Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Að byrja í skólanum

Ég man hvað mér fannst merkilegt þegar frumburðurinn minn byrjaði í skóla, stúlkan með stóru skólatöskuna var mynduð í bak og fyrir og mikið var gert úr deginum og hversu merkilegur þessi áfangi væri.  Þegar englabossinn byrjaði voru einhverjar myndir teknar og hann knúsaður extra mikið áður en hann hóf líf hins sjálfstæða skóladrengs.  Örverpið fékk líka knús en lítið annað...

Í dag vorum við Berglind Rós báðar að hefja nýja áfanga í okkar skólagöngu - hún að byrja í unglingadeild og ég að stíga fyrstu skrefin sem háskólastúdent í fullu námi í 26 ár!!!

Núna sit ég í Þekkingarsetrinu á Egilsstöðum og ætla að skoða kúrsana og námsefnið áður en ég fer suður í fyrstu staðlotuna.  Mér líst vel á aðstæður og fólkið sem er að vinna hér og hlakka rosalega til að takast á við verkefnið en auðvitað er smákvíðahnútur einhversstaðar inni í tilhlökkuninni Wink

Smá pólitík í lokin: Er forsvaranlegt að hafa fólk við stjórnvölinn í höfuðborginni sem nýtur bara trausts um þriðjungs borgarbúa??? Ég get ekki annað en fundið til með nýju borgarstýrunni sem er örugglega ágætis manneskja og ekki slæmur pólitíkus - en hún hefur bersýnilega veðjað á rangan hest sem gæti haft veruleg áhrif á pólitíska framtíð þessarar ágætu konu.

En nú ætla ég að fara að læra Wink


Silfurmaður og silfurstrákar

Auðvitað hefði verið skemmtilegast að fá gull - en silfur er ekkert slor.  Ég er búin að hugsa oft um Vilhjálm Einarsson, silfurmanninn okkar, þessa baráttudaga strákanna okkar.  Hans afrek var auðvitað einstakt - æfingaaðstaðan hans var víst ekki upp á marga fiska, ég hjóla oft framhjá grasflötinni sem hann notaði sem kastsvæði og svo fékk hann lánaðan hest og kerru til að flytja sand í stökkgryfjuna sem hann bjó til.  Auðvitað voru aðrir tímar þá og aðrar kröfur en ég held samt að það sé gott að hugsa aðeins aftur til þessara tíma þegar tartanbrautirnar og gervigrasvellirnir voru ekki á hverju strái. Held að það væri  gott fyrir ungmennin okkar að þurfa stundum að hafa aðeins meira fyrir lífinu.  Mín yndislegu afkvæmi benda mér gjarnan á að þetta hafi verið í eldeldgamla daga þegar ég segi þeim einhverjar svona sögur...., en eldeldgamalt var líka svolítið gott...

En handboltastrákarnir okkar eiga allt gott skilið, þeir eru frábærar fyrirmyndir fyrir ungviðið okkar, þeir hafa sýnt hversu langt er hægt að ná með einbeittum vilja, réttu hugarfari og markvissum æfingum.  Ég hefði viljað að þeir færu í ferð um landið, heimsæktu skólana og töluðu við krakkana um það hvernig má ná svona árangri...

Til hamingju, við öll, með að eiga svona afreksmenn og að hafa átt þá lengi.


Háskólastúdent

Það er skrýtið að vera ekki að fara að kenna í haust, þetta er fyrsta haustið síðan 1982 sem svona er ástatt fyrir mér, byrjaði að vísu ekki fyrr en í október 1995, átti smá eftir af fæðingarorlofi... Ég hef alltaf hlakkað til og fundist spennandi að fá misnýja nemendur og misný viðfangsefni, held að maður sé í réttu starfi meðan líðanin er þannig.  Viðurkenni að ég hef líka hlakkað til að komast í sumarfrí öll árin Wink

En nú bíða mín ný viðfangsefni sem nema, í framhaldsnámi í sérkennslufræðum . Í haust tek ég þrjá kúrsa og ætla síðan að byrja að skrifa lokaritgerð á vorönninni, vonandi get ég svo lokið þessu námi vorið 2010. Mér fannst stórmerkilegt að skrá mig inn í Uglu í fyrsta sinn í vikunni - er vanari að setja sjálf upplýsingar inn í svona kerfi og sitja í kennarasætinu.  Ég held að þetta verði rosalega hollt og gott fyrir mig sem kennara, akademísk umræða er endurnýjandi og svo tilfinningin að ljúka kafla sem hófst fyrir rúmum tveimur áratugum, að ljúka framhaldsnáminu sem hófst á Hallormsstað haustið 1987. Á árunum 1987 - 1993 var ég meira og minna í námi með fullri vinnu og uppeldi tveggja ungra barna og þegar því lauk með BA gráðu í sérkennslufræðum (þá var ekki til mastersgráða í KHÍ) hét ég því að slíkt gerði ég aldrei aftur.  Hef nú ekki staðið alveg við það því ég tók aðferðafræðikúrs 2002 og eitthvað var ég farin að spá í lokaverkefni á tímabili. En það er frábært að fá tækifæri til að fara í nám á fullum launum og geta einbeitt sér að því af fullum krafti. Mikið skal ég njóta þess.  Á náttborðinu liggja nú Fötlunarfræði eftir Rannveigu Traustadóttur og Aska eftir Yrsu í mismunandi forgangsröð.

Ormsteitið heldur áfram. Í gær var frábær tískusýning þar sem ein af valkyrjum þessa sveitafélags sýndi þorrablótskjólana sína síðustu þrjátíu árin, allir heimahannaðir og að sjálfsögðu heimasaumaðir.  Síðan voru tónleikar með Ragga Bjarna í gærkvöldi - hann er alltaf sami töffarinn, a.m.k. úr þeirri fjarlægð sem ég var frá honum Wink og röddin ótrúlega lítið farin að gefa sig.  Við Eydís skemmtum okkur konunglega og settumst svo aðeins inn á Nielsen á eftir og spjölluðum, það er frábært að hafa svona mikið líf í bænum, þyrftum að hafa sleitulaust ormsteiti....Í dag er dagur eldri borgara í tjaldinu og síðan allsherjar partý í kvöld...

Svo er það auðvitað handboltinn..., leikurinn milli Frakka og Króata er að byrja - ætla að hlusta á hann í útvarpinu á meðan ég bregð mér í húsmóðurgírinn og dansa við moppuna í léttri helgartiltektarsveiflu...Smile Þá get ég með góðri samvisku sest niður og æst mig verulega í leik Íslendinga og Spánverju um hádegisbilið.


Stelpur

Horfði á leik í 8 liða úrslitum kvennahandboltans í Peking áðan. Ungverjar og Rúmenar áttust við. Þvílíkur handbolti, stelpurnar voru frábærar - ungverska liðið var betra í heildina - en aðdáun mín beindist að einbeittum baráttuvilja rúmensku stelpnanna sem börðust af hetjuskap þó þær lentu á tímabili 8 mörkum undir og allir áhorfendur virtust halda með Ungverjunum, leikurinn endaði 34 - 30 fyrir ungversku stelpurnar. Fékk enn eitt tromp á hendi til að takast á við karlrembur sem tala um að kvennahandbolti sé leiðinlegur og lélegur....

Svo er það æðruleysisverkefni mitt númer eitt - stelpur á aldrinum 11 - 15 ára, nefndar ýmsum nöfnum, mér dettur fyrst í hug dramadrottningar og gelgjur.... Ég á eitt svona eintak, guðdómlegt og yndislegt.  Það er eitthvað við samskipti milli þessara yndislegu, frábæru eintaka sem mér er fyrirmunað að skilja og mér finnst hræðilega leiðinlegt.  Það þarf helst alltaf að halda einhverri utan við hópinn, það er endalaust talað illa um einhverja, það er ekki hægt að tala beint út, augnagotur og hvíslingar og fleiri samskiptaform í þessum dúr...  Í einu orði sagt óþolandi....  Alltaf er einhver útundan og það má alls ekki hringja og reyna að hafa áhrif, það er víst rosalega hallærislegt - klöguskjóða er eitthvað sem alls ekki má vera...

Mér er falið þetta verkefni í annað sinn, núna á sextugsaldrinum. Ætti að vera orðin þroskuð og tilbúin í verkefnið, eftir talsverðan reynslupakka fyrir rúmum áratug í þessum efnum, með frumburð minn frábæran og 26 ára kennslureynslu, þar af 19 ár í heimavistarskóla... En þetta er eitt af því sem ég vil breyta.... en mér sýnist það vera svipað verkefni og að reyna að breyta gangi himintunglanna svo þetta er æðruleysisverkefni mitt númer eitt: ...að sætta mig við það sem ég get ekki breytt..., en ætli maður megi semt ekki reyna að hafa áhrif í svona æðruleysisverkefnum???

En af því að ég er sérfræðingur í Pollýönnuleiknum þá hugsa ég bara um hvað þessi ár voru englabossanum mínum yndislega vesenislaus og er þakklát fyrir að hafa fengið eitt hvíldartímabil á milli dramadrottinganna minna tveggja....

Ormsteitið heldur áfram - í dag er markaðsdagur í tjaldinu og sýning á Soffíu mús, barnaleikriti frú Normu, í Valaskjálf.  Á morgun er svo fjölmenningardagur í tjaldinu og þorparakvöld á Café Nielsen. Hægt er að skoða dagskrána nánar á www.ormsteiti.is. Allir sem leið eiga um Fljótsdalshérað ættu að kikja við og vonandi eru heimamenn duglegir að nýta sér þessa frábæru dagskrá síðsumarshátíðarinnar okkar.  Lára Vilbergsdóttir, sem á nú að öllum öðrum ólöstuðum, stærstan þátt í þessari hátíð, er hetja að hafa komið þessari hátíð á og haldið út öll þessi ár.

 


Góður ágústsunnudagur

Við Berglind Rós vöknuðum snemma í morgun, höfðum til nesti, sóttum Eydísi vinkonu mína og hittum hóp af góðu fólki sem ætlaði að ganga yfir Hallormsstaðaháls og njóta síðan tónleika með Sniglabandinu og Borgardætrum í stássstofu skógræktarinnar á Hallormsstað.  Lagt var upp frá Upplýsingamiðstöðinni, ekið að Geirólfsstöðum í Skriðdal og gengið þaðan stikaða gönguleið yfir hálsinn.  Gangan gekk vel - við fengum ágætis gönguveður alla leið - en alltaf jafn gaman að koma niður í skóginn og finna hversu skjólsæll og hlýr hann er - mér finnst alltaf vera mörgum gráðum hlýrra inni í skóginum en utan hans. Við vorum rétta þrjá tíma á göngu - vorum hæflega þreyttar og ánægðar með okkur þegar við settumst fast upp við sviðið í Neðstareit og nutum góðrar tónlistar og skemmtilegrar sviðsframkomu um leið og mesta þreytan leið úr skrokknum. Afar góð nýting á sunnudegi: fjölskyldusamvera, hreyfing og menning...

Þegar heim kom var Berglind Rós í matarstuði og ákvað að prófa að grilla pizzu - gekk ljómandi vel hjá henni og úr varð hinn fínasti matur...

En nú er víst kominn mánudagur - sjónvarpið gengur með leik Íslendinga og Egypta - finnst nú Íslendingarnir hálfslappir ennþá, staðan 10 - 8 fyrir Egyptana - held samt að við hljótum að vinna... það eru allavega 2 Egyptar utan vallar í bili, þeir gefa ekkert eftir þó þeir séu  að fara heim, neðstir í riðlinum... Best að einbeita sér að leiknum...


Karnevalstemning á Fljótsdalshéraði

Uppskeruhátíð okkar hér á Fljótsdalshéraði, Ormsteiti, hófst í gær með hverfahátíðum.  Grillað var í hverfum sveitarfélagsins og síðan gengið fylktu liði á Vilhjálmsvöll þar sem hátíðin var sett og hverfin kepptu sín á milli í nokkrum þrautum.  Við í Litluskógum og Kelduskógum grilluðum við leikvöllin okkar og skemmtum okkur konunglega, gaman að hitta nágranna sína við afslappaðar aðstæður og kíkja á krakkana og finna svolítið út hver er hvers... Við vorum sérstaklega stolt í ár því okkar hverfi vann grillmeistarann og varðveitir hann því til næsta ormsteitis.

Skrúðgangan í ár var sérstaklega glæsileg því vinir okkar og samstarfsfólk frá Írlandi og Noregi aðstoðuðu okkur við að búa til frábæra karnevalstemningu með glæsilegum búningum og flottri sýningu.  Gengið var fylktu liði niður í Egilsstaðavík eftir dagskrána á vellinum.  Glæsilegir búningar voru upplýstir í kvöldhúminu og niðri í víkinni var fleytt ljósakylfum á fljótinu, skuggasýning á Fljótshússveggnum, eldsýningar og margt fleira... ég gekk heim í skýjunum yfir því að vera íbúi í þessu sveitafélagi þar sem þvílíkur menningarviðburður væri veruleiki - ég get ekki annað en verið því fólki sem vann verkið óendanlega þakklát - þetta var upplifun... karlinn í tunglinu tók þátt í karnevalinu okkar - notaði bleiku peruna og glotti við tönn...

Í dag er ég svo búin að vera Soroptimistasystir við Minjasafnið - selja þar reyktan silung, rabarbarasultu og bækur og þiggja dýrindis kjötsúpu, kaffi og lummur.  Þá var það vígsluhátið á glæsilegu svæði Hesteigendafélagsins í Fossgerði og síðan opnun á sýningunni hennar Lóu í Sláturhúsinu, frábær sýning hjá Lóu og vídeóverkið með ljóðaupplestri Sigga gerir sýninguna enn hátíðlegri.  Er alltaf jafn ánægð með Menningarmiðstöðina okkar í Sláturhúsinu - frystiklefinn er ótrúlega fallega ljótur og passandi fyrir alla viðburði....

Í kvöld ætla ég svo að slaka á heima til að vera spræk í göngu yfir Hallormsstaðaháls í fyrramálið og tónleika með Sniglabandinu og Borgardætrum, á Hallormsstað að göngu lokinni...


Beðið frétta frá höfuðborginni

Verð að viðurkenna að ég er búin að kíkja oft á netið í dag til að athuga hvernig gengur með myndun nýs meirihluta þarna í borginni okkar allra fyrir sunnan.

Eitthvað er fæðingin að ganga seint fyrir sig - einhver vandamál... enda neitar Óskar Bergsson að hann sé viðriðinn málið - hann ætlar ekki að gangast við króganum... eða hvað????

Er þessi skrípaleikur við Tjörnina ekki að ná hámarki sínu??? - þvílík skrumskæling á lýðræðinu og valdi íbúa til að velja sína fulltrúa...

Meirihlutasamstarf er vandmeðfarið og viðkvæmt en það er skylda þeirra sem með slíkt vald fara að leggja sig fram við að láta samstarfið ganga enda verið að vinna í umboði fólksins á staðnum - verð þó að viðurkenna að ég er afar ánægð með að hafa ekki þurft að vinna með Ólafi F.....


Dagskipan

Merkilegt hversu árstíðabundin dagskipan manns er. Á veturna finnst mér fínt að vakna klukkan 6 og hreyfa mig áður en vinnudagurinn hefst en á sumrin finnst mér þetta óþarfi þar sem vinnudagurinn hefst ekki á ákveðnum tíma og ég hef allan heimsins tíma en það verður gjarnan til þess að ég hreyfi mig alls ekki...

Ég þarf að vanda mig í haust og vetur, þegar ég verð ekki að kenna heldur að læra, að setja dagana í fast skipulag því það er afar auðvelt að missa dagana framhjá ef ekkert er skipulagið...

Unglingurinn minn, 13 ára, elskar að snúa sólarhringnum við, alltaf þegar tækifæri gefst.  Hún er ekki í neinni vinnu í sumar og það verður til þess að hún sefur út og fer seint að sofa, en hún hafði orð á því í gærkvöld að nú væri víst best að reyna að fara að vakna á morgnana og gera eitthvað...

En nú styttist í skóla og önnur haustverkefni - fannst fínt að fara upp á bæjarskrifstofu í gær og setja mig aðeins inn í hvaða verkefni bíða núna eftir sumarleyfi, ætla að vinna þar eftir hádegi í dag, m.a. við að undirbúa bæjarráðsfund.  Rammi fjárhagsáætlunar liggur fyrir og þarf ég að fara betur yfir hann með fjármálastjóranum, það er ljóst að gæta þarf mikils aðhalds í rekstri og fjárfestingum svo við getum haldið því þjónustustigi sem við viljum hafa og haldið áfram að byggja hér upp það samfélag sem við viljum sjá á Fljótsdalshéraði. 

En núna ætla ég að drífa mig í ræktina - hef ekki litið þar við í margar vikur...


Komin heim úr borginni

Síðustu dagar júlímánaðar voru fullir af ljúfum fjölskyldustundum, þar sem hlýja og góðar endurminningar voru í aðalhlutverki. Guðbjörg Anna kom austur á miðvikudegi fyrir verslunarmannahelgi og Torfi á fimmtudeginum og Karen Rós var hér fyrir í heimsókn hjá ömmu. Jón Matthías var hér líka með sína fjölskyldu og þau litu hér oft við svo ég fékk að upplifa það að vera með allt mitt fólk hjá mér þessa daga. Jón Bergsson var síðan kistulagður föstudaginn 1. ágúst og útför hans var 2. ágúst.  Báðar þessar athafnir voru fallegar og virðulegar og það setti óneitanlega svip á útförina að sonardóttir og dótturdóttir sungu við útförina, þær kvöddu afa sinn eftirminnilega.

Á sunnudeginum fór síðan fólk að tínast heim og á miðvikudaginn ókum við Berglind Rós með Rannveigu vinkonu minni suður. Við vinkonurnar vorum löngu búnar að kaupa okkur miða á Clapton tónleika og ákváðum að nota ferðina vel. Við fórum norðurleiðina suður með kaffi á brúsa og brauð í boxi, stoppuðum í Víðidalnum og nutum náttúrufegurðar, góðviðris og samverunnar. Goðafoss fékk stutta heimsókn og á Akureyri voru búðirnar aðeins skoðaðar og síðan var brunað nokkuð sleitulaust í bæinn.  Mamma fékk að njóta þess að hafa okkur Berglindi Rós í eina nótt en Guðbjörg Anna og Karen Rós fengu rest.  Dagarnir í bænum voru nýttir til að kaupa skólaföt á unglinginn og svo voru kvikmyndahúsin heimsótt: Sex and the city og Mamma mia voru efstar á óskalistanum og ullu ekki vonbrigðum - mamma mia vakti enn meiri lukku enda hægt að veltast um af hlátri á milli þess sem augun vöknuðu af tilfinningasemi...

Og síðan var það auðvitað aðalatriði Eric Clapton - hann og hans fólk var stórkostlegt, tónleikarnir alger upplifun - en auðvitað var talsvert heitt í Egilshöllinni - þær konur sem ég hef talað við eftir tónleikana hafa allar líkt svitabaðinu og eymslunum í fótunum við fæðingu, vont á meðan á því stóð en allt gleymt strax vegna hinnar sterku upplifunar... Claptondiskarnir verða í tækinu næstu daga, með smá Abbahléum...

Og í gær ókum við síðan suðurleiðina heim. Með viðkomu í Laugarvatnshelli, Vatnsleysu í Biskupstungum hjá Ragnheiði dómara, en hún er ættuð þaðan, stórmyndarlegt bú og einstaklega snyrtilegt og sumarbústaðurinn hennar Ragnheiðar frábær, aðeins stoppað á Selfossi og við Skógarfoss þar sem kaffið og samlokurnar var dregið fram en síðan var bara ekið heim og lent í hlaðinu á Ketilsstöðum um níuleytið. Þar biðu þau Guðmundur og Elsa með mat handa okkur og eftir að hafa borðað, spjallað og kíkt á Myrkvu sem er illa bólgin á fæti, var brunað heim og kíkt svolítið á sjónvarpið og í tölvuna og síðan var það draumalandið...

Í morgun lauk ég svo við bókina "Áður en ég dey", holl lesning fyrir alla...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband