Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Ungar listakonur af Héraði

Fór á fína tónleika í kirkjunni hér á Egilsstöðum í dag. Tvær ungar konur sem búið hafa á Héraði um árabil spiluðu á píanó og þverflautu og frumfluttu verk eftir þá þriðju.  Allar eru þessar konur að læra tónlist og frábært að fá þær heim til að leyfa okkur að fylgjast með þeim.  Takk Þórunn Gréta, Sóley og Bára.  Eftir tónleikana fóru síðan flestir tónleikagestir á Café Nielsen og fengu sér kaffi og köku á pallinum og nutu veðurblíðunnar.

Í morgun fór ég út að hjóla eins og svo oft á sunnudagsmorgnum, sé alltaf eitthvað nýtt og hugsa eitthvað nýtt.  Í morgun velti ég tvennu mest fyrir mér: hversu nauðsynlegt það er að gera Lagarbrautina í Fellabæ að íbúabyggð og síðan ástandinu á opnu svæðunum meðfram göngu- og hjólastígunum og víðar í bænum.  Það er afar góð leið til að skoða bæinn að hjóla um hann.

Þegar ég kom heim síðdegis heyrði ég hversu mikið hefði gengið á í Reykjavík og síðan Þingvöllum, tveir menn fallnir í valinn, vegna persónulegra deilna.  Harmleikur - ég get ekki annað en hugsað til konunnar sem tengdist þessum mönnum, hún á samúð mína alla.  Mikið vildi ég að fólk fengi meiri aðstoð og ráðgjöf þegar það slítur erfiðum samvistum, það er afar flókið ferli og þarfnast mikils sveigjanleika og tíma þar sem miklar tilfinningar eru oftast í spilinu.  Ég held að með aðstoð mætti koma í veg fyrir harmleiki sem oft leika börn og unglinga sérstaklega illa.

 


Lestur og meiri lestur

Ég hef greinilega ekki haft tíma til að lesa of lengi..., nú ligg ég bara í bókum og nenni ekkert annað að gera.  Er búin með tvær talsvert viðamiklar á stuttum tíma. Þegar ég komst inn í þráðinn hennar Fríðu í Húsi Júlíu varð ég alveg heltekin, mér finnst þessi bók frábær og virkilega umhugsunarverð.  Nú gæti ég skrifað mikið og lengi um stöðu konunnar í ljósi þeirra hughrifa sem þessi bók vakti hjá mér.  Konur sem þóknast og þjóna eru mér ofarlega í huga, Júlía var þannig og gekk afar langt í þjónustunni. Það er flestu fólki óháð kyni eðlilegt að þjóna og þóknast þeim sem þykir vænt um, en það er bilið milli þjónustu og sjálfstæðis sem getur verið erfitt fyrir suma að brúa, sennilega erfiðara fyrir konur en karla. Gamla bókin um Öskubuskuáráttuna minnir mann líka á mikilvægi þess að halda ávallt sjálfstæði sínu þó manni sé ljúft að sinna og hlúa að öðrum.... skrifa meira um konur vs karla síðar

Hin bókin var eftir Yrsu Sigurðar "Sér grefur gröf" afar spennandi og heldur manni föngnum allt til loka, ætla á bókasafnið á eftir og finna meira að lesa eftir Yrsu.  Veðrið er hálfleiðinlegt og ég var jú búin að lofa sjálfri mér að nota sumarfríið í að efla líkama og sál, skrepp svo út að hjóla þegar styttir upp eða í ræktina ef áfram rignir.

Í pólitíkinni er eiginlega sumarfrí, stjórnaði þó bæjarráðsfundi í gær. Stærsti hluti fundarins fór í spjall við sýslumann og yfirlögregluþjón, bæjarráð átti frumkvæði að því að fá þá til skrafs og ráðagerða, sérstaklega í ljósi þess að við vorum að leggja fram fé til kaupa á fíkniefnarleitarfundi og vildum gjarnan fá að vita svolítið hvernig hann yrði notaður.

Annað sem er mér umhugsunarefni eins og reyndar oft áður - rígurinn milli Héraðs og Fjarða,  ég leyfi mér að halda því fram að Fjarðamenn haldi þar fastar í ríginn en við Héraðsmenn. Mér finnst til dæmis sárgrætilegt hvað Fjarðarmenn láta nýjar áætlanir um endirbætur á Öxi fara í taugarnar á sér. Eru ekki allar vegbætur á Austurlandi okkur til hagsbóta? Mikið langar mig til að leiðin um firði verði bætt og stytt, allar jarðgangnahugmyndir á Austurlandi nái fram að ganga og ekki síst að jarðgöng verði gerð til Vopnafjarðar. Það myndi styrkja landshlutann allan verulega.  Öxi er nauðsynleg fyrir íbúa á Djúpavogi og nágrenni sem eiga í miklum vandræðum.  Verum glöð og samstíga..... 

Nú ætla ég að fara með 12 ára gamalli dóttur minni í BT, hún var að fá útborgað og ætlar að kaupa sér iPod, gígabætafjöldinn verðu skoðaður í búðinni, en fyrst þarf ég að skipta á barnabarninu og græja okkur til...


Og sólin skín...

Bloggskrif eru einhvern veginn ekki sumariðja.  Er þó í morgun búin að skoða margar frábærar bloggsíður. Það eru ótrúlega margar skemmtilegar konur með skemmtilegar bloggsíður, lestur þeirra léttir lundina, bætir sálina og sannfærir mann enn frekar um hvað hugmyndir kvenna eru frábærar...

Þetta sumarfrí er búið að vera yndislegt, ég hef gaman af því að vera mamma og húsmóðir, sem ég hef ekki mikinn tíma til aðrar árstíðir, nýt þess bara að geta dundað mér við húsverkin í rólegheitunum, þreif klósettið með bros á vör í gær...., sennilega er ég með einhvern snert af sólsting...

Nú þarf ég að fara að finna uppskriftir af silung, börnin mín eru með veiðidellu í augnablikinu, það voru 6 í netinu í fyrrakvöld og 14 í gærkvöldi.  Í gærkvöldi grilluðum við heilan silung með miklum hvítlauk og soya, hann var frábær.  Kannski ég geri aðra tilraun í flökuninni, síðast þegar ég reyndi flæktust beinin ótrúlega fyrir mér, flökun virkar svo einföld þegar maður horfir á aðra vinna verkið en einhvern veginn getur verkið flækst fyrir manni...

Er að lesa bók eftir einn af mínum uppáhaldshöfundum, Fríðu Sigurðar, Í húsi Júlíu, hún þvælist fyrir mér eins og silungabeinin, held ég verði að byrja aftur til að ná þræðinum, eða kannski er bara einginn þráður í húsi Júlíu..., hafið það gott um helgina kæru blogglesendur Whistling


Morgunstund gefur ....

Það er nú alltaf best að drífa sig á fætur á morgnana og byrja daginn.  Það er yndislegt að vera í sumarfríi og því ekki rígbundin af mínútum og sekúndum en það er samt gott að byrja daginn.  Mér hentar greinilega best að drífa mig á fætur, hreyfa mig og takast svo á við verkefni dagsins.  Í morgun fór ég með Rannveigu vinkonu minni í ræktina og svo fór ég á skemmtilegan spjallfund upp á bæ þar sem við vorum að undirbúa einn þátt stefnumörkunar í sveitarfélaginu.

Í fyrradag fór ég í afar skemmtilega ferð um gamla Norður-Hérað, við erum að vinna að nýju Aðalskipulagi fyrir Fljótsdalshérað og þessi ferð var liður í þeirri vinnu.  Það var farið yfir mikið svæði allt frá Húsey við Héraðsflóann upp í Möðrudal á Efra-Fjalli, sveitarfélagið okkar er víðfeðmt en bæði frábærlega fallegt og ríkt af náttúruperlum og fólki sem er tilbúið að nýta þær á skynsamlegan og fjölbreytilegan hátt. Það eru þó mörg ónýtt tækifæri enn, við getum t.d. örugglega notfært okkur söguna mun betur í ferðaþjónustunni...

Fjórðungsmót 2007 gekk eins og í sögu, það hefði verið fínt að fá fleira fólk en góðmennt var á Stekkhólma þessa daga.  Börnunum mínum gekk vel, Berglind Rós lenti í 2. - 3. sæti í barnaflokki og Guðmundur Þorsteinn í 5. - 6. sæti í ungmennaflokki.  Torfi tengdasonur lenti í 3. sæti í ungmennaflokknum og Guðmundur Davíð bróðir hans sigraði í barnaflokknum.  Börnin mín voru líka með í því að sýna hross úr ræktun afa síns og pabba, en afi þeirra og amma Jón Bergsson og Elsa Þorsteinsdóttir á Ketilsstöðum voru heiðruð á mótinu fyrir framlag sitt til hrossaræktar á Austurlandi. Það hefir örugglega verið hátíðlegt að vera með í þeirri athöfn.

En nú liggur fyrir svona dæmigert sumarleyfisverkefni - tiltekt í geymslunni. Ætli ég standi við áform mín um að henda öllu því sem ég hef ekki hreyft frá því ég flutti hingað í Kelduskógana fyrir tveimur árum síðan?  Ég veit nú þegar að mér reynist erfitt að losa mig við bækurnar sem ég neyddist til að pakka niður.....


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband