Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Væntingar og viðhorf

Er að hlusta á morgunútvarpið - þar sem ágætt fólk er að ræða um að oft vill fólk í samböndum að makinn geri mann hamingjusaman. Mér finnst maður oft rekast á þetta viðhorf eða kannski bara misskilning. Ég held að enginn geti gert mann hamingjusaman nema maður sjálfur.  Aftur á móti gefur það manni mjög mikið að vera í góðu sambandi þar sem nánd, ást, virðing og vinátta auðga líf manns.  En ég held að hamingja tengist viðhorfi manns og væntingum til lífsins - eins og reyndar svo margt annað.  Mér finnst ég oft hafa upplifað það sem kennari að maður getur náð mjög miklu út út nemendum sínum með jákvæðum viðhorfum og væntingum - þú getur það víst - mottóið hefur reynst mér best af öllum kennslutrixum sem ég hef reynt að beita.

En nú er runnin upp enn einn spennandi dagurinn - fundur með fjármálastjóranum mínum til að taka stöðuna, fundur um háskólanám á Austurlandi og síðan fundur með heilbrigðisráðherra síðdegis.

... og nú verða fermingarboðskortin vonandi prentuð út í kvöld


Frábær formaður

Það kom mér á óvart eins og öðrum að Ingibjörg Sólrún skyldi ákveða að hætta pólitískum afskiptum af heilsufarsástæðum. 

Það hefur auðvitað ekk farið fram hjá neinum að hún gengur ekki heil til skógar, en ákvörðun hennar um fulla þátttöku fyrir rúmri viku fyllti mann bjartsýni um bætta heilsu hennar.

En auðvitað þarf Ingibjörg Sólrún eins og aðrir að taka líf sitt og heilsu sína framyfir allt annað.  Pólitísk forysta á þeim tímum sem við lifum núna er ekki auðveld og verður ekki unnin öðruvísi en í mörg hundruð prósent vinnu sem krefst fullrar heilsu.  Ég virði því ákvörðun Ingibjargar og tel hana hárrétta á þessu stigi málsins, en mun sakna hennar sárlega, bæði sem leiðtoga og ekki síður sem frábærrar stjórnmálakonu og góðrar fyrirmyndar. Ég óska henni góðs bata og alls hins besta í því sem hún fer að gera.

Nú tel ég það langfarsælast að Jóhanna myndi gefa kost á sér í formannsstarfið - það er svo stutt í kosningar að við megum ekki við miklum breytingum umfram það sem orðið er.  Auðvitað þarf Jóhanna að ákveða þetta sjálf og meta það hvort hún treystir sér í starfið með forsætisráðherra-starfinu.  En með góðri hjálp vona ég að hún sé til í slaginn. Og síðan er það ekkert launungamál að ég vil Dag sem varaformann.  Mér finnst hans stærsti kostir vera hversu auðveldlega hann umgengst fólk á jafnréttisgrundvelli og hversu tilbúinn hann er að kynna sér mál, hlusta og læra.

En núna ætla ég að kíkja aðeins á námið mitt sem hefur setið algerlega á hakanum síðustu viku...


Prófkjöri lokið

Jæja þá liggja niðurstöður prófkjörs Samfylkingarinnar í Norðaustrinu fyrir. 

Ég bauð mig fram í 1. - 2. sætið svo auðvitað eru það ákveðin vonbrigði að ná ekki markmiðinu og fá þar að auki þriðja sætið vegna reglu um að ekki megi vera fleiri en tveir karlar í röð á listanum, mér finnst ekki ólíklegt að Loga svíði svolítið þó ég álíti hann jafnréttissinnaðan og réttsýnan.

En - þetta er niðurstaðan og hana sætti ég mig að sjálfsögðu við - fólkið í kjördæminu hefur sagt sitt og nú þarf að vinna - fyrir fólkið í kjördæminu og fyrir hugsjónir jafnaðarmennskunnar. 

Ég leyfi mér að vera sigurviss og telja það sjálfsagt að ná megi þremur Samfylkingarmanneskjum á þing í kjördæminu og með samhentu átaki þar sem allir fá að njóta sín fjórum.

Það er gott að vera að selja vöru sem maður er sannfærður um að sé góð og nauðsynleg - ég tel jafnaðarstefnuna vera afar sölulega - ekki síst núna, þess vegna hlakka ég til baráttunnar.  Og ef strákarnir halda að ég ætli bara að vera með þeim - er það grundvallarmisskilningur - þeir eru alveg eins með mér - við erum lið núna og allir liðsmennirnir eru jafngildir Wink

Kærar þakkir til allra sem studdu mig með ráðum og dáð - takk fyrir samstarfið í fyrri hálfleik meðframbjóðendur - ég hlakka til að vinna með ykkur í þeim seinni líka.

Og til hamingju Kristján og Sigmundur Ernir - hlakka til að vinna með ykkur - markviss og leifturhvöss pólitík, jafnræði, léttleiki og hlátrasköll verða vonandi aðalsmerki þessarar stuttu og snörpu kosningabaráttu sem framundan er.

En núna held ég að frambjóðandinn þurfi að bregða sér í húsmóðurhlutverkið í nokkra klukkutíma, megið þið eiga góðan dag.


7. mars

Þennan dag fyrir 106 árum fæddist móðurafi minn, Hans Peter Christensen, í Sönderborg á Suður Jótlandi.  Hann var frábær afi en lést, eins og svo margir í kringum mig, langt um aldur fram - en minningarnar lifa.  Hann talaði yndislega "prentsmiðjudönsku" þar sem hann deildi jafnt - annað hvort orð á dönsku og hitt á íslensku - hans jafnaðarmennska náði til allra sviða lífsins!!!

Í dag er ákveðið blað brotið i lýðræðinu í þessu kjördæmi því við Samfylkingarfólk ljúkum fyrsta rafræna, opna prófkjöri sem haldið hefur verið á Íslandi.  Ég er hreykin af þessu fyrirkomulagi og vona að margir nýti rétt sinn til að hafa áhrif á hvernig listinn okkar lítur út. Vonandi er þetta sterk vísbending um enn lýðræðislegri vinnubrögð en verið hafa - þar sem fólkið í kjördæminu hefur áhrif, en til forystu veljist fólk sem axlar ábyrgð, lætur í sér heyra og tekur óhikað ákvarðanir.

Ég stóð svolitla stund á Glerártorgi og í Bónus í gær, rétti fólki miða með smáupplýsingum og spjallaði.  Það eru greinilega margir orðnir leiðir á pólitík eftir neikvæða umfjöllun síðustu mánaða en aðrir tóku við með pólitískt blik í augum og vildu gjarnan spjalla og spyrja - mér finnst þetta skemmtilegt, ótrúlega skemmtilegt, fólk er hugsandi og leitandi og það er gaman að tala við fólk um pólitík - og maður lærir svooooo mikið af því að hlusta.

Ég leyfi mér í ákveðinni auðmýkt að vera bjartsýn á úrslitin sem koma út úr tölvunni um hálfsexleytið í dag og ég bið ykkur um að vera bjartsýn með mér, með það hugfast þó, að þeir fiska sem róa, það þarf að hvetja fólk til að kjósa, hvert atkvæði er mjög mikils virði.

Ég upplifði mjög sterkt í gærkvöldi hversu snöggt getur skipt á milli gleði og sorgar.  Rétt um það bil sem Útsvarsliðið okkar komst í úrslitaviðureignina með tilheyrandi gleðilátum frétti ég að einn af okkar miklu höfðingjum, Hákon Aðalsteinsson, hefði látist í gær.  Hákon er búinn að vera mikið veikur í nokkurn tíma svo hann hefur sjálfsagt verið hvíldinni feginn - en hans verður sárt saknað úr mannlífinu fyrir austan.  Það var svo gott að hitta hann, fá bros, pepp og eina gleðisögu eða vísu.  Fjölskylda hans fær heitar samúðarkveðjur.

En nú þarf að skreyta sig svolítið og fara svo af stað með bros á vör til að hitta fólkið á götunni.


Þau unnu, þau voru flott

Ég verð að viðurkenna að ég átti bágt af spenningi yfir Útsvarsþættinum, og mér fannst ég sjá stressmerki á Steina Bergs - og það hef ég ekki séð áður...

Árborgarliðið er mjög flott lið líka og bæði liðin hefðu verið vel af sigri komin.  En það var Fljótsdalshérað sem sigraði og það er frábært. 

Til hamingju krakkar og takk fyrir að halda merki Fljótsdalshéraðs á lofti - hlakka til að fylgjast með ykkur næst - sennilega í sjónvarpssal.

En nú ætla ég að skoða mig um á Akureyri og monta mig af liðinu mínu Smile.


Fermingarundirbúningur

Það var hressandi að fara og kaupa fermingarföt á örverpið í gær svona inn á milli bloggfærsla og símtala um prófkjör og kosningabaráttu.

Við fundum þennan fína kjól í Sentrum - leggings og skó - ég vildi nú kaupa kápu líka - en það er víst ekki sérstaklega smart... Kannski fer hún bara í úlpunni í kirkjuna??? Er ekki af baki dottin mun finna utanyfirflík sem við sættum okkur báðar við...

Í gærkvöldi fór ég svo að telja flöskur og dósir - fjáröflun fyrir körfuboltann hjá skvísunni - það er dýrt að senda lið suður í keppni - en við erum alveg að verða búin að safna fyrir ferðinni um næstu helgi...

Svo sendi ég dálítið tölvupóst og hringdi og skrifaði - og mitt fólk er að vinna fyrir mig líka - fyrir það er ég óendanlega þakklát.

En nú þarf að skutla dömunni í skólann og svo er það kynningarefni og svo Akureyri þar sem atkvæðin bíða í röðum...

Munið nú að kjósa og það rétt Wink og hafið það svo gott í dag.


Opið, rafrænt prófkjör

Prófkjör okkar Samfylkingarfólks í Norðaustrinu er hafið - galopið og rafrænt. Hvet alla 18 ára og eldri með lögheimili í kjördæminu til að taka þátt.

Þegar ég hugsa til baka er í raun og veru ótrúlegt hvað samfélagið hefur breyst.  Þegar ég var lítil og hringdi í pabba í búðina, hringdi ég í miðstöð og bað um Mánabúð, þegar ég byrjaði að kenna á Hallormsstað var hringingin á kennarastofunni löng, stutt, þegar ég sendi tölvupóst í fyrsta sinn voru leiðbeiningarnar í 10 liðum, þegar ég fékk fyrst útborgað sem kennari fékk ég tvö þúsund kall...

Núna er síminn alltaf í vasanum, tölvupóstur er einfaldasta samskiptaform sem hugsast getur, facebook og msn eru vinsæl samskiptaform, mörg núll hafa bæst aftan við tvö þúsund kallinn...

Hluti af þessum breytingum er sá þægilegi möguleiki að geta valið fólk á stjórnmálalista heima í tölvunni þegar manni hentar.  Kannski finnst einhverjum þetta óþægilegt form - en vonandi setur enginn það fyrir sig.

Það má samt ekki gleymast að ýmislegt er óbreytt og á að vera óbreytt - það mikilvægasta af öllu  finnst mér vera vönduð mannleg samskipti.  Samskipti þar sem fólk sýnir virðingu og hlustar vel - og leggur síðan uppbyggilega fram sinn skerf í samskiptin.  Það er ekki tilviljun að í öllum auglýsingum um störf er beðið um hæfni í mannlegum samskiptum - það er til lítils að búa yfir farmúrskarandi faglegri hæfni ef þú getur ekki komið henni áleiðis til annars fólks.

Ætli forsendan fyrir því að vera góður í samskiptum sé ekki að þykja vænt um fólk????

Ég verð alltaf svo glöð þegar ég hitti gamla nemendur mína sem hrósa mér fyrir að ég hafi sýnt þeim virðingu, hlustað og fíflast svo með þeim líka og þess vegna hafi þeir getað lært hjá mér, m.a.s.  stærðfræði Wink  Held að þetta yfirfærist á pólitíkina!

En - enn og aftur - tökum þátt í að móta pólitíkina og þar með samfélagið okkar - farið er inn á www.xs.is og þar er maður leiddur í gegnum ferlið - það þarf aðeins að bíða eftir að lykilorðið komi í heimabankann, maður getur bara kíkt á facebook á meðan!


Íslenskur vetur

Nú sit ég í góðu yfirlæti á Skólaskrifstofunni á Reyðarfirði - búið að gefa mér kaffi og hringja út og suður til að reyna að finna bílferð fyrir mig yfir Fagradalinn.  Minn gamli góði Avensis á einu drifi þykir ekki góður valkostur í vetrarfærðinni yfir Dalinn - hann fær bara að hvíla sig þar til veður skánar. Ég hef gott af því að upplifa á eigin skinni hvernig það er að þurfa að fara yfir fjallveg til að sinna erindum sínum - sumir þurfa að gera þetta á hverjum degi.  Það er algerlega nauðsynlegt að bora í gegnum fjöll til að  tryggja öryggi og stækka atvinnu- og þjónustusvæði.

Ég er búin að heimsækja 4 af 5 skólum í Fjarðabyggð og hitta mikið af skemmtilegu fólki - spjalla um skólamál, samgöngumál og pólitík og læra mikið. 

Mikið  hefur verið talað um ríg á milli Héraðs og Fjarða - Fjarðamenn segja Héraðsmenn raga við að heimsækja þá - það virðist svo miklu lengra niður á Firði en uppyfir aftur - held að svolítið sé til í því...

Verðum við ekki að sameina sveitafélög á Mið - Austurlandi til að uppræta ríg og horfa á sameiginlega hagsmuni og samlegðaráhrif?  Held að það kallaði afar hávært á samgöngubætur, þegar allt Miðausturland kallaði einum rómi!

Vona að ég komist heim fyrir bæjarstjórnarfund kl. 17!


Góð smurning á hjól atvinnulífsins

Rosalega verð ég glöð þegar ég heyri talað um þverpólitíska sátt um mál á Alþingi.  Morfísstemningin þar sem menn og konur reyna að tala hvert annað í kaf nánast bara til að vera ósammála á ekki við núna þegar við erum í tímaþröng - það verður að rétta  skútuna við og engan tíma má missa.

Þessi ráðstöfun kemur sér einstaklega vel fyrir fjárvana sveitarfélög og verkefnalítil fyrirtæki í mannvirkjagerð - atvinnuleysi gæti stórminnkað þegar frumvarpið verður að lögum og hægt verður að fara að vinna eftir því.  Mjög gott að hönnun og eftirlit eru með í pakkanum.

Nú er virkilega eitthvað að gerast....


mbl.is Sátt um víðtækari endurgreiðslu VSK
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldan er ein báran stök - en bjartsýnin verður að ráða för

Ekki góðar fréttir að loðnan sé að bregðast okkur, gott að við eigum frábæra fagaðila á sviði haf- og fiskrannsókna sem leita allra leiða til að auður hafsins nýtist okkur sem best.  Við megum ekki við hverju áfallinu á fætur öðru - efnahagsástandið er alveg nægilegt verkefni fyrir okkur.

Maður heyrir aðeins nýjan bjartsýnistón hjá ráðamönnum, þeir virðast trúa því að hægt verði að lækka vexti fljótlega og verðbólgan muni í kjölfarið hjaðna verulega - ég ætla að trúa því og brosa Smile - þó með báða fæturna á jörðinni.

Það skiptir miklu máli þegar vandamál koma upp að tala kjark í fólk ekki síst til að virkja þann skapandi kraft sem oft sprettur fram á erfiðum tímum.  Ef svartsýnin nær heljartökum á umræðu og mannauð er svo erfitt að rífa sig upp í að framkvæma góðar hugmyndir sem geta komið hjólum af stað aftur.

Þess vegna þarf maður að vera raunsær, með kaldan koll, hlýtt hjarta og bros á vör.

3. mars verður örugglega góður dagur - það er allavega yndislegt veður á Héraði.


mbl.is Vonin um loðnu að dvína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband