Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Hvítasunnuhelgi

Þegar ég var ung KFUK stúlka var mikið gert með hvítasunnuna, enda mikil hátíð hjá kirkjunnar fólki. Ég hlýði börnunum mínum reglulega yfir atburði merkisdaga kirkjuársins, finnst algert lágmark að fólk viti hvers vegna þessir hátíðisdagar eru..., man að ég óskaði þess stundum að ég hefði verið á Biblíuslóðum hinn fyrsta hvítasunnudag þegar menn töluðu tungum og dönsuðu af heilagri andagift...

Sit við skrifborðið mitt í ME síðasta daginn í bili, því nú ætla ég að taka mér frí fram til 7. júní, en geri þá ráð fyrir 10 daga vinnuskorpu til að ljúka hálfunnum verkefnum vetrarins, það er nú fínt að fara í sumarfrí 18. júní og vera í fríi fram yfir verslunarmannahelgi, bara ósköp eðlilegt sumarfrí.

Mikið var nú gaman að sjá pólitíska félaga taka við lyklavöldum í ráðuneytunum í fréttunum í gærkvöldi. Allir þurfa smátíma til að koma sér af stað en svo er ekki eftir neinu að bíða, menn þurfa að skella sér í vinnu með uppbrettar ermar, ég var ánægð með félaga Lúðvík, á flokkstjórnarfundinum þegar hann minnti okkur á að fyrstu 100 dagarnir væru mikilvægastir...

Vona að þið eigið ánægjulega hvítasunnuhelgi ágætu lesendur, verð kannski eitthvað léleg í skriftunum þangað til ég kem heim aftur...


Ný ríkisstjórn tekur við í dag

Það er hátíðisdagur hjá Samfylkingarfólki í dag. Flokkurinn okkar er með í ríkisstjórn sem tekur við stjórn landsins í dag.  Það var frábært að fá að vera á flokksstjórnarfundi í fyrrakvöld og upplifa stemninguna, við erum jú að prófa það í fyrsta sinn að taka ákvörðun um stjórnarsáttmála og ráðherralista.

Ingibjörg stóð sig vel eins og alltaf, málefnasamningurinn kom á óvart, mér fannst við koma ótrúlega mörgum málum á dagskrá, að vísu misskýrt og ákveðið en slíkt er eðli málefnasamninga.

Ég er líka mjög ánægð með ráðherralistann, var búin að ákveða að þessi nöfn hlytu að koma upp úr pottinum, finnst auðvitað leiðinlegt að varaformaðurinn okkar er ekki ráðherra en hann mun örugglega standa sig eins og hetja í flokksstarfinu.  Verð að viðurkenna að ég var ánægðust með að Kristján Möller skyldi verða ráðherra samgangna og sveitarstjórnarmála, ég veit að hann kemur til með að standa sig vel í þeim málaflokki.  Hefði viljað fá menntamálin yfir til okkar, Björgvin hefði verið frábær menntamálaráðherra.

Er glöð bæði í hjarta og sál yfir því að við náum að koma okkar áherslum á dagskrá, áfram ráðherrar...

Stjórnaði bæjarráðsfundi í gær, hann gekk ágætlega, sláturhúsið var á dagskrá, held að þetta hús eigi eftir að verða frábær menningarmiðstöð og þar fá sköpunarkraftur unga fólksins að blómstra...

Börnin mín aka af stað til Reykjavíkur í dag með keppnishrossin sín í kerru, þau ætla að fara í æfingabúðir til pabba síns og stjúpu í nokkra daga. Held að Olil sé frábær reiðkennari, treysti henni jafnvel enn betur en pabbanum til að hjálpa þeim...

Ég ætla svo að aka suður á laugardaginn og vera fyrir sunnan í rúma viku, ætla m.a. í fermingu til Brynju Amble, lít eiginlega á hana sem stjúpdóttur mína, þó hún sé stjúpdóttir fyrrverandi eiginmanns míns, fjölskyldutengsl dagsins í dag geta verið flókin, en um að gera að reyna að gera þau skemmtileg....

Það snjóar úti, ætlaði út að skokka núna í morgunsárið, held ég lesi frekar...


Stjórn mynduð

Jæja nú er allt að gerast, langþráður draumur okkar jafnaðarmanna um að komast í ríkisstjórn til að koma málefnum jafnaðarstefnunnar á dagskrá í þessu þjóðfélagi virðist vera að rætast.

Ég átti mér draum um að ríkisstjórn sem mynduð yrði eftir þessar kosningar yrði vinstri sinnaðri meira í líkingu við R-listann í Reykjavík.  En ég sá það eins og flestir að hugur Steingríms og þeirra vinstri grænna stóð ekki í þá átt, þegar framsóknarblammeringarnar dældust út úr liðugum munni bóndasonarins frá Gunnarsstöðum. Það er því afar ótrúverðugt þegar þessi sama málpípa talar um trúnaðarbrest þegar Geir og hans fólk valdi Ingibjörgu og hennar fólk en ekki Steingrím sem situr eftir með háa ennið sárt.  Ja verður hann ekki að líta í eigin barm maðurinn....

Maður verður sjálfsagt vart starfhæfur í dag vegna spennings og óþreyju....

Hún Berglind Rós mín sigraði enn eitt hestamannamótið í gær, leiðinlegast hvað það eru fáir krakkar að keppa,maður þarf auðvitað að fá svolitla keppni svo manni finnist maður eiga skilið að vinna..., ég var þulur á þessu móti, ætli hestamenn fari ekki að verða leiðir á mér....

Á morgun er svo útskrift úr ME, tæplega 40 stúdentar eru klára og nokkrir af skrifstofubraut eru líka að útskrifast með rauða kolla..., útskriftir eru alltaf skemmtilegar og hátíðlegar.  Næsta vor fæ ég líka að vera útskriftarmamma, það er enn skemmtilegra....

Karen Rós mín hringdi í ömmu sína í gærkvöldi og játaði henni ást sína, "elska þig" er sumsé það nýjasta hjá skottinu...., svo er verið að vinna með koppamálin, það verður spennandi að fá tækifæri til að taka þátt í öllu því sem er að gerast hjá þessari 20 mánaða skruddu í sumar... 


Morgunstundin

Vakna alltaf snemma, stundum fullsnemma.  Dagurinn í dag er fagur, sólin skín á Héraði og fuglarnir eru í essinu sínu hérna í kjarrinu hinum megin við Kelduskógana.

Ætla að byrja daginn á því að fara í hjólaferð með Berglindi Rós og bekkjarfélögum hennar, svo er fundur um þróunarverkefni sem við erum að vinna að í ME.  Í hádeginu er svo fundur um framtíð ferðaþjónustu á Hallormsstað, sennilega síðasti fundurinn í þeim starfshópi.

Síðan ætla ég að skella mér á fund á Stöðvarfjörð um nemendur sem eru að koma í skólann til mín í haust, fæ ferðafélaga á Reyðarfirði, Steinunn skólasystir tekur mig með sér þaðan...

Í kvöld er svo árshátíð Grunnskólans á Egilsstöðum og Eiðum, ætla á fara og sjá skemmtiatriðin, Berglind Rós á að syngja þar.

Hlýt að hafa verið búin að fresta mörgu fram yfir kosningar því mér finnst jafn mikið að gera eftir sem áður....

Nú bíður maður spenntur eftir lyktum í stjórnarsamstarfi, ég hefði svoooo gjarnan viljað sjá vinstri stjórn á Íslandi núna, það þarf að breyta áherslum og forgangsröðun..., vona bara að gamla stjórnarlumman sitji ekki áfram með staðnaðar hugmyndir sínar í velferðarmálum....

Megið þið lesendur góðir eiga góðan dag í dag, minn lítur vel út....


Líf eftir kosningar

Þrír fundir í dag, tengdir starfinu í bæjarstjórn og bæjarráði. Hjólaði í vinnuna og heim aftur í hádeginu. Gafst þá upp og tók bílinn því ég þurfti að hreinsa upp eftir mig drasl á kosningaskrifstofunni og skella mér á fund í Fellabæ.  Tók smátörn í mömmuhlutverkinu og reyndi að finna hvítar gammosíur við árshátíðardressið hennar dóttur minnar.

Fékk svo staðfestingu á því að frumburðurinn minn ætlar að vinna hér fyrir austan í sumar svo ég verð svolítið í ömmuleik í sumar.  Hagvöxturinn í fjölskyldunni verður jákvæður því Berglind Rós fær vinnu við að passa frænku sína...

Ætla að skella mér með Rannveigu að skoða Skógarkot á eftir, hef loksins tíma fyrir hana og aðra vini...

 


Miklar sviptingar

Úrslit kosninganna eru ráðin, stjórnin hélt velli, að vísu með minnihluta atkvæða þjóðarinnar á bak við sig, svipað hlutfall og hinir flokkarnir samtals...

Mér er efst í huga hagur gamla fólksins sem þessi ríkisstjórn hefur haft 12 ár til að bæta, hvernig ætli því fólki líði í dag, inni á fjölmennisstofunum sínum með aleiguna í náttborðinu....

Svo er ég þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að heimsækja fólk vítt og breitt um Austurland og hlusta á það lýsa lífskjörum sínum, margt hefur þar verið jákvætt en annað neikvætt.

Og ég er líka þakklát því fólki sem hefur stutt okkur þannig að við erum nú næststærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi með mikla vaxtarmöguleika...

En nú finn ég að hugurinn hvarflar að öðrum verkefnum í lífi mínu, börnunum mínum bæði þeim sem ég á alveg sjálf og skólakrakkarnir mínir, bæjarpólitíkin hefur verið útundan þar eru ýmis verk að vinna, vinir mínir hafa verið þolinmóðir og heimilið er á mörkum þess að vera heilsuspillandi.

Sumarið er framundan, ég er ákveðin í að njóta þess...


Laugardagur til lukku

Þá er hann runninn upp hinn langþráði kjördagur, á Héraði er hann hvítur...., merki um frystingu velferðarkerfisins hjá ríkisstjórninni sem við ætlum að kveðja í dag??? 

Fannst merkilegt að hlusta á umræður í útvarpinum fyrir nokkru síðan þar sem talað var um að íslensk börn hefðu aldrei heyrt hugtakið stjórnarmyndunarviðræður.  Erum við virkilega svo íhaldssöm þjóð að við þorum ekki að skipta um ríkisstjórn???

Hlakka til dagsins, það verður kosningakaffi vítt og breitt um Austurland, á Héraði  verðum við á fallegu kosningaskrifstofunni okkar í Níunni, á Seyðisfirði á Hótel Snæfelli o.s.frv...

Kosningabaráttan hefur verið skemmtileg og vonandi hefur hún náð að skila þeim árangri að það verði ríkisstjórnarskipti hér eftir daginn í dag.  Mig langar að þakka öllum sem hafa komið að kosningabaráttunni með einum eða öðrum hætti, það hefur verið gaman að vinna með ykkur. Fram til sigurs Samfylkingarfólk....


Föstudagur í dag

Föstudagar eru alltaf skemmtilegir dagar, vinnuvikunni er að ljúka og helgin framundan...

Ég held að þessi föstudagur verði sérstaklega skemmtilegur, það er allt að gerast, prófin eru alveg að verða búin í ME, það síðasta á morgun í ppeldisfræði.  Hann Guðmundur minn er að fara í tvö próf í dag, þýsku 303 fyrir hádegi og eðl 203 eftir hádegi, þá er hann búinn í prófum og ætlar að byrja að vinna hjá Smiðum ehf á morgun, þeir eru að byggja nýju flugstöðina hér á Egilsstöðum.

Kennarafélagið er með vorgleði sína í kvöld, að einhverju leyti óvissuferð en það á að borða á Seyðisfirði, ég ætla að reyna að borða með þeim...

Annars ætlum við Skúli og einhverjir fleiri að dreifa vatni í dag, við verðum fyrir utan búðir og þrömmum í fyrirtæki eftir hádegi og berum boðskapinn um jöfn tækifæri allra út til Héraðsbúa og annarra sem verða á leið okkar...

Rosalega var hann Eiríkur flottur í gærkvöldi, þessi Eurovision keppni er að verða að einhverju rugli..., nennum við að standa í þessu endalaust...

Á morgun er stór dagur, hann er svo...mikilvægur því okkur er alveg að takast ætlunarverkið - að verða næstum eins stór og Sjálfstæðisflokkurinn - til að búa til mótvægi við frjálshyggjuöflin..., koma svo jafnaðarmenn  - hvert einasta atkvæði er mikilvægt til að gera morgundaginn að degi breytinganna í átt til réttlætis - áfram Samfylkingin.


Á faraldsfæti

Enn held ég áfram að læra af fólkinu í kjördæminu. Í gærmorgun fór ég í heimsókn í Hallormsstaðaskóla og hitti allt yndislega fólkið sem þar starfar, smíðastofan þar er bara gargandi snilld, vil nýta hana fyrir fleiri, sé mína frábæru nemendur í ME geta blómstrað þar með góðri leiðsögn. Eftir Hallormsstaðaheimsóknina sat ég yfir í einu prófi og skellti mér svo í að ná í fleiri rósir á kosningaskrifstofuna, útdeildi nokkrum í húsinu okkar og skellti mér svo í handavinnuna til fullorðna fólksins, spjallaði þar dágóða stund og leið frábærlega með þessu yndislega fólki.  Rifjaði aðeins upp kontorsting og harðangur og klaustur, finn fyrir ákveðinni eftirvæntinu gagnvart því að geta sest niður í rólegheitum og unnið handavinnu, er svolítið veik fyrir henni....

Um fimmleytið brunuðum við Þóra svo af stað í Breiðdalinn þar sem við buðum upp á súpu á Hótel Bláfelli, fjöldi fólks mætti á staðinn og mikið var spjallað.  Kvótakerfið er búið að fara skelfilega með sjávarútveg Breiðdælinga og í raun ræna þá lífsbjörginni, við verðum að gera eitthvað í  þessu máli í samstarfi við heimamenn.  Þarna er mikið baráttufólk sem er ekki á því að gefast upp, styðjum það til góðra verka...

Langabúð á Djúpavogi var næsti viðkomustaður, frábært hús og skemmtilegt fólk, dvalarheimili aldraðra var þeim ofarlega í huga en vegna fjárhagsvanda sveitarfélagsins hefur komið til tals að loka því..., hvert á gamla fólkið þá að fara??? Hvar í þessum fjórðungi eru laus rými á hjúkrunar-  eða dvalarheimilum?? 

Um ellefuleytið skelltum við okkur svo heim, ókum yfir Öxi, sem er í raun frábær samgöngubót en vegurinn er ekki alveg í samræmi við ártalið í ár....., náttúran skartaði sínu fegursta og nýjustu tölur úr kjördæminu glöddu okkar jafnaðarmannahjörtu líka..., bjartsýni ríkti í litla bílnum hennar Þóru, fólk er skynsamt og réttsýnt, við munum ná því að fella rangláta ríkisstjórn á laugardaginn.


Kvennastörf

Var á fjölmennum og skemmtilegum fundi með þeim Einari Má og Örlygi Hnefli á Kaffi Sumarlínu á Fáskrúðsfirði í gærkvöldi. Í upphafi fundar leit út fyrir að  við kaffiborðið okkar sætu bara nokkrir karlar en heldur betur rættist úr þegar heill hópur hressra kvenna sem vinna á hjúkrunarheimili staðarins birtist til að fá sér kaffi og spjall eftir kvöldgöngu sína. Þær voru að sjálfsögðu uppteknar af því hversu illa gengur að fá fólk til starfa í þeirra geira og við ræddum kynbundinn launamun út frá mati á umönunarstörfum. 

Mælistikan "hagnaður" er ekki hagstæð gömlu fólki, hún er ekki hagstæð börnum né fólki almennt.  Þess vegna gefur notkun þess mælikvarða lítið í veskið hjá þeim sem starfa með fólki.

Mælistikan "jöfnuður" er hagstæð fólki, ekki síst því fólki sem ekki getur svo auðveldlega barist sjálft fyrir sínu.  Jafnaðarmælistikan metur því störf með fólki mikils, og er því afar mikilvæg til að minnka hinn langlífa launamun kynjanna.

4 dagar eftir og við siglum seglum þöndum - í áttina að markmiðinu: breytingu á hugsun stjórnvalda fyrir allt fólkið á öllu landinu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband