Leita í fréttum mbl.is

7. mars

Þennan dag fyrir 106 árum fæddist móðurafi minn, Hans Peter Christensen, í Sönderborg á Suður Jótlandi.  Hann var frábær afi en lést, eins og svo margir í kringum mig, langt um aldur fram - en minningarnar lifa.  Hann talaði yndislega "prentsmiðjudönsku" þar sem hann deildi jafnt - annað hvort orð á dönsku og hitt á íslensku - hans jafnaðarmennska náði til allra sviða lífsins!!!

Í dag er ákveðið blað brotið i lýðræðinu í þessu kjördæmi því við Samfylkingarfólk ljúkum fyrsta rafræna, opna prófkjöri sem haldið hefur verið á Íslandi.  Ég er hreykin af þessu fyrirkomulagi og vona að margir nýti rétt sinn til að hafa áhrif á hvernig listinn okkar lítur út. Vonandi er þetta sterk vísbending um enn lýðræðislegri vinnubrögð en verið hafa - þar sem fólkið í kjördæminu hefur áhrif, en til forystu veljist fólk sem axlar ábyrgð, lætur í sér heyra og tekur óhikað ákvarðanir.

Ég stóð svolitla stund á Glerártorgi og í Bónus í gær, rétti fólki miða með smáupplýsingum og spjallaði.  Það eru greinilega margir orðnir leiðir á pólitík eftir neikvæða umfjöllun síðustu mánaða en aðrir tóku við með pólitískt blik í augum og vildu gjarnan spjalla og spyrja - mér finnst þetta skemmtilegt, ótrúlega skemmtilegt, fólk er hugsandi og leitandi og það er gaman að tala við fólk um pólitík - og maður lærir svooooo mikið af því að hlusta.

Ég leyfi mér í ákveðinni auðmýkt að vera bjartsýn á úrslitin sem koma út úr tölvunni um hálfsexleytið í dag og ég bið ykkur um að vera bjartsýn með mér, með það hugfast þó, að þeir fiska sem róa, það þarf að hvetja fólk til að kjósa, hvert atkvæði er mjög mikils virði.

Ég upplifði mjög sterkt í gærkvöldi hversu snöggt getur skipt á milli gleði og sorgar.  Rétt um það bil sem Útsvarsliðið okkar komst í úrslitaviðureignina með tilheyrandi gleðilátum frétti ég að einn af okkar miklu höfðingjum, Hákon Aðalsteinsson, hefði látist í gær.  Hákon er búinn að vera mikið veikur í nokkurn tíma svo hann hefur sjálfsagt verið hvíldinni feginn - en hans verður sárt saknað úr mannlífinu fyrir austan.  Það var svo gott að hitta hann, fá bros, pepp og eina gleðisögu eða vísu.  Fjölskylda hans fær heitar samúðarkveðjur.

En nú þarf að skreyta sig svolítið og fara svo af stað með bros á vör til að hitta fólkið á götunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Gangi þér vel í prófkjörinu Jónína Rós

Ég er persónulega ekki hrifin að "galopnum" prófkjörum.  Reynslan hefur sýnt mér að pólitískir andstæðingar geta haft þannig áhrif á uppröðun að hún henti þeim sem best, þegar að hinum raunverulegu kosningum líður.

Persónukjör í kosningunum sjálfum væri mikið betra, því þá er fólk raunverulega að hafa áhrif á það, hverja það vill.

Sigrún Jónsdóttir, 7.3.2009 kl. 10:07

2 Smámynd: Þorbjörn

Til hamingju með þriðja sætið. Þetta er baráttusæti!

Þorbjörn, 7.3.2009 kl. 18:09

3 identicon

Til hamingju ég held að þetta sé feikna sterkur listi og við eigum að geta fengið 3 ef allt gengur upp

Guðmundur Ingólfsson Siglufirði (IP-tala skráð) 7.3.2009 kl. 18:24

4 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Til hamingju með góðan árangur Jónína.

Ég vissi ekki að þú værir tengd Sönderborg.

Þú ert tengd Sönderborg aftur í ættir, en ég og Magga erum tengd Sönderborg fram í ættir!!!

Það er nefnilega svo að yngstu systkyni okkar búa þar og eiga þar sæg barna.

Jón Halldór Guðmundsson, 7.3.2009 kl. 21:13

5 identicon

Nú held ég að ég verði að fara í "stórusystur" hlutverkið og leyfa mér að leiðrétta litlu systur. Hans afi var ekki fæddur í Sönderborg, hann fæddist í afar fallegum litlum bæ á Suður-Jótlandi sem heitir Vamdrup.

Helga Gudmundsdottir (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 16:06

6 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Þeir eru sko margir yndislegir bæirnir á Jótlandi.

Til dæmis eru mörg þorp sem tilheyra Sönderborg Kommune, og eins og flestir vita eru sveitarfélögin víða fjölmennari en hérlendis.

Jón Halldór Guðmundsson, 9.3.2009 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband