Leita í fréttum mbl.is

Rósir og jass

Í gær héldum við áfram að útdeila rósum, nú á Egilsstöðum, við KHB og Bónus, þetta er frábærlega skemmtilegt starf. Fólk verður svo skemmtilega undrandi þegar því er rétt rós, ein kona sagðist ekki muna eftir að sér hefði áður verið gefin rós..., hún sagðist hugsa fallega til fólks á kjördag sem stæði með bros á vör, afhenti rósir og ræddi jöfnuð...

Rósirnar eru virkileg að skila ætlunarverki sínu...

Eftir að hafa hlýjað mér örlítið ók ég yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar til að fagna 50 ára afmæli Leikfélags Seyðisfjarðar.  Það verður frábært þegar göngin verða komin, þá geta Seyðfirðingar og Héraðsmenn svo auðveldlega samnýtt húseignir, þjónustu. menningu og svo ótal margt fleira.

Afmælissýningin var frábær hjá leikfélaginu, stiklað var á stóru í 50 ára sögu í leiklestri og söng.

Síðan var farið yfir á kosningaskrifstofuna okkar á Seyðisfirði og hlustað á þennan fína jass hjá Einari Braga og félögum hans. Og síðan gátum við fengið okkur snúning í Herðubreið áður en við fórum heim til Gullu þar sem ég fékk gistingu og síðan 5 stjörnu morgunverð í morgun framreiddan með góðum skammti af pólitískri bjartsýni og jarðgangnaspjalli.  Ég varð skelfingu lostin þegar ég leit út um gluggann um hádegisbilið og sá slydduna berja rúðurnar, hélt að Fjarðarheiðin væri að verða leiðinleg og dreif mig heim, en hlýindin voru það mikil að ekkert festi á veginum og ég var komin heim um eittleytið.

Varð húsmóðir í klukkutíma mundaði klósetburstann og uppþvottaburstan með hálfviðvaningslegum hætti eftir margra vikna vanvirkni á þessu sviði, þvottavélin fékk líka aðeins að kenna á því.

Nú sitjum við Berglind Rós á kosningaskrifstofunni með sína fartölvuna hvor og vinnum okkar verk. Hún þarf að ljúka svona eins og 100 deilingadæmum en ég þarf að skipuleggja næstu viku.

Þessi skemmtilega kosningabarátta er að verða búin, endaspretturinn að vísu eftir, hann þarf að vera snarpur en það er ekkert mál með því góða liði sem við erum með hérna fyrir austan.  Jafnaðarmenn hafa frábæran málstað sem auðvelt er að berjast fyrir.  Við þurfum að skipta um mælikvarða í íslensku samfélagi þann 12. maí, núverandi mælikvarði er peningalegur gróði fárra, mælikvarðinn sem við þurfum að fá staðfestan þann 12. maí er jöfn tækifæri allra Íslendinga til að lifa mannsæmandi lífi.  Ég heiti á þjóðina mína að þora að breyta um kúrs núna þegar tækifæri gefst - koma svo...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband