Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
28.2.2009 | 07:57
Einstakar konur
Ég verð nú að viðurkenna að ég hlakka til að vita hver niðurstaða þessa fundar verður - ég get engan veginn spáð fyrir um hana - en ég er sallaróleg því sama er hvor er við stjórnvölinn - þar fer afburðarkona. Og svo erum við svo heppin í þessum flokki að þar er valinn manneskja í hverju rúmi og við þurfum ekki endilega að einblína á einn sterkan leiðtoga.
En mér finnst að enginn þurfi að fórna lífi sínu og limum fyrir pólítíkina - því alltaf kemur kona í manns stað - eða þannig... og sjálft kærleiksboðorð kristinnar trúar bendir á að maður á að láta sér þykja vænt um sjálfan sig - til að geta átt kærleika til náungans og málefna - "elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig".
En nú anda ég að mér eyfirsku lofti, finn takmarkaðan mun á því og því austlenska enda sama kjördæmið og sömu hagsmunamálin.
Það er kynningarfundur frambjóðenda á Dalvík kl 10 og á Akureyri kl 14 - ætla að kíkja aðeins betur á það sem ég ætla að segja þar, megið þið eiga góðan dag - og kíkið þið endilega á okkur, þið sem eruð stödd í Eyjafirðinum.
Jóhanna og Ingibjörg með fund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2009 | 08:12
Nýfrjálshyggjufrí
Frábært að sjá jafnan vöxt fylgis við jafnaðarstefnuna. Nú þurfum við að vanda okkur til að "toppa" á réttum tíma!
Ég held að það sé mjög gott að gefa Sjálfstæðismönnum og nýfrjálshyggjunni frí um nokkra hríð. Sú lífssýn og aðferðarfræði virkaði ekki og virkar alls ekki til uppbyggingar samfélags sem þarf að afla sér trausts og virðingar bæði almennings á Íslandi og alþjóðasamfélagsins.
Við þurfum að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem byggir á alvörustoðum en ekki loftbólum, það þarf alvöru ráðgjöf og eftirlit - ekki bara ryk í augu... og það þarf að spara og þar treysti ég forgangsröðun vinstri manna betur en einstaklingshyggju hægri manna.
Því um leið og við spörum þarf að styrkja fyrirtæki og fjölskyldur, efla menntakerfið, bæta samgöngur og margt fleira. Ég trúi því að það sé hægt - með réttri forgangsröðun - um það snýst pólitík fyrst og fremst.
Er búin að púla í spinning í morgun og ná mér þar í stóran orkuskammt - svo ætlum við austurlandssamfylkingarskvísurnar að skella okkur í höfuðstaðinn í okkar kjördæmi síðdegis. Það eru kynnningarfundir frambjóðenda á Dalvík og Akureyri á morgun og á Egilsstöðum á sunnudaginn.
Ríkisstjórnin fengi meirihluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2009 | 05:33
Farsæl lausn
Enginn efast um að launþegar í þessu landi þyrftu að fá leiðréttingu launa sinna, strax. Það er eðlilegt að okkur gremjist að við þurfum að taka á okkur skerðingar vegna þess að nokkrir strákar fengu að leika sér, óátalið, í einkaþotuleik með fullar töskur af loftbólupeningum.
En - hættan á að launahækkanir fari beint út í verðlagið og valdi auknu atvinnuleysi er mikil og því er þetta farsæl lausn fyrir alla að mínu mati.
Staðan í samfélaginu er þannig að alla fitu þarf að skera af á öllum sviðum, velta þarf um steinum í leit að þúsundköllum sem spara má til að ná endum saman án þess að nauðsynleg þjónusta verði skert.
Í mínu sveitarfélagi þurfum við að spara milljónatugi - það er erfitt, en mér finnst gott að vinna með starfsmönnum okkar, þeir hafa fullan skilning á málavöxtum og koma með fínar tillögur um sparnaðarleiðir. Það er afar gott að geta unnið með fólkinu sem á að vinna verkin við breyttar aðstæður og líklegra til að skila árangri en valdboð að ofan.
Daginn í dag ætla ég að hefja með því að fara út í snjóinn í smástund, síðan er samstarfsfundur með aðilum sem koma að Miðstöð fólks í atvinnuleit. Grænlensk sendinefnd sem er að vinna að löggjöf um málefni erlendra launþega ætlar að hitta okkur Gulla fjármálastjóra milli 10 og 11 og klukkan 17 er aðalfundur Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf. Í kvöld þarf ég svo að skipta mér á milli þess að vera pólitíkus sem á að borða með Hitaveitufólkinu og fermingarmamma sem á að vera úti á Eiðum með fermingarbörnum og foreldrum þeirra.
Milli 11 og 17 ætla ég að undirbúa mig fyrir framboðsfundi helgarinnar og reyna að kíkja aðeins á námsefnið mitt. Það er mikill kostur við námið mitt í hversu góðu samhengi "skóli án aðgreiningar" er við jafnaðarstefnuna svo ég fæ með hverju orði sem ég les pólitíska innspýtingu!
Megið þið eiga góðan dag
Samstaða um frestun samninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.2.2009 | 14:34
Prófkjör
Margar rannsóknir sýna að prófkjör eru ekki kvenvinsamleg leið til að velja fólk á lista, konur eru ekki sérlega góðar í að markaðssetja sig sem einstaklinga þó þær séu frábærar í að markaðssetja lífssýn, lið, fyrirtæki og stofnanir. Þeim finnst líka flestum vont að dvelja langdvölum að heiman því heimilið og börnin eru þeim mikilvægara en flest annað. En þær vita að þeirra lífssýn og aðferðafræði verða að móta íslenskt samfélag, nú sem aldrei fyrr, og því láta þær sig hafa það að taka slaginn.
Þá er um að gera að hafa gaman af slagnum og taka hann ekki of persónulega í prófkjöri er verið að velja liðið sem á að selja hugmyndafræði flokks eða hóps, því miður virðast sumir gleyma því í hita leiksins og nota jafnvel aðferðir sem skemma fyrir því að liðsheildin verði sterk og samheldin.
Foringi verður sterkur þegar hann nær að fá fólk til að vinna með sér að sameiginlegum markmiðum og góðum starfsanda ekki þegar hann spilar sóló í von um sem mest völd.
Subbuleg aðferðafræði er out núna ég held að aðferðafræði kvenna með áherslu á umræður, samantekt og ákvarðanatöku á grundvelli umræðna sé in núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2009 | 08:06
Treystum á lífeyrissjóðina
Það er ljóst að atvinnulífið og opinberir aðilar í þessu landi treysta mjög á lífeyrissjóðina og þeirra möguleika til lánveitinga næstu mánuðina.
Það er fólkið í landinu sem á eignir lífeyrissjóðina og það þarf á því að halda að atvinnulífið verði ekki sett á "hold" með tilheyrandi atvinnuleysi og leiðindafylgikvillum.
Auðvitað má ekki "gambla" með þessar eignir en aðilar eins og sveitafélög eru ekki "gamblarar" en þau þurfa á fjármagninu að halda til að geta haldið úti framkvæmdum við byggingar, gatnagerð og viðhaldsverkefni - og svo virðist sem þeir sem eiga peninga séu lífeyrissjóðirnir - svo þeir eru í lykilstöðu við að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi. Með eðlilegu atvinnustigi koma peningar í kassa opinbera aðila - sem geta þá greitt lán sín og haldið hringrásinni gangandi.
Lífeyrisréttindi óbreytt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2009 | 06:51
Þak yfir höfuðið
Flestar fjölskyldur á Íslandi búa við þokkalega öruggar húsnæðisaðstæður, eiga íbúð eða hús og geta þannig búið sér og sínum öruggt heimili. Eða þannig var það a.m.k. áður en krónan missti verðgildi sitt og verðbólgan reis til hárra hæða. Nú spyr maður sig hvort það sé lúxus að eiga íbúð?
Auðvitað þurfa bankar og sjóðir að fá leigu fyrir peninga sem þeir lána út - en hversu há þarf hún að vera?
Af 15 milljóna króna láni greiðir maður rúmar 600 þús krónur á ári í vexti ef maður er svo heppin að lánið er með 4,15 % vöxtum - verðbætur í 18 % verðbólgu eru á þriðju milljón á ársgrundvelli - þær jafnast að vísu út á lánstímann - en bætast ofan á höfuðstólinn svo vaxtagrunnurinn hækkar og verðbólgugrunnurinn hækkar... og þannig hækkar leigan á peningunum og heildarkostnaður greiðandans með veldisvexti - við borgum og borgum - en hversu lengi getum við borgað og hverjum er það til hagsbóta að einstaklingar fari á höfuðið í hópum með tiheyrandi lausung fyrir fjölskyldur þessa lands????
Það má ekki vera lúxus að búa börnum sínum öruggt heimili. Það verður að búa til kerfi sem gerir íbúðalán öðruvísi en neyslulán svo íbúar á Íslandi þurfi ekki að fara á hausinn, bara vegna þess að þeir eru að kaupa sér blokkaríbúð!!!
Ég treysti engum betur en Jóhönnu til að vinna í þessum málum - en ég þarf endilega að komast á þing til að hjálpa henni við verkið...
Dagurinn í dag eru helgaður hestamennsku - slepp víst við að vera þulur á Ístöltinu - en á að afhenda verðlaun - og svo verð ég í því skemmtilega hlutverki að vera hestasveinn fyrir börnin mín sem ætla að sýna gæðingana sína á ísnum. Í kvöld er svo uppskeruhátíð hestamanna á svæðinu, þar sem ræktendur og knapar fá sínar viðurkenningar með tilheyrandi veisluhöldum.
Mér sýnist veðrið vera fínt - góður útivistardagur framundan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2009 | 16:04
Háskólastúdent
Er stödd í okkar ágætu höfuðborg í námslotu eða innilotu í náminu mínu. Alltaf jafn skemmtilegt að hitta stelpurnar og kennarana og spjalla um hjartans mál okkar allra - enn betri skóla fyrir alla nemendur hvort sem þeir eru með fötlun, afburðargreind, freknur eða leti...
Þarf að sendast fyrir gelgjun mína yndislega - skilst að síminn hennar sé algerlega ónýtur!!! - áður en ég hendist í flug.
Blogga betur þegar ég kem heim í kvöld, ef ég þarf ekki að pússa hestana með börnunum mínum, sem bæði ætla að taka þátt í Ístölt Austurland 2009, á morgun.
Mér sýnist líf og fjör í pólitíkinni, margir að bjóða sig fram í öllum kjördæmum, sem er frábært miðað við þau erfiðu verkefni sem framundan eru.
Meira fljótlega
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2009 | 08:27
Spennandi tímar
Búin að taka ákvörðun - hef boðið fram krafta mína til að vera í forystusveit Samfylkingarinnar í þessu kjördæmi. Ég þakka allar stuðningsyfirlýsingar og áskoranir og hlakka til að vinna með ykkur að framgangi jafnaðarstefnununnar.
Framundan eru erfiðir tímar, en í þeim felast tækifæri til nýrrar hugsunar og endurnýjaðra gilda sem ég held að muni hjálpa okkur mikið í uppbyggingarvinnunni.
Virk þátttaka allra og vinna að því að ryðja um hindrunum er hugsun sem mér finnst við þurfa að innleiða og leggja áherslu á. Virðing fyrir fólki og skoðunum hvetur til þátttöku allra og við þurfum á öllum að halda til að leggja hönd á plóginn. Hroki og hleypidómar eru "out" þegar allir þurfa að koma að því að byggja upp "Nýtt Ísland".
Auðvitað eru menntamálin mér afar hugleikin enda búin að vinna við þann málaflokk alla mína starfsævi - en ég tel líka að í fjölbreytilegu framboði á námi fyrir alla felist möguleikar til að jafna aðstöðumun og minnka stéttaskiptingu. Menntun þarf ekki öll að vera á háskólastigi og ekki þurfa allir að verða stúdentar - hvers kyns starfsnám og atvinnutengt nám er metnaðarfullt og stórmerkilegt og til þess fallið að atvinnulíf og menntastofnanir kenni hvort öðru.
En nóg um pólitík í bili - nú þarf að undirbúa daginn og vekja gelgjuna sem er ekki sú morgunhressasta, þessi elska
Megið þið eiga góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.2.2009 | 09:57
Pólitík á mannamáli
Í náminu mínu er mikið fjallað um orðræðu.
Annars vegar er þar verið að fjalla um hversu mikilvægt er að þeir sem eru á sama fræðasviði tali einu máli og séu með sameiginlegar skilgreiningar á hugtökum svo skilingurinn fari ekki á milli mála.
Hins vegar er er mikil áhersla lögð á það að orðræða/málnotkun í skólum sé í raun orðræða ákveðinna þjóðfélagshópa og að sum börn eigi einfaldara orðfari að venjast og því ekki jafn góð í því að skilja það sem fram fer í skólanum. Þessi staðreynd skapar ójafnræði og því afar mikilvægt að skólafólk sé meðvitað um stöðuna og einfaldi mál sitt þegar það á við um leið og það vinnur að því að auðga orðaforða allra nemenda.
Stundum finnst mér þetta vera svona í pólitíkinni líka, orðræðan sem þar er notuð er oft afar flókin og erfitt fyrir almenning að setja sig inn í mál. Lærðar skýrslur eru ekki skrifaðar á máli sem almenningi er tamt, heldur á fagmáli ákveðinna fagstétta og pólitíkusa.
Getur verið að einhverjum finnist það gott að sem fæstir skilji svona skýrslur og pólitík almennt???
Mér finnst skipta miklu máli að pólitík sé töluð og skrifuð á mannamáli ekki síst til að gera sem flesta virka í umræðu og starfi. Þegar maður skilur sjálfur umræðuna getur maður oftast útskýrt hana á tiltölulega einfaldan hátt.
Skiljum við pólitíkusar ekki nema hluta þess sem við erum að fjalla um og tölum þess vegna í frösum???
Kannski er það sérkennarinn í mér sem er stöðugt að vinna að því að matreiða orð þannig að sem flestir skilji og geti tileinkað sér.
Þegar fagstétt er að vinna að sínum málum er eðlilegt að hún noti sína faglegu orðræðu - en þegar verið er að vinna að málum þjóðarinnar er eðlilegt að slíkt fari fram á mannamáli, þess vegna á pólitík að vera sett fram á vandaðan einfaldan hátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.2.2009 | 14:29
Að vinna að markmiði...
Leiðinlegt að Ragnar hafi dregið framboð sitt til baka, hefði örugglega verið gaman að kynnast honum. En mér finnst skorta á þolgæðið því framboðsfrestur rennur ekki út fyrr en á laugardag og ýmislegt getur gerst þangað til.
Það er skelfilegt að staðan í íslenskum stjórnmálum árið 2009 sé þannig að það þurfi að beita kynjakvóta - og enn verra að karlar skuli ekki skilja það, hvað þá heldur virða það.
Ég hélt að það væri enginn sem neitaði því í dag að það er þörf á kröftum og aðferðum kvenna við stjórn landsins, þær eru bara ekki allar til í að gera það á karllægum forsendum og því hendast þær ekki í brjáluðum ákafa af stað í framboð.
Dregur framboð sitt til baka vegna kynjakvóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
- annapala
- annaragna
- annriki
- agustolafur
- arnith2
- baldurkr
- gattin
- bryndisfridgeirs
- brandarar
- dofri
- drifakristjans
- gleraugun
- saxi
- huld
- fjolan
- logbjorg
- gutti
- gudnydrifa
- gurrihar
- gudrunjj
- gudrunkatrin
- gunnaraxel
- hafsteinnkarlsson
- hallibjarna
- heidathord
- hildajana
- ingabaldurs
- ingolfurasgeirjohannesson
- jogamagg
- jonaa
- joningic
- kallimatt
- kolbrunb
- kopasker
- daudansalvara
- lara
- olinathorv
- ragnhildur
- rosa
- amman
- sisshildur
- svalaj
- svavaralfred
- svenni
- tjorvi
- vefritid
- thorhildurhelga
Tenglar
Vinir
- Rannveig vinkona
- Dandy orkubolti, spinningkennari og náttfatavinkona
- Tóta litla
- Konni kynlegi
- Þórveig hreyfisystir
Pólitík
Nota bene
Ritað og talað mál
Hér er ýmislegt sem ég hef sagt og ritað upp á síðkastið.
Myndaalbúm
Eldri færslur
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar