Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
28.9.2008 | 10:34
SSA - þing á Djúpavogi
Var ásamt 11 öðrum fulltrúum Fljótsdalshéraðs á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. föstudag og laugardag. Baldur Pálsson sá um að aka okkur á áfangastað - við fórum auðvitað Öxi en nutum útsýnisins lítið því veðrið var kolvitlaust.
Föstudagurinn var átakalítill. Kristján Möller, ráðherra sveitarstjórnar- og samgöngumála var með skýrt og fínt erindi um stöðuna í samgöngumálum í fjórðungnum og vangaveltur um stærð sveitarfélaga. Grétar Eysteinsson prófessor við HA var með vangaveltur um hvort Austurland ætti að verða eitt sveitarfélag - mér fannst hugleiðingar hans yfirborðskenndar og lítið greinandi og var því mjög ánægð með að samþykkt var á þinginu tillaga um að vera með málþing um sameiningarmál fyrir næsta aðalfund. Þingskjölum var vísað til nefnda og önnur mál afgreidd áður en skemmtidagskráin tók við.
Óvissuferðin varð heldur styttri en fyrirhugað var því veðrið var ekki upp á það besta - en Djúpavogsbúar búa frábærlega með sína Löngubúð, sem hýsir þennan fína móttökusal ásamt stofum þeirra Eysteins Jónssonar ráðherra og Ríkharðs Jónssonar myndhöggvara sem báðir eru ættaðir úr sveitarfélaginu. Boðið var upp á þjóðlegar veitingar hrátt hangikjöt, hákarl og harðfisk - frábært fæði með skemmtilegu spjalli við sveitarstjórnarmenn.
Maturinn í Hótel Framtíð var ekki af verri endanum - loðnan reykta frá Vopnafirði gómsæt og kannski það eftirminnilegasta á þessu frábæra veisluborði. Andlegt fóður var borið fram með því efnislega - viðurkenningar veittar, Hornfirðingar kvaddir og auðvitað skrafað við sessunauta. Upp úr miðnættinu hófst eitt fjörugasta ball sem ég hef verið á lengi og eftir þriggja tíma stanslaust úthald á dansgólfinu var skriðið í rúmið og sofið í fjóra tíma...
Laugardagurinn hófst með nefndarstörfum, ég valdi mér að vera í samgöngunefndinni enda starfandi í þeirri nefnd SSA á milli aðalfunda. Að mestu leyti var full eining í nefndinni um hin ýmsu hagsmunamál fjórðungsins á sviði samgangna og fjarskipta.
Jarðgangnamál var eina ágreiningsefnið. Ný áhersla Seyðfirðinga á jarðgöng til Héraðs sem annan áfanga í Miðausturgöngunum olli aðeins skjálfta hjá Vopnfirðingum og Fjarðabyggðamönnum.
Vopnfirðingar eru eðlilega orðnir þreyttir á því að áratuga baráttu þeirra, dyggilega studd af SSA, fyrir göngum undir Hellisheiði hefur engu skilað - þeir eru að vísu að fá miklar samgöngubætur í endurbótum á annarri vegtenginu núna - en það breytir ekki þörfinni fyrir göng til Héraðs. Þeir eru hræddir um að þessi nýja áhersla Seyðfirðinga á einföld göng til Héraðs skjóti þeirra göngum enn á frest.
Fjarðabyggðamenn eru aftur á móti ekki lengur hræddir um Norðfjarðargöngin svo þeir þora að lýsa yfir fullum stuðningi við Miðausturlandsgöngin sem tengja þeirra byggðir mjög vel saman svo og Seyðisfjörð. Það eru reyndar tvær hugmyndir uppi um Miðausturlandsgöngin og önnur þeirra gerir göng milli Seyðisfjarðar og Héraðs áfanga þessara metnaðarfullu hugmyndar um tengingu alls Miðausturlands með göngum. Hin gerir aftur á móti ráð fyrir því að Seyðisfjörður tengist Norðfirði í gegnum Mjóafjörð.
Ég get ekki annað en stutt Seyðfirðinga í baráttu þeirra fyrir göngum sem þeir hafa nú sammælst um að berjast fyrir til Héraðs. Seyðfirðingar hafa enga aðra leið að heiman landleiðina en Fjarðarheiði sem er hæsti fjallvegur á Íslandi og oft afar erfiður yfirferðar - þeir hafa beðið þolinmóðir en unnið heimavinnuna sína og meðal annars dregið vagninn í baráttunni fyrir Miðausturlandsgöngunum sem virðast bara alls ekki eiga upp á pallborðið hjá stjórnvöldum og þeir hafa því ákveðið að skipta um gír til að vinna þessu stóra hagsmunamáli sínu brautargengi. Barátta þeirra snýst um líf og dauða byggðalagsins þeirra.
Ég lærði mikið á þessu þingi - ég hlustaði talsvert og ræddi við fólk ,reyndi að skilja hin ýmsu sjónarmið og setja mig inn í þau, þó maður eigi sannfæringar og sterkar skoðanir er nauðsynlegt að skilja sannfæringar annarra og virða þær.
Ég virði t.d. skoðanir Fjarðabyggðamanna sem telja að Seyðfirðingar eigi meiri samleið með þeim atvinnulega séð vegna sjávarútvegsins og álversins og eigi því að leggja áherslu á samgöngubætur í þá átt - en ég tel að Seyðfirðingar sjálfir hljóti að vita best hverjir þeirra hagsmunir eru atvinnulega séð og ákvörðun um tengileið sé því þeirra og tek því afstöðu með þeim.
Við kvöddum Djúpavog síðdegis í glampandi sólskini - ætli nokkur bær á Íslandi sé byggður á fegurri stað?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.9.2008 | 09:45
Morgunganga í skóginum
Veðrið hér á Héraðinu er of gott til að hefja daginn á líkamsrækt, inni - ég dreif mig í skóginn og gekk einn stóran hring - notaði sviðið í útileikhúsinu til að teygja mig og strekkja...
Útivist og hreyfing er frábært start á deginum - hugsunin kemst á flug og dagsskipanin liggur fyrir.
Höfuðið er yfirfullt af spennandi námsefni sem ég er að lesa og út frá því finn ég að réttlætiskenndin svellur í brjóstinu...
Félagslegur mismunur og félagsleg mismunun er eitt af því sem ég var að lesa um í gær og er að reyna að setja þessi hugtök í samhengi við skóla án aðgreiningar og auðvitað eigin veruleika...
Auðvitað er félagslegur mismunur veruleiki og ekki gildishlaðinn - við erum sprottin upp úr mismunandi aðstæðum og erum alls ekki eins og kærum okkur ekki um það - en mismunun í krafti valds, peninga, kyns, kynþáttar, heilsu eða annars er allt annar handleggur - þar liggja "minnihlutahópar" afar vel við höggi og þar er það sem réttlætiskenndin fer að svella.
Erum við konur "minnihlutahópur"??? Ekki samkvæmt opinberum skilgreiningum - en launamunur kynjanna fer samt enn vaxandi....
Eiga ekki allir nemendur að fá að stunda nám við sitt hæfi?? Jú auðvitað er hið opinbera svar - en hver er veruleikinn??? Agavandamál eru að sliga kennara landsins því nemendur eru með verkefni sem þeir ráða ekki við og þeim leiðist svo að þeir verða að finna sér það til dundurs að hegða sér illa...
Skólinn er að nota orðræðu og viðmót sem hentar ekki ákveðnum hópi nemenda og notar þar með vald sitt til að mismuna nemendum...
Svona væri hægt að halda áfram lengi dags - en verkefnin bíða... megið þið eiga góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2008 | 08:49
Fallegur haustdagur á Héraði
Dróst fram úr rúminu 5:40 og rétt náði hjóli til að geta spinningpúlað með stelpunum hjá Dandý. Dandý er greinilega að herða á okkur - ástandið á dömunum sem "skriðu" út út íþróttahúsinu upp úr 7 var skrautlegt...
Átti fína helgi í Reykjavík - í faðmi Samfylkingarfólks og fjölskyldunnar - Karen Rós verður 3ja ára á morgun svo haldið var upp á afmælið um helgina til að amma hin pólitíska gæti nýtt ferðina...
Veðrið í Reykjavík minnti mig á unglingsárin - þar sem haglél, rigning og sólargeislar ýmist börðu eða kysstu rúðurnar í Flensborg á laugardaginn - mundi ég eftir hugmyndinni um loðfóðraða regnkápu, með lausum loðfeldi og viðsnúanleg svo alltaf væri hægt að halda "lookinu" en farast samt ekki úr kulda og vosbúð...
Gæti skrifað langt mál um efnahagsmálin eftir skemmtilega og uppbyggilega umræðu um þann málaflokk á flokkstjórnarfundinum en læt nægja að vera sammála varaformanninum sem talaði um það í fréttum í gærkvöldi að við þurfum að fara að stíga skref - til að fá að vita hvort hægt sé að breyta um gjaldmiðil - og það er ekki eftir neinu að bíða...´
Maður finnur á börnunum sínum og barnabörnunum hvað tíminn líður hratt - að það skuli vera þrjú ár síðan ég var með krökkunum mínum úr ME í lífsleikniferð á Akureyri og fylgdist með fæðingu dótturdótturinnar úr fjarlægð og hentist síðan beint úr rútunni niður á Neskaupstað til að dást að kraftaverkinu sem minnti ótrúlega á annað kraftaverk tæpu 21 ári fyrr...
Ömmuhlutverkið er skemmtilega öðruvísi en mömmuhlutverkið - ábyrgðarmikið en samt getur maður leyft sér að vera svolítið kærulaus með....
En nú er alvaran að taka við í náminu - verkefni í báðum kúrsum í þessari viku...
Í dag er svo fundur í starfshópi um uppbyggingu Íþróttamiðstöðvarinnar og í kvöld ætla ég svo að vera fermingarstelpumamma, það er fundur um forvarnarmál í Fellabæ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.9.2008 | 08:25
Neytendamál
Var á skemmtilegum fundi með viðskiptaráðherra ágætum og fleira góðu fólki í gærkvöldi...
Fundurinn snerist um neytendamál sem ráðherra hefur ásamt sínu fólki gert að áherslumáli í sínu ráðuneyti og er það vel...
Rætt var um að efla þyrfti neytendavitund og þor fólks til að berjast fyrir rétti sínum bæði einstaklingslega og ekki síður að sýna samstöðu og berjast þannig gegn óeðlilegum verðhækkunum, gjöldum og fleiru.
Rut Magnúsdóttir var með stórskemmtilegt erindi um sína sýn á neytendamálin - hún talaði sem stórneytandi með stóra fjölskyldu og setti hlutina í skemmtilegt samhengi. Húsnæðislánin, olíuverðið og markaðssetning gagnvart börnum voru hennar áhersluatriði...
Þessi húsnæðislánamarkaður er ótrúlegur og óskiljanlegur - af hverju þarf núverandi verðbólga að hafa áhrif á lánahöfuðstól fólks eftir 40 ár????
Af hverju er það ekki verðbólga þess tíma sem þá ræður höfuðsstólnum???
Mér finnst sjálfsagt að við borgum leigu fyrir peningana sem við fáum lánaða og að verðbætur séu viðhafðar en mér finnst skrýtið að neytandinn þurfa að taka á sig alla ábyrgðina á verðbólgunni - væri ekki eðlilegt að þar tæki bankinn einhverja ábyrgð líka???
Við ræddum líka um að foreldrar og skólinn þyrftu að taka höndum saman um að gera krakkana okkar meðvitaðri sem neytendur og meðvitaðri um peningamál almennt...
Gott framtak hjá Björgvin að koma til fólksins í landinu með nýjar og ferskar hugmyndir sínar - hann er búinn að standa sig frábærlega og er með skýra stefnu sem hann vinnur ótrauður að. Hjá hans ráðuneyti er stefnumótun í fullum gangi - það mættu margir ráðherrar taka hann sér til fyrirmyndar, við nefnum engin nöfn en það byrjar á......
Nú ætla ég að koma örverpinu á fætur og gerast svo skólastelpa - það er gaman að vera úti á Þekkingarsetri að læra - margir sitja og læra eða eru að hlusta á fyrirlestra í fjarfundabúnaði - þannig að þó maður sé einn í bekk eru fínir möguleikar á spjalli í frímínútunum...
Njótum dagsins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.9.2008 | 11:27
Hvassviðri
Það er leiðindahvassviðri hérna - ekki ólíklegt að einhver myndarleg tré hafi lagst á hliðina hérna á Héraðinu líka.
Í gærmorgun þegar ég skaust yfir Fagradalinn með englabossann stóð LOGN á skilti Vegagerðarinnar - held að ég hafi aldrei séð þessa áletrun þarna áður - lognið á undan storminum greinilega...
Nágrannar mínir voru í því í morgun að hirða upp þvottinn okkar...
Ég varð að láta undan í þrjóskukeppninni við englabossann. Handboltabúningarnir sem ég notaði til að kenna honum á þvottavélina með, erum búnir að hanga til þerris í einhverjar vikur á svölunum - ég hef eitthvað tuðað og nöldrað en staðföst ekki tekið þá inn - en Kári stormur eyðilagði allt fyrir mér - búningarnir liggja nú í rúmi englabossans....
Nokkur óveðursútköll í morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.9.2008 | 06:17
Menntastefna - falleg orð eða sameiginleg markmið
Í dag fæ ég það skemmtilega hlutverk að kynna drög að nýrri menntastefnu Fljótsdalshéraðs á sameiginlegum fundi allra nefnda sveitarfélagsins. Fundurinn markar upphaf að vinnu nefndanna við starfs- og fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár, í nýju handbókarformi.
Við vönduðum okkur þegar við fórum að vinna þessa menntastefnu á vordögum, kölluðum til fulltrúa allra aðila sem að málum koma, réðum okkur verkefnisstjóra og reyndum að láta þessa stefnu vera eign margra - við eigum því sameiginlega framtíðarsýn og sameiginlegar áherslur - en útfærslan er svolítið eftir og framkvæmdin úti í skólastofnunum sveitarfélagsins. Það er talað um skóla margbreytileikans, vinnu - skóla, list - og verkgreinaáherslu, ábyrgð foreldra, félagsfærni, gleði, sterka sjálfsmynd, samvinnu og margt fleira afar mikilvægt í stefnunni og það eru ákveðnar hugmyndir að útfærslu. - En skólarnir eru framkvæmdaraðilarnir, við verðum að setja allt okkar traust á þá - fulltrúar þeirra eiga þessa stefnu og munu þurfa að "selja" hinum hugmyndirnar...
Ég er mjög upptekin af því að það þurfi að vera gaman í vinnunni - sérstaklega ef maður er að vinna með fólki. Ég held að gleðin verði til við uppbyggilegt samstarf þar sem menn eru að vinna að sameiginlegum, spennandi verkefnum og innleiðingu þeirra - vonandi getur þessi menntastefna búið til svona samstarfsvettvang.
Svo er gleðin auðvitað líka hluti af því að taka sig hæfilega hátíðlega og vera bara maður sjálfur...
Það verður örugglega spurt um það í dag hvort við ætlum að setja meiri peninga inn í skólana til að geta gert þessa stefnu að veruleika - í hjarta mínu er ég sannfærð um að það er nóg af peningum ætlað til skólastarfsins nú þegar - en það þarf að skoða það mjög alvarlega hvort verið er að nota þá í rétt verkefni með réttum áherslum!!!
En núna ætla ég að drífa mig í ræktina til að vera spræk og hress í dag - auk ofangreinds verkefnis bíður mín fundur með Vegagerðinni um skipulagsmál og svo er ég á kafi í að lesa um "hinun"...
Megið þið eiga góðan dag....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.9.2008 | 19:53
Litadýrð á Norðausturlandi
Í gærmorgun ók ég af stað til Húsavíkur til að fara á aðalfund kjördæmisráðs Samfylkingarinnar. Ferðin gekk vel og lyngmóarnir skörtuðu haustlitum eins og þeir gerast alfallegastir... fundurinn gekk vel svo og málþing um Evrópumálin sem haldið var að loknum aðalfundi. Áhersla var lögð á að skoða hver áhrif inngöngu í ESB yrðu á hinar dreifðu byggðir landsins - ógnir og tækifæri leynast í inngöngunni en engin leið er að vita nákvæmlega hver samningsstaðan er nema sækja um inngöngu og skoða málin í alvöru.... eftir hverju ætli við séum að bíða....
Eftir fundinn ókum við Sigrún vinkona mín til Akureyrar, við höfðum um margt að spjalla á leiðinni, það er gott að eiga vin sem er í svipuðum sporum og maður sjálfur - á kafi í vinnu, enn meira á kafi í pólitík, ein með börnin og finnast lífið almennt skemmtilegt... Við fórum út að borða á Rub 23 sem er nýr staður byggður á merg gömlu Karólínu - frábær matur og fín þjónusta - Sigrún bauð þeirri gömlu út að borða í tilefni sextugsaldursins... Við drifum Láru Stefáns svo með okkur á Vélsmiðjuna, dönsuðum og trölluðum fram á nótt og byrjuðum svo aftur að slúðra snemma í morgun.... Ég kíkti svo aftur á Láru í morgun og kíkti aðeins á námsskipulagið í hennar mastersnámi og var vægast sagt hrifin, HÍ á talsvert ólært í fjarnámskipulagi...
Kíkti aðeins í búðirnar á Akureyri og keypti afmælisgjöf handa dótturdótturinni sem er að verða 3ja ára - finnst hún hafa fæðst í gær....
Ók síðan heim og naut litadýrðarinnar aftur - auk þess sem andanefjurnar á Pollinum sýndu sig... notaði tímann og spjallaði við gott fólk á leiðinni. Við Berglind Rós nýttum okkur svo þjónustu Subway og sitjum nú saddar og sælar og spjöllum á milli þess sem við kíkjum í tölvuna og á sjónvarpsskjáinn... það sem eftir lifir kvölds þarf svo að læra, skrifa fundargerð, kíkja á fundarboð og fleira... dagurinn á morgun hefst svo kl. 5:40 - það er spinning og Dandý líður ekkert kæruleysi.
Stal þessari mynd af hinum nýju vinum Akureyrar af blogginu hans Jóns Inga.
Bloggar | Breytt 16.9.2008 kl. 05:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2008 | 19:43
Hvar er haftið???
Hversu mikið skyldi þessi kjaradeila snúast um það að ljósmæður eru flestar konur og vinna þeirra snýst um að hlúa að fólki???
Hverju ætli það myndi breyta að þeir sem krefðust hærri launa væru karlar og viðfang þeirra væru peningar og verðbréf????
Hversu flókið getur það verið að meta laun stéttar sem þarf að hafa sex ára háskólanám til að fá starfsréttindi????
Nú verður að hætta að tala og fara að gera eitthvað....
Verkfall hefst á miðnætti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2008 | 19:23
Fjarskipti
Ótrúlegt hversu hröð þróun er í fjarskiptum. Þegar ég byrjaði að kenna haustið 1982 var "númerið" á kennarastofunni löng - stutt og bara var hægt að hringja á ákveðnum tímum sólarhringsins. Þegar ég sendi tölvupóst í fyrsta sinn þurfti að framkvæma 10 aðgerðir áður en pósturinn var sendur og hraði sendinganna var ekki stórkostlegur - síðan hafa liðið mörg ár - og breytingarnar eru ótrúlegar. Núna sit ég með nettengda tölvuna á hnjánum, engar snúrur að pirra mig því sambandið er þráðlaust, gemsinn liggur við hliðina á mér og ég get verið í sambandi við fólk langt út fyrir landssteinana á msn og skype og svona mætti lengi telja.
Það sem er vont er að þetta á ekki við um alla þá sem búa í sveitarfélaginu mínu - enn eru svæði sem eru ekki tengd netinu nema í gegnum símalínu með tilheyrandi seinagangi og kostnaði. Árið 2008 veldur þessi staðreynd verulegri mismunun - börn og unglingar sem búa við þessar aðstæður eiga takmarkaðri möguleika til samskipta við jafnaldra og aðra þá sem þeir vilja vera í sambandi við, fólk í fjarnámi situr við annað borð en við í þéttbýlinu. - Þessi mismunun er kaldhæðnisleg ef maður hugsar um það hverjir það eru sem þurfa nauðsynlega að vera í rafrænu sambandi - eru það ekki einmitt þeir sem eiga erfitt með að vera í beinu sambandi við fólk og stofnanir vegna fjarlægða og erfiðra samgangna???
Ég er að verða verulega leið á því að bíða eftir lausnum Fjarskiptasjóðs - með tilheyrandi annmörkum vegna svæða á markaði og lagakrókum í því sambandi... Er málið ekki nokkuð einfalt? - það eiga allir Íslendingar að eiga rétt á nútímalegum tengingum til að geta nýtt sér jafn sjálfsagðan hlut og rafræn samskipti og þjónustu.
Rafrænar kveðjur að austan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.9.2008 | 20:07
Kerfi
Almennt er ég mjög hrifin af skipulagningu og kerfum sem þjóna tilteknum markmiðum. En ósveigjanleg kerfi sem eru til - af því bara - pirra mig.
Undanfarna daga er ég búin að ergja mig yfir tvennu: annað er heilbrigðistengt og hitt tengist fjarskiptum.
Frumburðurinn minn er búin að vera með leiðinda kviðverki í nokkurn tíma - alveg keyrði um þverbak um daginn þegar hún var á Hornafirði að heimsækja kærastann svo hún heimsótti ágætan lækni á Höfn sem sagði strax lýsingu hennar á verkjunum geta bent til gallsteina. Þessi ágæti læknir sendi rannsóknarbeiðni til einhvers fíns sérfræðings í höfuðborginni. Sá hafði fljótlega samband við sjúklinginn, kallaði hana til sín snemma á mánudagsmorguninn, setti hana í sónar og sagði hana með grjót. Þetta tók 5 mínútur og sjúklingurinn þakkaði fyrir og spurði síðan hvað ætti að gera við þetta grjót sem væri að valda henni óþægindum. Það sagði þessi sérfræðingur ekkert geta sagt um, hann myndi senda niðurstöðurnar á Höfn og þaðan lægi leið þessarar niðurstöðu norður með austurströndinni í Egilsstaði sem er heilsugæslustöð fjölskyldunnar. Frumburðurinn býr í Reykjavík og hefur búið þar í rúm tvö ár og ljóst er að þar mun verða unnið að því að losa hana við grjótið. Hún hefur nú fengið símatíma hjá lækni á Egilsstöðum á mánudaginn - og þar mun verða skráður enn einn kafli í sögu grjótsins í gallblöðru frumburðar míns. Ætli sé ekki líklegt að lokakaflinn verði síðan skráður hjá fína sérfræðingnum í bænum sem fær sennilega fleiri þúsundkalla úr vasa fátæku námsmeyjarinnar minnar fyrir að mylja grjótið og losa hana við það.... mér finnst þetta ótrúleg vinnubrögð á tímum rafvæðingar og nútíma tækni..., af svona vinnubrögðum skapast örugglega hagvöxtur - en hagræðingin er ekki augljós...
Og þá er það hinn fjölskylduvinveitti Sími sem bíður upp á 0 - ið svo að fjölskyldur geti talað saman án þess að þurfa að greiða fyrir. Mér fannst þetta afar göfugt af Símanum og ákvað að nýta mér þennan höfðingsskap svo ég og börnin mín gætu talað saman af hjartans lyst fyrir ekki neitt. Yndisleg stúlka svaraði mér og vildi allt fyrir mig gera, en - það er svolítið af smáu letri í hinni göfugu fjölskyldustefnu Símans - allir verða að hafa sama lögheimili, þýddi ekkert að benda á að dreifbýlisbörnin þyrftu að fara í nám að heiman og það verða að vera a.m.k. þrír með sama lögheimili til að síminn viðurkenni að um fjölskyldu sé að ræða, þetta ákvæði get ég alls ekki skilið eða viðurkennt, ég get fallist á þetta með lögheimilið en að það eigi að mismuna fjölskyldum eftir stærð get ég alls ekki fellt mig við - slíkt stenst engar jafnræðisreglur.... Smáa letrið virðist stundum fyrirferðameira en meginmálið...
Ég er ekki vön að pirra mig eða vera fúl - en kerfið getur stundum gert mann kolvitlausan...
En nú ætla ég að róa mig niður og eiga afslappað kvöld í sófanum með kertaljós og vínglas, megið þið eiga góða helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggvinir
- annapala
- annaragna
- annriki
- agustolafur
- arnith2
- baldurkr
- gattin
- bryndisfridgeirs
- brandarar
- dofri
- drifakristjans
- gleraugun
- saxi
- huld
- fjolan
- logbjorg
- gutti
- gudnydrifa
- gurrihar
- gudrunjj
- gudrunkatrin
- gunnaraxel
- hafsteinnkarlsson
- hallibjarna
- heidathord
- hildajana
- ingabaldurs
- ingolfurasgeirjohannesson
- jogamagg
- jonaa
- joningic
- kallimatt
- kolbrunb
- kopasker
- daudansalvara
- lara
- olinathorv
- ragnhildur
- rosa
- amman
- sisshildur
- svalaj
- svavaralfred
- svenni
- tjorvi
- vefritid
- thorhildurhelga
Tenglar
Vinir
- Rannveig vinkona
- Dandy orkubolti, spinningkennari og náttfatavinkona
- Tóta litla
- Konni kynlegi
- Þórveig hreyfisystir
Pólitík
Nota bene
Ritað og talað mál
Hér er ýmislegt sem ég hef sagt og ritað upp á síðkastið.
Myndaalbúm
Eldri færslur
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar