Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Lærdómsríkt ár

Sit ein við eldhúsborðið - fólkið mitt sefur enn sætt og rótt. Er búin að snyrta hreindýrahrygginn sem við ætlum að borða í kvöld og ætla svo að pensla hann með dýrindis kryddblöndu af og til í dag.

Á þessum degi lítur maður gjarnan til baka yfir árið, þetta ár hefur á margan hátt verið mér og mínum gott.  Miðhluti þess var þó talsvert mótaður af veikindum og síðan dauða Jóns Bergssonar, afans á þessum bæ, en góðar minningar og það að hafa haft tækifæri til að létta honum stundirnar undanfarin ár yljar öllum.

Hér voru teknar ákvarðanir sem þurfti að hætta við vegna breyttra aðstæðna - það átti að halda upp á hálfrar aldar afmæli mömmunnar á bænum - en þá var Jón mjög veikur svo hætt var við það - síðan ætluðum við að halda jól og áramót á Tenerife, vorum búin að panta ferð - en þá hrundi efnahagskerfið og óviturlegt að halda mikið af landi brott. Það er erfitt að hætta við svona hluti og manni finnst það hálfgert veikleikamerki - en í raun getur legið styrkur í því að halda ekki of fast í ákvarðanir heldur taka tillit og sýna sveigjanleika. Kannski verður þessu bara slegið saman, við gott tækifæri. Smile

Ég er búin að læra mikið á þessu ári sem pólitíkus - ég er búin að þurfa að endurskoða ýmis mál aftir og aftur - ég er búin að þurfa að horfa gagnrýnum augum á flokkinn minn og forystu hans og ég er búin að sjá að það þarf stáltaugar og járnbrynju til að taka ekki nærri sér alla þá gagnrýni sem sárreitt og örvæntingarfullt fólk lætur vaða yfir þá sem standa við stjórnvölinn. Þegar ég var á haus í barnaverdarmálum hérna í den var mér sagt að maður ætti að fá sér kaffibolla áður en maður færi að tjá sig mikið um mál - ég held að þetta eigi líka við í pólitíkinni...

Ég held að flest okkar sem blöndum okkur í pólítík gerum það af því að við viljum hafa áhrif - við viljum ekki bara sitja og gagnrýna við eldhúsborðið heldur stíga fram og leggja okkar af mörkum til framgangs góðra mála.  Til þess að slíkt verði þarf vald - og vald er vandmeðfarið - maður má aldrei missa sjónar af því af hverju maður er þarna og í umboði hvers - og það er nauðsynlegt að vera í góðu sambandi við umbjóðendur sína - upplýsa og hlusta - en á endanum er það valdhafinn sem þarf að taka ákvörðun og standa og falla með henni.  Og síðan er hið opinbera umhverfi með öllum sínum stjórnsýslulegu krókum og kimum hræðilega seinvirkt svo almenningi finnst ekkert vera að gerast þó stöðugt sé verið að ýta á eftir og kippa í spotta, óþolandi kerfi - en verndar líka hagsmuni okkar allra.

En auðvitað hugsar maður stundum hvort það sé þess virði að verja öllum sínum tíma í pólitískt stúss þegar umræðan úti í samfélaginu rífur niður og gerir lítið úr því sem verið er að gera - væri ekki bara betra að fara að prjóna og sauma???

Í höfði mínu sem inniheldur hugsanir pólitíkuss, námsmanns, mömmu, ömmu, húsmóður, konu, dóttur, systur, vinkonu ... er hálfgert hvirfilbylsástand á þessum gamlársdegi - en ég veit af gamalli reynslu að þar lægir, húsmóður-, móður- og ömmustússið sem bíður mín í dag mun hjálpa til við það. - En svo er því nú þannig farið að algert logn í kolli leiðir ekki af sér margar hugmyndir svo það er um að gera að láta bara blása svolítið.

Kæru vinir, megi nýja árið færa ykkur gæfu og gleði, hamingju og hlátrasköll, hlakka til frekari samskipta á árinu 2009.HeartHeartHeart

 


Á milli hátíða...

Það er ósköp notalegt að vera svona á milli hátíða - íbúðin skreytt og fín en samt ákveðinn hversdagleiki brostinn á...

Við erum búin að hafa það fínt um jólin, rjúpurnar brögðuðust frábærlega með sínu hefðbundna rauðrófusalati og öðru meðlæti.  Jólahangikjötið var á sínum stað á jóladag og tertuboð í Gilsárteigi á annan í jólum brást ekki frekar en fyrri daginn. 

Við Karen Rós erum búnar að viðra okkur svolítið bæði í gær og í dag og maður finnur að það gerir öllum kynslóðum sérstaklega gott að anda að sér fersku lofti þegar ofátið ræður ríkjum á flestum heimilum.

Þegar áramót nálgast fer maður ósjálfrátt að huga að því hvert skuli stefna á nýju ári svona í ljósi þess hvernig árið sem er að líða hefur verið.  Maður veltir fyrir sér hvort maður vilji breyta einhverju, setja nýjar áherslur á einhverjum sviðum eða jafnvel kollvarpa einhverju.  Ég held að það sé hollt að setjast niður við tímamót eins og áramót eru og fara aðeins yfir sviðið, persónulega, atvinnulega, pólitískt og víðar. Meira um þetta síðar.

Rósabúntið mitt er að búa til pizzu og svo verður slakað á við sjónvarpið í kvöld. 

Megið þið eiga góða jólarest kæru lesendur.

 


Skata og samskipti

Verð að viðurkenna að mér finnst hin skemmtlega hefð að borða skötu á Þorláksmessu alveg frábær.  Var svo heppin að okkur var boðið til Rannveigar vinkonu minnar í skötu ásamt fleiru góðu fólki - það er svo miklu skemmtilegra að vera í svolitlum hópi við skötuátið, en ein lítil fjölskylda úti í horni.... það þarf að ræða um skötuna, hvort hún sé nógu kæst og mann svíði ekki örugglega alveg niður í r......

Mamma kom austur um hádegisbilið í dag og hún og Helga systir og tvær dætur hennar gáfu sér góðan tíma til að fá sér að borða og spjalla, það var frábært.  Systurdætur mínar eru báðar komnar í háskólanám, önnur í hótelstjórnun í Sviss og hin í félagsráðgjöf í Reykjavík og ég hitti þær ekki mjög oft, svo ég var mjög ánægð að fá svolítinn tíma með þeim í dag.

Eitthvað var svo þrifið og stússað í dag líka og ekki bíða nein stór verkefni morgundagsins svo það verður bara sofið út og verið í rólegheitunum á morgun. Þarf aðeins að fara í heimsóknir og bera út jólakort og svo bara að fara aðeins yfir og fínpússa.

Megi jólahátíðin verða ykkur gleðileg og þið umvafin þeim sem ykkur þykir vænst um.


Kort og pakkar

Það skemmtilegasta við jólin er að skrifa á jólakort og pakka inn jólagjöfum.  Verð að viðurkenna að mér finnst líka gaman að opna jólapakka og lesa jólakort sem ég fæ send. Wink Er að verða búin með þennan skemmtilegasta þátt desemberlífsins...

Þessi sérstaki tími þar sem maður hugsar til baka til vina og ættingja og sendir þeim jólakveðju gerir manni gott, það fer ákveðin upprifjun á lífi manns fram og maður man betur en ella að það er mikið af yndislegu fólki þarna úti sem manni þykir vænt um og þykir vænt um mann. Góð tilfinning - hin eiginlega jólatilfinning.Heart

Ég er seinni en oft áður í jólaundirbúningnum - er samt ákveðin í að gera ýmislegt - ekki í stressi yfir því að ég verði að gera hitt og þetta.  Ég ætla bara að gera það sem mig langar til að gera.  Mig langar til að baka svoliítið meira og mig langar til að hafa fínt hjá mér.  Það er allt annað að vinna verk með því hugarfari að þau séu fyrir mann sjálfan, ekki unnin af leiðinda skyldurækni.  Í dag á að halda áfram að taka til og vonandi baka svolítið líka.  Annars er stóra stelpan mín að koma og litla jólaprinsessan hún Karen Rós kemur auðvitað með mömmu sinni, það verður yndislegt að fá þær.  Guðbjörg Anna er alger jarðýta þegar hún tekur sig til og sú litla er bara frábær....

Jæja nú ætla ég að ráðast á staflana sem ég flutti til í gær, megið þið eiga skemmtilegan jólaundirbúningsdag...


Jólin nálgast eins og óð fluga

Nú er bara vika til jóla - Egilsstaðir eru að verða verulega jólalegur bær, jólaljósin og snjófölin gefa sérstaklega notalegan og hátíðlegan blæ.

Á þessu heimili eru efnisleg aðalatriði jólanna tryggð - myndarlegt blágrenitré úr Hallormsstaðaskógi stendur á svölunum og rjúpurnar eru í frystinum.  Hin huglægu aðalatriði sköpum við sjálf með viðhorfi okkar og væntumþykju.  Þegar ég hljóp á brettinu áðan var ég einmitt að spá í hvað ég hlakkaði til að ræða tilefni jólanna við Karen Rós.  Við spjölluðum lengi saman í síma í gærkvöldi og það er svo yndislegt hvað lífið er einfalt hjá svona þriggja ára krílum.  Hún sagði mér að hún væri búin að fá pakka svo ég þyrfti ekkert að kaupa pakka handa henni!!! Það sama sagði hún þegar ég sagði henni að ég væri búin að kaupa handa henni jólakjól: "en amma ég á fínan kjól".  Þetta viðhorf þarf að varðveita!

Ég sat og skrifaði á jólakort í gærkvöldi - er svo gamaldags að ég handskrifa inn í kortin og handskrifa utan á umslögin, og nýt þess að hugsa til vina og ættingja um leið og ég skrifa, börnin mín benda mér reglulega á að ég gæti sparað mikinn tíma á að prenta límmiða á umslögin og líma textann inn í kortin - en ég held að ég hætti bara að skrifa jólakort ef ég hef ekki tíma til að skrifa þau sjálf.

Var að hlusta á morgunútvarpið - þar talaði viskulegur maður - misstu af nafninu - en eftir hans pistil er ég afar hugsi. Af hverju er ekki hægt að fastsetja viðmið á verðbótum/verðtryggingu í ákveðnu prósentustigi næsta árið, til að auðvelda einstklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum að standa í skilum? Það er hægt að fastsetja gengið - Seðlabankinn ákveður hvert vaxtastigið á að vera - festum verðbæturnar í t.d. 6 % - þá vita allir að hverju þeir ganga - áætlanagerð er auðveldari og við missum ekki algerlega stjórn á fjármagnskostnaði.

Í dag er síðasti bæjarstjórnarfundur ársins, aðalatriði þess fundar er fyrri umræða um fjárhagsáætlun.  Tillaga okkar hljóðar upp á afreiðslu hennar með rekstrarhalla - en veltufé frá rekstri er jákvætt.  Hugsa að mörg sveitarfélög sem eitthvað hafa verið að framkvæma síðastliðin ár séu í þessari stöðu. Hunderfitt en við erum búin að vanda okkur og ég er sátt við áætlunina þó útkoman sé neikvæð.

En fram að fundinum ætla ég að halda áfram að skrifa jólakortin upp á minn gamaldags máta og fara og kaupa nokkrar jólagjafir.Smile


Hallormsstaðadagur

Í dag ætlar litla fjölskyldan í Kelduskógunum að fara inn í Hallormsstað og ná sér í blágrenijólatré og kíkja svo á sýninguna á Húsó svona í leiðinni.  Sonur minn tilkynnti mér það um daginn að við gætum alveg eins skreytt kústskaft eins og að vera með furu aftur - okkar jólatré væri sko blágreni.  Og þar sem einmitt er boðið upp á að höggva blágreni í skóginum okkar í dag þá gerum við það auðvitað. Við tökum ömmu á Ketilsstöðum með, hún þarf að kíkja á sýninguna, gamli vefnaðarkennarinn.

Í gær skruppum við á jólamarkaðinn í Barra og fengum okkur rússneska súpu, hangikjötssmakk og kakó og versluðum svolítið - þarna var annar hver Héraðsmaður og einhverjir Fjarðarmenn líka - skemmtilegt innskot í jólaundirbúninginn þessi Barramarkaður.

Ég lauk við annað en frágang og yfirlestur á verkefninu mínu í gær svo nú get ég farið að snúa mér að öðrum verkefnum sem fyrst og fremst snúast um að gera heimilið jólalegt, baka svolítið, skrifa á jólakort og ljúka við að kaupa jólagjafir. Einhver pólitísk verkefni bíða líka.

Ég var ánægð með Ingibjörgu Sólrúnu í gær - mér fannst hún tala við þjóðina, og ég er farin að líta á það sem eitt það mikilvægasta sem þarf að gera núna, fyrir utan markvissar og fumlausar rannsóknar - og björgunaraðgerðir þar sem leitað er að öllum kurlum, því sjálfsagt vantar talsvert á að þau séu öll komin til grafar í hamförunum miklu.

En núna ætla ég að leita að heimili mínu undir öllum stöflunum og hrúgunum Wink


Óvinsælar aðgerðir

Skattahækkanir, bensínhækkanir, niðurskurður til heilbrigðismála - skemmtileg jólagjöf stjórnvalda til þjóðarinnar. 

Auðvitað verður að grípa til aðgerða í ljósi ástandsins - en þetta ástand - hver er að svara til saka fyrir það? Við "pöpulinn" á Íslandi??? En hvar eru hinir eiginlegu sökudólgar - þeir sem settu okkur á hausinn??? Eru þeir enn að leita að götum í kerfinu í útrásarleit sinni fyrir græðgina?  Það er ljóst að eftirlitskerfið okkar er enn eitt hriplekt gatasigti.. og fjárglæframennirnir eru eins og verstu tölvuhakkarar, þeir þekkja leiðir sem venjulegir viðskiptafræðingar, lögfræðingar og hagfræðingar skilja ekki.  Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið þurfa sennilega að ráða útrásarvíkingana í vinnu til sín til að láta þá kenna sér klækina til að einhver möguleiki sé á því að þétta eftirlitsnetið.

Mig langar til að farið verði að tala við þjóðina eins og hún sé ekki fífl!!! Ég hefði vilja hlusta á Göran Persson sem telur það lykilatriði að þjóðinni sé sagt satt og að hún sé upplýst um stöðu mála og kerfið sé gert það gegnsætt að það skiljist og það megi gagnrýna það.  Ég er nefnilega innilega sammála Persson í því að fólk er miklu tilbúnara til að taka á sig skell ef það veit nákvæmlega hvers vegna.  Mér finnst vitlaus skilningur fólginn í því að ekki megi segja almenningi frá stöðu mála fyrr en allt liggur á borðinu, mér finnst ákveðið óöryggi fólgið í því hjá stjórnmálmönnum að halda að vald manns verði meira ef maður býr einn yfir vitneskjunni. Valdið er fólgið í því að segja frá stöðunni á mannamáli og viðurkenna að ekki séu öll kurl komin til grafar og enn megi vænta breytinga.  Fólk vill láta tala við sig af virðingu og á jafnréttisgrundvelli og það eiga stjórnvöld að virða.

En nú er best að reyna að skrifa um stærðfræði og skóla án aðgreiningar, og sambandið á milli þessara tveggja þátta, á mannamáli svo ég geti farið að skrifa á jólakortin Wink


Öðruvísi aðventa

Sit við eldhúsborðið mitt með bolla af góðu kaffi og horfi á jólaskreytt húsin í nágrenninu - jólaljósin eru yndisleg í kolsvörtu skammdeginu. Er ánægð með að hafa drifið mig í frábæran spinningtíma hjá Dandý í morgun, þann næstsíðasta þetta árið.

Það er svolítið skrýtið að vera í skóla aftur eftir margra ára hlé og vera á haus í verkefnavinnu á þessum árstíma - ég verð að viðurkenna að mig langar meira til að vera að skrifa jólakort og baka - en efni verkefnisins er áhugavert og skemmtilegt, svo það þarf bara aðeins að skerpa einbeitinguna til að ljúka verkinu og það verður örugglega frábært að tölta með umslagið á pósthúsið þann 15. des og vera komin í jólafrí. Grin

Í dag er svo fyrri umræða um fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs í bæjarráði - það er búið að leggja óhemju mikla vinnu í að ná henni þannig að allir séu þokkalega sáttir, svona miðað við aðstæður, en óvissuþættirnir eru margir - hvernig má annað vera þegar fjárlög liggja ekki einu sinni fyrir....

Fleiri verkefni bíða fram að jólum í pólitíkinni - mér sýnist næsta vika vera að verða talsvert ásett, en öll þessi verkefni eru spennandi og nógur tími eftir 19. des til að baka og þrífa. 

Það verður yndislegt að fá stóru stelpuna og ömmustelpuna heim rétt fyrir jólin og svo kemur mamma austur á Þorláksmessu - það er svo gott að geta haft þá sem manni þykir vænst um hjá sér á hátíðisdögum.

En nú er best að lesa og skrifa svolítið um það hvers vegna stærðfræðin er að valda krökkum vandræðum... 

 Varð að setja inn eina mynd af jólastelpunni minni.jólastelpa


Útsvarsliðið okkar er snillingatríó

Mikið er ég hreykin af útsvarsliðinu okkar, þau eru skemmtileg og snjöll.  Til hamingju krakkar og takk fyrir að vera svona frábær - þið eruð Fljótsdalshéraði til sóma.

Það er mikið um að vera hjá mér í dag. Jólamarkaður í Sláturhúsinu þar sem ég ætla að slá tvær flugur í einu höggi og vera Soroptimisti í fjáröflun og körfuboltastelpumamma í stuðningsliði í fjáröflun. Soroptimistar selja kærleikskúlur og hreindýrakæfu en körfuboltastelpurnar selja leikföng og kannski eitthvað fleira.

Síðan fæ ég að borða með menntaskólakennurunum í kvöld - þó ég sé í orlofi - einhverjir ætla að elda í dag og aðrir koma með eitthvað, held að bæði matur og félagsskapur verði af mestu gæðum.

Fram að sölumennskunni ætla ég að kíkja aðeins í Ketilsstaði til Elsu og reyna að ljúka við eitt verkefni sem ég var að fá til baka með athugasemdum.

Pólitíkin verður ekki í aðalhlutverki um helgina - en eftir helgi þarf að bretta upp ermar og ganga frá gögnum fyrir fyrri umræðu um fjárhagsáætlun sem er nú farin að fá á sig mynd - kannski ekki fulla af broskörlun en raunhæfa mynd miðað við aðstæður.


Samræming

Stundum finnst mér það vera mitt aðalverkefni að samræma vinnu/nám/pólitík og einkalífið. Veit að ég er ekki ein um þá skoðun.  Upplifði tvö svona dæmi í gær þegar ég lét þvottavélina væla því ég var niðursokkin í að setja upp grind að verkefni - en hef mun oftar hlaupið frá náminu í þvottinn... Í gærkvöldi stakk ég svo af áður en bæjarstjórnarfundi lauk því ég var búin að lofa örverpinu mínu að fara með henni á spilakvöld í skólanum... stundum finnst mér þessi stöðugu skiptingar þreytandi, langar bara til að geta einbeitt mér algerlega að einu verkefni... en á maður ekki bara að vera þakklátur fyrir að hafa heilsu og orku í mörg verkefni.

Við spiluðum félagsvist í gærkvöldi, 13 ára unglingarnir virtust skemmta sér konunglega með foreldrunum, spilakvöld virðist vera svona pabbaverkefni því mikill meirihluti foreldranna var karlkyns aldrei þessu vant á foreldrakvöldi. Skemmtilegt að leika hlutverk bæði pabba og mömmu í lífi stórskemmtilegs unglingsins míns. Krakkarnir voru kurteis og skemmtileg og virðast njóta þess að gera eitthvað með fullorðna fólkinu, þurfum að gera meira svona.

Í dag liggur fyrir að drífa sig í ræktina í smástund, fara síðan að vinna verkefni um stærðfræðierfiðleika og skreppa síðan á málþing um unglinga í menntaskólanum síðdegis. Ætla svo að byrja að skrifa á jólakortin í kvöld með tilheyrandi jólatónlist, sherrydrykkju og kertaljósum.

Ég reyni að stilla mig í pirringi mínum yfir nýjustu yfirlýsingum Davíðs Oddssonar um sárasakleysi sitt í efnahagsástandi þjóðarinnar og hugsanlegri endurkomu sinni í pólitík. Skyldu sjálfstæðismenn enn elska hann og dá og vilja hann aftur inn í stjórnmálin??


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband