  Það lá við að maður fyndi breytingarnar í loftinu þegar komið var út úr flugvélinni í borginni .. ég átti fund með iðnaðarráðherra og fundinum seinkaði um hálftíma - pólitísk gerjun alls staðar.  Það vekur manni von um ábyrg stjórnmál þegar menn þurfa að taka pokann sinn þegar þeir hafa verið í blekkingarleik.  Hef mikla trú á Degi, held að hann geti flutt ferska strauma inn í borgarmálin...

En Össur var hress að vanda, notalegur, klár og skemmtilegur - þannig eiga póltíkusar að vera, hann lofaði engu en hlustaði og sýndi áhuga og ég veit að ef við vinnum heimavinnuna okkar munum við fá okkar Nýsköpunarsetur....

Naut þess svo að sækja litlu ömmudúlluna mína hana Karen Rós á leikskólann, mér þótti það ekki verra að hún var jafnglöð að sjá ömmu og amma að sjá hana.

Nú sit ég og kenni 12 ára dóttur minni margföldun og deilingu, hún er ótrúlega klár en aðferðir eru ekki hennar fag..., gott!!!! eða slæmt???? Ætti að sýna skilning en skilningur sem skilar sér ekki út í verkefni er ekki nóg..., er reyndar mjög hugsi yfir verkefnum sem leyfa ekki vasareikni svona á 21. öldinni??? Jafn almennt notað tæki og vasareiknir ætti að vera sjálfsagt hjálpartæki í allri stærðfræði og verkefni á prófum þá bara miðuð við vasareiknanotkun, eða það finnst mér allavega...


Sterk sjálfsmynd er nauðsyn hverri konu....

Stundum hugsa ég djúpt, spjalla við Rannveigu vinkonu og fleiri og kemst að niðurstöðu sem mér finnst afar skynsamleg...., fyrirsögnin að þessari færslu minni er ein svona niðurstaða...., sennilega er ég ekki ein um hana og ekki fyrst en samt....

Gæti skrifað um málið fram á kvöld en þar sem ég á að vera mætt á fund eftir hálftíma verður pælingin stutt að þessu sinni...

Ef maður er sáttur við sjálfan sig, líður manni vel og finnst sjálfsagt og eðlilegt að vera maður sjálfur án allrar tilgerðar og sýndarmennsku.  Við þannig aðstæður er hugsunin frjó, húmorinn lifandi og útgeislunin smitandi - árangurinn er því sjálfsagður og krefjandi verkefni verða skemmtileg glíma við sjálfan sig og aðra.  Held að þetta sé sérstaklega mikilvægt fyrir konur því þær vantreysta sér frekar en karlar og lifa lífinu frekar í gegnum aðra en karlar, ég held að engum sé greiði gerður með því... Hín ágæta gullna regla kristninnar sem segir mönnum að elska náungann eins og sjálfan sig brýnir mann á því að sjálfstraust er grundvöllur góðra verka....

Uppeldishlutverk manns sem foreldris og kennara þarf að mótast af þessari hugsun líka, það að kenna ungu fólki að meta sjálft sig og þora að vera það sjálft er mikilvægasta verkefni okkar fullorðna fólksins...

Meira um þetta síðar því nú er stefnumótun Fljótsdalshéraðs fyrsta spennandi glíma dagsins, megið þið eiga góðan dag.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband