Leita í fréttum mbl.is

Að taka lífinu hæfilega alvarlega...

Á síðustu dögum hef ég rekist á viðtöl við skemmtilegar og klárar konur.  Eftir lesturinn situr eftir í mínum kolli áherslan á það að þora að njóta augnabliksins og taka lífið ekki allt of hátíðlega. Kannski hef ég lesið þessar áherslur út úr orðum þeirra því þær henta mér.

Eftir því sem ég eldist og læri meira af lífinu, um lífið, verð ég sannfærðari og sannfærðari um að mikil lífsgæði eru fólgin í því að þora að njóta þess sem lífið býður upp á, þora að taka áhættu og þora að hlæja - ekki síst af mistökunum sem maður óhjákvæmilega gerir.

Sem kennari nýt ég þess að fíflast dálítið í nemendum mínum og með þeim, vona að það geri sumum þeirra stærðfræðina bærilegri og auðveldari, það gerir kennsluna allavega að spennandi starfi...

Sem pólitíkus er ég alltaf að læra eitthvað nýtt,  stöðugt einu skrefi á undan sjálfri mér, þar þarf ég að taka ákveðna áhættu því ég þekki ekki öll mál, en með því að kynna mér þau og ræða þau og nýta þá framtíðarsýn sem ég hef fyrir sveitarfélagið mitt með tilfinningar hugsjónarinnar að vopni, nýt ég þess að vinna í pólitík.

Í gær naut ég þess að vera með krökkunum mínum - við erum öll í borginni - náðum Jóni Matthíasi með í hádeginu í gær - rosalega langt síðan ég hef verið með þeim öllum - horfði stolt yfir hópinn minn, hugsaði um þær stundir sem áhyggjurnar yfir þeim stóru voru mann lifandi að drepa, vona að það viðmót sem þau mættu þegar þau lentu í erfiðleikum hafi átt sinn þátt í að  gera þau að frábærum einstaklingum og áhugasömum eldhugum í því námi sem þau hafa valið sér.

Guðmundur var dressaður upp frá toppi til táar - stúdentsprófið í höfn, útskrift með tilheyrandi hátíðahöldum 24. maí. Englabossinn minn fer að fljúga úr hreiðrinu líka...

Gelgjan mín verður bráðum ein eftir - við náðum frábæru spjalli í bílnum á leiðinni suður - hún er líka að verða fullorðin - hugsunin er þroskuð þó orðfarið geti stundum farið með mann.... en við hlógum mikið og hún komst að þeirri niðurstöðu að mamma hennar væri auðvitað hundgömul en nothæf eigi að síður...

En nú bíða samræmdu stærfræðiprófin eftir mér í þúsundatali..., megið þið eiga góða hvítasunnuhelgi með tilheyrandi hlátrasköllum og skemmtilegheitum...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og við höfum stundum rætt Nína, þá er lífið áhætta. Við förum ekki inn á elliheimilið með glötuð tækifæri í farteskinu, jarmandi "Æi, við hefðum átt ..."

Það er betra að gera mistök en að hafa aldrei þorað.

Rannveig Árna (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 11:22

2 identicon

Litlir grísir verða stórir- fullir sparigrísir.  

Dandý (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband