Leita í fréttum mbl.is

Námslánin

Ákvörðun menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra þess efnis að hækka framfærslugrunn lánanna um 20 % er til mikilla bóta fyrir námsmenn og fjölskyldur þeirra.

Ég spurði menntamálaráðherra um þetta mál þann 15. júní og er ánægð með að hafa spurt með góðum árangri um mikilvægan þátt velferðar og menntunar.

http://www.althingi.is/dba-bin/bferil.pl?ltg=137&mnr=206

Þetta er áfangasigur - en við þurfum að halda áfram að vinna í þessum málaflokki þannig að við endum á eðlilegum mánaðargreiðslum til námsmanna og spörum þannig mikilvægar fjárhæðir til  í greiðslu dýrra yfirdráttavaxta sem nýtast þá námsmönnum til aukinna lífsgæða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Læt þetta vaða inn hér... til fróðleks f.lesendur:

Í aðgerðunum nú felst:
Grunnframfærsla námslána hækkar í kr. 120.000,- á mánuði.
Tekjuskerðingarhlutfall námslána eykst úr 10% í 35%. Tekið verður upp 750.000 króna frítekjumark sem verður fimmfalt fyrir þá einstaklinga sem eru að hefja nám og hafa verið á vinnumarkaði.
Framfærsla einstaklinga í heimahúsum stendur í stað og verður þannig 50% af grunnframfærslu. Jafnframt er gert ráð fyrir að skólagjaldalán verði endurskoðuð í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2010-2011. Dregið verður úr möguleikum á að sækja einingabært háskólanám samhliða töku atvinnuleysisbóta.
Atvinnuleysisskrá er nú að fullu samkeyrð við nemendaskrár háskólanna. Afnuminn verður réttur námsmanna til töku atvinnuleysisbóta í sumarleyfi skóla.

Reiknað er með að fyrirhugaðar breytingar leiði til þess að strax á
haustmisseri skólanna sem nú er að hefjast muni um 500 einstaklingar fara af atvinnuleysisbótum í nám og að þeir verði á bilinu 700–900 á vormisseri. Slíkt myndi draga úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem nemur um 700–900 milljónum króna á ársgrundvelli. Auk þessa verður Lánasjóði íslenskra námsmanna falið að gera ýmsar breytingar á úthlutunarreglum sínum og lækka með því útgjöld sjóðsins um 350 milljónir króna á komandi fjárlagaári. Meginbreytingarnar munu felast í breyttum viðmiðum vegna tekjuskerðinga með áherslu á að tryggja hag
þeirra sem minnstar tekjur hafa í hópi námsmanna.

Tillögur að framangreindum breytingum eru afrakstur viðræðna að
undanförnu milli félags- og tryggingamálaráðuneytis,
menntamálaráðuneytis, Lánasjóðs íslenskra námsmanna og
Vinnumálastofnunar um leiðir til þess að hvetja fólk til náms og
sporna við langtímaatvinnuleysi með auknum möguleikum fólks til
menntunar.

Á vegum félags- og tryggingamálaráðherra er nú að störfum hópur sem skoðar ýmsar leiðir til þess að sporna við langtímaatvinnuleysi meðal ungs fólks sem á þess ekki kost að stunda nám á háskólastigi. Áhersla verður lögð á að tryggja virkni ungs fólks sem er án atvinnu með því að auka tækifæri þess til menntunar, starfsnáms eða þátttöku í öðrum uppbyggilegum verkefnum. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili ráðherra tillögum sínum á næstu vikum.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 12:30

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Kveðjur til ykkar, Jónína og Gísli - mikilvæg breyting að námslán séu fremur handa þeim sem ekki hafa aðrar tekjur en vasapeningar handa þeim sem kynnu að hafa gott kaup. Mjög gott líka að hækka frítekjumark fyrir þá sem vilja hefja nám.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 11.9.2009 kl. 16:06

3 identicon

Sæl Stjúpa.

Það sem mér finnst einkennilegast í þessu að það á að afnema rétt námsmanna til töku atvinnuleysisbóta í sumarleyfum skóla. Þýðir það að nemar eigi að leggja til hliðar af námslánunum sínum yfir veturinn ef ske kynni að þeir fá ekki vinnu næsta sumar, uppá hverja verða þeir námsmenn komnir.

Ég viðurkenni að þetta er jú skref í rétta átt en lengi má vont batna, næsta skref ætti að vera að borga lánin beint út mánaðarlega og hætta að láta bankana taka óþarflega stóran hluta af skammarlegum lágum námslánum. Svo mætti endilega fara að vísitölutengja námslánin svo að þau hækki samhliða öðrum hækkunum.

Jón M. Bergsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 23:47

4 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Kæri stjúpsonur!

Þegar engir peningar eru til en nauðsyn á að leiðrétta ákveðna hluti verður að hagræða innan kerfisins.  Hækkun framfærslunnar er bráðnauðsynleg, en í ljós kom að atvinnuleysi meðal námsmanna var ekki eins mikið í sumar og gert hafði verið ráð fyrir því má segja að valið hafi verið að hækka framfærsluna á kostnað atvinnuleysisbóta því gert var ráð fyrir það það myndi almennt nýtast námsmönnum betur.

Ég deili algerlega með þér þeirri skoðun að mánaðarlegar útborganir námslána eru hinn æskilegi kostur, samkvæmt upplýsingum frá LÍN og Menntamálaráðuneytinu kostar það að taka slíkt kerfi upp 3 - 6 milljarða, skelfilegt að góðærið skyldi ekki notað til að breyta þessu kerfi.

Baráttan er bara að hefjast - vonandi eru betri tímar framundan svo halda megi baráttunni fyrir bættum hag námsmanna áfram með föstum ákveðnum skrefum.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 15.9.2009 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband