Leita í fréttum mbl.is

Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs

Á sjö tíma bæjarstjórnarfundi í gær var fyrsta Aðalskipulag sameinaðs Fljótsdalshéraðs afgreitt til Skipulagsstofnunar.  Hefði aldrei trúað því að óreyndu hversu pólitísk og skemmtileg skipulagsmál eru.  Þokkaleg eining er í bæjarstjórninni um skipulagið, en Þéttbýlið við Fljótið og skipulag þess er þó umdeilt, sumir vilja halda áfram að byggja Egilsstaði til suðurs og í Fellum til norðurs en meirihlutinn hefur frá upphafi viljað sameina byggðakjarnana við Fljótið eins og hægt er miðað við að á milli þeirra er Egilsstaðabýlið, flugvöllurinn og Fljótið! Meirihlutinn vill því skipuleggja byggð í framtíðinni í landi Eyvindarár með tilheyrandi nýrri og spennandi leið um Melshorn og nýrri brú á Eyvindará sem sameinar hverfi beggja megin árinnar.

Get ekki neitað að á síðustu metrum fundarins var ég farin að fylgjast með því á vefmiðlum hvernig gengi með afgreiðslu IMF á lánsumsókn okkar, og mikill léttir fylgdi því að sjá að hún fékk jákvæða afgreiðslu og að í kjölfarið er ljóst að nágrannar okkar munu lána okkur það sem upp á vantar til að fylla upp í gatið stóra. Vonandi þýðir þetta það að hægt er að fara að taka einhverjar ákvarðanir um fjárlög ríkisins og hvað ríkið er að fara að gera á næstunni.

Það var gott að koma heim um ellefuleytið og hitta englabossann og gelgjuna. Englabossinn er búinn að vera lasinn og því meira heima en oft annars og litlu systur hans finnst greinilega fínt að hafa hann nálægt.  Það vill reyndar svo heppilega til að við mægður erum samstíga í því að eiga langa miðvikudaga, ég á fundum og hún í söngtíma, á körfuboltaæfingu og í æskulýðsfélagi kirkjunnar. Sófinn er því gjarnan bældur á miðvikudagskvöldum þegar allir eru komnir heim.

Jólin nálgast - það eru komin aðeins jólaljós í gluggana hjá okkur og í gærkvöldi voru valdar myndir af englabossanum með hvíta kollinn í jólakortið og til stækkunar í einhverja jólapakka. Það er kominn jólahugur í okkur mæðgur - karlmanninum á heimilinu finnst við nú svolítið snemma í því..., Það verður yndislegt að fá þær mæðgur, Guðbjörgu Önnu og Karen Rós, og Torfa til okkar um jólin. Jólin eru tími sem mann langar til að hafa þá hjá sér sem standa hjarta manns næst.

Í dag gefst vonandi tóm til að stunda námið af kappi - bara tveir fundir skráðir í dagbókina í dag og öðrum má sleppa ef vill...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt V. Warén

Ég verð nú bara að segja það sem mína skoðun á þessu skipulagi, að ekki verður það sagt með nokkrum rökum, að sú vinna hafi haft það að leiðarljósi að vera hlaðin háleitum markmiðum.  Rauði þráðurinn í þessum drögum að breyttu skipulagi, væri að reyna að breyta því sem fyrri bæjarstjórnir höfðu gert og kollvarpa þeirri vinnu í grundvallaratriðum.  

Eldfimi bóndasonurinn af Jökuldalnum virðist ætla að setja sitt mark á þéttbýliskjarnann á mið Héraðinu, þannig að eftir verði tekið.  Því miður virðist hann vera blindaður af hatri á framsóknarmönnum og kaupfélaginu, og allt sem því "dúói" tengis er af hinu illa og beri að afmá.   Passið ykkur, önnur fyrirtæki geta dregist með og liðið fyrir þetta ofstæki.

Þessi nýju drög að skipulagi miðast við að koma umferð út fyrir miðbæ Egilsstaða, frá fyrirtækjum í þjónustugeiranum, sem settu sig niður þar vegna þess að þar eru vegatnamót.  Það eru gömul sannindi og ný, að þar sem eru krossgötur er þjónustan einnig.  Þetta geta menn séð um allan heim og virðist flestum ljóst öðrum en þeim sem fjalla um skipulagsmálin í Egilsstaðabæ.

(Jón Bergsson (1855-1924) forfaðir Egilsstaðaættarinnar var framsýnn og sá að þarna væri skynsamlegt að byggja upp þjónustu - setning hans "hér verða vegamót".)

Það sem vekur einnig athygli þeirra sem áhuga hafa á þessum málaflokki, er að á sama tíma sem tækifri gefst á að færa þjóðveg eitt, sem klýfur Fellabæ að endilöngu, er stefnan að skera bæinn áfram að endilöngu og koma nýrri brú fyrir nánast á sama stað og gamla brúin er.  Sú brú er að stofni til síðan 1904-5 http://www.glettingur.is/lagarbru35.htm).

Skipulagið gerir einnig ráð fyrir að þrengja svo að flugvellinum til frambúðar, að hann verði ekki lengdur eftir þá legngingu sem nú er fyrirhuguð, c.a. 400 metra.  

Hvaða samfélag þrengir svo að sínu hafnarsvæði, að það hafi ekki möguleika á stækkun??

Svo tekur steininn úr, þegar kynnt er nýtt svæði til sögunnar, í landi Evindarár.  Þar er svæðið klofið að endilöngu með Seyðisfjarðarvegi.  Að mati sveitarstjórnarmanna er í lagi að klúfa svefnbyggð að endilöngu, en ekki þegar það kemur þjónustugeiranu til góða. 

Það er rétt að hafa það í huga, að skipulag er ekki og á ekki að vera flokkpólitískt þrætuepli, þar sem bæjarfulltrúar skiptast í fylkingar með eða á móti kaupfélaginu.  Skipulag er "heilagt" plagg til margra ára og getur ekki tekið róttækum breytingum við það eitt, að skipta um fólk í bæjarstjórn.   Fyrir slíkum kúvendingum þurfa að vera skotheld rök og mikil, þverpólitísk samstaða. 

Skipulag á ekki að vera með innbyggða fyrirtækjafjandsamlega stefnu.  Það er mjög andstætt hagsmunum íbúa sveitarfélagsins.

Benedikt V. Warén, 21.11.2008 kl. 21:59

2 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Fyrirgefðu Pelli minn hvað ég bregst seint við - er búin að vera í borginni.  Við erum búin að takast á um þetta skipulag - ég ber virðingu fyrir þínum hugmyndum og veit að þú berð virðingu fyrir mínum.  Þú átt hrós skilið fyrir það að þú talar alltaf í lausnum og mér finnst hólmahugmyndin þín flott, ræðum málin betur við gott tækifæri.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 26.11.2008 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband