Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Áfangar

Við erum alltaf að minnast og halda uppá hvers kyns áfanga í lífinu.  Um þessa helgi er ég búin  að halda upp á tvo - annars vegar 100 ára afmæli heimabæjarins míns, Hafnarfjarðar, og hins vegar 30 ára stúdentsafmæli árgangsins míns úr Flensborg.  Gleðilegir áfangar -  Hafnarfjörður skartaði sínu fegursta, einstakt náttúrulegt umhverfi og smekkleg manngerð umgjörð í góðum kokteil gera bæinn flottan og áhugaverðan, ég er montinn af fæðingarbænum mínum. 

Hinir síungu stúdentar um fimmtugt voru sprækir og hressir, mér fannst við öll einstaklega klár, skemmtileg og falleg... og held að um það hafi verið alger samstaða í hópnum. Undirbúningshópurinn stóð sig frábærlega, bjó til fína blöndu af menningu og skemmtun.  Guðrún Ásmundsdóttir var frábær leiðsögumaður frá Hafnarfirði í Herdísarvík, fræddi okkur um margar hliðar Einars Benediktssonar og sagði okkur frá lífi hans og ekki síst frá konunum í lífi hans..., fróðlegt og skemmtilegt..., við borðuðum frábæra humarsúpu í Rauða húsinu á Eyrarbakka, skemmtum hvert öðru með gamni og alvöru og nutum samverunnar - þau hörðustu enduðu á Fjörukránni - þaðan gekk ég heim til mömmu um tvöleytið og leið eins og unglingi þegar ég læddist í bólið....

Skemmtilegt að eiga sterkan uppruna á einum stað, rækta hann og finnast mikið til um hann og eiga síðan heimili á öðrum stað og hafa átt það hálfa ævina og upplifa þann stað líka svo ákveðið sem sinn stað.  Héraðið á stóran sess í hjarta mínu eins og Hafnarfjörður, ég tel mig lánsama að þekkja bæði lífið á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, af eigin raun og vita því hversu nauðsynlegt er að þessi mismunandi búsetuskilyrði styði hvert við annað og sýni hverju öðru skilning og umburðarlyndi.  Sveitavargurinn og höfuðborgarrottan eiga að lifa saman í sátt og samlyndi....

Góð helgi að baki - nokkuð annasöm vika framundan þó ég sé að mestu leyti komin í frí í ME..., það er alltaf hægt að finna sér eitthvað spennandi að gera, grænlendingar í heimsókn, aðalfundur þekkingarnetsins, undirbúningur fyrir vinabæjarmót í Finnlandi, bæjarstjórnarfundur.... og svo þarf ég að rækta gelgjuna mína, sennilega mitt stærsta verkefni í næstu viku...

 Varð að setja inn þessa guðdómlegu mynd sem Gunni Ólafs gróf upp af okkur Flensborgarliðinu frá því í den...

 Man ekki hvaða ár þessi var tekin.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband