Leita í fréttum mbl.is

Hvað er best?

Á hverjum degi stendur maður frammi fyrir því að velja - oftast er valið ekki erfitt enda um smáatriði að ræða eins og hverju skuli klæðast, hvað borðað o.s.frv....

Nú finnst mér að erfið ákvörðun hljóti að bíða stjórnvalda þessa lands.  Á að slíta stjórnarsamstarfi eða reyna að halda áfram að vinna saman?  Ljóst er að stór ágreiningsefni eru að valda ríkisstjórninni vandræðum svo að við venjulegar aðstæður væri eðlilegt að hvetja til slita  - en er hægt að bjóða þjóðinni upp á þann glundroða sem manni finnst felast í því að fara í kosningabaráttu þar sem fagurgalinn tekur völdin og allir lofa upp í ermina á sér, í ástandi þar sem erfitt er að sjá næsta dag fyrir...

En það er algerlega óþolandi að ekki sé skipt um húsbændur í Seðlabankanum - manni finnst það svo augljóst og óumdeilanlegt að þar eiga að taka við stjórninni hæfustu fagmenn á sviði fjármála og hagstjórnar sem við eigum, til að vinna faglega, hlutlægt og hratt að því að ávinna Íslandi traust og trúverðugleika aftur - afdankaðir pólitíkusar með bundið fyrir bæði augu eiga bara að vera heima hjá sér núna....

Og svo verður að fara að upplýsa okkur betur um næstu skref, hvað felst í samningnum við IMF?? Hvar stendur fjárlagagerðin? Hvar verður skorið niður? Allar stofnanir og öll sveitarfélög eru í áætlanagerð einmitt núna - hvernig á slíkt að fara fram þegar ríkið þegir þunnu hljóði???

Mér finnst erfiðast af öllu í þessu ástandi dagsins að horfa upp á fólk missa vinnuna, það að hafa atvinnu er stór hluti af sjálfsmynd manns fyrir utan það að sjá fjölskyldunni fyrir lífsviðurværi, maður hlýtur því að missa fótanna við að missa vinnuna....

En í öllum þessum glundroða er mikilvægt að halda fast í góðu gildin - að hlúa vel að sjálfum sér svo maður sé fær um að hlúa að öðrum, andleg og líkamleg næring og þjálfun þurfa að vera í hámarki og gæðin í efstu mörkum...

Í dag ætla ég út að ganga, vera við opnun á nýrri og glæsilegri félagsaðstöðu eldri borgara við Miðvang, læra svolítið og gera svo tilraun til að elda gæsasúpu í kvöld. 

Gelgjan mín fór með pabba sínum á rjúpnaveiðar í gær og kom þreytt en alsæl heim eftir svolitlar svaðilfarir í austfirska fjalllendinu, það er körfuboltaæfing hjá henni í hádeginu en svo ætla ég að reyna að ná henni með mér á opnunina og svo kúrum við saman og lærum seinni partinn og ef ég þekki hana rétt þarf hún nú aðeins að skipta sér af eldamennskunni.

Englabossinn er svo með pabbanum á rjúpnaveiðum í dag - ég þarf sennilega ekkert að kvíða því að ég fái ekki í jólamatinn...

Megið þið eiga góðan sunnudag með þeim sem ykkur þykir vænt um...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Það er þetta með Seðlabankastjórann.   Er ekki skylda flokkanna að ráða í ábyrgðarmestu störf ríkisins hæfustu menn sem völ er á?  Getur verið að maður sem var stjórnmálamaður sé ósnertanlegur?

Á meðan þjarkað er um þetta er atvinnulífið að stoppa.  Þúsundir missa vinnu sína.  Engin veit hvert raunverulegt gengi krónunnar er. Hún er ekki metin gildur gjaldmiðill í öðrum löndum. Þetta setur okkur óneitanlega skorður í sambandi við viðskipti milli landa.  Íslenska krónan er eins og Kúbu Dollarinn.

Fjöldagjalþrot, fjöldaatvinnuleysi, ónýtur gjaldmiðill. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að gera fjárlög?  Og hvernig geta fyrirtæki gert sínar áætlanir?

Kosningar yrðu kaos í þessu umhverfi.

Jón Halldór Guðmundsson, 2.11.2008 kl. 12:42

2 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Mér finnst liggja í augum uppi að ekki er hægt að slíta stjórnarsamstarfinu við þessar aðstæður. Og gyðja hjálpi okkur ef stjórnarsamstarfinu verður slitið og frjálslyndir og framsókn hoppa uppí til sjallanna.  Eða þá vinstri grænir. Það er nefnilega því miður ekki sjálfgefið að það verði kosningar þrátt fyrir stjórnarslit.  Þetta hljóta sjálfstæðismenn að sjá ( sjálfstæðiskonur löngu búnar að því...sbr. ÞKG) og núna strax eftir helgi fer Dabbi frá.........

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 2.11.2008 kl. 22:46

3 identicon

það þarf nú meira að gera en að skipta út seðlabankastjórn,  fjármálaeftirlitið þarf að fjúka og nýju bankastjórarnir, þar eiga ekki að vera fyrrum starfsmenn bankanna.  það skptir heldur engu máli þó kosið yrði núna, það mundi ekki skapa meiri ringulreið en nú þegar er.

(IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband