Leita í fréttum mbl.is

Línur skýrast

Það er í raun ótrúlegt hversu mikið er búið að gera á þessu sumarþingi - þó stjórnarandstaðan reyni að þvælast fyrir - mér finnst við komast nokkuð vel frá þessum þvælingi með svipuðum aðferðum og notaðar eru þegar vinna þarf með börn í kringum sig, þá er best að vera bara nokkuð hlýr við þau og gefa þeim svo sem minnstan gaum...

Afstaða mín til þess að gengið verði til samningaviðræðna við ESB, svo við getum séð hvernig samning við getum fengið - hefur komið fram hér margoft, mér finnst tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla vera lýðskrum og alger óþarfi og bara til þess fallin að tefja málið frekar.

Ríkisábyrgðin á Ice save er vont mál, en því þarf líka að ganga frá - og ég óttast að það að fella þennan samning sem er auðvitað ekki gallalaus setji okkur á byrjunarreit aftur - notum árin sjö sem við fáum áður en þarf að byrja að borga til að láta reyna á endurskoðunraákvæðið ef þess þarf.

Sparisjóðamálið var erfitt og ömurlegt að hugmyndafræði sparisjóðanna hafi verið rýrð og afskræmd í græðgisvæðingunni miklu - en ég held að niðurstaðan sé viðunandi fyrir flesta, einhverjir sparisjóðir munu ef til vill ekki lifa af - en aðrir styrkjast - því miður hefði sennilega það sama gerst þó ríkið hefði ekki gripið inn...

Bankarnir færast nær því með degi hverjum að verða starfhæfir með uppgjöri á stöðu gömlu bankanna - gengur hægt - en þó bítandi...

Sérstakur saksóknari er á fullri ferð í að vinna að rannsókn hrunsins og tengdra mála - á grundvelli laga - gleymum því ekki að Ísland er réttarríki og vinnubrögð okkar miðast við það - hér verður enginn "tekinn af lífi" án dóms og laga...

Og svona mætti lengi telja - og ég er bjartsýn á það að þegar þing kemur saman að nýju í haust verði kominn traustur grundvöllur að endurreisn Íslands - verið er að vinna að því að búa til ramma að atvinnuuppbyggingu á mörgum sviðum t.d. hjá iðnaðarráðuneytinu og stofnunum þess... þá þarf að skoða stöðu heimilanna upp á nýtt og sjá hvar þarf að bæta við og einfalda úrræði til þess að fjölskyldur geti búið við þokkalegt öryggi á Íslandi...

Þannig ætla ég að vera bjartsýn og horfa til framtíðar og vanda mig við að láta stjórnarandstöðuna sem suðar og togar allt um kring ekki draga úr skörpum fókus... en um leið raunsæ og vakandi og hlustandi með athygli á allar góðar hugmyndir sem koma frá frábærum einstaklingum allt í kringum landið og mega verða til uppbyggingar - slíkar raddir vil ég líka hlusta á hjá mörgum frábærum þingmönnum í öðrum flokkum en mínum...

Átti frábæran dag í gær - fór í tvö afmæli hjá stórmerkilegum köppum - fylgdist stolt með dóttur minni sigra unglingaflokk á félagsmóti Freyfaxa og skellti mér svo á dansleik og dansaði frá mér hvers kyns ósóma í tvo tíma  - dans er nú alveg frábær hreyfing, slökun og afþreying....

En nú þarf að sinna unglingnum sem er að aðstoða bróður sinn við að setja folaldsmerar á kerru og er svo að fara að taka verklegt knapamerkjapróf klukkan 6, það er gaman að hafa tíma til að snúast í kringum fólkið sitt Smile - megið þið eiga góðar stundir með ykkar fólki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Mér finnst umhugsunarvert að þeir sem sátu hér við að völd árum saman og, reyndar án þess að vita að þeir voru að gera slæma hluti, komu okkur á kaldan klaka, skuli gagnrýna núverandi stjórn fyrir að gera ekki neitt.

Það er ekki óeðlilegt að það taka langan tíma að endurreisa íslenskt þjóðfélag og í raun svo margt búið að gera á fáum vikum. 

Jón Halldór Guðmundsson, 13.7.2009 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband