Leita í fréttum mbl.is

Egilsstaðaímyndin

Það var skemmtilegt að koma í vinnuna í morgun - fólk hafði sterkar skoðanir... á framtíð Egilsstaðabýlisins.

Egilsstaðabýlið er ákveðin ímynd þéttbýlisins við Lagarfljót.  Jón Bergsson forfaðir Egilsstaðaættarinnar var framsýnn og sá að þarna væri skynsamlegt að byggja upp þjónustu - setning hans "hér verða vegamót" hefur lifað meðal fólks á Egilsstöðum og Héraðinu öllu og hann varð sannspár.

Nú standa Egilsstaðabúar frammi fyrir því að geta horft á þéttbýlið sitt verða stærsta og öflugasta þjónustukjarna Austurlands og byggja þannig á hugmyndum frumbýlingsins..., en til þess þurfum við landrými og það er erfitt að búa það til úr engu..., það verður því miður að ganga á það land sem til staðar er miðsvæðis og þar eru tún Egilsstaðabænda eini kosturinn... engum er ljúft að þurfa að fara þá leið en þeir sem eru við stjórnvölinn verða að horfa til framtíðar - þjónusta og þekking eru framtíðartækifæri staðar eins og Egilsstaða og öflugur miðbær og fjarsvæði hans með þeim fyrirtækjum sem hér vilja byggja upp starfssemi sína er okkar framtíð. 

Það er öryggi fólgið í því að hafa allt óbreytt - en við lifum á þannig tímum að við verðum að vera sveigjanleg og tilbúin til að horfa til framtíðar - gjarnan með augum unga fólksins okkar sem við viljum að setjist hér að eftir að það hefur farið og menntast og forframast. Vonandi kemur ný kynslóð framsækinna bænda og sest að á Egilsstaðabýlinu og nýtir landið og þær auðlindir sem fólgnar eru í þeirri reynslu og þekkingu sem þar hefur verið byggð upp, ný tún verða þá ræktuð í örlítilli fjarlægð frá miðbænum og ný tækni mun líka geta skilað meiri afurðum.  Og vonandi kemur ný kynslóð íbúa á Fljótsdalshéraði sem nýtur þess að hafa Egilsstaðbýlið sem miðpunkt þéttbýlisins við Lagarfljót um leið og þau byggja upp öfluga þjónustu í næsta nágrenni við okkar ástkæru Egilsstaðakusur....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mín skoðun er sú að það er hluti af sjálfstæði þjóðar að eiga öfluga matvælaframleiðsu. Þetta snýst ekki bara um þá tilfinningasemi að Egilsstaðakýrnar eru sætustu beljur í heimi.

Ef til er leið til að halda í búskapinn á Egilsstaðabýlinu en jafnframt að byggja upp þjónustu og iðnað þá er það leiðin sem á að leita logandi ljósi, þó svo að hún kosti eitthvað.

Rannveig Árna (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 15:14

2 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Fín ábending hjá þér - auðvitað eigum við að leggja sérstaka rækt við matrvælaframleiðslu - enda bjóðum við Egilsstaðbýlinu land upp við Hálslæk í skiptum fyrir þau 6% af ræktuðu landi býlisins sem við viljum gjarnan nýta undir þjónustulóðir niðri í bæ.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 5.3.2008 kl. 16:58

3 Smámynd: Benedikt V. Warén

Bílasala þarf ekki að vera í miðbænum, það þekkist ekki mjög víða.  Bílasala er þannig starfsemi, að menn leita hana uppi, fæstir detta þar inn og ákveða að kaupa sér bíl, -sí svona.  Það gæti hins vegar hent einhvern, sem sér góða bók, þegar viðkomandi gengur framhjá búðarglugga. 

Ef bæjarfélagið á enga lóð og þarf hvort eð er að verða sér út um hana á einn eða annan hátt, er allt eins hægt að ganga í málin annarsstaðar.  Þá er búskapurinn til staðar og bílasalan einnig, enda er engin trygging fyrir því hve lengi hún staldar við og því óþarfi að dekra sérstaklega við hana, þó forseti bæjarfélagsins aki á bifreið frá viðkomandi bílasölu. 

Egilsstaðabýlið hefur verið starfrækt á þessum stað í nokkur hundruð ár, sá tími kann hins vegar að vera í sjónmáli að eigendur kjósi sjálfir að hætta búskap.  Bæjarfélaginu væri sómi í því að doka við og gefa eigendum kost á því að hætta með reisn og að eigin frumkvæði, en ekki með þvingunaraðgerðum samfélagsins.  Landið hverfur ekki og umhverfis okkar ágæta bærjarfélag er gnótt landrýmis.

Það verður einnig að huga að því að þrengja ekki um of að flugvellinum, hann þarf sitt "andrými" og enn um sinn fara ágætlega saman flugvöllur og landbúnaður, þó ekki sé hægt að beita kúm á skilgreind öryggissvæði, er hægt að nýta af þeim heyin. 

Flugvellir víða um heim hafa þurft að sæta ýmsum takmörkum vegna nálægðar við aðra nýtingu, þó oftast við íbúðarbyggð, t.d. má ekki nýta Reykjavíkurflugvöll til flugtaks eftir kl 23:30 á kvöldin og til 07:00 á morgnana á virkum dögum og til 08:00 um helgar. 

Viljum við koma Egilsstaðaflugvelli á kortið, t.d. ef tekst að stunda héðan fraktflug, má reikna með ónæði frá þeirri starfsemi næst flugvellinum.  Það ber að huga vel að því, að þrengja ekki þannig að starfsemi vallarins að ekki verði hægt að reysa það flugskýli og annað húsnæði yfir flugtengda starfsemi síðar. 

Ef (þegar) svæðið í Þórsnesinu verður skipulagt er ekki heppilegt að þar verð skipulögð íbúðarbyggð, vegna þess að Þórsnesið er í fluglínu að vellinum.  Í Þórsnesinu þarf að skipuleggja starfsemi, sem ekki ber skaða af því að flugvélar fljúgi þar yfir á mismunandi tímum sólahringsins, þar er t.d. heppilegur staður fyrir bílasölur og verkstæði.

Benedikt V. Warén, 5.3.2008 kl. 23:40

4 identicon

Mig langar í Pellabíó og svo góðan djammstað með góðum afréttara hamborgurum

Dandý (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 10:44

5 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Mig langar líka í bíó - kannski Pelli reddi okkur Dandý því..., en það er ekki svo einfalt að við getum sagt aðilum nákvæmlega hvar þeir eiga að vera, þeir hafa fundið sér staði sem þeir vilja byggja á og í sumum tilfellum verðum við að reyna að verða við því... Man eftir að frábær verslunareigandi á Hallormsstað sendi mann gjarnan út með appelsínur þó maður hafi komið til að kaupa mjólk, það má jú pressa safa úr appelsínum..., kannski við ættum að fá hana til að sannfæra fólk um að það eigi að byggja í suðri þó það vilji byggja í norðri og þeir sem vilja byggja einbýlishús í Fellabæ geta bara keypt parhús í Votahvammi.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 6.3.2008 kl. 13:38

6 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Ímynd er auðlind og  það gefur Egilsstöðum meiri sérstöðu að hafa Egilsstaðabúið í forgrunni en Toyotaumboðið sem verður líklega mjög svipað og á Akureyri, í Reykjavík, í Turku eða Randers. Egilstaðabýlið er mjög ríkur þáttur í sögu og ímynd staðarins og jafnframt hluti af mikilvægri atvinnugrein á svæðinu sem er ferðaþjónusta - meira að segja mjög sérstakt á því sviði einmitt vegna þess hvernig ferðaþjónusta og landbúnaður tengjast og mynda sameiginlegt aðdráttarafl. Auðvitað er það mál heimamanna hvernig skipulagið verður, en það sakar ekki að segja frá því að ég fæ tár í gestsaugun við þá tilhugsun að þessi sterka mynd af bæ og sveit hverfi.

Guðrún Helgadóttir, 6.3.2008 kl. 17:44

7 Smámynd: Benedikt V. Warén

Það væri trúlega ennþá bíó á Egilsstöðum, ef bæjarstjórnin hefði ekki selt menningarhúsið okkar Valaskjálf, sem byggt var af miklum metnaði heimamanna og var vígt 1966.  Menningarhús samtímans dregur dám að núverandi valdhöfum og metnaði þeirra til þess málaflokks, - þ.e. gamla sláturhúsið!

Ég hallast einnig að það sé lögbrot að selja eign samfélagsins, sem var byggt með fé úr sameiginlegum sjóðum tíu hreppa á Héraði með framlagi úr félagsheimilasjóði að ógleymdu gjafafé frá ýmsum frjálsum félagasamtökum og fyrirtækjum. 

Um rangfærslur kjörinna fulltrúa sveitarfélagsins um bíómálin má lesa nánar um á bloggi mínu á slóðinni:  http://pelli.blog.is/blog/pelli/entry/376133/#comments

Benedikt V. Warén, 6.3.2008 kl. 20:05

8 identicon

Mig langar líka að fá aftur bíó á Egilsstöðum  Popp og kók, mjúkir stólar og bíómynd - ég missi næstum af öllum bíómyndum af því að ég þarf að fara svo langt til að komast í bíó.

Og enn og aftur; Setjum Egilsstaðabúið á vá-lista. Það hlýtur að vera hægt að hafa Toyota-umboðið annars staðar og ég tek undir með Pella - í hvaða bæjarfélagi er bílaumboð í hjarta bæjarins? Ræsir í Reykjavíkurtjörn, Toyota á Austurvelli?

Rannveig Árna (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 21:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband